Þegar vitið er ekki meira en guð gaf.

 

Þá er gott að vitna í ræðu Sigríðar Andersen um orkupakkann á Alþingi í dag.  Heimildin er Ruv, því af einhverjum ástæðum þá kaus ritstjórn Morgunblaðsins að segja upp hlutverki Mbl.is sem fréttamiðils, og hannaði þess í stað einhvern örfréttamiðil sem sinnir þörfum sjónskertra og lesblindra, því bæði er stafagerðin óeðlilega stór, innihald frétta á Tvitter formi og framsetning líkt og lesblindir sjá skýrt framsett ritað mál.  Það er allt í rugli.

Áður en lengra er haldið þá er sú grundvallarbreyting með orkupakka 3, að í stað orkusamvinnu Evrópuþjóða er komið á fót orkubandalagi þar sem orkan á að flæða hindrunarlaust yfir landamæri, á forsendum hins sameiginlegar markaðar.  Til að ná markmiðum sínum þá er yfirþjóðlegri stofnun, ACER komið á fót, sem bæði markar orkustefnuna, hefur eftirlit með framkvæmd, og sker úr um ágreiningsefni.  Í hverju landi fer síðan sérstakt embætti, Landsreglari með æðsta vald í orkumálum, og hann er algjörlega óháður innlendum stjórnvöldum, hans eina boðvald er ACER.

Hvernig sem á þetta er litið er um grundvallarbreytingu að ræða, og um það deilir ekki nokkur maður nema á Alþingi Íslendinga.

 

En gefum Sigríði orðið, og þá styðst ég við glefsur sem fréttarritari Ruv hripaði niður jafnóðum og ræður og andsvör voru flutt.

"Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sagði í umræðu um orkupakka þrjú að henni sýndist að hann hefði ekki mikil efnisleg áhrif hér á landi. Hún sagði umræðuna hafa á köflum verið óvægna og óþarflega mikil gífuryrði verið látin falla. „Það sem mér finnst standa upp úr eftir sumarið er þetta viðhorf fólks, að standa vörð um auðlindir þjóðarinnar og fölskvalaus ótti fólks við framsal á valdi.“

Þetta væri eitthvað sem þingmenn þyrftu að hlusta á, hvort sem óttinn væri ástæðulaus eða ekki. Sigríður sagði að þau frumvörp sem iðnaðarráðherra væri að leggja fram hefðu allt eins getað verið lögð fram fyrir mörgum árum. Þau væru ekki bein afleiðing af sérstökum orkupakka heldur efnislega bara hefðbundin þingmál.

Sigríður nefndi að aðrar reglur um orkumál hefðu verið innleiddar sem hefðu haft miklu meiri áhrif en orkupakki þrjú. Sigríður nefndi sem dæmi lagabreytingu um endurnýjanlega orkugjafa. Sett hefði verið það skilyrði að blanda þyrfti allt eldsneyti með endurnýjanlegum orkugjöfum þrátt fyrir að hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á landi væri 80 prósent. Beinn kostnaður ríkisins af þessu væri um einn milljarður á ári sem rynni beint til erlendra framleiðenda á lífeldsneyti.".

 

Þá vitum við það, þessi grundvallarbreyting á orkumálum álfunnar hefur óveruleg áhrif á Íslandi, hvað okkur varðar þá er reglugerðin bara í plati.

Verð samt að taka undir með Styrmi í morgunpistli hans; "Er þetta ekki alveg skýrt? Hvernig stendur á því að ráðherrar tala að því er virðist gegn betri vitund? Þeir hljóta að hafa lesið þá álitsgerð, sem þeir sjálfir vitna mest í." og er hann þá að vitna í álitsgerð þeirra Stefáns og Friðriks.

Menn hljóta að tala gegn betri vitund, það er enginn svona vitlaus, eða er það???

 

Annar snillingur, Þorsteinn Víglundsson, sem til skamms tíma var hlynntur markaðsvæðingu orkunnar og tengingu Íslands við hinn sameiginlega Evrópska orkumarkað (það er crossborder og single market), fann afstöðu sinni nýjan farveg í þingræðu í dag. "Flestir sérfræðingar í hafrétti væru sammála um að hafréttarsamningar tækju fram yfir allar reglur Evrópusambandsins.".

Þá vitum við það, við þurfum ekki að lúta regluverkinu um crossborder vegna þess að við getum neitað slíkum tengingum á forsendum hafréttarsáttmálans sem tryggir okkur yfirráð yfir landgrunninu.

Til hvers erum við þá að innleiða regluverkið??

 

Hins vegar er það mikil vanþekking að halda að alþjóðasamningar eins og hafréttarsamningurinn brjóti hina evrópsku reglugerð á bak aftur, slíkum fullveldisákvörðunum afsala ríki sér með því að ganga í Evrópusambandið, og það sama gildir um aðildarríki EES.

Til að átta sig á ruglandanum í umræðunni þegar hálmstráið er að regluverkið um crossborder skyldi ekki ríki að samþykkja millilandatengingu, þá er gott að lesa þessi orð sem má finna í pistli á síðu Ögmundar Jónassonar, en greinilegt er að þar heldur fróður lögfræðingur á penna, því hann færir rök fyrir fullyrðingum sínum, ólíkt hinum meinta orkusérfræðingi Ríkisútvarpsins.

"Málið er einfalt: fyrirvarar sem ekki er samið um og fá staðfestingu innan sameiginlegu EES-nefndarinnar hafa ekkert lagalegt gildi að Evrópurétti. Jafnvel þótt slíkum fyrirvörum væri fyrirkomið í íslenskum lögum (þ.e.a.s. ekki í reglugerð) þá hefðu þeir samt ekkert laglegt gildi gagnvart Evrópurétti. Enn fremur, ákvæði í stjórnarskrá víkja fyrir Evrópurétti stangist þau á við hann. Um það eru dómafordæmi. Af þessu ætti að sjást hve fráleit umræðan um trygga fyrirvara er, nær ekki nokkurri átt.

Varðandi lagningu sæstrengs, og fullveldi Íslands, er rétt að fólk hafi í huga að það er ekki hægt að framselja hluta fullveldis (ríkisvalds) en telja þó að ríki hafi áfram óskert fullveldi. Með aðildinni að EES var ákveðnum hluta fullveldisins afsalað. Ísland varð skuldbundið til þess að taka upp m.a. reglur um fjórfrelsið svokallaða. Flutningur rafmagns um sæstreng (innri markaður Evrópu) lýtur m.a. reglum fjórfrelsisins um „frjálst flæði vara“. Þ.e.a.s. hluti þess fullveldis sem afsalað var er á sama sviði, á sviði viðskipta með vörur innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Þar af leiðandi er afar sérkennileg nálgun að hægt sé að afsala sér hluta fullveldis (EES) en telja að íslenska ríkið geti síðan beitt „fullveldisrétti“ á sama sviði til þess að hefta markmið þriðja orkupakkans, um samtengingu aðildarríkjanna. Þetta verður enn augljósara ef Ísland hefði afsalað sér öllu fullveldinu til erlendrar stofnunar (eða annars ríkis). Í krafti hvaða fullveldisréttar ætti Ísland þá að skáka á eftir? Það verður ekki bæði sleppt og haldið.".

 

Það er ekki bæði sleppt og haldið, og þeir sem grípa til hálmstráa til að blekkja jafnt þjóð sína sem kjósendur, þeir eru ekki beint líklegri að standa í lappirnar þegar ESA bankar á dyrnar á þinghúsinu og segir að núna sé kominn tími til að fara eftir regluverkinu.

Þá verða milljón ástæður týndar til að nauðsyn beri að fara eftir regluverkinu, og í kjölfarið verði lagning sæstrengs heimiluð.

Enda hefur verið stefnt að því í mörg ár.

 

Það hefur sína kosti og galla, en lygi eða vísvitandi fáviska er alltaf ókostur í lýðræðisríkjum. 

Slíkt er alltaf aðför að lýðræðinu.

 

Þar liggur alvarleiki orkupakkaumræðunnar.

Forheimska hennar á engin þjóð skilið.

Kveðja að austan.


Aumari getur frétt ekki verið.

 

Þegar fjallað er um grundvallarmál þjóðar.

 

Við hættum að geta talað um lífskjör og lífsgæði þegar markaðsvæðing orkupakkans hefur grafið um sig í íslensku þjóðfélagi.

Heilu atvinnugreinarnar munu þurrkast út í nafni hins frjálsa flæðis og markaðsvæðingarinnar. 

Og þjóð sem gefur eftir fjöregg sitt, er ekki lengur sjálfstæð þjóð.

 

Það er af sem áður var þegar Morgunblaðið stóð vörð um sjálfstæði þjóðarinnar.

Þó snjalltæki nútímans geri kröfu um ruglanda framsetningarinnar og stærra letur, þá biður hann ekki um innihaldsleysi.

Því eigendur snjalltækjanna eiga líf sem þarf að vernda, treysta fjölmiðli sem á æru áratuganna um að segja satt og rétt frá.

 

Tómhyggjan sem skín úr þessari frétt er forsenda bullsins og staðleysunnar sem orkupakkasinnar láta tröllríða þingsölum í dag.

Þegar síðasti frjálsi fjölmiðill þjóðarinnar þegir, þá er fátt eftir um varnir lýðræðisins.

Aðeins öldungar og örfáir aðrir sem taka hagsmunir þjóðar fram yfir hagsmuni þess fjármagns sem sér ofurgróða við innleiðingu þessarar reglugerðar Evrópusambandsins.

 

Af sem áður var.

Nú er Snorrabúð stekkur.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Ræða innleiðingu þriðja orkupakkans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer utanríkisráðherra viljandi rangt með??

 

Þegar hann segir að "eng­inn um­sagnaraðili haldið því fram að Íslend­ing­ar væru að falla í sömu gryfju og Belg­ar."

Sem eru andmæli hans við þeirri ábendingu formanns Miðflokksins að frá því að málin voru síðast rædd á þingi, þá hefði framkvæmdarstjórn ESB hafið samningsbrotamál gegn Belgíu vegna orkupakka 3.

 

Vísum í greinargerð okkar helsta sérfræðings í Evrópurétti, prófessors Stefán Má Stefánssonar og Friðriks Árna Hirts lögmanns.

"Fram hefur komið, að ekki standi til að innleiða 8. grein reglugerðar nr 713/2009 í landsrétt, jafnvel þótt þriðji orkupakkinn væri tekinn upp í EES-samninginn (að undangengnu samþykki Alþingis á fyrirliggjandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017), þar sem Ísland sé ekki tengt við innri orkumarkað ESB (t.d. gegnum sæstreng).

Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. grein EES-samningsins. Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.".

 

Lesum svo aftur orð Guðlaugs Þórs í heild í frétt Mbl.is.

"Guðlaug­ur Þór sagði Sig­mund Davíð „rugla sam­an ólík­um mál­um“ með því að tengja þetta mál við inn­leiðingu Íslands á orkupakk­an­um. Hann seg­ir Belga ekki hafa inn­leitt regl­urn­ar með rétt­um hætti, en að það hafi eng­inn um­sagnaraðili haldið því fram að Íslend­ing­ar væru að falla í sömu gryfju og Belg­ar. „Það stenst ekki eina ein­ustu skoðun,“ sagði ut­an­rík­is­ráðherra.".

 

Þetta er það sem Arnar Páll Hauksson segir í Speglinum í gær að "Ja ný atriði, þetta hefur líka verið hrakið af stuðningsmönnum orkupakkans, þetta tengist ekki þriðja orkupakkanum".

Eina rökréttan skýringin, önnur en lygar og rangfærslur, er að bæði Guðlaugur Þór og Arnar Páll hafi í sameiningu skýrt þá Stefán og Friðrik skemmri skírn, og eftirleiðis heiti þeir ENGINN.

Hvort það er trúverðugt er önnur saga.

 

En ef geta fjölmiðla til að leiðrétta rangfærslur er ekki meira en þetta, og að þeir séu jafnvel þátttakendur í blekkingarleiknum líkt og Ruv hefur ítrekað sýnt í umræðunni um orkupakkann, þá er ljóst að fáar eru varnirnar gagnvart ásælni auðmanna í auðlindir landsins.

Við lifum þá tíma að stjórnmálamenn geta með bulli sakað þá þingmenn sem rétt fara með, um bull og staðleysur.

 

Af hverju var Þorgerður Katrín ekki hýdd opinberlega þegar hún afneitaði því að raforkuverð hefði hækkað í kjölfar innleiðingu orkupakka 1 þegar Landsvirkjun var skipt uppí virkjunarhlutann og dreifingarhlutann.  Valgerður Sverrisdóttir neitaði þessu staðfastlega, en þegar opinberar tölur staðfestu 10% hækkun, þá hætti hún að láta ná í sig.  En í sveitunum allt að tvöfaldaðist raforkuverðið, og það er staðreynd sem ótal einstaklingar hafa staðfest.

Samt segir Þorgerður þetta samkvæmt frétt Mbl.is; "Ekki koma með enn eitt bullið hingað upp í ræðustól. Þetta er ekk­ert annað en bull sem er sett fram til þess að reyna að draga úr því hvað staðreynd­irn­ar ein­fald­lega bera með sér,".

Var blaðmanni ekki í lófa lagi að fletta uppí gagnasafni blaðsins og staðfestingu á 10% hækkuninni, eða taka upp tólið og hringja í næsta bónda??  Að ekki sé minnst á garðyrkjubónda.

 

Rangfærslurnar, sem er fínt orð yfir lygar, eru nefnilega í boði þeirra sem aðhald eiga að veita. 

Það er skýring á því að fyrsta verk einræðisstjórna er að ná valdi á fjölmiðlum til að stjórna fréttaflutningi, og það er skýring á því að frjálsir fjölmiðlar eru taldir nauðsynlegir í lýðræðisríkjum.

Hlutverk þeirra er ekki bara að segja fréttir, þeir eiga að upplýsa, og sjá til þess að valdsmenn komist ekki upp með lygar og blekkingar.

 

Eitthvað sem íslenskir ráðamenn þurfa ekki að óttast í dag.

Svo mikill er máttur peninganna sem vilja eignast orku þjóðarinnar í nafni frelsis og samkeppni.

 

En við eigum ekki að láta bjóða okkur þetta.

Kveðja að austan.

 

 

 
 

mbl.is Orkupakkinn ræddur fram og til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. ágúst 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 1318297

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband