Var valdarán framið í dag???

 

Vanvirða Alþingis gagnvart stjórnskipan þjóðarinnar er einstök í sögu vestrænna lýðræðisríkja.  

Alþingi vogaði sér að samþykkja lítt breyttan samning við breta um ríkisábyrgð á skuldum einkaaðila eftir að þjóðin hafði hafnað fyrri samning á afgerandi hátt.

Með því er Alþingi að vanvirða stjórnarskrána og vanvirða þjóðina.

Alþingi er að segja að þess sé valdið, en ekki þjóðarinnar.

 

Í vestrænum lýðræðisríkjum sækja þjóðþing vald sitt til almennings þar sem stjórnarskrár viðkomandi ríkja marka leikreglurnar.

Þegar þjóðþingin segja, "ríkið, það er ég" líkt og Lúðvík Sólkonungur gerði á sínum tíma, þá er ljóst að þau hafa tekið sér vald sem þau hafa ekki.

Slíkt er hvernig sem á það er litið, valdarán.

Þjóðþingin hafa þá sagt sig úr lögum við þjóðir sínar, og þjóðirnar eru þá ekki lengur skuldbundnar að lúta boði þeirra.

 

Þetta er það sem gerðist á Íslandi í dag.

Það var ekki samþykkt hinnar löglausu kröfu breta, það var ekki stjórnarskrárbrotið að samþykkja ótakmarkaða ríkisábyrgð, sem rauf griðin.  

Heldur sú gjörð að vísa ekki lögunum um ríkisábyrgð til þjóðarinnar.  

 

Í þessu tilliti skiptir engu að þingmenn hefðu talið þennan samning þann besta sem hægt var að ná með samningaleiðinni, og að hann væri miklu betri en sá sem þjóðin hafnaði.  

Ef svo er þá átti Alþingi að samþykkja þennan samning á sínum tíma.  Og láta reyna á samþykki forseta, eða þá taka slaginn ef forsetinn hefði vísað þeim samningi í þjóðaratkvæði.  Og standa þá og falla með honum.

Málið er að það sem er búið og gert, er búið og gert.  Þjóðin hafnaði ICEsave samningum á afdráttarlausan hátt. 

 

Að koma með efnislega sama samning og samþykkja hann eins og þjóðaratkvæðagreiðslan hafi aldrei átt sér stað er eitthvað sem gengur ekki í lýðræðisríkjum.

Ef samningurinn hefði verið á allt öðrum nótum, til dæmis um skaðabótagreiðslur breta vegna fjárkúgunar þeirra, kennda við ICEsave, þá hefði málið horft allt öðruvísi við, og sjálfsagt að afgreiða slíkan samning.

Líklegast myndi sama gilda um sátt þar sem bretar féllu frá kröfum sínum og Íslendingar myndu láta málið niður falla vegna fornrar vináttu þjóðanna.

En allir samningar sem innihalda ólöglegar nauðungargreiðslur til breta eru ekki lengur tækir.  Þjóðin hafnaði þeim.

 

Vissulega geta stjórnvöld metið stöðuna þannig að þau telji það mikla nauðung og ógn vera til staðar að þau telji sig knúin til að ganga að kröfum breta.  

Þá þurfa þau að útskýra þá ógn og bera hana svo undir þjóðina. 

Ef um bráðaógn er að ræða, og of tímafrekt að fara með málið í þjóðaratkvæði, þá er eini valkostur ríkisstjórnar að fá Alþingi til að samþykkja neyðarlög sem takast á við hið meinta neyðarástand, svipað því og þegar herlög eru sett á hamfarasvæðum til að forða gripdeildir og upplausn.

Síðan er það þjóðarinnar að meta hvort hún samþykki slík lög eða rísi gegn þeim.

 

Ríkisstjórnin hefur hvorki sett á neyðarlög eða vísað til bráðaógnar, en samt samið.  Og þá með tilvísun í einhverja hættu eða til tjóns sem gætu hugsanlega fylgt því að semja ekki.

Gott og vel, vissulega eru stjórnvöld kosin til að meta stöðu mála og bregðast við.  En þau gátu þá aðeins samþykkt samninginn með þeim fyrirvörum að þjóðin hefði síðasta orðið.

Allt annað er valdrán eins og ég hef rökstutt hér að ofan.

 

En ég set spurningarmerki við þá fullyrðingu.

Það liggur ekki ljóst fyrir á þessari stundu hvort forseti landsins sé þátttakandi í samsærinu. 

Það er ofsalega margt sem bendir til þess að svo sé ekki.   Tilkynning fjármálaráðuneytisins er í sama hótanastíl og þegar fyrri ICEsave samningur var sendur til Bessastaða.  Forsetinn er bæði læs og líka með ágætis heyrn, hann veit því hvað margir samþykktu frumvarpið.  Að tilkynna honum það sérstaklega, er vísbending um að það eigi að taka slaginn við hann.

Þrýsta á hann, jafnvel hóta líkt og gert var við hann í byrjun janúar 2010.

 

En ef forsetinn er einn samsærismannanna, þá verður þessi ólöglega ríkisábyrgð samþykkt, en um leið staðfest að þjóðin hefur verið rænd völdum sínum.

Að valdaræningjar fari hér með völd í umboði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  

Stjórn sem hefði svipað umboð og ríkisstjórn Vidkun Quislings hafði í Noregi á sínum tíma.

 

Þar með er ljóst að nýir tímar eru runnir upp á Íslandi.

Og þjóðin mun bregðast við því.

Það rífur enginn grið við þjóð sína án þess að sæta ábyrgð fyrir griðrofin.

 

Þó við lifum á óvissutímum, þá er engin óvissa um það.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Icesave-samningur samþykktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 16.2.2011 kl. 23:46

2 identicon

finnst þetta mál vera komið í viðráðanlegan farveg svo ekki tel ég ástæðu til að fara að kjósa um það, megum ekki misnota þetta þjóðaratkvæðiskerfi sem við höfum, eða ættum við að fá að kjósa um hvort við viljum hækka gjöldin á leikskólabörnin, eða hækka skatta í reykjavík? held ég viti niðurstöðuna

haukur kristinsson (IP-tala skráð) 17.2.2011 kl. 00:00

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Jóna.

Ég ætla að halda mig við spurningarmerkið þar til afstaða Ólafs skýrist.

En ef þetta fer í þjóðaratkvæði, og þjóðin lætur hræða sig til að manna galeiðuna fríviljug, þá látum við reyna á ólögin.  

Samkvæmt lögum þá getur enginn kosið galeiðuvist yfir aðra en sjálfa sig.  Ríkisábyrgðin þarf að standast lög sem hún gerir klárlega ekki þegar hún er án upphæðar.  Bara það eitt mun valda falli þessarar laga og ríkisstjórnarinnar í kjölfarið.  

Því þá munu hinir fríviljugir galeiðuþrælar flýja árarnar.

En það búa ekki fífl á Íslandi þó nokkrir kjósi Samfylkinguna.

Þetta verður auðvita kolfellt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.2.2011 kl. 00:05

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Haukur.

Þinn vilji eða minn koma stjórnskipan landsins ekkert við.

Það var lagður fram samningur sem allir málsaðilar viðurkenna að hafi verið arfavitlaus.  Og hann var felldur í þjóðaratkvæði.

Það er búið og gert, þjóðin hafnaði ólöglegum greiðslum til breta.  

Vilji menn breyta þeirri samþykkt, þá þurfa þeir að fá þjóðina til þess í nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eða þá að reyna að finna brjálaða vísindamanninn í Back To The Future og biðja hann um að redda málinu.  Tel það samt ekki raunhæfan möguleika, en þó raunhæfari en að Evrópudómur dæmi 1.100 milljarða á þjóðina eins og Jóhanna hélt fram í dag.

Stjórnskipunin er þekkt og lítur ákveðnum reglum sem þarf að virða.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.2.2011 kl. 00:10

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  'Ég er búin að skrifa 3sinnum og stroka jafnharðan út,þá er ekkert eftir nema að segja við þyrftum að hafa þig hér fyrir sunnan,það er stutt í eigingirnina. Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 17.2.2011 kl. 03:19

6 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Frábær pistill, Ómar.

Magnús Óskar Ingvarsson, 17.2.2011 kl. 06:17

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðan daginn gott fólk og takk fyrir innlitið.

Vildi aðeins hnykkja á hvað svona stjórnargjörð heitir hjá alvörum þjóðum, núna reynir á hvort við séum það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.2.2011 kl. 06:56

8 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Innilega sammála. Látum þjóðina ákveða hvort sé betra að semja, eða berjast við kúganir og hótanir í nafni réttlætis og laga.

Ég tel að gæfuríkara sé að taka mótlætinu og segja nei. 

Mótlætið tekur styttri  tíma en 30 ára pynting af hálfu Breta og Hollendinga.

Eggert Guðmundsson, 17.2.2011 kl. 13:45

9 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Sælt veri fólkið ! bloggeigandi Ómar ekki síst ! það er engu við þitt innlegg að bæta né spyrja um, en langar að svara Hauk, það er alveg rétt hjá þér að auðvitað á ekki að setja "allt" í þjóðaratkvæði, enda enginn að segja það, hvorki undirskriftarsöfnunin né aðrir.

En í þessu máli er lítill  vafi á að ef þetta nær í gegn án þess að þjóðin fái að segja sitt aftur, þ.e. hvort hún sé sammála eða ekki afgreiðslu alþingis (eins og síðast) um þetta sama mál, þó aðeins sé búið að "lagfæra" síðan síðast,  þá er búið að gefa fordæmi fyrir nokkru sem er alveg hinu meginn á "spítunni" Haukur, semsagt hægt að taka hvaða ákvörðun sem er (t.d. ESB aðild ) láta þjóðina segja sitt einu sinni, svo ef þjóðarviljinn er eitthvað á skjön við ákvörðun alþingis, þá er bara að "lagfæra/breyta" frumvarpinu "aðeins" og keyra svo í gegn algerlega án þess að þjóðin fái að kjósa um það aftur.

Ekki mikið lýðræði í því, eða hvað ?

MBKV að utan en með hugann heima

KH

Kristján Hilmarsson, 17.2.2011 kl. 14:10

10 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þegar menn halda því fram að ef þjóðaratkvæðagreiðsla um mikilvægt mál sem snertir þjóðina alla, kalli sjálfkrafa á þjóðaratkvæðagreiðslu um öll möguleg og ómöguleg mál, dettur mér oft í hug samlíking við atburðarás í meðalstóru fyrirtæki:

Framkvæmdastjóri þess kallar starfsmennina á fund ef afkomu fyrirtækisins er ógnað og leitar samþykkis þeirra til þess að herða sultarólarnar ef hann metur svo að það dugi fyrirtækinu til þess að standast áfallið.

En honum dytti aldrei í hug að hóa saman á starfsmannafund ef málið snýst um að styrkja Rauða Krossinn um smáupphæð.

Kolbrún Hilmars, 17.2.2011 kl. 14:41

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert.

Ég held að ekki verði mikið mótlæti, reyndar tel ég að við festum okkur á heimskortinu sem þjóðin sem tók á móti.

Ég veit það fyrir víst að almenningur í hinum ólíklegustu löndum kemur að máli við Íslendinga og segir, gott hjá ykkur.  

Það er verið að skuldaþrælka almenning um alla Evrópu vegna hruns hins vestræna fjármálamarkaðar.   

Og fólk er búið að fá upp i kok af þessu.

Það vantar bara, bæði hér og annars staðar að einhver stigi fram og segi NNNEEEIIII.

Á það trúverðugan hátt að aðrir rísi upp.

Þegar við rekum ICEsave þrjú að höndum okkar og troðum þeim samningi upp í óæðri endan á valdaklíkunni, þá verður ekki aftur snúið.

Það er aðeins upphafið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.2.2011 kl. 18:35

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Kolbrún.

Ef framtíð barna okkar er smámál, þá veit ég ekki hvað er stórmál.  Styrkir til stjórnmálaflokka????

Takk fyrir þitt góða innlegg.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.2.2011 kl. 18:36

13 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þakka þér sjálfum, Ómar, fyrir þitt framlag í baráttunni fyrir réttlæti. Austfirðingar hafa ríka réttlætiskennd, það þekki ég af eigin reynslu :)

Kolbrún Hilmars, 17.2.2011 kl. 18:46

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, kjarni málsins held ég Kristján, það er marklaust að vísa mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og taka síðan ekkert mark á niðurstöðunni. 

Þetta er dálítið eins og að maður slyppi við ákæru í morðákæru við það að mæta í réttarsal með hárkollu, hann er jú ekki lengur alveg eins og hann var þegar hann framdi glæpinn. 

Það þarf eðlisbreytingu til að hægt sé að rökstyðja að ný lög sem snerta sama málefni, þurfi ekki í þjóðaratkvæði.  Vissulega getur ákvörðun þjóðarinnar verið röng, eða forsendur breyst, en þá verður þjóðin einfaldlega að skera úr um það.

Og það er fyndið að hlusta á fólk sem fer rangt með staðreyndir, þegar það réttlætir samþykki sitt við núverandi ICEsave samning, að það skuli ekki treysta þjóðinni til sömu ákvörðunar.  Er það hrætt við að þjóðin kunni ekki að hafa lygi til hliðsjónar, hver er vandinn????

Staðreyndir málsins????

En það skiptir samt engu máli, ICEsave var hafnað af þjóðinni, og málið þar með dautt.  Hvort sem sú ákvörðun var rétt eða röng, þá stendur sú ákvörðun.

Eða alveg þar til þjóðin kýs að breyta þeirri ákvörðun sinni.

Því þingið fær vald sitt frá þjóðinni, en þjóðin ekki vald sitt frá þinginu.

Og þó Samfylkingin átti sig ekki á því, þá skiptir hennar skoðun engu máli, það er stjórnskipunin sem skiptir máli.  Sá sem gengur gegn henni, og kemst upp með það, hefur framið valdarán.

Flóknara er það ekki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.2.2011 kl. 19:07

15 Smámynd: Elle_

Já, nákvæmlega, valdarán hlýtur það að kallast, Ómar og hinir í síðunni.  Fyrst lögbrot og stjórnarskrárbrot og næst valdarán.  Og allt vegna kolólöglegrar rukkunar 2ja Evrópuvelda sem samfylkingarstjórnin vill alls ekki styggja, vegna, æ þið vitið. 

Og eins og þú segir: En það skiptir samt engu máli, ICEsave var hafnað af þjóðinni, og málið þar með dautt.  Já, akkúrat, DAUTT.  Og það ætti að vera DAUTT NÚNA. 

Hvorki alþingi né hluti þjóðarinnar getur kosið lögleysu yfir hinn hlutann.  Og næst pínt hann til að borga ólöglega skatta vegna þess.  Ekki heldur stærrihlutinn.  Stærrihlutinn getur nefnilega ekki brotið lög gegn minnihlutanum.  Stærrihlutinn getur heldur ekki brotið stjórnarskrána gegn minnihlutanum.  Og þó það væru allir landsmenn gegn Ómari einum. 

Þannig að næst verður það bara Hæstiréttur EF.  

Elle_, 17.2.2011 kl. 21:17

16 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Ég held að það verði gæfuspor okkar íslendinga ef við segðum stórt NEI við Icesave III. Ég tel að fólk  frá hinum ólíklegstu stöðum veraldar komi í heimsókn til Íslands, og vilji  sjá þá þjóð og það fólk sem lætur ekki ekki kúga sig til ánauðar.

Á Íslandi er fólk sem er tilbúið að færa fórnir fyrir sín prinsipp og taka afleiðingum þess í nafni réttlætiskenndar.  Réttlætiskenndar sem þjóðin hefur verið alin upp frá upphafi. 

Ég er viss um að straumur erlendra gesta verður slíkur að þjóðin hafi ekki mannvirki til að hýsa gestina í fyrstu á hótelum og gistiheimilum og verði að bjóða þeim heim til sin, eða amk. fyrst um sinn.

Og það verður gleðiefni. Þjóðin  mun finna styrk frá þessum gestum og njóta um ókomin ár, eða amk. yfir það tímabil sem það tekur kúgunaraðila okkar í ESB  stjórn, og  stjórnir Bretlands og Hollands að átta sig á sínum gjörðum.

Við Íslendingar verðum hetjur norðursins. 

Eggert Guðmundsson, 17.2.2011 kl. 22:02

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle.

Ennþá heitir þetta tilraun til valdaráns, sjáum hvað Ólafur gerir.  

Ef hann samþykkir þetta þá hefur MI-6 farið í smiðju KGB og beitt hann mjög alvarlegum persónulegum hótunum (ha, ha, bara að djóka, en vanlíðunin lekur af ICEsave liðinu, taugaveiklunin út af Kjosa.is sýnir það).

En þetta sem þú segir er kjarni málsins, það gilda lög í landinu.  Og ef Ólafur fellir ekki svikasamninginn, þá mun Jón Steinar gera það glottandi, með lagaskýring sem setur fjárkúgun breta á nýjan bekk, sakamannabekk.

Og í praxis er það sama þó Ólafur láti ekki kúga sig, og vísi málinu til þjóðarinnar.  Og valdaræningjarnir nái með blekkingum og lygum, að sannfæra meirihluta kjósenda, aðallega eldra fólk, að kjósa yfir sig ólögin.

Ótakmörkuð ríkisábyrgð er samt bönnuð fyrir það, og Hæstiréttur dæmir eftir lögum, ekki vilja meirihluta kjósenda.  Þannig er það bara, og allt vitiborið fólk veit þetta innst inni.

Ég meina, það sjá það allir að meirihluti þjóðarinnar getur ekki samþykkt lög sem gera eigur ákveðinna hópa upptækar, til dæmis Sjálfstæðismanna með þeim rökum að þeir yrðu að bæta þjóðinni tjónið sem varð eftir milljón ára valdasetu þeirra.  Hæstiréttur myndi fella lögin úr gildi, ekki vegna þess að rökstuðningurinn væri rangur (Davíð stjórnaði skemur en í milljón ár þó margir í Samfó trúi því núna), eða vegna þess að þeir væru sjálfir sjálfstæðismenn og þyrftu að sætta sig við eignaupptökuna.

Nei, stjórnarskráin bannar slíka eignarupptöku, og hana ber að virða.  Ekki nema menn fremji auðvita valdarán.  Og afleggi Hæstarétt, eða múti honum, eða hóti.  En á meðan lög gilda, þá geta ákvarðanir meirihluta þjóðarinnar aldrei brotið lög á minnihlutanum.

Og ICEsave samningurinn inniheldur ólöglega skattheimtu, og verður því aldrei gildur.  Í raun var ICEsave stjórnin mjög heppin að Ólafur skar hana niður úr snörunni því annars hefðu við bara kært Elle.  Og hún þá setið uppi með smánina af ólöglegri lagasetningu.

Þannig að þetta endar allt eins, eina spurningin er hvað menn ætla að skaða mikið lýðveldið áður.

Og ég held að fólk sé farið að kveikja, núverandi undirskriftarsöfnun er fín fyrir egóið og komandi slag, en Ólafur getur aldrei annað, og mun aldrei annað en senda þetta beint í þjóðaratkvæði. 

Því annars væri hann búinn að raungera fatalausa keisarann úr sögu H.C. Andersen.   Ólafur veit það, og það er tími til kominn að fólk almennt kveiki á því.

Vegna þess Elle, að allt annað er valdarán.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.2.2011 kl. 23:18

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Eggert, nú slóstu mér við, og það er ekki oft sem það gerist á þessu bloggi.

Já, okkur mun skorta húspláss, en það mun koma samt.

Því hér reis réttur fólks upp og sagði Neiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii.

Við eru fólk, ekki skepnur.  

Sætti auðmenn og auðræningjar, ásamt öllum þeirra leppum og þjónum, sig ekki við það, þá geta þeir bara skeint sína rassa sjálfir.

Með skuldunum sínum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.2.2011 kl. 23:22

19 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Þetta eru góðir punktar hjá Eggert, og alls ekki út í bláinn,  reyndar aðeins von og draumur eins og er, því sorglegt verður ef ekki Íslendingar sjá að sér og hafna því sem Írar eru að basla við núna, þeir gátu nefnilega ekki fellt sitt gengi eins og Íslendingar, tóku einnig við "aðstoð" AGS og ESB, en það eru hlutir að gerast þar núna sbr. þessari frétt sem fór framhjá mörgum held ég, fleiri og fleiri þarna á Írlandi  (Learn from Iceland)hafa bent á Ísland sem fyrirmynd að því hvernig eigi að rétta úr kútnum eftir kreppu og bankahrun, en sú fyrirmynd fölnar með hverjum deginum sem Ísland er undir stjórn AGS að ekki sé talað um ef IcesaveIII verður samþykkt.

MBKV að utan en með hugann heima 

KH 

Kristján Hilmarsson, 18.2.2011 kl. 11:58

20 Smámynd: Óskar Arnórsson

... nei, því miður þá eru "íslenskar hetjur" að deyja út sem tegund. Síðasta eintakið verður eflaust stoppað upp og sett á þjóðmynjasafnið, framtíða aumingjum til skoðunnar...

Það þyrfti að hafa lög það sem það væri leyft að ganga berserksgang einu sinni á ári. Það mætti kljúfa menn í herðar niður og berjast á vígvöllum. Það mætti bara nota heiðarleg sverð, hnífa og boga. Þetta gæti orðið mjög gaman. Það yrði farið og sótt það fólk sem vildi ekki vera með í bardaganum, þingmenn og ráðherra og svoleiðis.

Þetta yrði jafnfram frídagur lögreglu. Hræ og afhæggnir líkamspartar verður safnað saman dagin eftir bardaga og blóðsúthellingar, sem verður urðað upp á gamla mátan og er hægt að nota allt jippóið sem aðdráttarafl fyrirtúrista.Það verður að veita brennivín á tunnum yfir þennan hátíðisdag.

Það væri hægt að hafa þetta skipulegt og hafa afgirta vígvelli þangað sem maður getur dreigið alla sem manni er illa við og lamið á þeim. Þessa íslensku skemmtun væri auðvelt að auglýsa um allan heim...

Gefa villimennskunni  algjörlega lausan taumin einu sinni á ári í stað þess að sjá þessa fornu orku seytla hægt og rólega í gegnum þjóðinna í formi bankaglæpa og annars sem er svo leiðinlegt og þreytandi. Fólki myndi líða strax betur eftir svona hátíð. Skuldir myndu lækka, vextir hrynja, atvinnutækifæri myndu skapast og fíflum í þjóðfélaginu fækkaði.

...eða bara halda áfram að vera aumingjar og bara væla sig áfram í lífinu...

Óskar Arnórsson, 18.2.2011 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 505
  • Sl. sólarhring: 606
  • Sl. viku: 670
  • Frá upphafi: 1320513

Annað

  • Innlit í dag: 444
  • Innlit sl. viku: 586
  • Gestir í dag: 414
  • IP-tölur í dag: 410

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband