Gamall temur en ungur ekki nemur.

 

Sem er vandi Sjálfstæðisflokksins í hnotskurn.

Stjórnmál í dag snúast ekki um hugsjónir eða grundvallarprinsipp eins og sjálfstæði og fullveldi.  Ef einhver á skrifstofunni í Valhöll myndi í hálfkæringi breyta nafni flokksins á bréfsefni hans úr Sjálfstæðisflokk yfir í EES flokk, þá myndi ekki nokkur hræða í forystusveit hans gera athugasemd.

Tæki ekki eftir því.

 

Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur fjármagnseiganda og einn úr þeirra hópi leiðir flokkinn.

Það eru hagsmunir þeirra sem skipta máli.

Og það er bara þannig að hið frjálsa flæði Evrópusambandsins er himnaríki á jörðu fyrir fjármagn og fjármagnseigendur.  Í 5.000 ára sögu siðmenningarinnar finnast engin dæmi þar sem lög og reglur ríkja og ríkjabandalaga hafa verið eins aðlöguð að hagsmunum þeirra sem sýsla með fjármuni, óháð landamærum, óháð hollustu við þjóð eða ríki. 

Þess vegna vilja fjármagnseigendur að Ísland sé í Evrópusambandinu, og það er aðeins vegna þess að þeim mistókst að koma landinu í fulla aðild eftir Hrunið 2008 (fellt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í janúar 2009) að þeir sætta sig við fulla aðild án áhrifa, sem er mannamál yfir það sem EES samningurinn er í raun.

 

Nafnið, Sjálfstæðisflokkur, á sér síðan sögulegar skýringar frá sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, en það eina sem tengir flokkinn í dag við þá fortíð, er að í dag, eins og þá, er hann flokkur ráðandi stétta, þá borgarastéttarinnar, í dag fjármagnseiganda.

Málið er kannski að fjármagnseigendur, sem eru fyrir löngu hættir að skilgreina sig sem hluta af þjóðinni, að þeir veðja ekki lengur á einn flokk til að gæta hagsmuna sinna.  Þeir hafa Samfylkinguna, þess flokks sem hefur gert hið frjálsa flæði að trúarsetningu sinni, þeir keyptu VinstriGræna fyrir 12 silfurpeninga, og síðan nýta þeir netheima til að passa uppá unga fólkið, og fjármagna þar allskonar vitleysis flokka.

Það er meira svona hefðin sem fær þá til að púkka uppá Sjálfstæðisflokkinn, það þarf jú að vera einn hægri flokkur í vasa fjármagnsins, og síðan þarf að passa uppá gamla fólkið.  Og það verður að segjast eins og er að það er leitun að betri markaðsbrellu en að láta formann flokksins bera nafn gengins forystumanns, sem var óumdeildur höfðingi og forystumaður á meðan hann var og hét, á þeim tíma sem gamla fólkið var ekki gamalt, heldur ungt í blóma lífsins, og það er þannig með ellina að nútíðin gleymist fyrst, en þeir gömlu og góðu síðar.

Og hver kýs þá ekki flokkinn hans Bjarna Ben??

 

Það eru eðlilegar skýringar á hinu varanlegu tapi á þriðjungsfylgi flokksins, nútíma markaðsfræði hólfar markaðinn niður og gerir út á hina svo kölluðu markhópa, og stefna sem höfðar til eldri verður seint stefna sem höfðar til hinna yngri.

Hins vegar er verra ef menn átta sig ekki á því hvernig eldra fólk, markhópur Sjálfstæðisflokksins hugsar.

Og þó markaðsbrellan með nafnið Bjarna Ben hafi virkað ágætlega til skamms tíma, þá virkar hún verr ef minningar hinna eldri eru vanvirtar.

Á þetta er Styrmir að benda, enda gamall sjálfur.

 

Þó unga fólkið haldi að orðið "SJÁLFSTÆÐI" sé heiti úr Íslendingasögunum, eða hugsanlega nafn á plánetu í Star Wars seríunni, að þá veit eldra fólkið hvað býr að baki.  Það átti nefnilega afa og ömmur sem töldu "SJÁLFSTÆÐI" lykilatriði í sjálfsmynd sinni og þjóðarinnar.  Og sú sjálfsmynd knúði fólk áfram að byggja allt úr engu.

Skóla, brýr, sjúkrahús, hafnir, vegi og velferð.

Og foreldrar þeirra drukku orðið með móðurmjólkinni, menn deildu kannski um útfærslu landsstjórnarinnar og vissulega sóttu ýmsir sér fyrirmynd í Útópíunni um fyrirmyndarlandið Sovét, en það var aðallega í nösunum, í kjarnanum snérist allt um að byggja upp innviði, að tryggja atvinnu, og gera eitthvað sem kæmi þjóðinni framá við.

Enda áður en fjármagnið náði völdum og hóf kerfisbundið rán á eigum þjóðarinnar, þá mátti segja um hvern áratug frá aldamótunum 1900, að hann var betri en sá sem leið, og alltaf var leiðarljósið, að það væri hægt að gera betur.

 

Þessar minningar fær enginn dauðlegur maður brotið niður, aðeins dauðinn er fær um það.

Og flokkur sem gerir út á þessar minningar, sem gerir út á gamla fólkið, hann hundsar þær ekki.

Hann leggur sig niður og gengur í Viðreisn.

 

Það þarf nefnilega stundum að nema af gamla fólkinu.

Spurning hvort einhver vilji sé til þess í Valhöll.

 

En það hefur afleiðingar ef það er ekki gert.

Það er augljóst hér á Moggablogginu að fallbyssur eru hlaðnar.

 

Og þeim er ekki beint út á við.

Icesave tapararnir ættu ekki að vanmeta þær.

 

Ekki aftur.

Kveðja að austan.


mbl.is Sjálfstæðið til Brussel í smápörtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump er með þetta.

 

Það er búið að vera alltof friðsælt í Mið-Austurlöndum, þannig jafnvel hagvöxtur er í húfi.

 

Hugsa sér öll óseldu vopnin, að ekki sé minnst á öll óframleiddu, sem ekki voru framleidd því enginn pantaði þau.

Og þó það sé góðæri í Jemen, það er fyrir vestræna vopnaframleiðendur, þá er það samt útkjálki miðað við alvöru spennu fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Í þessu samhengi má ekki gleyma að það er lítill bissness í Sýrlandsstríðinu fyrir vestrænan vopnaiðnað.  Erlendu málliðarnir sem herja á landsmenn eru flestir úkjálkamenn og vilja bara rússnesk vopn.  Þannig að hið vestræna fjármagn sem gerir þá út þarf að panta vopn handa þeim frá Búlgaríu og öðrum milliliðum hinnar rússnesku vopnaframleiðslu og Sýrlandsstjórn fær svo vopnin beint frá Moskvu.

 

Nei driftin kemur frá Palestínu, vopnaskak þar veldur taugatitringi langt út fyrir hin staðbundnu átakasvæði, titringi sem fær ríkisstjórnir nágrannalanda til að taka upp tólið og panta vopn til að létta á spennunni.  Það heldur jú enginn hersýningu með úreltum vopnum þegar nágrannaríkið státar sig af öllum nýjustu drápstólunum.

Og þessi drift er útskýring á hinum ýmsustu ákvörðunum sem hinum hálærðustu stjórnmálaskýringum finnst út úr kú.

Sem aftur leiðir hugann að, hvor er bjáninn, Trump eða þeir???

 

Og Trump er með þetta, hann sagði það sem enginn mátti segja, að Jerúsalem væri höfuðborg Ísraels, sem hún hefur verið allt frá 6 daga stríðinu 1967, og þegar það dugði ekki til að ýta undir vopnasölu, þá lagðist hann undir feld og leiddi brátt hugann að sígildum sannindum.

Sem eru að það ræðst enginn á höndina sem fæðir hann.

Svo hann ákvað bara að skrúfa fyrir það fjárstreymið.

 

Hins vegar er ég ekki alveg viss að það dugi til.

Að bálið og brandurinn séu ekki alveg vísir.

Ég myndi líka skrúfa fyrir allar nettengingar.

 

Byggi það á samreynslu táningaforeldra um allan heim.

Sá sem lifir í netheimum er ekki líklegur til að fara út í raunheim og kasta mólatovkokteilum.

Auðveldara að fá status og læk á einhverja netsprenginguna í nýjasta stríðsleiknum.

 

Og hvað sem verður sagt um þessa miðaldra karla sem byggja öll völd sín á ófriði og óvináttu þjóðarbrota, að þeir fara aldrei út á göturnar til að berjast, þeir nota ungviðið til þess.

Þeir skála í kampavíni í öruggu skjóli, jafnvel við meinta óvini sína, og hlæja af öllu saman.  Setja kannski upp sorgarsvipinn þegar nytsamur sakleysingi úr fjarlægu landi kemur og tekur við þá viðtal um kúgun og yfirgang nágrannans, þess sama nágranna og þeir hafa að yfirlýstu markmiði að útrýma við fyrsta hugsanlega tækifæri.  Þykjast svo vera voðalega hissa, eins og nytsami sakleysinginn, yfir að nágranninn skuli einmitt vera með kúgun og yfirgang eins og fólki finnist ekki gaman að láta útrýma sér.

Nei, þessir menn þurfa á unglingunum að halda í sprengjufóður, og þeir þurfa að fæða ungu karlmennina sem eiga fyrir fjölskyldum að sjá.

 

Þannig að vilji menn hagvöxt brandsins, þá er ekki nóg að ögra og æra öfgamenn, og það er ekki nóg að stöðva fjárstreymi. 

Nauðsynlegar forsendur en öruggast er að loka líka á flóttaleið netheima og sprengja síðan eins og einn strætisvagn í loft upp, eða til vara skóla eða sprengja meintan sjálfsmorðskrakka við ísvagn á fjölmennu markaðstorgi. 

Svínvirkar alltaf og síðan geta þeir sem hafa hag af báli og brandi, sest niður og skálað yfir velheppnuðum ófriði.  Efa ekki að Trump er í guðatölu hjá þeim, jafnvel fremri þeim Alla og Jahve.

 

Og þetta veit Trump, enda er hann með þetta.

Hann mun vissulega tísta eitthvað, og jafnvel fara í grátkeppni við meðalstóran krókódíl, þegar fyrsta sprengjan springur, og fordæma dráp hinna saklausu.

En gleðitár hans yfir hækkandi hagvísum vopnaframleiðandanna munu vera sönn.

 

Og þegar upp er staðið þá er það sem telur.

Þar liggur driftin.

 

Fökking friður hvað!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!?????????

Eins og fólk sé ekki með þetta.

Kveðja að austan.


mbl.is Hætta stuðningi við flóttafólk frá Palestínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. september 2018

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 1525
  • Frá upphafi: 1321533

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1300
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband