Með lögum skal land byggja.

 

Og með ólögum eyða.

 

Þessi viska áa okkar er viska siðmenningarinnar, forsendan fyrir sjálfri tilveru hennar.

Það eru lögin sem halda samfélögum saman, það eru lögin sem hindra að hinn sterki kúgi og ræni að geðþótta, setja hömlur á valdníðslu og yfirgang valdhafa, en ekki hvað síst, þá eru þau leiðarvísir um viðurkennda hegðun og atferli.

Séu þau réttlát, þá eru þau forsenda friðar.

Og ef eitthvað stef er sammannlegt um allan heim á öllum tíma þá er það ákall fólks um að valdhafar virði lögin, séu réttlátir.

 

Þó þessi sannindi hafi verið skráð í árdaga sögu okkar, þá hefur gengið á ýmsu hjá innlendum sem erlendu valdhöfum okkar að virða þau.

Svo rammt kvað að þessu að á tíma voru póstskipin yfirfull af kvörtunum vegna yfirgangs sýslumanna og bænaskjölum til konungs að grípa inní, að tryggja almúganum rétt og réttlæti.

Og oft komu ordur að utan um breytta hegðun, og jafnvel voru sýslumenn settir af til langs eða skamms tíma.

Konungsvaldið var sem sagt skjól.

 

Breyttir tíma eru í dag.

Við erum lýðveldi, enginn konungur sem hægt er að klaga í, ráðum okkar málum sjálf.

Samt fengum við ordur að utan að lög eigi að virða, eins og ekkert hafi breyst.

Nema kannski núna er rifist og skammast út í þann sem tilmælin sendi.

 

"Engin afskipti af innanlandsmálum okkar", og það er ekki verið að vitna í ókvæða talsmann Sauda eða kínverska utanríkisráðuneytisins, sá fyrri frábiður sér afskipti á hegðun krónprinsins og drápslöngunar hans, sá seinni skapillur yfir því að fett sé fingur yfir þjóðarmorði á Úígúrum.

Nei sá úrilli sem þetta mælir er sjálfur fjármálaráðherra þjóðarinnar, sem líka var ráðherra þegar lög um skipan dómara voru sett.

Ef stjórnvöld kjósa að brjóta lög til að skipa vini og ættingja í dómarasæti, þá er það þeirra og öðrum kemur það ekkert við. 

Nema að fjármálaráðherra gleymir að á meðan við erum í Evrópuráðinu, þá kemur það öðrum við.  Því ráðið gerir kröfur um að aðildarríki sín virði þá grundvallareglu að með lögum skal land byggja.

 

En munnbrúkið, og það að við sem þjóð skulum ennþá þurfa að fá ordur að utan, er ekki aðalatriði málsins.

Heldur hvað fór úrskeiðis í uppeldi þessa fólks að það skuli ekki skilja þessi einföldu sannindi um lög og rétt, og til hvers lög og réttur er.

Að fólkið sem setur lögin, og er trúað fyrir stjórn landsins, skuli halda að það sé hafið upp yfir sömu lög.

Og af hverju komst það svona langt með valdníðslu sína að það þurfti dóm að utan til að skakka leikinn??

 

Valdið á Íslandi er þríþætt, það er löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, og í stjórnarskránni er kveðið á um sjálfstæði hvers valds.

Samt er það svo í reynd að framkvæmdarvaldið hefur löggjafarvaldið í vasanum og hefur haft mikil afskipti af dómsvaldinu, og þá með því að skipa í dóma eftir flokks og fjölskyldutengslum.

Samt er dómsvaldið sjálfstætt og það átti að grípa inní á afgerandi hátt sem verndari stjórnarskráarinnar.

 

Hæstiréttur gat alltaf búist við þessari niðurstöðu að utan að sett væri út á sjálfstæði dómsstóla þegar lög um skipan dómara voru brotin og hluti dómara handvaldir í embættið.

Svindl er alls staðar bannað, svindl skaðar traust og tiltrú.

Og það er sérstaklega mikilvægt að sá sem dæmir aðra, sé hafinn yfir allan vafa.

Samt lét Hæstiréttur framkvæmdarvaldið komast upp með valdníðslu sína.

 

Hvað veldur??

Var það óttinn við níðtungur valdaklíkunnar að rétturinn þorði ekki að taka slaginn við Sjálfstæðisflokkinn??

Eða eru dómararnir háðir henni, hluti af henni, og rugga því ekki bátnum sem þeir sjálfir eru munstraðir á??

Þetta eru áleitnar spurningar í kjölfar aðgerðarleysis Hæstaréttar og í raun getur aðeins rétturinn sjálfur svarað þeim spurningum.

Það má nefnilega ekki gleymast að mesti áfellisdómurinn var ekki yfir Sigríði Andersen og einbeittum brotavilja hennar, heldur hinu sjálfstæða dómskerfi sem átti að grípa inní, og afturkalla skipan dómara sem sóttu umboð sitt til lögleysunnar.

 

Það er nefnilega erfitt að byggja land með lögum þegar valdhafa njóta ekki aðhalds sjálfstæðra dómsstóla.

Og þess vegna byrja jú allir ofríkismenn að múlbinda þá svo þeir geti farið sínu fram óháð lögum og rétti.

Það er líka erfitt að fá almenning til að hlíta lögum þegar valdhafar telja sig hafna  yfir þau, og dómararnir sjálfir sjá ekkert athugavert að vera skipaðir á löglausum forsendum.

Og allra erfiðast er að vera dómsstóll sem enginn treystir því fólk véfengir heilindi þeirra sem þá skipa.

 

Og það er erfitt að byggja land þar sem enginn treystir valdhöfum, og enginn treystir dómsstólum.

Það er eiginlega kjarni þess sem við sem þjóð glímum við í dag.

Vantraust.

Sem er illkynjað æxli sem étur innan úr þjóðarlíkamanum þar til hann er helsýktur og vart starfandi lengur.

 

Við sem þjóð upplifum fordæmalaust góðæri í 1.100 ára sögu okkar.

Við höfum aldrei verið ríkari.

Samt eru forsendur sjálfstæðis okkar að bresta, við virðumst ekki geta stjórnað okkur sjálf.

Enda höfum við falið það verk illa upp öldnum börnum.

 

Forn gildi og sannindi siðmenningar, velferðar og velmegunar, friðar og öryggis, eru einskis virt lengur.

Græðgin og sjálftakan ráða för.

Ef ég er nógu sterkur, nógu ríkur, þá má ég allt.

Ég þarf bara að kaupa mér stjórnmálamenn, stjórnmálaflokka, og þeir skapa mér það umhverfi að ég fer mínu fram.

Eða einhvern veginn svona er tilfinning fólks gagnvart þeim sem eiga og ráða landinu.

Og ástandið og vantraustið eftir því.

 

Núna þegar sjálftaka þessa fólks á dómsstólum hefur verið stöðvuð þá ættum við sem þjóð að gera kröfu um endurbót, um siðbót.

Að unnið sé að sáttum, og komið sé til móts við kröfur fólks um að þjóðfélagið sé sanngjarnara og réttlátara.

Og eitthvað sem heitir þjóðarhagur sé líka þarna sem viðmið í stjórnarráðinu.

 

Á þetta er Styrmir Gunnarsson að benda í yndislegum pistli hérna á Moggablogginu í dag.

Vinkill hans á afsögn Sigríðar sem hluti af sátt er mjög góður. 

Sem og ákall hans um ný vinnubrögð og það sé tekist á við vandamál, í stað þess í besta falli hundsa þau, en oftast gert eitthvað sem gerir bara vont verra.

Og hann bendir á eitt sem þarf að gera svo sættir náist;

"Eitt af því er að fallast á sjálfsagðar kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna um að rannsókn fari fram á enn einum þætti hrunmálanna, sem snúi að þeim fjölskyldum, sem misstu allar eigur sínar í hruninu án þess að vera á nokkurn hátt orsakavaldar í því.".

 

Því það er nefnilega þannig að þó lög séu forsenda byggðar, að þá er sáttin það líka.

Að það sé traust, ekki vantraust.

Að það sé friður ekki óöld.

 

Þess vegna er ákaflega mikilvægt að menn hætti þessu röfli um dóminn að utan, heldur einhendi sig í að endurreisa hið laskaða dómskerfi, þannig að því sé treyst á eftir.

Það þarf að hlusta á fólkið sem getur ekki lifað mannsæmandi lífi á launum sínum.

Það þarf að hlusta á fólkið sem upplifir vergang húsnæðismarkaðarins.

Og yfirhöfuð, það þarf að hlusta.

 

Og reyna síðan sitt besta.

Til þess var þessi ríkisstjórn kosin.

 

Og það er ekki útséð með að hún geti ekki gert það.

Hlustað og gert sitt besta.

 

Þá mun traustið vaxa á ný.

Kveðja að austan.

 

 


Bloggfærslur 15. mars 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 1318210

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband