"Ráðherra fylgdi laga­bók­stafn­um í einu og öllu".

 

 

Af hverju hlaut hún þá dóm?

Jú, vegna þess að hún braut lögin.

 

Hún hafði vissulega rétt til að víkja frá tillögum hæfnisnefndar, en þá bar henni skylda til að gera það á faglegan hátt, henni bar skylda til að rökstyðja frávik sín.

Vegna þess að stjórnsýslulög segja hæfasti einstaklingurinn sem sækir um eigi að hljóta þau störf sem auglýst er eftir á vegum ríkisins.

Þau segja ekki að hann eigi að vera hæfur, heldur að hann eigi að vera hæfasti.

 

Og þetta er sérstaklega ítrekað í nýjum lögum um dómstóla, sem þáverandi innanríkisráðherra Ólöf Nordal lagði fram sem stjórnarfrumvarp 2016.

"Við mat á menntun, starfsferli og fræðilegri þekkingu skal dómnefndin miða við að æskilegt sé að umsækjandi hafi fjölbreytta starfsreynslu á sviði lögfræðinnar s.s. reynslu af dómstörfum, málflutningi eða öðrum lögmannsstörfum, störfum innan stjórnsýslunnar eða fræðistörfum.".

Sama hvernig þetta er lesið, þá stendur hvergi, að eiginmaður vinkonu Sigríðar Andersen sé undanþeginn þessari kröfu sem gerðar eru til menntunar, fjölbreyttan starfsferil og fræðilegrar menntunar.  Einnig verður ekki lesið úr þessum texta að sérstakur kostur sé að vera giftur þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

 

Þess vegna var Sigríður Andersen dæmd, hún fór ekki eftir lagabókstafnum, og henni varð ekki á að fara eftir því í einu og öllu, heldur fór hún ekki eftir neinu.

Forsendur hennar um vinatengsl, og flokkstengsl, þeirra er hvergi getið í hinum nýsamþykktum lögum Ólafar Nordal. 

Sem er nota bene ekki nafn yfir dómaraklíku sem öllu vildi ráða um skipan dómara eins og sjálfstæðismenn reyna að telja hvorum öðrum í trú um, heldur var hún þáverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og innanríkisráðherra.

 

Aðrar röksemdir Sigríðar eru eftir þessu.

Manneskja sem hefur allan sinn stjórnmálaferil afneitað kynjakvóta, vanvirðir vitsmuni þingheims, líka hinna gjörspilltu í Sjálfstæðisflokknum, þegar hún segir "„Eins og menn þekkja þá var mikið ákall um það að Lands­rétt­ur yrði skipaður jafnt kon­um sem körl­um. Þetta kom fram þegar að niðurstaðan lá fyr­ir", því forsendan um kyn var hvergi tekið fram í þeim rökstuðningi sem hún sendi Alþingi, þar var einungis vikið að ráðherra teldi að dómarareynsla hefði átt að fá aukið vægi.

Enda er skýrt tekið fram í lögum að það megi ekki mismuna fólki vegna kynferðis þess.

Að vísa í þetta er populismi eftiráskýringarinnar, til að breiða yfir geðþótta spillingarinnar.

 

Síðan skýtur það skökku við að segjast hafa lagst í viðmikla rannsókn á hæfni einstakra umsækjenda þegar ráðherra ítrekað hefur sagst ekki hafa haft til þess tíma samkvæmt lögum og því hafi hann þurft að nýta sér vinnu hæfnisnefndar við mat sitt á einstökum umsækjendum.

Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar, þetta kemur fram í umræðum á Alþingi.

Að halda öðru fram í umræðunni um vantraust á ráðherra er því í raun hrein og klár lygi.

Ráðherra virðist ekki geta tjáð sig um þetta mál án þess að ljúga.

 

Og öfugmæli hennar, bautasteinninn sem mun halda nafni hennar á lofti, löngu eftir að hún hrökklast úr embætti, er þegar hún segir að spilling hennar sé "Þetta er rétt­ar­ríkið að verki".

Að það sé réttarríki að flokksvæða dómstóla.

Að það sé réttarríki að gera þá vanhæfa með geðþótta sínum og spillingu.

 

Þvert á móti, það að spilling hennar sé ekki rannsökuð, hvað það raunverulega var sem fékk ráðherra til að fara gegn skýrum lögum og reglum um skipan dómara, sýnir á nöturlegan hátt að réttarríkið er ekki virkt á Íslandi.

Og það eina sem er óljóst í því dæmi, hve langt getur ráðherra gengið í krafti hlýðins þingmeirihluta, án þess að til þess bærir embættismenn þjóðarinnar taki spillingu þeirra fyrir og rannsaki.

 

Það er allavega ekki hægt að ganga mikið lengra en að flokksvæða æðri dómstóla þjóðarinnar.

Mikil er skömm þeirra sem ábyrgðina bera.

 

Og algjör er smán þeirra sem reyna að verja óhæfuna.

Mikið lægra verður ekki lotið.

Kveðja að austan.


mbl.is „Loksins kom vantrauststillagan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni biður ríkisstjórnina griða.

 

Að hún eigi að sinna stóru málunum, vísar í að umboðsmaður Alþingis þori ekki gegn spillingunni, að hann sitji í skjóli ráðherraræðisins.

Að fyrst að umboðsmaður Alþingis, hvert sem hreðjatak framkvæmdarvaldsins er á honum, sjái ekkert athugavert við að vammlaust fólk sem hefur byggt upp fjölbreyttan starfsferil, svo það seinna meir komi til greina við skipan dómara hjá æðri dómstólum þjóðarinnar, líkt og lög kveða á um, að það sé látið víkja fyrir eiginkonu þingmanns Sjálfstæðisflokksins, eða eiginmann vinkonu dómsmálaráðherra.

 

Fyrir utan að engin vitræn rök, fyrir utan hugsanleg rök sem lúta að ofsóknum vegna pólitískra skoðana, útskýra af hverju þessir fjórir sem voru látnir víkja, voru valdir, en ekki einhverjir allt aðrir. 

Nema vera skyldi að tengsl þeirra sem voru skipaðir, við fjármálaspillingu útrásarvíkinganna, eða bein flokkstengsl við Sjálfstæðisflokkinn, eða fólk sem naut trúnaðar við flokkinn, hefðu vegið þyngra.

Og þegar við bætist eignmaður vinkonu dómsmálaráðherra auk eiginkonu þingmanns flokksins, að þá sé Landsréttur rétt skipaður.

Flokksvæddur, hagsmunavæddur.

 

Sé svo þá er ljóst að um áður óþekkta spillingu í íslensku stjórnkerfi er að ræða.

Og þá skiljanlegt að Bjarni biðji þessari ríkisstjórn griða.

Hann féll jú síðast þegar hann beitti óhróðursvél flokksins gegn foreldrum fórnarlamba barnaníðings, sem þeirra eini glæpur var að biðja um upplýsingar, að biðja um skýringar á óskiljanlegri stjórnvalds ákvörðun.

 

Hver eru þessi góðu verk ríkisstjórnarinnar sem réttlæta þessa svívirðu trekk í trekk?

Björt framtíð hafði þó sómann í að slíta síðast.

Enda sannarlega ekki tengd við hagsmuni vogunarsjóða.

 

Er það málið.

Að VG hafi selt sálu sína það kyrfilega, að flokkurinn eigi að klára dæmið.

Að sama hver viðbjóðurinn er, og þá hefði flokkurinn kóað með óhróðursvél Sjálfstæðisflokksins gegn foreldrum fórnarlamba barnaníðings, að þá starfi flokkurinn með Sjálfstæðisflokknum.  Verji ráðherra hans falli, setji engin mörk og engin viðmið.

Svona rétt á meðan Arion banki er rúinn inn að skinni.

Eru slík heljartök þess sem seldi sáluna, á flokknum??

 

Það sem er samt ömurlegast er að fólk treysti þessari ríkisstjórn til góðra verka.

Að þessi meinta kjölfesta íslenskra stjórnmála myndi snúa bökum saman um þjóðarheill.

Um góð verk, um að vilja vel.

 

Að flokksvæða dómsstig, að hamla ekki gegn rúningi vogunarsjóða á Arion banka, er ekki dæmi um að vilja vel, eða reyna að gera betur en undanfarnar ríkisstjórnar.

Það staðfestir endanlega að seldar sálir stjórna landinu.

Sem er ekkert heilagt, virða aðeins hagsmuni húsbænda sinna.

 

Slíkt fólk þarf ekki grið.

Það telur sig ósnertanlegt.

 

Það laug sig til valda.

Og það heldur að völdin á þingi beygi allt annað.

 

Réttinn, réttarfarið.

Þjóðarhagsmuni.

Allt.

 

Og það heldur að það komist upp með það.

Kveðja að austan.


mbl.is Á undarlegu ferðalagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt hafast siðaðar þjóðir að.

 

Frá Ísrael berast fréttir að stutt sé í að forsætisráðherra landsins sæti ákæru fyrir spillingu, því sannað þykir að hann og hans nánustu hafi þegið fjármuni gegn greiða.

Þar er vinnugangurinn ekki sá að stjórnarandstaðan þurfi að leggja fram vantraust á hinn spillta ráðherra, heldur virkar réttarkerfið þannig að ef grunur vaknar um spillingu, þá rannsakar ríkissaksóknari landsins málið og reynir að fá botn í það.

Grunur um spillingu vaknar þegar einstaklingar eða fyrirtæki fá fyrirgreiðslu sem á sér ekki eðlilegar skýringar, það er eðlilegur vinnugangur við útboð, stöðuveitingar eða annað sé ekki virtur.

 

Á Íslandi fengu fjórir einstaklingar dómarasæti við Landsrétt án þess að það sé nokkur rökrétt skýring á því.

Ráðherrann sem veitti þessum einstaklingum stöðurnar, reyndi fyrst að halda því fram að hún sem stjórnvald, þyrfti ekki að rökstyðja ákvörðun sína, að ákvörðunin sem slík væri rökstuðningurinn.  En þegar henni varð ljóst að slíkt bryti beint gegn lögum um góða stjórnsýslu, þá kaus hún að ljúga að þjóð og þingi, að hún hefði látið svokallaða dómarareynslu ráða þeirri ákvörðun sinni að taka fjóra einstaklinga út af lista hæfnisnefndar og skipa aðra fjóra í staðinn sem voru ekki þeim lista.

Í Ísrael hefði ríkissaksóknarinn strax séð að maðkur væri í mysunni, því þó ráðherra hefði kosið að gefa dómarareynslu aukið vægi, þá var ekkert í þeirri röksemd sem útskýrði af hverju hún í fyrsta lagi valdi þessa fjóra fram yfir þá fjóra sem urðu að víkja, sem og af hverju hún skipaði þessa fjóra einstaklinga, en ekki einhverja aðra af lista hæfnisnefndar.

Og hann hefði látið rannsaka málið og hinir sekur og hinir samseku í ríkisstjórn landsins hefðu ekkert haft um það mál að segja.

Því í Ísrael lýtur dómsvaldið ekki geðþótta ráðherra enda landið lýðræðisríki.

 

En á Íslandi er spilling stjórnmálamanna ekki rannsökuð.

Hvort sem það er vegna þess að þjóðin er svo samdauna henni að öllum finnist að þetta eigi bara vera svona, og ef lög eru brotin, þá eigi að breyta lögunum.

Eða vegna þess að réttarkerfið er undir hælnum á spilltum stjórnmálamönnum og það þori ekki að aðhafast, er ekki gott að segja.

Allavega, þá virkar það ekki.

 

Það virkar í löndum eins og Suður Afríku þar sem nýbúið er að setja forsetann af, í Suður Kóreu þar sem fyrrverandi forseti á yfir höfði sér þungan fangelsisdóm vegna spillingar, í Brasilíu hrökklaðist forseti nýlega úr embætti vegna fyrrigreiðslna sem áttu sér ekki skýringar og núna í Ísrael.

En ekki á Íslandi.

Hér sitja spilltir dómarar sem fastast, hér situr spilltur dómsmálaráðherra sem fastast.

Kemst upp með geðþótta sinn án þess að hann er rannsakaður, kemst upp með að ljúga að þjóð og þingi

 

Það eru til margar leiðir til að endurgjalda greiðasemi spilltra stjórnmálamanna.

Í Ísrael voru notaðar gjafir, í öðrum löndum er greitt inná leynireikninga, sum staðar fá vinir og vandamenn viðskiptasamninga uppí hendurnar, eða góð störf án þess að hafa nokkuð til brunns að bera til að geta sinnt þeim, skólavist barna er borguð eins og var afhjúpað í Svíþjóð fyrir nokkrum árum síðan, og svo framvegis.

En greiðasemi er aldrei einhliða, hana þarf alltaf að gjalda.

Ekki alltaf með verðmætum, stundum er aðeins ætlast til stuðnings.

Sem til dæmis er grafalvarlegt mál þegar um dómara er að ræða.

 

En allt þetta er víst í útlöndum.

Hér er ekkert rannsakað.

Hér segir hinn spillti ráðherra að hún njóti stuðnings meirihluta þings.

Og formaður flokks hennar hæðist að umræðunni, og reyndar ekki í fyrsta sinn.

Þá glutraði hann ríkisstjórn, en það er ekkert sem bendir til þess að hann geri það í dag.

 

Því þó ólíkt hafist siðaðar þjóðir að, þá þekkjast þær samt á að þær virða ákveðin grundvallarprinsipp um réttindi þegnanna, um sjálfstæði dómskerfisins, um hvað er leyft, og hvað ekki.

Því miður þá erum við bara ekki þeim hópi.

 

Ekki lengur.

Kveðja að austan.


mbl.is Telur sig njóta stuðnings meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. mars 2018

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 433
  • Sl. sólarhring: 540
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 1320441

Annað

  • Innlit í dag: 388
  • Innlit sl. viku: 530
  • Gestir í dag: 369
  • IP-tölur í dag: 365

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband