Með lögum skal land byggja.

 

Og með ólögum eyða.

 

Þessi viska áa okkar er viska siðmenningarinnar, forsendan fyrir sjálfri tilveru hennar.

Það eru lögin sem halda samfélögum saman, það eru lögin sem hindra að hinn sterki kúgi og ræni að geðþótta, setja hömlur á valdníðslu og yfirgang valdhafa, en ekki hvað síst, þá eru þau leiðarvísir um viðurkennda hegðun og atferli.

Séu þau réttlát, þá eru þau forsenda friðar.

Og ef eitthvað stef er sammannlegt um allan heim á öllum tíma þá er það ákall fólks um að valdhafar virði lögin, séu réttlátir.

 

Þó þessi sannindi hafi verið skráð í árdaga sögu okkar, þá hefur gengið á ýmsu hjá innlendum sem erlendu valdhöfum okkar að virða þau.

Svo rammt kvað að þessu að á tíma voru póstskipin yfirfull af kvörtunum vegna yfirgangs sýslumanna og bænaskjölum til konungs að grípa inní, að tryggja almúganum rétt og réttlæti.

Og oft komu ordur að utan um breytta hegðun, og jafnvel voru sýslumenn settir af til langs eða skamms tíma.

Konungsvaldið var sem sagt skjól.

 

Breyttir tíma eru í dag.

Við erum lýðveldi, enginn konungur sem hægt er að klaga í, ráðum okkar málum sjálf.

Samt fengum við ordur að utan að lög eigi að virða, eins og ekkert hafi breyst.

Nema kannski núna er rifist og skammast út í þann sem tilmælin sendi.

 

"Engin afskipti af innanlandsmálum okkar", og það er ekki verið að vitna í ókvæða talsmann Sauda eða kínverska utanríkisráðuneytisins, sá fyrri frábiður sér afskipti á hegðun krónprinsins og drápslöngunar hans, sá seinni skapillur yfir því að fett sé fingur yfir þjóðarmorði á Úígúrum.

Nei sá úrilli sem þetta mælir er sjálfur fjármálaráðherra þjóðarinnar, sem líka var ráðherra þegar lög um skipan dómara voru sett.

Ef stjórnvöld kjósa að brjóta lög til að skipa vini og ættingja í dómarasæti, þá er það þeirra og öðrum kemur það ekkert við. 

Nema að fjármálaráðherra gleymir að á meðan við erum í Evrópuráðinu, þá kemur það öðrum við.  Því ráðið gerir kröfur um að aðildarríki sín virði þá grundvallareglu að með lögum skal land byggja.

 

En munnbrúkið, og það að við sem þjóð skulum ennþá þurfa að fá ordur að utan, er ekki aðalatriði málsins.

Heldur hvað fór úrskeiðis í uppeldi þessa fólks að það skuli ekki skilja þessi einföldu sannindi um lög og rétt, og til hvers lög og réttur er.

Að fólkið sem setur lögin, og er trúað fyrir stjórn landsins, skuli halda að það sé hafið upp yfir sömu lög.

Og af hverju komst það svona langt með valdníðslu sína að það þurfti dóm að utan til að skakka leikinn??

 

Valdið á Íslandi er þríþætt, það er löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, og í stjórnarskránni er kveðið á um sjálfstæði hvers valds.

Samt er það svo í reynd að framkvæmdarvaldið hefur löggjafarvaldið í vasanum og hefur haft mikil afskipti af dómsvaldinu, og þá með því að skipa í dóma eftir flokks og fjölskyldutengslum.

Samt er dómsvaldið sjálfstætt og það átti að grípa inní á afgerandi hátt sem verndari stjórnarskráarinnar.

 

Hæstiréttur gat alltaf búist við þessari niðurstöðu að utan að sett væri út á sjálfstæði dómsstóla þegar lög um skipan dómara voru brotin og hluti dómara handvaldir í embættið.

Svindl er alls staðar bannað, svindl skaðar traust og tiltrú.

Og það er sérstaklega mikilvægt að sá sem dæmir aðra, sé hafinn yfir allan vafa.

Samt lét Hæstiréttur framkvæmdarvaldið komast upp með valdníðslu sína.

 

Hvað veldur??

Var það óttinn við níðtungur valdaklíkunnar að rétturinn þorði ekki að taka slaginn við Sjálfstæðisflokkinn??

Eða eru dómararnir háðir henni, hluti af henni, og rugga því ekki bátnum sem þeir sjálfir eru munstraðir á??

Þetta eru áleitnar spurningar í kjölfar aðgerðarleysis Hæstaréttar og í raun getur aðeins rétturinn sjálfur svarað þeim spurningum.

Það má nefnilega ekki gleymast að mesti áfellisdómurinn var ekki yfir Sigríði Andersen og einbeittum brotavilja hennar, heldur hinu sjálfstæða dómskerfi sem átti að grípa inní, og afturkalla skipan dómara sem sóttu umboð sitt til lögleysunnar.

 

Það er nefnilega erfitt að byggja land með lögum þegar valdhafa njóta ekki aðhalds sjálfstæðra dómsstóla.

Og þess vegna byrja jú allir ofríkismenn að múlbinda þá svo þeir geti farið sínu fram óháð lögum og rétti.

Það er líka erfitt að fá almenning til að hlíta lögum þegar valdhafar telja sig hafna  yfir þau, og dómararnir sjálfir sjá ekkert athugavert að vera skipaðir á löglausum forsendum.

Og allra erfiðast er að vera dómsstóll sem enginn treystir því fólk véfengir heilindi þeirra sem þá skipa.

 

Og það er erfitt að byggja land þar sem enginn treystir valdhöfum, og enginn treystir dómsstólum.

Það er eiginlega kjarni þess sem við sem þjóð glímum við í dag.

Vantraust.

Sem er illkynjað æxli sem étur innan úr þjóðarlíkamanum þar til hann er helsýktur og vart starfandi lengur.

 

Við sem þjóð upplifum fordæmalaust góðæri í 1.100 ára sögu okkar.

Við höfum aldrei verið ríkari.

Samt eru forsendur sjálfstæðis okkar að bresta, við virðumst ekki geta stjórnað okkur sjálf.

Enda höfum við falið það verk illa upp öldnum börnum.

 

Forn gildi og sannindi siðmenningar, velferðar og velmegunar, friðar og öryggis, eru einskis virt lengur.

Græðgin og sjálftakan ráða för.

Ef ég er nógu sterkur, nógu ríkur, þá má ég allt.

Ég þarf bara að kaupa mér stjórnmálamenn, stjórnmálaflokka, og þeir skapa mér það umhverfi að ég fer mínu fram.

Eða einhvern veginn svona er tilfinning fólks gagnvart þeim sem eiga og ráða landinu.

Og ástandið og vantraustið eftir því.

 

Núna þegar sjálftaka þessa fólks á dómsstólum hefur verið stöðvuð þá ættum við sem þjóð að gera kröfu um endurbót, um siðbót.

Að unnið sé að sáttum, og komið sé til móts við kröfur fólks um að þjóðfélagið sé sanngjarnara og réttlátara.

Og eitthvað sem heitir þjóðarhagur sé líka þarna sem viðmið í stjórnarráðinu.

 

Á þetta er Styrmir Gunnarsson að benda í yndislegum pistli hérna á Moggablogginu í dag.

Vinkill hans á afsögn Sigríðar sem hluti af sátt er mjög góður. 

Sem og ákall hans um ný vinnubrögð og það sé tekist á við vandamál, í stað þess í besta falli hundsa þau, en oftast gert eitthvað sem gerir bara vont verra.

Og hann bendir á eitt sem þarf að gera svo sættir náist;

"Eitt af því er að fallast á sjálfsagðar kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna um að rannsókn fari fram á enn einum þætti hrunmálanna, sem snúi að þeim fjölskyldum, sem misstu allar eigur sínar í hruninu án þess að vera á nokkurn hátt orsakavaldar í því.".

 

Því það er nefnilega þannig að þó lög séu forsenda byggðar, að þá er sáttin það líka.

Að það sé traust, ekki vantraust.

Að það sé friður ekki óöld.

 

Þess vegna er ákaflega mikilvægt að menn hætti þessu röfli um dóminn að utan, heldur einhendi sig í að endurreisa hið laskaða dómskerfi, þannig að því sé treyst á eftir.

Það þarf að hlusta á fólkið sem getur ekki lifað mannsæmandi lífi á launum sínum.

Það þarf að hlusta á fólkið sem upplifir vergang húsnæðismarkaðarins.

Og yfirhöfuð, það þarf að hlusta.

 

Og reyna síðan sitt besta.

Til þess var þessi ríkisstjórn kosin.

 

Og það er ekki útséð með að hún geti ekki gert það.

Hlustað og gert sitt besta.

 

Þá mun traustið vaxa á ný.

Kveðja að austan.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vík milli vina og fjörður milli frænda

ekki var það svo þegar Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifaði þenna arfavitlaua dóm fyri ræskuvin sinn Róbert Spanó sem bauð svo vinnufélögunum á fyllerí og fékk þá til að samþykkja alla vitleysuna því hann einn þekkti íslenskar aðstæður

Grímur (IP-tala skráð) 15.3.2019 kl. 16:31

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, mjög góður og kjarnyrtur pistill, sem mér finnst kristallast í ",,það er erfitt að byggja land þar sem enginn treystir valdhöfum, og enginn treystir dómsstólum. Það er eiginlega kjarni þess sem við sem þjóð glímum við í dag. Vantraust."

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 15.3.2019 kl. 16:50

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Láttu ekki svona Grímur minn, þú ferð bráðum að slá Lúkasjenkó við í vænissýki.

En takk samt að nenna lesa núna þegar ég held friðinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.3.2019 kl. 18:04

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir það Magnús.

Mér fannst það alltaf líklegt að Sigríður myndi hrökklast úr embætti, en vonaði samt alltaf að það yrði ekki um leið banabiti þessarar ríkisstjórnar.

Ég veit alveg að fólk vill hafa þennan flokk eða hinn, eða eitthvað allt annað, í stjórninni, en við höfum þessa og hún er stöðug.  Laus við upphlaup.

Sem er það sem þjóðin þarf á að halda í augnablikinu.

Vissulega mun þessi stjórn, sem og aðrar, það er með öðrum flokkum, rjúfa friðinn þegar að kemur að orkupakka 3, og líklegast þegar leyfa á frjálsan innflutning á sýklum.

En ef það er einhver skynsamleg lending, þá mun þetta fólk finna hana, og byggi ég það mat mitt á þeim ólíkum hagsmunum sem eru í húfi.  Til hvers að gera landið stjórnlaust til að þóknast erlendu valdi, og innlendum hlaupatíkum þess, þegar það sama vald er í alvarlegustu tilvistarkreppu sögu sinnar, og það eina sem er vitað, að það mun bara versna.

Allavega þarf að takast á við það æxli sem ég lýsti hér að ofan og í raunheimi er ekkert betra í boði.

Þess vegna vildi ég enda þessa törn á jákvæðum nótunum, axirnar verða svo brýndar, framhlaðningar hlaðnir, þegar ófétin ætla að ofurskattleggja landsbyggðina, leyfa óheftan innflutning á sýklum og ómennsku sígræðgi matvælaframleiðslunnar, og ef elítan vil allsherjarstríð, leggja drög að sjálftöku orkunnar.

En ég mun halda friðinn, ekki rjúfa hann.

En það verður tekið á móti, og látið sverfa til stáls ef þetta fólk hefur ekkert lært.

En ég tel að það hafi lært.

Og sé að sumu leiti það besta sem er í boði.

En hvað veit ég svo sem.

Takk fyrir innlitið Magnús.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.3.2019 kl. 18:26

5 identicon

Ég hef skautað yfir pistlana þína undanfarið og er hjartanlega sammála þér að mörgu leyti t.d. með Landsdómsmálið og afsögn dómsmálaráðherra, orkupakka 3 og óheftan innflutning sýklakjöts  En verð að viðurkenna að ég skil ekki alltaf á hvaða vegferð þú ert, svo heitfengir og háfleygir sem pistlarir þínir verða stundum. 

En ég er líka hugsi með stöðu Landsdóms í dag eftir að lesa um tengsl Vilhjálms H. Viljálmssonar við æskuvininn í MDE og sérálit formanns dómsins.  Vilhjálmur gerðist sekur um að svindla á lögfræðiprófinu sínu um árið og tel ég hann því til alls líklegan.  En það má kannski ekkert velta því fyrir sér? (Og því að einn Landsdóms-dómarinn er strax kominn í námsleyfi til margra mánaða!?)

Verð að segja það fyrir mig að mér finnst hvorki hann né Sveinn Andri Sveinsson þess bærir að við förum að trúa þeim eða þeirra kærum og álitum í einu og öllu - þó það henti sumum pólitíst í hita leiksins. Þeirra klækir og álit er ekki þess virði að rjúfa friðinn sem við þráum.  En hvað veit ég svo sem...




Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 15.3.2019 kl. 20:27

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Jamm og jæja Sigrún, það er nú ekki á allt kosið, hvað mig varðar finnst mér það mestu máli skipa að halda athygli fólks þó ég fari út og suður, og stundum í allar áttir.

En samt þarf alltaf að hafa eitt á hreinu, skrif mín mótast síst af þörfinni að fólk sé sammála mér, hvort sem það er algjörlega, að hluta eða allt þar á milli. 

Þau snúast um umhugsun og sjónarmið og sjónarhorn og já, líka útrás fyrir pirring sem oft neyðir mig til að halda út í viku þó útrásinni sé löngu náð.

Þau eru eins og þau eru, og hreint út þá er ég stoltur af tryggð míns fasta lesendahóps, hann er ólíkur, sem segir mér að eitthvað er ég að gera rétt, það er út frá þeim markmiðum sem búa að baki.

Og að því sögðu er ljóst að mér eðlislægt að vera háfleygur, hins vegar get ég tjáð skoðanir mínar án þess að vega persónulega að fólki.

Mér finnst persóna Vilhjálms koma málinu lítt við.

En hann á heiðurinn fyrir að trúa að þrátt fyrir allt sé réttarríkið þess virði að það sé ekki gefið eftir baráttulaust.

Mættu fleiri vera eins og hann, svindlaðir jafnt sem ósvindlaðir.

Takk fyrir innlitið Sigrún.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.3.2019 kl. 20:47

7 identicon

Takk fyrir svarið.

Mér finnst karakter og innræti Vilhjálms H. Vilhjálmssonar koma heilmikið við sögu okkar þessa dagana ef við tölum um lögfræði, dómara og réttarríki. En það er bara mín skoðun, þú mátt hafa þína mér að meinalausu.

Bara hollt og gott fyrir okkur öll að velta fyrir okkur öllum hliðum því öll mál hafa a.m.k. tvær hliðar eins og þú hefur sýnt hér og sannað. 

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 15.3.2019 kl. 21:38

8 identicon

Ég veit ekkert, veit ekki einu sinni að Róbert Spanó og Vilhjálmur H. Junior eru vinir eins og Grímur segir.  En þó ég viti ekkert, og það vitaskuld ekki heldur um vinskap eins dómara MDE og Vilhjálms H., sem hefði átt að gera Róbert Spanó vanhæfan að dæma í máli sem vinur hans, Vilhjálmur H., kærði til MDE, þá ítreka ég að ég veit ekkert um þann vinskap og kýs að setja blinda augað á kíkinn hvað það og allt annað varðar.  

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 15.3.2019 kl. 21:58

9 identicon

En þó ég viti þetta ekki, þá er ég algjörlega sammála þér Ómar, að hér á landi verða íslensk stjórnvöld að læra það, að þau eru einungis þjónar hins lýðræðislega vilja þjóðarinnar.  Geri þau það ekki, þá er úti með friðinn.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 15.3.2019 kl. 22:30

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Það væri ljóta meinið Sigrún sem krefðist þess að fólk væri alltaf sammála.

Blessaður Símon, rommanginn styrkist með hverri mínútunni.

En sparaðu kíkinn, hvorki hann, spanjó eða Villi Vill koma réttarríkinu ekkert við.

Hins vegar er sparða og tittlingaskítur háttur þeirra sem ekki una dómi.

Og hengja sig á klofinn rétt, merkasti hæstiréttur heims, þessi sem er í USA, telur ágreining forsenda sinna bestu dóma.

Varðandi okkar mál, þá þarf ekki að lesa lengi, það er úrdrátt úr fréttum til að skilja að minnihlutinn er alveg sammála um þá forsendu að dómsstólar eigi að vera sjálfstæðir, enda slíkt hornsteinn lýðræðis.  Málið er að hann lítur okkur sömu augum og Eyrnastór lítur á Dodda í Leikfangalandi.

Sem reyndar er ekki fyndið, við erum svo lítil að við erum eins og dúkkuland eða Leikfangaland þar sem allir mega leika sér og fáar kröfur eru gerðar, en þó er einn þar sem er eiginlega alveg ábyrgðarlaus, og það er hann Doddi litli.

Vissulega var áfellisdómur fólginn í dómi Mannréttindadómsins, en þó ekki lítilsvirðing.

Og mikið er orðið að fólki þegar það hampar lítilsvirðingunni.

En Snatar auðsins kyngja öllu.

Það er bara svo.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.3.2019 kl. 22:32

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur Símon.

Ég viðurkenni það fúslega að ágreiningur er ættarfylgja mín, í sveit föður míns taldist slíkt til skemmtana, enda það að vera ekki sammála síðasta ræðumanni var fylgja föður míns, eitt af því sem gerði hann svo eftirminnilegan, en hann gaf fólki alltaf sopa af kaffibrúsa sínum þegar ágreiningur var ræddur. 

En ég get ekki tekið undir þetta með að "íslensk stjórnvöld að læra það, að þau eru einungis þjónar hins lýðræðislega vilja þjóðarinnar.", því viljinn getur oft verið út í kú lengst út í haga.  Þau þjóna lýðræðinu, stjórnarskránni, ásamt jú vilja þjóðarinnar.  En þegar það fyrra fer gegn hinu seinna, þá víkja menn frekar en að svíkja eða brjóta hin helgu vé.

Þetta snýst um hornsteina Símon, ekkert annað.

Kveðja að austan.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.3.2019 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 1318210

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband