Tíu litlir negrastrákar

 

Eða voru þeir 35, man það ekki, en hitt man ég að þeim fækkaði óðum, eða alveg þar til ríkisstjórnin sprakk.

Hvað eiga svona heitstrengingar að þýða?, af hverju er ekki reynt að byggja brýr sem halda þegar að er sótt?

Eða er barnaskapurinn á því stigi að halda að skotgrafir séu límið sem heldur saman ríkisstjórn ólíkra flokka??

 

Sjálfstæðismenn ættu frekar að þakka fyrir að flokksagi VG hélt, og þeir ættu að vita að hann heldur ekki endalaust.

Ekki ef Sjálfstæðisflokkurinn leggur sig fram um að viðhalda þeirri ímynd meðal þjóðarinnar að spillingarjafnan sé spilling=Sjálfstæðisflokkur.

Slíkt þolir enginn samstarfsflokkur til lengdar eins og dæmin sanna.

 

Sigríður á eftir að verða þessari ríkisstjórn að falli því umræðan um hana á ekki eftir að gera neitt annað en að magnast.

Jafnvel þó hún geri ekkert annað en að fara út á meðal fólks til að klippa á borða, þá verður það snúið henni til vansa.

Það er uppreisn í þjóðfélaginu, ekki bara innan verkalýðshreyfingarinnar, lögmenn ætla til dæmis ekki að kyngja enn einni spillingarráðningu Sjálfstæðisflokksins.  Ekki eftir að skýr lög voru sett til að koma í veg fyrir slíkt.

 

Framundan eru erfið mál varðandi innflytjendur, hvert mannúðarverk elur af sér 100 vonbiðla, og á þeim þarf að taka. 

En málið er að það er ekki borð fyrir báru hjá Sigríði, öll áföll munu leita inn í ríkisstjórnarsamstarfið.

Hún er Grýla íslenskra stjórnmála og allir vita að Grýla gafst upp á rólinu.

 

Eina spurningin er hvort hún taki ríkisstjórnina með sér eða ekki.

Hvort hún sé flokksmanneskja og skynji sinn vitjunartíma, eða hvort hún sé blindur egóisti sem sér ekki skaðann sem fylgir í fótspor hennar. 

Skaðann fyrir ríkisstjórnina, skaðann fyrir Sjálfstæðisflokkinn og skaðann fyrir formann hans.  Hún situr jú í skjóli Bjarna.

Allavega er ljóst að manndómurinn og forystuhæfileikinn til að höggva á hnútinn er ekki til staðar innan forystusveit ríkisstjórnarinnar.

 

Og það er miður því vonir voru bundnar við þetta ríkisstjórnarsamstarf.

Að hin sársaukafulla reynsla stjórnmálaanna frá Hruni yrði nýtt til að semja nýtt stef vonar og tiltrúar um ný vinnubrögð, að sáttar yrði leitað í stað ófriðar, og reksturinn á þjóðarbúinu yrði hugsaður uppá nýtt.

Það væri varið sem væri þess virði að verja, því væri hent sem væri ónýtt, og nýtt smíðað þess í stað.

Og það næðist sátt um réttlæti og réttlátari skiptingu.

Síðasta tækifæri hinna hefðbundnu stjórnmála, síðasta tækifæri fólks sem þrátt fyrir allt vill þjóðinni og náunganum vel.

 

En bráðum verða negrastrákarnir níu, svo átta, og svo man enginn lengur að þeir yfir höfuð hafi verið til.

Flóðbylgja breytinganna mun sjá til þess.

Annað hvort ertu með, og þú flýtur á öldunni, eða þú ert ekki.

Því það steytir enginn hnefanum á móti kröfunni um breytingar.

Flóðbylgjan drekkir þér þá bara.

 

Aldrei þessu vant er enginn valkvíði í þessu dæmi.

Kveðja að austan.


mbl.is Segir 33 vera í stjórnarmeirihlutanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hrokanum er fallið fólgið.

 

Sigríður Andersen er töffari, hefur alltaf verið.

Og oft unaðslegt hvernig hún hefur þorað gegn hinu viðtekna í pólitískum rétttrúnaði femínista umræðunnar.

 

En hún er ekki lesin í fræðunum, Machiavelli varar við hroka ef valdsmaður á frama sinn undir lýðnum.  Það skiptir ekki máli hvað þú gerir, það skiptir máli hvað þú virðist gera.

Og þegar töffarinn Sigríður, ákvað að sýna að hún væri ekki bundin að lögum og reglum líkt og annað dauðlegt fólk, og gæti í krafti vald síns brotið sáttina sem Alþingi hafði bundið í lög að kaleikurinn við skipan dómara væri færður frá ráðherra til svokallaðar faglegrar nefndar, og komist upp með það með því að knýja það í gegnum Alþingi í krafti ráðherraræðis.

Þá féll hún í hrokagryfjuna.

 

Og það er ekki auðvelt að skríða uppúr henni.

Tekst aðeins með auðmýkt sem er skapgerðisbrestur sem Sigríður þekkir ekki.

 

Þessi setning hennar er dásamleg, það er frá sjónarmiðum hrokafræðinnar;

"og hafa að mínu mati þrif­ist á því að tala niður störf þings­ins, störf emb­ætt­is­manna og stjórn­sýsl­unn­ar í heild,".

Það þarf mikið egó til að klína sínum eigin skít á vammlausa embættismenn sem frá fyrsta degi vöruðu ráðherra við að geðþótti hennar bryti í bága við góða stjórnsýslu eða stjórnsýsluna sem vann sína vinnu skammlaust og kom í hendur ráðherra rökstuddri tillögu að skipan dómara í Landsrétt. 

Og dómskerfið brást ekki heldur, það sýndi fram á það með gildum rökum að ráðherra hefði ekki rökstutt þær breytingar sem hún gerði á lista hæfnisnefndar, og brotið þar með gegn góðri stjórnsýslu og staðfesti þar með álit hinna vammlausu embættismanna.

Dómskerfið hins vegar gat ekki dæmt skipan flokksdómarana ólöglega því rétt var að henni staðið, ráðherra bar upp tillögu sína á Alþingi, og hún var samþykkt. 

Hún hefði líka verið lögleg ef Sigríður hefði á síðustu stundu strikað út nafnið á eiginmanni vinkonu sinnar, og sett þess í stað nafnið á hundinum sínum, enda er hann mjög tryggur, og Alþingi samþykkt. 

Það veit enginn hver eru neðri mörk sjálfstæðismanna, það hefur ekki reynt á þau.  En á meðan flokkurinn hefur þetta kverkatak á Alþingi, og fær sitt í gegn, hversu óeðlilegt það er, þá er niðurstaðan lögleg.

Um það rífst enginn.

 

En vammlausir sem þurfa að sætta sig við ofríkið og spillinguna, þeirra er ekki ábyrgðin.

Og þeir eru ekki talaðir niður þegar reynt er að láta ráðherra sæta ábyrgð.

Vörn Sigríðar er engu betri en mannsins sem var tekinn í bólinu með barnungri vændiskonu, þvingaða af mannsalsdjöflum, og krafðist sýknu fyrir dómi því fjölskylda hans væri vammlaus, og allt það samfélag sem hann tilheyrði liði ekki svona hegðun.

Meinið var að það var hann sem var fyrir dómi, ekki fjölskylda hans eða hið vammlausa samfélag sem hann tilheyrði.

 

Hrokinn mun verða Sigríði að falli.

Það efaðist enginn um máttleysi stjórnarandstöðunnar eða samtryggingu spillingarinnar.

Vígi hennar á þingi heldur.

 

En á meðan hún situr, verður aðeins talað um þetta mál.

Því eins og Machiavelli sagði, það er sama hvað verkin eru góð, ef þú hefur á þér ásýnd spillingar og valdshroka, þá mun fólk aðeins sjá það, en ekki hin góðu verk.

Og allt tal Katrínar Jakobsdóttur um siðvæðingu, siðbætingu, hljómar eins og aumur fimmaura brandari á meðan Sigríður situr. 

Hennar skítur verður smán saman skítur Katrínar.

 

Og hinir spilltu dómarar, því það er sannarlega spillingu að þiggja flokkskipan þegar lög kveða á um fagskipan, munu aldrei fá starfsfrið.

Verjendur munu alltaf draga trúverðugleika þeirra í efa. 

Á meðan það er ekki rannsakað hvaða gjald fór á milli, þá verður alltaf spurt.

"Hverju lofaðir þú í staðinn??".

"Eða hvernig getur þú dæmt mig sekan, þegar þú sjálfur greiddir fyrir stöðu þína??"

 

Það er nefnilega þannig að hroki vekur viðbrögð.

Og þegar sá hroki felur í sér að eyðileggja trúverðugleika hins nýja dómsstigs, Landsréttar, þá munu andstæðingarnir nýta sér það í botn.

Og á einhverjum tímapunkti munu samherjar hennar spyrja, af hverju eru við sjálfviljugir að sökkva með þessum hrokagikk??  Það er ekki svo að hún hafi eitthvað vald yfir okkur??

 

Og mikill bjáni má Bjarni vera að gefa andstæðingum sínum innan flokksins þetta vopn uppí hendur.

Margfalt öflugri stjórnmálamaður skaddaðist af slíkri frænda og vinahygli, það mikið að honum var komið í skjól við að naga blýanta.

Samt var þá ekki farið gegn skýrum lögum eins og gert er í dag.

Hrokinn er vissulega dauðasynd, en heimskan öllu verri.

 

Þess vegna mun ekki bara Sigríður falla.

Kveðja að austan.


mbl.is Vonar að þvarginu sé nú lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppreisn fólksins er hafin.

 

Og verður ekki stöðvuð.

 

Við munum sjá braskinu á húsnæðismarkaðnum sagt stríð á hendur.

Við munum sjá sjálftökunni sagt stríð á hendur.

Við munum sjá verðtryggingunni og vaxtaokrinu sagt stríð á hendur.

Og við munum sjá fall Gylfa forseta.

 

Áhrifin á stjórnmálin munu síðan fara eftir hvernig til tekst í þessu stríði á vinnumarkaðnum.

Hvort unga fólkið sem leiðir þessa uppreisn fólksins, sé sjálfu sér samkvæmt, setji sér skýr markmið og standi við þau.

Þá munu þau vinna þennan slag og stjórnmálin munu þá falla næst.

 

Því meirihluti þjóðarinnar hefur fengið nóg af sísviknum loforðum, innihalds lausum frösum, og stefnunni einu sem virðist vera að það er sama hvað sagt er fyrir kosningar, ef flokkar komast í stjórn, þá þjóna þeir aðeins einum herra.

Auðnum og hagsmunum hans.

Andófshreyfingunni hefur aðeins skort trúverðugleika enda auðurinn fjárfest mikið í sundrungu hennar.

 

Núverandi ríkisstjórn er síðasta von hefðbundinna stjórnmála.

Afgreiðsla hennar á Sigríðarmálinu sýnir að hún mun engu breyta, þegar á reynir eru hjólför spillingar og sjálftöku of djúp til að flokkarnir geti rifið sig uppúr þeim.

Hvorki Katrín eða Bjarni hafa þá forystuhæfileika sem til þarf.

Þau skynja ekki að flokkar þeirra eiga allt undir nýjum vinnubrögðum og endurnýjun trúverðugleika.

Þau ímynda sér að ef þau bara loki augunum nógu fast, þá muni flóðfylgja breytinganna fjara út í stað þess að kaffæra þau.

 

En flóðbylgjur fjara ekki út.

Eina spurningin er hve langt þær ná uppá land.

 

Tíminn mun svara þeirri spurningu.

En það hefst ekkert uppúr að hundsa flóðbylgjuaðvaranir.

 

Þú rífst ekki við ákallið um breytingar.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Sólveig Anna nýr formaður Eflingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. mars 2018

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband