Pólitísk keila Gunnars Braga

 

Að bera saman brot á jafnréttislögum sem enginn maður skilur, og aðför Sigríðar Andersen að dómskerfinu, er hugsuð til að bryggja brú yfir til Sjálfstæðisflokksins, að Miðflokkurinn sé tilbúinn að skríða fyrir 25% flokknum ef launin er ráðherrastóll.

 

Ómerkilegri geta stjórnmál varla orðið.

Þegar smámál eru jöfnuð við stórmál.

Að baki býr enginn siður að þekkja muninn á réttu og röngu.

Og siðleysið heldur íslenskum stjórnmálum ennþá í heljargreipum sínum.

 

Eftir áratuga afdalamennsku þar sem flokkstengsl eða vinartengsl réðu skipan dómara, með tilheyrandi ófriði og ólgu, þá náðist sátt um að koma dómaraskipan í faglegan farveg, þar sem viðmið eru þekkt, og allavega pólitísk spilling var ekki eitt af þeim, þá er það grafalvarlegt mál að rjúfa þá sátt, að kveikja aftur ófriðarbál um þann einfalda hlut að fá þokkalega hæft fólk til að dæma í málum okkar hinna.

Og jafn grafalvarlegt þó ráðherra hefði ekki tekist að brjóta lög í leiðinni.

Við þurfum sem þjóð svo mikið á friðnum að halda.

Við þurfum að segja endanlega skilið við Sturlungaöldina og losna undan geðþótta höfðingjanna.

 

Öllu alvarlegra er, eins og að grafalvarlegt sé ekki nóg, var að ráðherra laug til um skýringar sínar, hún sagðist vilja auka vægi dómarareynslu, en sú skýring stóðst ekki þegar hún skipaði mann með minni dómarareynslu en sá sem hún lét fara.

Afhjúpaði þar með geðþótta sinn, og afhjúpaði þar með að annarlegar ástæður lágu að baki.

Og í raunheimi geta þær bara verið tvennskonar.

 

Annarsvegar það sem kallast út í hinum stóra heimi pólitískar ofsóknir, það er ráðherra lét stjórnmálaskoðanir umsækjenda ráða höfnun sinni á þeim.  Og þetta hefur hún í raun staðfest þegar hún slúðrar að viðkomandi hefðu aldrei verið samþykktir af þáverandi hægri meirihluta.

Hinsvegar bein spilling, að einhver hagur, hvort sem það er bein verðmæti, vinargreiði, fyrirgreiðsla eða hver svo sem hinn meinti hagur er, hafi skipt um hendur, frá þeim sáðu þáðu ráðherraskipunina, og hennar sem veitti.

 

Hvoru tveggja er grafalvarlegt mál.

Pólitískar ofsóknir eiga ekki að líðast í lýðræðisríkjum.  Valdsmenn sem verða berir að henni, eiga tafarlaust að víkja.

Bein spilling er ekki síður alvarleg, og ekki líðandi.

 

Þriðji valkosturinn er ekki til.

Ráðherra gerir svona ekki óvart.

 

Þess vegna eru pólitískar keilur Miðflokksins svona ömurlegar.

Að valdafíknin getur ekki einu sinni hamið sig þegar grundvallarprinsipp eru í húfi.

Eins og þessu fólki sé ekkert heilagt.

Þjóðin, lýðræðið, lýðveldið; fokk jú.

 

En það er líka pólitísk keila að tala, ekki gera.

Og hver mínúta sem líður án þess að tillaga um opinbera rannsókn á geðþótta dómsmálaráðherra, til að fá skorið úr um hvort um beina spillingu sé að ræða, eða pólitískar ofsóknir, er mínúta sem eflir þær grunsemdir að það séu allir eins þarna á Alþingi.

Að þetta sé bara valdabarátta þar sem tilviljun stjórnarmyndunarviðræðnanna ráði afstöðu manna.

Að siðurinn, að þekkja muninn á réttu og röngu, sé útlægur úr sölum Alþingis.

 

Þetta er nefnilega löngu hætt að snúast um stjórnmál.

Þetta snýst um að breyta rétt.

 

Að virða þjóðina, að virða lýðræðið, að virða lýðveldið.

Annað ekki.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Pólitísk ábyrgð, hvílíkt bull!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Sæll Ómar.

Þú hefur látið í veðri vaka í pistlum þínum að undanförnu um mál dómsmálaráðherra að það sé heimska sem ráði för hjá þeim sem taki upp hanskann fyrir Sigríði Á. Andersen í málinu.  Í þ.s.b. er ekki úr vegi að minna þig á að þú lést svo ummælt í bloggpistli þínum (í athugas.) 24.1.2018 kl. 09:17:

.....Enda getur ekki nokkur maður borið á móti því að Jón Steinar Gunnlaugsson átti fullt erindi í Hæstarétt.  Það er á faglegum forsendum.

Varla getur þú Ómar talið Jón Steinar heimskan fyrst þú telur hann hafa átt fullt erindi í Hæstarétt, eða hvað(?!). Og hvernig skyldi þessi ágæti hæstaréttardómari hafa dæmt í málinu ef hann sæti enn í Hæstarétti?

Í þ.s.b.væri fróðlegt fyrir þig að lesa tvær nýlegar greinar eftr JSG:  Stórisannleikur, /Mbl. 09.01.18) og Barátta um völd (Mbl.  23.01.18).  Eftirfarandi tilvitnanir hef ég leyft mér að taka hér saman af handahófi:

Um exelskjalið segir JSG meðal annars í fyrri greininni :

Ef blaðið er skoðað sést þegarí stað að niðurröðun umsækjendanna byggist á algerlega ótækum aðferðum. Búin eru til »matshólf« og kveðið á um hvert vera skuli vægi hvers og eins hólfs. Hér er ekki verið að meta hæfni. Hafi átt að raða umsækjendum eftir aðferð matsblaðsins þurfti varla matsnefnd til. Fyrir liggur að einkunnagjöf í hverju hólfi ræðst fyrst og fremst af þeim tíma sem viðkomandi umsækjandi hefur sinnt viðkomandi starfsþáttum. Þetta mátti allt finna út án þess að sett væri í nefnd. Þessar aðferðir fela því ekki í sér mat á hæfni umsækjenda. Miklu fremur má segja að með þeim sé verið að komast hjá því aðleggja mat á raunverulega hæfni þeirra. Taldir eru út verðleikar í hverjum kassa og samanlagðir verðleikarnir látnir ráðaniðurstöðunni

Það er svo kostulegt að heyra alþingismenn nota þetta sem tilefni til að koma höggi á dómsmálaráðherrann. Þeim ætlar seint að skiljast að lágkúran í málflutningi þeirra sjálfra er helsta ástæðan fyrir vantrú almennings á hæfni þeirra. Þeir eru reyndar svo heppnir að mælingin á henni hefur aldrei ratað í excel. Og ríkisrekni fjölmiðillinn tónar undir og segir af þessu fréttir dögum saman, án þess að víkja nokkru sinni að því sem mestu skiptir um mat á hæfni umsækjendanna.

Og í seinni greininni, Barátta um völd, segir JSG m.a.:

Í ljós hefur komið á undanförnum árum að þessi dómnefnd hefur misfarið með vald sitt. Umsækjendur, sem vitað er að eru nefndinni og dómurunum sem að henni standa þóknanlegir, hafa verið teknir fram yfir aðra umsækjendur sem augljóst er að hafa staðið framar að hæfni. Þannig hafa verið valdir umsækjendur sem eru gamlir skólabræður og persónulegir vinir sitjandi dómara og þá teknir fram yfir þá sem hæfari hefðu átt að teljast sé miðað við starfsferil og hlutlaust hæfnismat.

Þeim áróðri er haldið uppi að »sérfræðingar í nefnd taki frekar heiðarlega afstöðu til umsækjenda um dómaraembætti en pólitískur ráðherra. Þetta er mikill misskilningur. Bæði starfandi dómarar og alls kyns lögfræðingar kringum þá eru auðvitað uppfullir af huglægum sjónarmiðum, bæði vegna viðhorfa í stjórnmálum, en þó öllu heldur vegna persónulegra tengsla við þá sem sækja um embætti. Almenningur ætti ekki að láta þennan áróður blekkja sig.

[E]r ljóst að ráðherrann tók alls ekki þá ákvörðun [um skipun dómaranna] sem hér var fjallað um. Það gerði Alþingi. Hafi skort eitthvað á rannsókn málsins áður en ákvörðun var tekin hlutu það að vera þeir sem ákvörðun tóku sem brugðust þeirri skyldu. Það hlutu þá að hafa verið alþingismennirnir, sem ákváðu að ráða aðra en málssóknarmenn í embættin. Aðalatriðið er allt að einu, að ekkert skorti á rannsókn málsins, hvorki hjá ráðherra né Alþingi, áður en ákvörðun var tekin.

Alþingi samþykkti síðan tillögu ráðherrans En ekki Hæstiréttur! Þar á bæ una menn því ekki að dómaraelítan skuli ekki í einu og öllu fá að ráða því hverjir verði skipaðir í dómaraembætti í þessu landi. Það varð því að hirta ráðherrann fyrir að hafa gert frávik frá uppröðun dómnefndarinnar.

Það er svo alveg stórbrotin niðurstaða [hjá hæstarétti] að sá sem sækir um starf og fær það ekki geti krafist miskabóta á þeim grundvelli að æra hans hafi meiðst við að verða ekki skipaður í embætti. Þetta er auðvitað bara hlægileg vitleysa. Mikið hlýtur þeim dómurum að liggja á sem dæma svona.

Nauðsynlegt er að þjóðin átti sig á því að dómaraelítan er í valdabaráttu. Hún vill fá að ráða því hverjir hljóti laus dómaraembætti. Og hún virðist ekki hika við að misnota á grófan hátt dómsvald sitt til að kenna þeim ráðherra lexíu sem ekki beygir sig í duftið.

Málið er mjög alvarlegt og kallar á viðbrögð af hálfu Alþingis. Endurskoða verður reglur um skipan nýrra dómara og uppræta þá með öllu áhrif sitjandi dómara við val milli umsækjenda.“

Daníel Sigurðsson, 1.2.2018 kl. 17:57

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Daníel.

Hann verður seint kallaður heimskur, en það jarðar samt við í þessum orðum hans sem þú vitnar í.

Að benda á hið augljósa, að hinir svo kallaðir fagaðilar fari eftir huglægum mati, eins og um stóra sannleik sé að ræða, er í besta falli hjá svona vel gefnum manni, hrein forheimska.

Svo veit ég ekki hvort hann sé að spila sig fífl með því að tala um einhverja dómaraelítu sem vilji ráða skipan dómara, þegar fagið sem slíkt hefur margbent á í gegnum árin að skipan dómara þurfi að komast uppúr hjólförum pólitísks geðþótta og spillingar.

Að það sé ekki spurt hvað þú getur, heldur hver ertu, hvað hefur þú gert fyrir flokkinn.

Þessi svokallaða dómaraelíta setur ekki lögin og reglurnar, hún dæmir eftir þeim.  Hún er ekki valdaaðilinn í þessu máli, og dómur Hæstaréttar yfir Sigríði er eftir beinum skýrum lagatexta sem Alþingi setti, en ekki dómarar landsins.

Það er nefnilega ljótt hjá mönnum eins og Jóni Steinar að nota gáfur sínar til að spila með fólk, að afvegleiða umræðuna með því að tengja saman óskylda hluti, með því að gera aukaatriði málsins, sem er meint fagleg vinna fagaðila, að aðalatriði, og forðast sem heitan eldinn, að ræða kjarnann, sem eru geðþótti ráðherra og dæmd vinnubrögð hans.

Það eru ekki rök í málinu að segja, "mér finnst að þetta eigi að vera svona".  Og ræða svo málin út frá því.

En víkjum aftur að faglegri hæfni Jóns og þann farsa sem var við skipan hans.  Því það er sá farsi sem knúði Alþingi til að reyna að breyta lögunum á þann hátt að skipan dómara væri gegnsæ, og ekki í höndum pólitískra ráðherra, nema á þann hátt að þeir væru öryggisventil ef matsnefnd væri staðin af óvandvirkni og geðþótta.

Jón var örugglega ekki síðri en prófessorarnir sem voru teknir fram yfir hann í mati Hæstaréttar á sínum tíma, en vegna persónulegra deilna kom hann ekki til greina.  Hann var það sem kallað var óþægur.  Fátt faglegt við það sjónarmið, og þegar Davíð lét skipa hann sem dómara, þá per se var það ekki röng ákvörðun, og sannarlega þá hristi Jón uppí Hæstarétti, þó það hafi líka verið þjóðargæfa að hann hafði látið að störfum þegar Hrunmálin komu til dóms.

En aðferðafræðin við ráðningu hans voru jafn röng fyrir það.  Því það var auglýst eftir umsóknum þegar fyrirfram var búið að ákveða hver yrði skipaður dómari.

Þar lágu rangindin, aðrir komu ekki til greina.

Það er hjólfarið sem lögin um Landsrétt er ætlað að koma okkur uppúr, það sjá allir Daníel, nema þeir sem viljandi ekki vilja sjá.

Og í vörn sinni skaða þeir flokkinn sem þeir telja sig vera verja, og ekki var á bætandi.

Og það er skaði Daníel, það er ekki svo félegt sem kemur í staðinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.2.2018 kl. 08:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 1524
  • Frá upphafi: 1321532

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1299
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband