Markaði dagurinn í gær endalok lýðræðisins??

 

Og upphaf alræðis peninga, eða auðræðis.

Spurningar sem vert er að spyrja, og verður spurð í ekki svo fjarlægðri framtíð, en ómögulegt er að svara á þessu augnabliki.  Af þeirri einni ástæðu að morgundagurinn er ekki þekktur.

Ég ætla ekki á nokkurn hátt að reyna að kryfja hana til mergjar í þessum bloggpistli, aðeins að vekja athygli á nokkrum lykilatriðum sem útskýra þessa spurningu.

Af hverju dagurinn í gær var slíkur vendipunktur að vert væri að tengja hann við endalok lýðræðisins.

 

Víkjum fyrst að tilefni þessarar fréttar þar sem haft er eftir Vilhjálmi Birgissyni að verkalýðshreyfingin sé dauð, hún hafi ekki samið í gær, heldur gefist upp.

Sem er rétt mat hjá Vilhjálmi, en uppgjöf verkalýðshreyfingarinnar er aðeins viðurkenning á staðreyndum, vegna verðtryggingarinnar og ægivalds Seðlabankans á peningamálum, þá er ekki lengur um neitt að semja.  Allar launahækkanir leita út í hækkun lána, og ef kjarasamningar eru taldir ógna hinum meinta stöðugleika, sem er fínt orð yfir kreppu, eða miðaldir, þá hótar Seðlabankinn vaxtahækkunum sem annars vegar auka útgjöld launafólks og hins vegar sjúga til sín þann pening sem fyrirtæki hefðu annars í launagreiðslur.

Þegar Már Guðmundsson  seðlabankastjóri tilkynnti að allar launahækkanir um fram 2% yrði mætt með vaxtahækkunum, þá lét hann reyna á hið nýja vald, peningavald, og þegar verklýðshreyfingin beygði sig undir boðvald seðlabankastjóra þá er ljóst að kjarasamningar eru ekki lengur kjarasamningar, heldur útfærsla á tilskipun Seðlabankans.

Þar sem frelsi til að semja um kaup og kjör hefur verið einn af hornsteinum nútíma lýðræðisþjóðfélaga, þá er endalok þessa samningafrelsis aðför að lýðræðinu, afturhvarf til þess tíma þegar fáir höfðu valdið en fjöldinn varð að hlýða.

 

En samt ekki endalok lýðræðisins, en þegar peningavaldið ákvað líka fjárlögin, eftir sinni hugmyndafræði, þá er ljóst að Alþingi Íslendinga er orðin afgreiðslustofnun, en ekki valdstofnun.

Það sem slíkt er ekki endalok lýðræðisins, þar sem peningavaldið hefur ekki ennþá afnumið kosningaréttinn, en til hvers er kosningaréttur ef niðurstaðan er alltaf sú sama???

Sú sama í þeirri merkingu að það skiptir ekki máli hvað flokkarnir segja fyrir kosningar, eða hvað þeir hafa sagt á því tímabili sem þeir voru í stjórnarandstöðu, þeir framfylgja allir sömu stefnunni þegar þeir eru komnir í ríkisstjórn.

Stefnu sem kennt er við evru og hallalaus fjárlög.  Stefnu sem bæði lýtur forskrift peningavaldsins, sem og boðvaldi þess því flokkum er miskunnarlaust skipt út ef þeir framfylgja ekki stefnu þess.

 

Á Íslandi hafa verið gefnar út á síðustu 10 árum tvær bækur sem skipta máli, í þeirri merkingu að þær hafa eitthvað að segja um það sem er að gerast í samtíma okkar.

Báðar eru þær eftir Einar Már Jónsson, prófessor við Svarta skóla í París og heita Bréf til Maríu og Örlagaborgin.  Og fjalla um hina nýju Helför, atlögu peningavaldsins undir merkjum frjálshyggjunnar að samfélagssáttinni, velferðakerfinu, sem batt enda á 300 ára stéttaátök í Evrópu.  

Án þess að ég fari nánar út í þá sálma, þá vil ég minnast á eitt lykilatriði sem Einar Már bendir á í Bréfi til Maríu, það er ártalið 1997, sem er vendipunktur lýðræðisins í Frakklandi, en þá tók við ríkisstjórn miðju og vinstri flokka, sem höfðu lofað breytingum á frjálshyggjustefnu fráfarandi hægri stjórnar, og sú ríkisstjórn reyndist kaþólskari en sjálfur páfinn, framkvæmdi það sem hægri menn höfðu aðeins látið sig dreyma um.

Þessi vendipunktur var upphaf auðræðisins í Frakklandi, það skipti engu máli hvað almenningur kaus, niðurstaðan var alltaf Helförin.  Stefna hinna Örfáu gegn fjöldanum.  Sem kallast frjálshyggja í daglegu tali.

 

Á Íslandi sáum við þessa stefnubreytingu VinstriGrænna eftir að þeir komust í ríkisstjórn vorið 2009, öll arfleið flokksins og stefnumál voru sett til hliðar, og flokkurinn varð dyggur þjónn peningavaldsins.

Svik sem var refsað fyrir, en hvað fékk fólk í staðinn??

Sömu stefnu, sama áhersla peningavaldsins á stöðugleika fram yfir velferð og velmegun, sama skuldsetning ríkissjóð vegna endurfjármögnunar fjármálakerfisins, sama krafan um hallalaus fjárlög, sama skattpíningin, sama verðtryggingin.

Meir að segja aðlögunin að Evrópusambandinu heldur áfram í gegnum EES samninginn.

Með öðrum orðum, ekkert breyttist.

 

Ef núverandi stefna, það er stefna síðustu ríkisstjórnar, hefði verið stefna núverandi stjórnarflokka í kosningabaráttunni, eða árin þar á undan í stjórnarandstöðu, þá væri fátt um málið að segja, lýðræðið hefði virkað eins og það átti að gera.

Almenningur hefði þá talið flokkana í síðustu ríkisstjórn ekki nógu skilvirka í stefnu sinni að skera niður velferðarkerfið, og ekki þjónað peningavaldinu nógu vel.  

Ekki farið í einu og öllu eftir stefnu Evrópusambandsins um niðurskurð og hallalaus fjárlög.

 

En kosningabaráttan snérist öll um gagnrýni á þessa stefnu.  

Formaður Framsóknarflokksins lagði mikla áherslu á keynískar aðgerðir til örvunar, þar var vissulega skuldaleiðréttingin fyrirferðarmest, en jafnframt var niðurskurðarstefna ríkisstjórnarinnar harðlega gagnrýnd.  Jafnvægi í ríkisfjármálum átti að nást með auknum umsvifum, aukinn veltu, ekki með samdrætti niðurskurðarins.

Formaður Sjálfstæðisflokksins lagði vissulega alla tíð áherslu á jafnvægi í ríkisfjármálum en megin áherslan var á skattalækkanir og örvun hagkerfisins í gegnum uppbyggingu á stóriðju.

 

Niðurstaðan var hins vegar nákvæmlega sama stefna og hjá síðustu ríkisstjórn, með því fráviki að það á að örva hagkerfið með almennum skuldalækkunum.

Skattalækkanirnar eru sýndarmennska, ef til dæmis hundrað prósent hækkun tryggingargjaldsins er talin hafa skaðleg áhrif á umsvif atvinnulífsins, þá er ljóst að örlækkun, þannig að nettóhækkunin frá Hruni er 95%, hefur engin áhrif til að snúa þróuninni við.

Ekki er tekist á við skaðsemi peningastefnunnar, verðtryggingin heldur sig, hin tilbúna skuld ríkissjóðs vegna fjármálhrunsins er látin standa, áfram er unnið að eyðileggingu innviða samfélagsins undir merkjum meintrar hagræðingar.  Eins og stjórnmálamenn átti sig ekki á því að ríkisvaldið sinni mikilvægu hlutverki og að skaða starfsemi þess er það sama og að skaða samfélagið í heild.

 

Aðrir flokkar, sama stefna, það er jafnt og að úrslit kosninga skipta ekki máli.

Fjárlagafrumvarpið staðfestir það, fulltrúalýðræðið er sýndarmennskan ein.

Eftir gærdaginn liggur ljóst fyrir að Alþingi er afgreiðslustofnun, markar ekki sjálfstæða stefnu í neinu máli.

 

Evrópusambandið semur lögin og sendir til Alþingis til samþykktar.  

Seðlabankastjóri ræður niðurstöðu kjarasamninga.

Peningastefna Seðlabankans er efnahagsstefna landsins.  Vaxtastefna hans og verðtryggingin marka umgjörðin sem ríkisstjórnir verða að lúta. 

Fjármagnið og þarfir þess er í forgrunni, aðrar hagstærðir eins og laun eða samfélagsleg útgjöld sæta afgangi. 

Jafnvægi í hagkerfinu á að nást með síaukinni fátækt og örbirgð tekjulægri hópa. 

 

Með öðrum orðum, Ísland er aðili að Evrópusambandinu nema að nafninu til.

Efnahagsstefnan er sú sama, afleiðingarnar þær sömu.

Regluverkið það sama, lögin þau sömu.

Og kosningar fá þar engu breytt.

 

Vilji hinna Örfáu, vilji peningavaldsins réði.

Sem er auðræði, ekki lýðræði.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Verkalýðshreyfingin brugðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hef aldrei skilið hvernig fólk með milljón í laun, getur samið um laun fyrir fólk með 220 þús í laun.

Það ætti að vera öfugt.

Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 22.12.2013 kl. 13:07

2 identicon

Undarleg gráglettni að "hægri" stjórnin er að öllu leyti nákvæmlega eins og sú "vinstri", nema að "" til

Sumir halda að guðirnir véli svo um, aðrir að djöflar geri það, enn aðrir að það séu menn, þingmenn.

Ónei, það er sú gamla sem kom hingað í heimsókn, það má kalla hana ömmu skrattans, plútókratía heitir hún.

Hún eirir engu, hún eyðir öllu, hún er viðurstyggðin sjálf.

Már gengur erinda hennar, stríðaldir kerfisforstjórar ganga einda hennar ... en í hvers umboði sitja þeir ????

The Deep Throat (IP-tala skráð) 22.12.2013 kl. 14:11

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þetta er því miður hárr rétt sagt og skifað hjá þér Ómar vinur minn,ég ver ekki mína menn þarna,komið gamla lagið á að gera þá Ríku ríkari og fátæku fátækari,sjá það ekki allir,sem vilja!!!Kveðja að sunnan

Haraldur Haraldsson, 22.12.2013 kl. 16:52

4 Smámynd: rhansen

Eg vil bara segja GÓÐ OG GLEÐILEG JÓL  er ekki sa spekingur að eg leggi úta þennann hála is her ,þó eg hafi hreynt ekki sömu skoðanir og telji mig vita að það eigi margt eftir að breytast til batnaðar ...Megi nyja árið verða öllum ljúft ...

rhansen, 22.12.2013 kl. 17:07

5 Smámynd: Benedikt Helgason

Já, þetta er dáltið góður pistill.

Már er ennþá að reyna að leysa snjóhengjuvandann með því að halda niðri kaupgetu landsmanna og þar með vöruinnflutningi.  Það var jú kjarninn í sameiginlegri efnahagsstefnu hins vanhelga systkynahjónabands norrænu velferðarstjórnarinnar, AGS og SÍ.  Og þrátt fyrir að það hafi tekist að drekkja almúganum í skuldum og halda þannig afgangi af vöruskiptum í 100 milljörðum 5 ár í röð, þá óx snjóhengjan upp í 1000-1200 milljarða á meðan Már var ennþá að reyna að finna út úr því hversu umfangsmikill vandinn væri.

Það má kannski líkja þessu við að ætla að slökkva eld í kolanámu sem kviknað hefur í, með svita þeirra starfsmanna sem unnu í henni. En nú eru tölurnar hins vegar komnar á skjáinn hjá Má og allt eins gott fyrir hann að fara að sætta sig við það að þessi leið gengur ekki upp. Snjóhengjuvandinn verður trúlega ekki leystur öðruvísi en að kröfuhafar verði látnir snýta rauðu. Í framhaldinu þætti mér sennilegt að launþegar gætu farið að sjá nokkrar kjarabætur í formi sterkari krónu að því gefnu að afgangur af vöruskiptum dugi til þess að standa undir afborgunum af erlendum lánum innlendra aðila.

Kv. Seiken.  

Benedikt Helgason, 22.12.2013 kl. 17:19

6 identicon

Fjárplógur plútókratanna

finnur að lokum 

EKKERT

- í moldinni -

EKKERT

nema flokka af hórum

og náum á spenum sínum.

BLAÐ SKILUR SÆÐI OG MOLD

Án hugsjóna

án athafna

án sköpunar

CONTRA NATURAM.

Öllu eytt, ekkert geymt

allt vængstýft og aflimað

sem í helvíti sé.

Ljóðskáld lífsins (IP-tala skráð) 22.12.2013 kl. 18:23

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Birgir.

Góð tillaga, en ekki víst að Már myndi samþykkja hana.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.12.2013 kl. 23:18

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Í umboði hinna Örfáu þú sem í myrkrinu afhjúpar sannleikann.

Og ef þú skoðar sögu síðustu aldar, gleymir öllu því sem þér hefur verið sagt, skoðar aðeins atburði og tengsl þeirra, hagsmuni, og ávinning af ákveðnum atburðarrásum, eins og til dæmis Seinna stríði, eða hinni skyndilegu útbreiðslu frjálshyggjunnar eftir 1970, þá sérðu að ekkert sem gerðist, var tilviljun háð, og eitt hreyfiafl dreif atburði áfram.

Taumlaus gróðafíkn.

Hins svarta af öllu því svarta.

Sem ég hef kallað hið Svarta afl.

Eða það minnir mig, ég hef sagt svo margt hér á blogginu að ég man ekki helminginn af því.

Mál að linni, orð virka aðeins í lýðræði.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.12.2013 kl. 23:30

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Haraldur minn.

Ólíkt finnst mér það þægilegra þegar þú skammar mig ekki blóðugum skömmum, þó mér þykir alltaf vænt um innlit þín.

Mig langar aðeins enn og aftur segja þér að þetta er ekki sjálfstæðisstefna, ekki frekar en vinstri stefna, kratismi eða annað sem tókst á í íslenskum stjórnmálum.

Það var eitrað fyrir flokkunum, öllum sem einum.  

Þeir eru í dái í dag, og það sem mér þykir verst, að almennir flokksmenn gera ekkert til að vekja þá aftur til lífsins.

Heldur reyna menn að verja óhæfuna fram yfir alla eðlilega skynsemi, þegja svo þegar þeir geta ekki lengur kyngt óhroðanum.

Þú átt allan heiður skilið Haraldur fyrir að þegja ekki þegar þú treystir þér ekki lengur til að verja þína menn.

Slíkt er ærleg hegðun og mættu aðrir sjálfstæðismenn taka hana sér til fyrirmyndar.

Sérstaklega þeir sem með meitluðum orðum tættu í sig fylgisspekt stuðningsmanna VinstriGrænna við svikastefnu Steingríms Joð.

Eða fordæmdu alla heimskuna sem var útgangspunktur efnahagsstefnu Evrópusambandsins, sem síðasta ríkisstjórn framfylgdi svo samviskusamlega.

Allavega þá lýsir þögnin ekki miklu sjálfstæði.

Heldur undirgefni og þjónkun.

Og Haraldur, það sjá það allir sem vilja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.12.2013 kl. 23:41

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Góð og gleðilega jól sömu leiðis rhansen.

Þú skalt ekki halda að ég óski þess ekki að þú hafir rétt fyrir þér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.12.2013 kl. 23:44

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Seiken.

Allt svo sem rétt og gilt hjá þér, það er verið að reyna að slökkva elda í kolanámu með svita starfsmanna.

En ég segi eins og Haraldur, það sjá það allir sem vilja.

Spurningin er því, af hverju var ekki skipt um stefnu og tekist á við hin raunverulegu vandamál þjóðarinnar.

Af hverju var ekki farið í hið nauðsynlega stríð??

Það er ekkert sem afsakar þessi fjárlög, ekkert.

Ekki einu sinni tilvist Más Guðmundssonar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.12.2013 kl. 23:49

12 Smámynd: Ómar Geirsson

"Sem í helvíti sé", nöpur er sýn þín Ljóðskáld gott, en það er víst erfitt að lýsa gíraffa að nokkru gagni án þess að taka fram að hann sé með langan háls og langa fætur.

Eins er það með auðræðið, það endar alltaf á einn veg.

Í engu.

Sú jörð sem það nær ekki til að svíða, sviðnar í hinum óhjákvæmilegum átökum sem alltaf hafa fylgt fótsporum þess.

Innbyrðis átökum hinna örfáu, átökum við fjöldann þegar hann reynir að endurheimta samfélög sín og tilveru .

"Öllu eytt, ekkert geymt".

Þannig er það bara ljóðskáld mitt góða.

Peningavaldið hafði betur.

Við náðum aðeins að hægja á því um stund.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.12.2013 kl. 23:58

13 identicon

Um leið og Vilhjálmur Birgisson getur viðurkennt það fyrir sjálfum sér og öðrum að hann var aðeins notaður sem skrautfjöður í veiðihatt núverandi ríkisstjórnar, til atkvæða smölunar, þá mun kannski etthvað gerast.  Það skipti mjög miklu máli hvort Vilhjálmur Birgisson, maður sem nýtur virðingar meginþorra almennings, nær að átta sig á því.  Geri hann það, þá getur hann boðað til uppreisnar og honum mun þá fylgja meginþorri almennings.

The Deep Throat (IP-tala skráð) 23.12.2013 kl. 01:55

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður þú Djúpsins maður.

Ég efast ekki um Vilhjálm, en ég yrði ákaflega hissa ef mikið fleiri myndu mæta á baráttu fund en mættu á brjóstamótmælin í Rio.

Ekki nema pennar vogunarsjóðanna gæfu á það grænt ljós.

Og þó að andófið viti ekki fyrir hverja þeir vinna, þá veit Vilhjálmur það.

Það breytir enginn ástandinu í betra horf, nema njóta til þess stuðnings, hafa þetta svokallað bakland eins og sagt er.

Í dag eru þrír jafn stórir pólar sem takast á í stjórnmálaumræðunni.

Stuðningsmenn vinstri flokkana, stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, og andófið, fólkið sem er á móti.

Vogunarsjóðirnir eiga vinstri flokkanna, hafa mjög sterk ítök í ríkisstjórnarflokkunum, eiga þá hugsanlega líka, skuldaleiðréttingin sé bara leiktjöld, og pennar þeirra stjórna hjörð andófsins eins og þjálfaðir smalahundar.

Bakland Vilhjálms nær því ekki mikið út fyrir skrifstofuna á Akranesi. 

Þetta veit Vilhjálmur, þess vegna hefur hann ekki hrakið Gylfa úr hásætinu.

Og ég fullyrði að hann líti ekki á sig sem skrautfjöður, hann teflir sína skák líkt og aðrir sem gera tilkall til forystu hjá verkalýðshreyfingunni.  

Og í sinni skák þá reynir hann að fá þá sem eitthvað segjast ætla að gera, að gera eitthvað.

Og þeir aðilar eru í núverandi ríkisstjórn.

Að hrekja núverandi ríkisstjórn frá völdum, til þess eins að uppskera algjör yfirráð fjármagnsins, svo það verði ekki einu sinni króna skattlögð af bankagróðanum, er hvorki í þágu þjóðarinnar eða þeirra sem frjálshyggjan hefur þegar afskrifað frá mannsæmandi lífi.

Gleymum því ekki að það voru ekki bara vinstri flokkarnir sem sviku, andófið sveik líka, fyrir nokkra aura tók það upp baráttu fyrir málum sem engan varðar, og slagkraftur óttans hvarf úr hjörtum elítunnar.

Og skoffín vogunarsjóðanna fengu atkvæði fólksins á móti.

Vilhjálmur hefur ekkert bakland, það er enginn stuðningur í fólkinu á móti.

Og hinn almenni stuðningsmaður hefðbundnu flokkanna er ekki ennþá tilbúinn í uppgjör.

Auðræði verður ekki til úr engu, og þegar það er einu sinni komið á koppinn, þá er það þrásetið eins og maður með hvínandi niðurgang.

Amma andskotans veit sínu viti, og  hún er ekki kölluð amma andskotans að ástæðulausu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.12.2013 kl. 07:31

15 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ísland er sannarleg ekki síðan 1903 með gott læsi á örugga velferðargrunna.  Vestrænar efnahagslögsögur tryggja, því sem samsvarar um 400 milljörðum hcip-krónur í dag á Íslandi, samtíma endurfjárveitingu í heilsu og framfærslu grunn:  kaupmáttar tekju tryggingu til þess hóps sem getur ekki sparað, eða farið erlendis eða fjárfest í fasteignum.  Fjármunir sem að mestum hluta skila sér til baka í velferða og söluskatti[þjónustu kostnað við vsk. lögaðila].

Þessi hópur býr við stöðuleika upplifir ekki góðæri [nema þá fækkar í honum] né kreppur.

Vinnuveitenda [elli og innkomu] tryggingar eru viðbót, en ekki öruggar.   Ísland er með innkomu skerðingar skatta, sem eru minnstir á ekki virðisaukandi innkomu einstaklinga : fjármagnsleigu: samkeppni við eða í þágu Stjórnsýslu? Hér er stéttskipt eftirlauna innkoma tryggð með almennum lögum: það er skildu iðgjöldum í tiltekna vinnuveitenda sjóði.    


Sjá til sönnunar:   http://en.wikipedia.org/wiki/Social_security

http://en.wikipedia.org/wiki/National_Insurance

http://en.wikipedia.org/wiki/Social_Security_%28United_States%29

Það er hvert ríki miðar sitt lámark við sínar langtíma , náttúrulegu kringumstæður, og það sem er afgangs af heildar innkomu, skipta svo einstaklingar „Service“ geirarnir á milli sín, mest þá til skipta fyrir þá í góðærum.    þetta er stöðuleiki í grunni : fastur raunkaupmáttur í grunni. Skattleggja fyrst, til tryggja þá sem geta það ekki sjálfir.  Bruðla með afganginn.

Efla þarf velferðar læsi Íslenskra langskólamanna.    Það er bara einn heima staðgreiðslu tekju stofn til fjármagna velferðakerfi löglega erlendis: Heima vsk. markaður.    

Lygar eru að Ísland sé líkt í efnahagsgrunni, hér eru engar fastar velferðaálögur. Ísland er ekki með og hefur ekki tekið upp velferðakerfi á Vestræna samburðar mælikvarða.   

Verkalýðshreyfing hér var byggð upp á fölskum þýðingar grunni, þetta er ekki viðbót við almennan velferðagrunn,  aðilar hér telja að Íslenska  kerfið sé tekið upp af erlendri fyrirmynd.  Þetta er lygi. Hér hefur aldrei verið lagður á velferðaskattur. Í staðinn hefur verið hér sviðsettur ágreiningur milli vinnuveitenda og starfsmanna um hvað má borga þeim lítið.  Til hvers eru ríki stofnuð.   Í Ríkjum með öruggan velferðagrunn þá óttast almenningur ekki að verða eldri, eða veikast. Þar eru lámörk fyrir því hvað hægt er níðast á náunganum af stjórnsýlunni. Þar er ekki hægt að leiða í almenn lög , ákvæði sem mismuna einstaklingum þannig að sumir eru ofur innkomu tryggðir með innkom þeirra sem eru undir meðal innkomu á hverju ári.   

 

Júlíus Björnsson, 27.12.2013 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 350
  • Sl. sólarhring: 432
  • Sl. viku: 1553
  • Frá upphafi: 1321436

Annað

  • Innlit í dag: 299
  • Innlit sl. viku: 1325
  • Gestir í dag: 273
  • IP-tölur í dag: 269

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband