Bjarni Vafningur.

 

Er málefnarök íslenskra jafnaðarmanna gagnvart þingsályktunartillögu Bjarna Ben um að afturkalla hraksmánina kennda við Landsdóm.  Þannig telja þeir sig gera upp umræðuhefð Davíðstímans sem var þeim mjög á sinni.

Tilbrigði við þessi málefnarök er Bjarni Innherji og er þá vísað í grein eftir hæstaréttarlögmann sem vakti athygli á skjálftahrinu sem greip um sig meðal sjálfstæðisfólks í kjölfar hins fræga fundar Davíðs Oddssonar með Innri ríkisstjórninni í febrúar 2008 og lýsti sér í tvennu, út á við var bankakerfið sagt með eindæmum traust og vitnað í Tryggva Hrút því til staðfestingar og inná við þá seldi hver sem gat bréf sín þó með miklum afföllum væri miðað við hinar traustu framtíðarhorfur fjármálakerfisins.

 

Vissulega eru þarna hlutir í fortíð Bjarna sem þarf að fá á hreint og þeir munu komast á hreint þegar Bjarni áttar sig á að eina rökrétta framhaldið á afturköllun Hraksmánarinnar, að ákæra aðeins einn hættan mann vegna einhvers sem ekki er hægt að ákæra fyrir, er þingsályktunartillaga um skipan Sannleiksnefndar óháðra aðila sem fær fullt umboð til að rannsaka allt Hrunið, þar á meðal alla vafninga, Tortillur og tilurð lýsandi skýrandi óvenjulega vel framsetta ársreikninga útrásarinnar svo eitthvað sé nefnt.

Og ábyrgð málaliða, hvort sem það var á fjölmiðlum, í háskólasamfélaginu eða á Alþingi.

Sannleikurinn skapar þekkingu, þekking skapar vald, og það vald mun þjóðin nýta til að binda endi á Ránið mikla sem hófst á Davíðstímanum og ekkert lát er á.

 

En mig langar að vekja athygli á málsvörn Bjarna gagnvart Innherja nafnbótinni.  

Í grein sinn í Morgunblaðinu á mánudaginn var þá kemur Bjarni upp um stóran glæp, glæp sem hann ber ábyrgð á með þögn sinni, þó vissulega fleiri geri það líka, og hann hefur ekki horfst í augun á og ekki haft manndóm til að takast á við.

"Skrif þeirra félaga ganga að öðru leyti út frá því að það hafi einungis verið á fárra vitorði að alvarleg staða væri uppi í alþjóðlega og um leið íslenska bankakerfinu. Ekkert gæti verið fjær sannleikanum. Frá því um haustið 2007 fluttu fjölmiðlar sífellt slæmar fréttir af fjármálamörkuðum. Þessi umræða fór mjög vaxandi á Íslandi í janúarmánuði 2008. Nefna má sem dæmi að forsíða Morgunblaðsins 17. janúar 2008 fjallaði um að allir íslensku bankarnir væru í vandræðum með lánsfjármögnun þar sem skuldatryggingaálagið væri komið í hæstu hæðir. Glitnir hafði þá nýhætt við skuldabréfaútboð vegna slæmra kjara. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 20. janúar 2008 segir að ekkert hafi verið meira rætt í erlendum fjölmiðlum en umskiptin sem orðið höfðu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Smátt og smátt hafi komið í ljós að við værum að sigla inn í mestu fjármálakreppu síðastliðinna tveggja áratuga. Þessi umræða hélt áfram og í fullu samræmi við ástandið fór verð á öllum íslenskum hlutabréfum hríðlækkandi á þessum tíma. Fyrstu tíu dagana í janúar 2008 lækkaði markaðsvirði félaga í kauphöllinni um 360 milljarða. Hlutabréfavísitalan féll síðan snemma í febrúar niður í jafngildi nóvember 2005.

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið ætti að vera ljóst hve fráleitar þær aðdróttanir eru að einhvers konar trúnaðarupplýsingar hafi haft áhrif á þá ákvörðun mína að selja hlutabréf í Glitni í umræddum mánuði. Þar lá ekkert annað að baki en það sem við öllum blasti og ég ræddi opinskátt um við hvern sem heyra vildi. " 

 

Vissulega allt rétt og mjög eðlilegt að bregðast við með því að selja öll sín hlutabréf í bönkunum. 

En hvar var þessi opinskáa umræða við alla sem heyra vildu??? 

Var hún á Alþingi, í blöðunum, á ljósvakamiðlum, eða í netheimum???  Ég man ekki eftir því og hef því ekki hugmynd hverjir það voru sem heyra vildu.  Það hefur örugglega verið gott fólk sem vonandi hefur náð til að bjarga eigum sínum frá Hruni.

 

En almenningur, hvað var honum sagt???  Ég man ekki eftir öðru en herskárri áróðursherferð í fjölmiðlum og á Alþingi gegn váboðum og vátíðindum þeirra.  

Og það sem verra er, ég veit ekki annað en fullt af góðu fólki hafi trúað þeim áróðri og hafi því ekki brugðist við í tíma og komið eignum sínum í skjól.

Ég ætla ekki að útiloka að Bjarni Ben hafi gengið einslega í hús og reynt að vara almenning við, en ég hef ekki heyrt nein dæmi þess.

Ég veit ekki annað en Bjarni hafi þagað á meðan stjórnvöld skrumskældu þann raunveruleik sem blasti við í ársbyrjun 2008 og Bjarni lýsti svo ágætlega í tilvitnuðum orðum hans hér að ofan.

 

Og ég veit ekki annað en þessi skrumskæling hafi kostað þúsundir aleiguna.  

Sérstaklega var það alvarlegt þegar bankastarfsmenn, að skipan yfirboðara sinna, glöptu fjölmarga eldri borgara til að taka fé sitt af öruggum sparireikningum og kaupa fyrir það bréf í peningamarkaðssjóðum eða jafnvel hlutabréf í bönkunum því þau fengust á svo góðum verðum.

Og af hverju átti þetta fólk ekki að láta glepjast, skilaboðin frá stjórnvöldum voru að fjármálakerfið væri traust, að erfiðleikarnir sem við væri að glíma væru tímabundnir???  Það eru ekki allir sem þekkja mann sem þekkir mann sem var frændi manns sem Bjarni ræddi svo opinskátt við um ákvörðun sína að selja öll hlutabréf sín.

Og þetta er fólk sem var vant því að trúa stjórnvöldum, að trúa leiðtogum sínum, að trúa flokki sínum.

 

Og þetta fólk var rúið öllu sínu.

Og það kalla ég glæp.

Menn vissu betur en þögðu, það er ef þeir voru ekki síljúgandi í þágu bankanna.

Eiginlega held ég að það sé betra að vera Innherji en að hafa séð fyrir Hrunið en tekið þátt í að blekkja fólk, gott fólk, samlanda sína, og telja því í trú um að allt væri í stakasta lagi.

Svona í ljósi afleiðinga þess blekkingaleiks.

 

Og ég vildi frekar vera dæmdur Innherji en vera sekur um Stóra glæpinn.

Þann glæp að hafa tekið þátt í að neita fórnarlömbum Hrunsins um réttlæti.

Lægra er ekki hægt að leggjast.

 

Og því miður hefur Bjarni Benediktsson lagst svo lágt.

Kveðja að austan. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband