Var það ekki svínaflensa sem gekk í Reykjavík í vetur?????

Var það ICEsaveflensa sem sviptir venjulega embættismenn viti og dómgreynd, fær þá til að lifa í martröð og ótta.

 

"Bretar og Hollendingar gætu til viðbótar kröfum um greiðslu lágmarkstrygginga gert kröfu um fulla tryggingu innstæðna með vísan til jafnræðissjónarmiða

Eins gætu þeir gert kröfur vegna þeirrar mismununar á innstæðueigendum sem kom til við flutning eigna í nýja bankann. Yrði fallist á slíkar kröfur yrði fjárhagslegt tap Ísland hundruð milljarða króna. "

 

Veit þetta vesalings sjúka fólk ekki að það gilda lög í landinu, að það gilda lög á Evrópska efnahagssvæðinu, og það gilda lög í samskiptum ríkja á milli, flest þeirra formuð í svokallaðri Vínarsamþykkt. 

En hvernig læt ég við veikt fólk, það er með ICEsave veiruna í sér á háu stigi.

Það er þó bót í máli að það er hætt að ljúga skuldbindingum upp á þjóð sína með tilvísan í tilskipun ESB um innlánstryggingar.  Hafa sjálfsagt ekki fundið lengur neina lögfræðiblók sem þyrði að leggja nafn sitt við þá lygi.  Og meistaranemi í lögfræði eru ekki með nægan status til að sjálft stjórnkerfið geti vitnað í hann.

En æðsta reglan í alþjóðasamskiptum er sú að þjóðir hafa fullan rétt til að verja hendur sínar, og setja neyðarlög sem tryggja tilveru þeirra gegn aðsteðjandi hættum, náttúruhamförum eða öðru því sem stefni fullveldi þeirra og fullveldi í hættu.  Þessi neyðarréttur þjóðar er mun æðri regla en tilvísun í einhverja jafnræðisreglu hjá efnahagsbandalagi, þar sem aðildarríki þess fara ekki eftir henni sjálf, þegar illa stendur á hjá þeim.  Þó milljón lögfræðingar færu í vinnu hjá ESB við að finna því stoð í Vínarsáttmálanum að jafnræðisregla ESB væri æðri hinum helga neyðarrétti, þá tækist þeim það ekki. 

Og skýring þess er mjög einföld, jafnræðisregla ESB er ekki alþjóðaregla, heldur til heimbrúks til nota innan Evrópska efnahagssvæðisins.  Og í EES samningnum er það skýrt tekið fram að Ísland, sem fullvalda ríki, er að semja við Evrópubandalagið, og það er skýrt tekið fram í EES samningnum að minni reglur víki fyrir neyðarrétti sem varða fullveldi þjóða.   Ég hef meiri að segja lesið þá grein og get alveg birt hana, lesendum til fróðleiks.

 

40. gr.

1.     Ef hætta er á alvarlegum efnahagslegum eða þjóðfélagslegum erfiðleikum eða erfiðleikum í umhverfismálum að því er varðar sérstakar atvinnugreinar eða sérstök svæði, sem líklegt er að verði viðvarandi, getur aðildarríki gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana með þeim skilyrðum og á þann hátt sem mælt er fyrir um í 41. gr"

 

Klausan er lengri en hana má finna alla í EES samningnum.  Og á forsendum hennar byggist mat ESA að íslensku neyðarlögin gild samkvæmt EES samningnum. 

Málið er ekki flóknara en það. 

En ef ESA, og síðan EFTA dómsstóllinn hefði dæmt gegn neyðarlögunum, þá hefði fátt annað gerst en að Ísland hefði yfirgefið EES, því engin þjóð er í samstarfi sem gengur gegn fullveldi þess, og gerir til hennar óbærilegar fjárkröfur. 

Og þar með er málið dautt.  Það eru engin alþjóðleg lög sem myndu styðja slíka kröfugerð, og enginn dómsstóll gæti innheimt hana. 

Fullveldi þjóða er aðeins brotið á bak aftur með vopnavaldi.

Og vopnavald til að innheimta peninga á ólöglegan hátt er ekki siður í Evrópu, þó hið skeflda fólk ICEsave veirunnar sé að reyna að telja samlöndum sínum í trú um það.

Það búa ekki villimenn í Evrópu. 

En ef svo væri, þá myndi íslenska þjóðin leita eftir siðmenningu í öðrum hlutum heimsins.   Og aðstoða síðan hinn venjulega siðlega Evrópumann að losna við villimennina.  Því svona villimennska eins og ICEsave veiran telur mönnum í trú um, er aðeins til á safni, hjá GEngis Kahn og hans nótum.

Ekki í siðmenntaðri Evrópu.

Hlustum ekki á svona rugl og hræðsluáróður sem fram kemur í þessu bréfi stjórnarráðsins. 

Þetta eru veikir menn.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Staða Íslands væri stórlöskuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvort sem um hræðsluáróður er um að ræða eða ekki þá er það ómdeilanlegt að staða Íslands er verri í dag en í gær. Eina von okkar í dag er að þjóðir í kringum okkar fara að vorkenna litla Íslandi og í framhaldi setjist niður og ræði nauðarsamninga um allar okkar skuldir. Ef ekki þá erum við einfaldlega í djúpum skít......

Sigurður G Ragnarsson (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 15:43

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurður.

Þú ert líka illa haldinn, finn til með þér.  

En ég veit um prófessor sem kann ráð við þessari veiki, hún heitir þekking.  Morgunblaðið var að spjalla við hann í Morgun.  Svo veit ég um aðra prófessora sem hafa lært hagfræði, og þeim þykir líka vænt um illa veika ICEsave sjúklinga, þeir sendu því þjóðinni bréf, stútfullt af þekkingu.  Hún gæti líka hjálpað til, þú getur lesið bréf þeirra í þessum link.

 http://kreppan.blog.is/blog/kreppan/entry/1000794/

En kjarni málsins, og þessir heiðursmenn rökstyðja, að landið er fyrst í djúpum skít ef það tekur á sig lán sem það ræður ekki við.   Og hollenski prófessorinn sagði þetta:

"Fullyrðingar í fjölmiðlum um að Ísland verði útskúfað frá fjármálamörkuðum ef það tekur ekki á sig þessa skuldabyrði eru fjarstæða. Þvert á móti myndi skuldafjallið og skattahækkanirnar sem þær myndu kalla á fæla á brott erlenda fjárfesta".

Og við skuldum ekki meira en það að þjóðin ræður auðveldlega við.  Ef afborganir eru of krappar, þá gerum við eins og allir aðrir í þeirri stöðu, við frestum þeim hluta afborganna sem við eigum ekki fyrir í augnablikinu.  

Það er hvorki upphaf eða endir heimsins, nema hjá þeim sem trúa á tröllasögur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.1.2010 kl. 15:54

3 identicon

Merkilegt Ómar að bara við það að benda á þá staðreynd að við erum í verri málum í dag en í gær þá grípur þú  í skítkast. Ekki gleyma því að við erum öll að vona eftir hagstæðari niðusrtöðu en nú þegar er í boði. Og að ég skuli hafa áhyggjur af því hvað gerist gerir mig að icesave sjúklingi. Nei karlinn minn ég held að þú ættir aðeins að skoða betur það sem ég skrifaði. Mér líkar ekki við það þegar ég tjái skoðun mína að þú þurfir að grípa í skítkast og leiðindi. Og talandi um þekkingu. Hvernig gastu lesið það úr þessu stutta hversu mikla þekkingu ég hef á málinu???

Sigurður G Ragnarsson (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 16:22

4 identicon

Sæll Ómar.

Ég held þetta sé allt hárrétt sem þú segir í þínum pistli. Raunar hefur mér fundist að þú hafir lagt þig mjög eftir að kynna þér Icesave málið í hörgul, frá upphafi þess til dagsins í dag.

Síðan hefur þú bersýnilega lagt mikið á þig að kynna þér lagalega þætti sem hafa snertiflöt við þetta mál, ekki síst regluverk ESB um slíka fjármálastarfsemi.

Einnig er auðséð að þú hefur kynnt þér vel lög og reglur ESB til að geta metið út frá eigin forsendum kosti þess og galla fyrir Ísland að ganga þar inn eða ekki.Niðurstaðan hjá þér er sú að það henti ekki Íslandi að ganga í ESB.

Þá skoðun hefur þú sett fram í mörgum pistlum hér á blogginu þínu og rökstutt þá skoðun með fjölmörgum rökum. Það er svo sem ekkert einsdæmi, enda auðvelt að finna mun sterkari og veigameiri rök fyrir því að Ísland eigi ekki að ganga í ESB heldur en fyrir inngöngu.

Þó er sá munur á þér og mörgum öðrum að þú hefur á því lag að setja þitt mál fram með einföldum og áhrifaríkum hætti á skyljanlegu máli fyrir flesta. Það er mikill kostur sem öllum er ekki gefið. Hafðu þökk fyrir þitt lóð á vogarskálina þar, ekki veitir af.

En að öðru.

Er það ekki annars frétt dagsins að Ólafur Ragnar skuli hafa neitað undirritun Icesave laganna þrátt fyrir dómsdagsbréf Jóhönnu á Mánudaginn?

Forsetinn virðist vera kominn með leið á þessum innantómu hótunum í Sódómu og Gómorru stíl sem kemur í sífellu frá Ríkisstjórninni að hann ansar þessu engu frekar en einhverju krakkanöldri eftir gotteríi þegar buddan er tóm.

Annars er drepfyndið að fylgjast með fýlunni leka af stuðningsliði Ríkisstjórnarinnar Vegna þessarrar ákvörðunnar Ólafs. Þeir virðast telja sig eiga hann skuldlausan.Hann hafi bara eiginlega átt að vera einskonar klappstýra vinstri manna, kallaður fram til aðgerða þegar það passaði liðinu.

Síðan horfa þeir á í forundran með galopinn skjáinn þegar klappstýran þeirra færir sig á hinn vallarhelminginn og hefur leik. klappstýran áttaði sig að lokum á því að liðið hennar var að spila á hinum vallarhelmningnum, sem sagt Íslandsmegin og fór þangað. Það gerði Ríkisstjórnin ekki í tíma, hélt bara áfram að spila Enska boltann, illu heilli fyrir hana.

Game Over hjá henni, þó hún viti það ekki.

Rekkinn (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 16:35

5 identicon

Takk Ómar og gleðilegt nýtt ár. hef lellsið blogg þín seinustu mánuði og haf þú þökk fyrir að halda rétt á pennanum okkur hinum til stuðnings. Ég tel að nú séu við Íslendingar í góðum málum. Nú getum við tekist á við orðræðuna án þess að hlusta á innihaldslausa frasa 'þjóð á meðal þjóða' osvfrv. Án ykkar, og þið eruð nokkrir verulega góðir, hér í blogg heimum hefðu hin réttu skilaboð ekki komist til skila til okkar hinna. Ónýtir fjölmiðlar uppfullir af fólki sem hefur aldrei þurft að velja og eða hafna, og með því þurft að standa á sínu. Hafðu enn og aftur þökk fyrir. Kveðjur frá Afríku. Kristján

Kristjan Erlingsson (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 16:53

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurður.

Afsakaðu Sigurður minn en ég er í stríði við erlend ógnaröfl, innlenda Leppa þeirra, og nytsama sakleysingja sem þeim fylgja.  Og þar sem blogg mitt er hluti af vopnabúri mínu, þá læt ég ekki svona orð ósvöruð, rangar fullyrðingar fá ekki að lifa sjálfstæðu lífi á þessu bloggi.

"óumdeilanlegt að staða Íslands er verri í dag en í gær", "að vorkenna litla Íslandi", "Ef ekki þá erum við einfaldlega í djúpum skít...".

Ég dreg það ekki í efa að þú trúir þessu, en bloggið mitt er ekki rétti vettvangurinn til þess að kynna þær, ekki nema menn sætti sig við viðbrögð mín, sem þeir fá þegar ég sendi rangfærslurnar aftur til baka með hraðpósti, ef ég hef tök á.

Það er ekkert óumdeilt við þá fullyrðingu þína að staða okkar sé verri í dag en í gær, okkur er ekki vorkunn að þurfa að standa á rétti okkar,  og við erum ekki í djúpum skít þó við náum ekki nauðasamningum.  Íslenska ríkið er ekki stórskuldugt í erlendum gjaldeyri ennþá.  

Og þetta blogg mitt er tæki til að hindra að svo verði.  

En ef fólk vill ekki kárínur, þá er því guðvelkomið að tjá vafa sinn og áhyggjur, og þá vottar ekki fyrir því sem þú kallar skítkast, þú gast til dæmis sagt "þá hef ég áhyggjur" og svo framvegis.  Og ég hefði náttúrulega leiðrétt þig á staðnum, en þá á friðsamari hátt.

En hafir þú ekki nennt að lesa þér til um rökstuðning þeirra Galbraith og Black, þá get ég bent þér  á að lesa hvað varð um Argentínu eftir að landið losaði sig við þá skottulækna sem hér ráða öllu.  Í stuttu máli þá var hagvöxtur þar tæp  10% 5 ár í röð.

Það þarf verulega mikla svartsýni að kalla slíka stöðu djúpann skít, kannski ef menn miða alltaf við falsaðar hagtölur Kína.  

En ég skal fræða þig á hvað djúpur skítur er.  Það er þegar 160 milljarðar fara aðeins í vexti af erlendum lánum á ári, og greiðslubyrði ríkissjóðs nær 60% markinu eftir 2-3 ár.  Þetta er djúpur skítur, ekki neikvætt röfl breta og Hollendinga.  Þú rekur ekki heilbrigðis og menntakerfið á hrósyrðum þeirra.

Og forseti Íslands forðaði þjóð sinni frá þeim hörmungum sem við blasti, því er staðan betri í dag en í gær.

Og Sigurður minn, munurinn á mínum fullyrðingum og þínum, er mjög einfaldur, ég get rökstutt mitt mál með staðreyndum, og vitnað í hlutlausa erlenda sérfræðinga, sem fara rétt með staðreyndir.  

Í því liggur munurinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.1.2010 kl. 17:29

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Rekkinn.

Takk fyrir jákvæð orð, en ég verð að játa að ég veit fátt um ESB nema það sem snýr að ICEsave.  Og það er bara vegna þess að reglugerð þeirra var eitt af vopnum breta í hryðjuverkaárás þeirra á þjóð okkar.  En annars hef ég mjög lítinn áhuga á ESB, haft mínar skoðanir og haldið þeim fyrir mig.

En já, bréf Jóhönnu er eitt mesta klúður, og ein mesta heimska sem fram hefur komið í ICEsave málinu fram til þessa.  Jafnvel Sigmundur Rúnar hefur ekki afrekað þetta, og Árni Páll hefði roðnað, ef hann hefði verið staðinn af þvílíkum hroka og yfirgangi gagnvart forsetaembættinu.

Það er lámark að fólk í stjórnsýslunni þekki sitt verksvið, og virði verksvið annarra.  Og að Jóhanna skyldi halda að hún gæti hótað Ólafi, það er hreint með ólíkindum.  

En ég skal játa að ég var ekki viss um Ólaf, taldi þetta alltaf vera 50/50 hvorum megin ákvörðun hans yrði.  En eftir áramótaskaupið var ég sannfærður að hann myndi neita, hafi hann verið í vafa áður.  

Það vill enginn maður deyja frá svoleiðis minnisvarða, að hafa verið veislustjóri kókaínfíkla með titrara undir hendi.  Því þetta var allt svo satt eitthvað.

Hans eina útgönguleið var að spila með þjóðinni.  

Og núna þarf að taka slaginn í blogginu og víðar, þá flýja líka rotturnar af skipinu, keyptir sérfræðingar, fjölmiðlavitringar okkar og aðrir þeir sem vinna fyrir breta hér innanlands.  Því það liggur í eðli rottunnar að forða sér þegar hún skynjar háska.  

Og mikill háski bíður þessarar stjórnar.  

Þjóðin hefur fengið nóg eins og þú bendir réttilega á.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.1.2010 kl. 17:43

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristján.

Gaman að geta yljað ykkur þarna suður frá.  Og já, við munum hafa þennan slag.  ICEsave liðar flýja úr hverju víginu í annað, alltaf með vonlausa vígstöðu, því þeir hafa allar staðreyndir málsins gegn sér.

En fáfræðin viðheldur þeim stuðningi sem þeir þó hafa.  Blessað Ruv sér til þess.  Og þess vegna er ég svona harðorður gegn þeirri stofnun.  Kann alveg ágætlega við flest þetta fólk á skjánum, en það vinnur gegn þjóð sinni.  

Og ekkert stríð vinnst á kurteisinni.  

Og bloggið er okkar vopn.  Þar þrífst andstaðan, og hún hefur þegar náð 70% þjóðarinnar á sitt band, en þegar ég byrjaði, þá vorum við innan við 10 sem þorðum að taka slaginn á opinberum bloggvettvangi.

Síðan hefur margt breyst.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.1.2010 kl. 17:50

9 identicon

Sæll Ómar...

Ég er bæði vel að mér í þessum málum, vel menntaður og vel lesinn. Rökin þín eru góð og gild en það þýðir samt sem áður ekki að allir aðrir hafa rangt fyrir sér. Það að óttast afleiðingar af þessum gjörðum kemur því ekkert við hvort ég yfir höfuð styð þennan Icesave samning eða ekki. Ég mun að sjálfsögðu fella hann í atkvæðagreiðslu ef til hennar kemur. Heldur er það þannig að við erum að eiga við misvitra embættismenn og þá sérstaklega eiga Bretarnir erfitt með að taka heilbrigðum rökum. Þ.a.l hefur maður áhyggjur af þeirra viðbrögðum því þeir geta skaðað okkur með ýmsum hætti. Eins og ég sagði hér fyrr þá er staða Íslands verri í dag en í gær. Einfaldlega vegna þess óvissuástands sem hefur myndast hérna og sýna allar fréttir það. En hvort það verður til lengri tíma á eftir að koma í ljós. Mundu bara eitt áður en þú grípur í vopnabúr þitt á móti þínum samlöndum, að það er sama hvaða stjórnmálaflokk þú styður, hvort þú styðjir forsetann eða ekki. Við erum öll að vonast eftir sanngjarnari og betri niðurstöðu þjóðinni til hagsbóta..... 

Sigurður G Ragnarsson (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 19:38

10 Smámynd: Óskar Arnórsson

Góður pistill! það er ekkert að vera hræddur við. Sami tónninn og hótanirnar og í þorskastríðinnu...

Óskar Arnórsson, 6.1.2010 kl. 22:19

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Sigurður. 

Það að halda fram rangri fullyrðingu kemur ekki menntun fólks eða þekkingu við.  Sumt er einfaldlega rétt, en þá út frá þeim forsendum sem við er miðað.  En um þær forsendur þarf að vera sátt.  

En um allar forsendur er hægt að efast, líka tildæmis í hefðbundinni eðlisfræði, það er alveg hægt að nota hundalógík efahyggjunnar gegn þeirri fullyrðingu að styðsta leið milli tveggja punkta sé bein lína.  Hvað er punktur???  Hvað er lína????  Hver segir að ekki sé til styttri leið????

Þegar  kemur að félagsgreinum, og siðfræði, þar sem sameiginleg viðmið eru ekki eins augljós, þá kárnar gamanið (sbr að fá kárínur) ef menn rífast um forsendur.  Til dæmis er augljóst mál að allir eru ekki sammála um markmið hagfræðinnar, er það hámarka heildina, þó tveir eigi þá heild????, eða er það sem jafnasta dreifing gæða þó það þýði minni heild til skiptanna????? eða hefur hún engin markmið í sjálfu sér, sá sem setur inn forsendur jöfnunnar, hann ræður útkomunni??  

Eins er það með siðfræðina, hún er ekki augljós, höfum við réttara fyrir okkur en prestar Azteca, eða mannætur Nýju Kaladóníu?????, eða máttu gera það sem þér sýnist, hafir þú til þess afl?????'

Þetta er langt mál til að viðurkenna að auðvita hef ég ekki rétt fyrir mér, í merkingu þess að til sé einhver rétt lausn á mannlegum vandamálum.   En ég hef rétt fyrir mér út frá þeim forsendum sem ég geng út frá, og það eru forsendur siðmenningar og mennsku.  Og nánari útskýring á þeim forsendum má finna víða í skrifum mínum, og þær eru ekki flóknar.

Í sínum einfaldasta kjarna snúast þær um rétt og rangt, og það er rangt að gera öðru fólki miska, þó það auki þína hagsæld.  Og fyrir utan siðfræði þessa speki, þá er hún hagræn líka, sá sem verður fyrir miskanum, missir áhugann á að tilheyra þeirri heild sem þín hagsæld byggist á, og hann gæti jafnvel fengið áhuga á að skaða þína hagsæld, og jafnvel þig í leiðinni.  Fyrir utan óreglulegan kostnað sem felst í því að gæta öryggis þíns, þá gætu honum tekist að skaða þig, og jafnvel fyrirkoma.  Þá fer þín hagsæld til lítils.  

Þess vegna eru menn eins og meistarinn frá Nazaret mestu hagfræðingar hagsögunnar, siðfræði þeirra eykur hagsæld heildarinnar til lengri tíma litið.

Og ef ég spinn mig áfram út frá þessari hugsun, og það hef ég gert einhvers staðar, og nenni ekki að rifja það upp, þá fæ ég út nokkrar staðreyndir í ICEsave deilunni, til dæmis að það sé rangt að skuldsetja þjóðarbúið það mikið að það rísi ekki undir því.  Ég fæ það út að það er rangt að "160 milljarðar fara aðeins í vexti af erlendum lánum á ári, og greiðslubyrði ríkissjóðs nær 60% markinu eftir 2-3 ár".

Ef þú ert ósammála mér að þetta sé rangt, þá hefur þú rétt fyrir þér að "að staða Íslands er verri í dag en í gær", þú kemst að þessum niðurstöðum út frá öðrum forsendum en ég.  Og það er sjálfsagt kjarni flestra deilna, fólk gefur sér mismunandi forsendur.  

En samt, hin dýpri rök um þann kostnað sem hlýst af átökum og deilum vegna þeirra hrikalegu misskiptingar og fátæktar sem hlýst af þessari skuldabyrði þjóðarbúsins og 60% greiðslubyrði ríkissjóðs, þau eru sterkari hjá mínum forsendum en þeirra sem stefna ótrauðir á að skuldsetja almenning á þann hátt sem núverandi ríkisstjórn gerir.  Það sýður upp úr, það verða átök, það verður borgarastyrjöld.  Allavega hafa sprottið út átök í öðrum löndum sem hafa lent í þessari stöðu.

Þess vegna hef ég rétt fyrir mér.

En ef þú ert sammála mér um fáráð þess að skuldsetja almenning upp í rjáfur, og eyða 2/3 af tekjum ríkissjóðs að greiða af þeim lánum, þá hef ég líka rétt fyrir mér.

Vegna þess að samþykkt ICEsave ríkisábyrgðarinnar var bein ávísun á þetta skuldaástand.  Afleiðingar þess eru þekktar.  Þess vegna þarf að stöðva þessa samþykkt Alþingis með öllum tiltækum ráðum.  Það er ekki val, ef þú ert á móti niðurstöðunni.  

Ólafur stöðvaði ICEsave frumvarpið í bili, vegna þess að meirihluti Alþingis, sem er á móti þessu frumvarpi, hafði ekki kjark til þess.  Vissulega skapast við þetta ástand óvissa, óþekkt óvissa, en hin niðurstaðan er þekkt.  Endalok velferðar þessarar þjóðar, og líklegast endalok efnahagslegs og mjög líklega endalok pólitísks sjálfstæðis hennar í leiðinni.

Ef kostnaður óvissunnar er ekki rökstuddur á annan hátt en þann að fólk óttist gjörðir andstæðinga okkar, í heimi þar sem lög og regla ríkir, og andstæðingar okkar eru rótgrónar lýðræðisþjóðir, þá er það út í kú, að halda því fram, að vegna ótta við þessa óvissu, þá sé mótspyrna þjóðarinnar við ICEsave kúgunina vonlaus.

Það er rangt, á meðan það ekki er sýnt fram á hinn meinta kostnað.  Huglægt mat er einstaklingsbundið, þess vegna var EXEL-inn fundinn upp.  

Einnig má færa sterk rök fyrir því, og á þeim rökum hefur margur harðstjórinn beðið skipbrot, að tímabundnir erfiðleikar vegna kúgunar og yfirgangs, sé á sig leggjandi ef við enda þeirra vegferðar skin vonarstjarna frelsis og réttlætis.  En ég ætla ekki að fara í þá vegferð með þér í kvöld, nóg er þetta samt.

Og vissulega er ég að vega að andstæðingum mínum með orðum, því borgarastyrjaldir eru ljótar.  Það eru ekki margir áratugir síðan sem þjóðir sem börðust fyrir frelsi sínu gegn grimmilegri kúgun og yfirgangi, að þær notuðu byssukúlur á þá sem tóku undir málstað kúgara sinna.  Og þá var oft skotið fyrst og spurt svo.  Grunur um að vera Leppur eða aðstoða hið erlenda innrásarlið með einhverjum hætti, var næg ástæða því menn börðust fyrir tilveru þjóða sinna.

Ég er í svoleiðis baráttu Sigurður, ég er að berjast fyrir tilveru þjóðar minnar.  Ég er búinn að gera upp hug minn að sjálf framtíð mín og minna sé í húfi.  Og framtíð þjóðar minnar.  Síðan krefst mennska mín þess að ég láti ekki grundvallarréttindi siðmenningarinnar af hendi.  Það er rangt að láta börn mín borga kostnaðinn við frjáls viðskipti, frjálsra einstaklinga, í allt öðru landi, kostnað og viðskipti sem þau gátu aldrei haft nein áhrif á.  Ef þetta er liðið, þá er siðfræði hins  Rómarveldis endurvakin, um 1.600 árum frá falli þess.  Og síðan á að bíta höfuð af skömminni með því að neita þjóðinni um réttarmeðferð og úrskurð dómsstóla, það þýðir endalok réttarríkisins.

Og þá er stutt í næstu alheimsátök, og þá verður mannfallið ekki talið í tugum milljónum, og varla í hundruðum milljónum, drápsgeta mannsins er það öflug.  Og það eina sem heldur aftur af henni er siðmenningin, og trúin á að sumt sé rétt, og annað sé rangt.  Í þessu samhengi er gott að hafa í huga, að allar skriður byrja á hreyfingu einnar agnar.

Í mínum huga gæti ICEsave verið þessi ögn.  Og ég tel það einnar messu virði að hindra skrið hennar.  Einhver Óvissa breytir ekki því mat mínu. 

Þess vegna hef ég rétt fyrir mér.

En vissulega er það út frá þeim forsendum sem ég geng út frá, og hef lauslega útskýrt hér að framan.

En ég kýs ekki borgarstyrjöld við samlanda mína, og það eru ekki merkingarlaus orð.  Síðasti bloggpistill minn á árinu 2009 sannar að ég vil aðra lausn, og ég lagði á mig erfiði að orða þá lausn á þann hátt að aðrir skildu og íhuguðu.  Og um 1.000 IP tölur, sem ég sótti með bloggvirkni dagana þar á undan, sýna að ég taldi það mikilvægt að fólk íhugaði þriðju leiðina, leið sáttar og samlyndis þeirra sem leysa deilumál sín á friðsaman hátt.  

En það er engin friðsöm leið í því fólgin að annar aðilinn gefist upp.

Og það að ég hafi notað síðasta klukkutímann til að forma þetta svar mitt og útskýra mínar glefsur, sínir að ég vil líka ræða málin, við þá sem koma inn til að ræða.  Og ég get líka sannað það.  Langhundar mínir í athugasemdakerfinu eru þekktir, og merkilega mikið lesnir.  

En vissulega gat ég líka sagt svar mitt í örfáum orðum, bent þér kurteislega á að sá sem kemur í blogghíbýli mín, þarf að sætta sig við þær reglur sem þar gilda.  Ekki bauð ég þeim inn.  Það var aðeins opið.  

Og leikreglurnar eru mjög einfaldar, aðgát skal höfð í návist minnar ICEsave andstöðu.  Ef gestir spilla fyrir þeim áhrifum sem ég sækist eftir með pistlum mínum, þá hjóla ég í þá.  En þeim er velkomið að nota sama hjól til að hjóla í mig til baka.  Og ég tek slaginn.  Slagurinn er á mínum forsendum, ég læt öllum þeim látum sem mér dettur í hug eftir þeim hughrifum sem tilefnið framkallar, en ég leyfi andsvör, nema þau þar sem menn fá útrás á öðrum en mér.

Þetta er ekki flókið hér á þessu bloggi.   Slagurinn er til að taka hann.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.1.2010 kl. 23:35

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar, og takk fyrir.

Ef þú kemst niður langhundi mínum hér að framan með skrollinu, þá vil ég taka undir orð þín.  Urrið í bretum er aðeins ámátlegt væl.  

En ég skal íhuga þessi orð mín, ef þeir setja bann á enska boltann hingað.   

En þangað til mega þeir fara í rass og rófu mín vegna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.1.2010 kl. 23:38

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ómar. Þakka þér fyrir þennan góða pistil og þau andsvör sem þú hefur verið knúinn til að láta fylgja. Það er óvenjulegt að sjá svona afbragsgóða ræðu og sjá henni fylgt eftir að sama skapi.

"Á einu augabragði" sagði þekktur maður í ræðustól Alþingis fyrir ekki löngu síðan og margir hafa hent á lofti síðan.

Ekki eru margir klukkutímar síðan Ólafur forseti ruddi jafnvægi þjóðmálaumræðunnar úr skorðum með því að vísa umdeildum lögum til úrskuðar kjósenda milliliðlaust. Ekki varð það öllum jafn ljúft að melta.

Nú berast þær fréttir frá erlendum fjölmiðlum að þar í landi hafi Ólafur forseti gengið á hólm við einn grimmasta fréttaúlf viðfangsþjóðar okkar í beinni útsendingu sjónvarps og haft fullan sigur eftir frækilega glímu þar sem andstæðingur hans- og þar með íslenku þjóðarinnar hafi gengið af hólmi kaghýddur milli hæls og hnakka. 

Skyldi einhver orðskár pólitískur hatursmaður Ólafs Ragnars hafa íhugað að endurskoða ummæli sín um hann og jafnvel komið í hug að biðjast afsökunar?

Og skyldi í dag fjölga að mun nöfnum á undirskriftalistanum þar sem Ólafur forseti er særður til að segja af sér embætti og til áréttingar látinn fylgja svolítið ógætilega orðaður skýringartexti?

Árni Gunnarsson, 7.1.2010 kl. 14:04

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Árni, og takk fyrir að líta við.

Ef maður er í stríði, þá þarf að berjast, og vera tilbúinn að svara.  Og þegar sjálfur kjarninn, mennskan er rædd, þá er mjög erfitt að afgreiða slíkt í fáum orðum.  Það er auðvelt að segja "mér finnst" , en aðeins flóknara að segja af hverju.  Og ég trúi því að dropinn holi steininn, það séu alltaf einhverjir þarna úti sem eru tilbúnir að kafa aðeins dýpra í hlutina, og umræða leiði af sér umræðu. 

Allavega  þegar ég var ungur þá las ég hugsanir annarra til að mynda mér mínar eigin skoðanir.

En mér þykir þú segja mér ljótar fréttir, eru ungir vinstri menn farnir að haga sér eins og ákveðinn skríll sem var alltaf tengdur við Heimdall, hvort sem það var með réttu eða röngu???

Ég trúi þessu ekki.

Ég viðurkenni fúslega að ég var reiður forsetanum, og tjáði þá reiði, þegar hann hleypti ICEsave hinu skynsamlegri í gegn.  Tel í grunninn að stjórnmálamenn hafi ekki heimild til að ganga á svig við lög, að afneita lagatexta með orðunum "pólitísk lausn".  Vissulega í neyðartilvikum, en þá þarf neyðin að vera skilgreind, ekki óljós orð um "reiði" alþjóðasamfélagsins.

Og Ólafur hefur vissulega vakið hjá mér blendnar tilfinningar alla tíð, hef aldrei verið almennilega sáttur við hann eftir aðförina að Gvendi Jaka.  Það vissu allir þá að það var hann sem skaut úr Össur Skarphéðinssyni.  En ég hef aldrei frýjað honum vits, og oft verið ánægður með kallinn.

En þetta blogg er stríðsblogg, og ég hef ekki hugsað mér að biðja einn eða neinn afsökunar á því,  ekki nema að ég hafi persónulega farið yfir strikið og sé bent á það.  Það er eðli svona blogga að vera áreitið, ég er vísvitandi að ganga fram af andstæðingum mínum, að ögra þeim, og fá þá í fæting, ef þeir þora.  Fætingur er oft besta leiðin til að koma upplýsingum á framfæri, og jafnvel til að finna sameiginlega fleti, og verða jafnvel staupasáttir.

En það er þögnin sem viðheldur gjánni, sem kannski oft stafar af mismunandi lífsskoðunum, en einnig líka af hreinum og klárum misskilningi.  Margir afgreiða mig til dæmis sem hægri mann, en ef á að finna hliðstæður úr sögunni, þá þjáist ég af svipaðri róttækni og hrjáði Jónas frá Hriflu, fyrst eftir að hann kom til Reykjavíkur, að utan frá námi.  Ég er ekki rauður, en mér er oft illa við höfðingja gjörðir, en það er nú samt önnur saga.  Það er því viss uppgötvun fyrir marga að maður, vinstra megin við miðju, geti höggvið í gjörðir vinstri stjórnar, og þá út frá rökfræði félagshyggjunnar og vinstrimennsku..  

Fær oft menn til að hugsa, eða það vona ég.

En ICEsave er ekki pólitík, hún er hin eilífða barátta milli góðs og ills, milli þess sem er rétt og þess sem er rangt.

Þess vegna er ekki allt sanngjarnt sem maður segir.  Er ekki hugsað sem slíkt hjá mér.

En Ólafur er réttur maður á réttum stað.  Ég taldi það líka í sumar, og hann olli mér vonbrigðum.   Núna er hann að berjast fyrir þjóð sína, eins og hann hefur undirbúið sig síðustu 60 árin.  

Og ég styð hann í þeirri baráttu.  

Eins og ég styð alla sem taka þann slag.  Líka Hádegis Móra.  

Ég hef ekki efni á öðrum.  Því þessi barátta er ekki um mig og mína framtíð.

Þetta er baráttan um framtíð barna minna.

Í þeirri baráttu er allir vinir, óháð fortíð, og óháð öðrum pólitískum skoðunum.  

Og Ólafur var flottur á BBC, helvíti góður meira að segja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.1.2010 kl. 15:49

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og ég hlýt að þakka gott svar. Þeim mun lengur sem ég reyni að lesa undirtóninn í skoðanaútskýringum þínum þeim mun betur finn ég til samkenndar. Það er einmitt höfuðmein allrar pólitískrar umræðu hér hversu skemmd hún verður þegar á fyrstu ályktunum. Það geta aldrei orðið gagnleg skoðanaskipti þegar viðfangsmenn hafa í upphafi ákveðið niðurstöðuna.

Þegar fólk skiptist á skoðunum til að leita niðurstöðu þá er von um árangur. En þegar fólk þorir ekki að viðurkenna að það kunni að hafa myndað sér skoðun án nægra upplýsinga þá er betur þagað.

Í þessu máli hefur aldrei verið leitað að niðustöðu í eiginlegum skilningi heldur einungis verið ákveðinn lendingarstaðurinn.

Kveðja,

Árni Gunnarsson, 7.1.2010 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 61
  • Sl. viku: 1525
  • Frá upphafi: 1321533

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1300
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband