Hver dagur sem þúsund ár.

 

Og ein vika sem heil eilífð fyrir stjórnmálamenn sem lenda uppá kant við þjóð sína í Ögurmáli.

Eða hvernig skyldi þeim Jóhönnu og Steingrími hafa liðið hina örlagaríku daga í aðdraganda ICEave þjóðaratkvæðisins, gruflandi í hve ósigurinn yrði stór.

Vikan í hönd er svoleiðis vika.

 

Sá hluti stjórnmálastéttarinnar sem hefur til þess vit og þroska, veit að hún er uppá kant við þjóð sína í orkupakkamálinu, hún veit að til að mæta hinni óvæntu andstöðu sem öldungar flokkanna náðu að magna upp, að þá hefur verið logið til um innihald og eðli orkupakkanna og sú lygi mun springa framan í hana, spurning bara hvenær.

Hún veit að miklir hagsmunir, jafnt fjárhagslegir sem stjórnmálalegir, knýja á tengingu íslenska orkukerfisins við meginland Evrópu, og þó það sé tabú að játa slíkt núna í orrahríðinni, þá mun slík vinna fara á fullt skrið á næstu misserum.

Og hún veit að einstakir stjórnmálamenn mega sín lítils gegn því ofurafli. 

Því andstaða við orkupakkann er andstaða við djúpríkið, við allt það kerfi viðskipta og stjórnmála sem er samofið Evrópusambandinu í gegnum EES samninginn.

 

Vandamálið er bara þjóðin, lýðræðið.

Að lokaorðið sé ekki valdsins, heldur almennings.

 

Í góðum leiðara Morgunblaðsins í tilefni 80 ára afmælis hinna sögulegu svika kommúnista kennt við griðasáttmála Stalíns og Hitlers, má lesa þessi orð;

"„Það var fyr­ir svik og vald­beit­ingu sem við urðum hluti af Sov­ét­ríkj­un­um,“ seg­ir Lands­berg­is, sem nú er 86 ára gam­all. „Að lit­háska þjóðin hafi beðið um inn­göngu er áróður frá Moskvu. Sett­um við sjálf snör­una um háls­inn og grát­báðum um að mörg hundruð þúsund manns yrðu flutt sjálf­vilj­ug til Síberíu? Þeir ljúga alltaf með sama hætti.“".

Og er þá vísað í orð fyrrverandi forseta Litháen, Vitautas Landsbergis.

 

Þau segja svo margt um hvernig valdið endurskrifar söguna, sem síðan ótal fylgjendur lepja upp. 

Á Íslandi sjáum við þetta þegar EES samningnum er eignað allar framfarir 20. aldar, algjörlega skautað fram hjá að það var líf fyrir EES,  og að framþróunin hér var ekki á neinn hátt öðruvísi en í öðrum löndum, og þar sem aðeins 3 þjóðir af tvöhundruð og eitthvað þjóðum Sameinuðu þjóðanna eru í EES samstarfinu, þá er sögufölsunin viss atlaga að heilbrigðri skynsemi.  Þó ekki nándar eins mikilli og sú sögn að ICEsave Nei-ið hafi kostað þjóðina 50 milljarða.

 

En þau segja líka mikið um sjálfsblekkinguna sem hin þjóðernissinnuðu gleraugu ljá mönnum þegar þeir skoða söguna seinna meir.

Það er nefnilega staðreynd að kommúnistar voru öflugir í Eystrasaltslöndunum og þeir studdu allt ódæðið með ráðum og dáðum.  Annar stór hluti studdi síðan valdatöku Þjóðverja, sáu í henni tækifæri til að lemja á kommúnistum og gyðingum. 

Sá hluti sem varði þjóð sína á þeim tíma var kannski ekki svo sértaklega stór.

 

Þetta er nefnilega eitt að því sem komandi vika mun leiða í ljós.

Um andstöðu hins almenna manns er vitað, en um fjölda hinna þegjandi, hvort sem það er vegna gunguskapar, þekkingarskorts eða það sem allra verst er, vegna pólitískrar þjónkunar, í áhrifastöðum sveitarfélaga, félagasamtaka, verkalýðsfélaga og svo framvegis, er ekki vitað.

Um hvað er forseti ASÍ að ræða þessa dagana??, eða rebellarnir í verkalýðshreyfingunni??

Hefur heyrst múkk frá fleiri sveitarstjórnarmönnum en forseta bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, bæjarstjóranum í Ölfusi eða sveitarstjórninni í Skagafirði??

Hvað með náttúruverndarsamtök, neytendasamtökin, félag eldri borgara og svo framvegis.

 

Markaðsvæðing orkunnar er arðrán okkar hinna.

Burtséð frá allri pólitík eða viðhorfum fólks til EES samningsins eða hvort það vilji að orkunni okkar sé stjórnað frá Arnarhóli eða Brussel, þá er markaðsvæðing bein árás á lífskjör þjóðarinnar.

Og hin æpandi þögn er í raun fátt annað en það sem Landsbergis kallar að fólk hafi sett snöruna sjálfviljugt um hálsinn.

 

Í þögninni felst nefnilega mesti stuðningurinn.

Og við sem þjóð höfum viku til að rjúfa hana.

 

Vonandi verður börnum okkar ekki seinna meir kennt að fallbeygja orðið gunga.

Vonandi mun valdið seinna meir telja ástæðu til að skrumskæla atburði komandi daga, því finnst ekki sú saga vera góð sem greinir frá andstöðu þjóðar sem sprakk út.

Vonandi verður þetta vikan sem stjórnmálastéttin náði sáttum við þjóð sína.

 

En það er eiginlega ekkert sem bendir til þess.

Og það er ekki stjórnmálastéttinni að kenna.

Heldur ítökum hennar meðal þeirra sem þegja þegar þeir eiga að verja.

 

Vikan í hönd er þeirra vika.

Hvað þá varðar, þá kemur hún aldrei aftur.

Kveðja að austan.

 

 


Bloggfærslur 25. ágúst 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 14
  • Sl. sólarhring: 532
  • Sl. viku: 719
  • Frá upphafi: 1320566

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 628
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband