Orkuútþenslan er gjaldþrota.

 

Alveg eins og útþensla bankanna á sínum tíma.

Og ástæðan er alveg sú sama, hún var fjármögnuð með lánsfé.

 

Þegar að kreppir að, tekjur dragast saman, eða tekjuáætlanir ganga ekki eftir, kostnaður eykst, lánin hækka, þá rúlla svona fyrirtæki.  

Þetta er það algild staðreynd í fjármálafræðum að hún er ígildi 2+2 sönnun stærðfræðinnar.

 

Líklegast er eina skýringin á því að lánardrottnar hafa ekki yfirtekið orkufyrirtæki okkar, og það er hið opinbera eignarhald þeirra.  Það gerir yfirtöku flókna, í því eignarhaldi er líka bakhjarl sem er skatttekjur almennings, bæði í formi beinna fjárframlaga, sem og bakábyrgð almannasjóða sem ættu að geta gripið inn í ef allar aðstæður eru eðlilegar.

Það er líka best að taka fram að þessi einfalda fjármálalega staðreynd, um endalok ofurskuldsettra fyrirtækja, hefur ekkert með afkomu þeirra að gera, hún getur verið góð.  Það eru lánin sem halda fyrirtækjunum gangandi, ekki afkoma af rekstri, og jafnvægi einhvern tímann í framtíðinni er engin lausn ef lánardrottnar vilja sín lán strax.

 

Það grátlegast við þessa einföldu staðreynd, að við fórum of geyst í orkuuppbyggingunni, er sú heimska sem hrjáir stóran hluta landsmanna, þeir trúa þeim áróðri að það sé hægt að bæta fyrir afglöp útrásarinnar með því að taka ný risalán, og fara virkja.  Skiptir jafnvel engu að sumir orkukostirnir eru ekki tilbúnir eins og Krísuvíkursvæðið, aðrir hæpnir út frá umhverfissjónarmiðum, virkjanleg orka er takmörkuð auðlind og hún myndi að mestu klárast ef öll geðveikin gengi eftir.

Samt á að taka lán, og virkja.  

Hreinlegra væri að afhenda lánardrottnum fyrirtækin strax, þá væri hugsanlegur möguleiki að þeir myndu afhenda þau eigendum sem létu heimsku ekki hafa útslitaáhrif á ákvarðanatökur sínar líkt og íslenskir stjórnmálamenn gera, dyggilega studdir að framkvæmdarkórnum.

Verst væri að fá allt fram í sig eftir að fyrstu risalánin væru komin í hús, og ekki tækist að klára framkvæmdir sökum fjárskorts.

 

En sem betur fer er kreppa, peningar liggja ekki á lausu, þeir sem fást gera kröfu til gjaldhæfis fyrirtækja.  Það setur sjálfkrafa Orkuveituna og HS orku úr leik, Landsvirkjun fær lán með þeim kröfum að lánshæfni ríkissjóðs lækki ekki.  Sem þýðir á kurteisu máli, að hún fær ekki lán.  Vegna þess að enginn getur ábyrgst það mat í þeim ólgusjó sem framunda er, og jafnvel vanvitar fara ekki af stað með framkvæmdir sem hægt er að gjaldfella á þá hvenær sem er.

Lánið er að við Íslendingar stjórnum þessu ekki og vonandi verða þessar fréttir til að vinna verði sett í að styrkja eiginfjárgrunn orkufyrirtækjanna, endursemja um skuldir þeirra, og jafnvel fá inn samstarfsaðila sem geta komið að fjármögnun nýrra virkjana.  

Með öðrum orðum að æðibunaganginum verði hætt.

 

Og þá mun svo margt annað þurfa að breytast, því skuldaþrældómur almennings var réttlættur með kórnum, "mestu máli skiptir að fólk hafi vinnu" svo ég vitni í varaformann Sjálfstæðisflokksins þegar hún útskýrið svik flokksins við ungt fólk í skuldaerfiðleikum.

Stóriðjan átti að vega upp neikvæð áhrif efnahagsstefnu AGS, þar átti vaxtabroddur hagvaxtarins að koma.  

Allir hljóta að gera sér grein fyrir að slíkt er ekki valkostur í dag, að efnahagslífið verði því aðeins endurreist að fólk og fyrirtæki geti andað fyrir skuldum.  Og heljarskattastefna ríkisins verði endurskoðuð.

 

Og þetta lán, að jafnvel Byggðastofnun Norðurlanda treystir sér ekki til að lána gjaldþrota fyrirtækjum, ætti að afvopna síðustu röksemd ICEsave þrælahaldaranna.  Sá þrældómur var réttlættur með tilvísun í að annars myndum við ekki getað fjármagnað orkureddingarbjörgunarpakka aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Jæja, nú virðist að við getum það ekki og ICEsave hafi ekkert með það að segja.  Það er ekki einu sinni reynt að ljúga, Orkuveitan stendur það illa að hún fær ekki lán.  Jafnvel þó Íslendingar taki á sig hundruð milljarða í aukaútgjöld til að stuðla að slíkum lánum.

Enda þarf mestu gáfumenn til að sjá það samhengi, að sá sem ræður ekki við skuldir sínar, að hann reddi málum sínum með því að taka á sig fjárkúgun sem nemur hærri upphæðum sem hann ætlar að fá lánað til að geta haldið áfram að reka fyrirtæki sín fyrir lán.

Dæmisagan um Jón Ásgeir ætti að hafa sannað það, hann náði ekki að lánasera sig út úr skuldavandræðum sínum.

 

Hvort þessi frétt hefur einhver áhrif á íslenska þjóðmálaumræðu, er ekki gott að segja, staðreyndir fara yfirleitt meðfram veggjum hjá þjóð sem kýs frekar bábiljur.  Sjálfsagt munu stóriðjusinnar rífast um hæl og hnakk, tala um samsæri, og jafnvel að borga ICEsave til öryggis.

Og Ruv mun finna mann í kvöld sem mun geta fundið tenginguna, hugsanlega verður Þórólfur prófessor dreginn fram, en hann er svona ás sem Ruv hefur upp i erminni þegar engum er ljóst samhengi mála nema mestu snillingum.

 

En orkuútþenslan er gjaldþrota, og ekki sá bjargvættur sem margir létu telja sig í trú um.  

Vonandi finna menn ekki upp á nýjum pýramídaviðskiptum til að blekkja fólk.

Eða réttara sagt, vonandi er fólk hætt að láta blekkjast.

 

Ef svo er, þá er hægt að endurreisa Ísland á nokkrum árum, þrátt fyrir ytri óáran, við höfum allt sem skiptir mál, gott fólk, nægan mat, orku, hugvit.

Við þurfum bara að losna við menn fortíðar úr umræðunni.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Vilja ekki lána Orkuveitunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 336
  • Sl. sólarhring: 488
  • Sl. viku: 1539
  • Frá upphafi: 1321422

Annað

  • Innlit í dag: 286
  • Innlit sl. viku: 1312
  • Gestir í dag: 264
  • IP-tölur í dag: 260

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband