Línur skerpast í Sjálfstæðisflokknum.

 

Í fyrsta viðtali sínu sem utanríkisráðherra lagði Guðlaugur Þór Þórðarson ofuráherslu á mikilvægi EES samningsins fyrir íslenskt þjóðfélag og kvað þann nýlendusamning vera hornstein í utanríkistefnu þjóðarinnar, jafnt nú sem fyrr.

Og vart má hann mæla án þess að koma að hinu meinta mikilvægi EES samstarfsins, nema eitthvað hefur útganga Breta úr ESB truflað þá mærð, og eitthvað virðist skipta máli að ná tvíhliða samningum við Breta, svona eins og EES samningurinn leyfir.

 

Við annan tón kveður hjá formanni flokksins í umræðum á Alþingi um nýjustu lögin sem hjálendan þarf að samþykkja, lög um afleiðuviðskipti, eða hvað þetta frelsi auðsins til að ræna og rupla venjulegt fólk heitir.

Og það verður að segjast eins og er að skarpur er Bjarni í þessum orðum sínum;

"Bjarni sagði Íslend­inga standa ít­rekað frammi fyr­ir því „í hverju mál­inu á eft­ir öðru, það er nán­ast orðinn ár­leg­ur viðburður, að Evr­ópu­sam­bandið krefst þess þegar við tök­um upp Evr­ópu­gerðir, til­skip­an­ir eða reglu­gerðir, að við Íslend­ing­ar fell­um okk­ur við að sæta boðvaldi, úr­slita­valdi, sekt­ar­ákvörðunum eða með öðrum hætti skip­un­um frá alþjóðastofn­un­um sem Evr­ópu­sam­bandið hef­ur komið sér upp en við eig­um enga aðild að.“".

Að sæta boðvaldi, úrslitavaldi og sektarákvörðunum er bein lýsing á sambandi hjálendu við yfirþjóð, svona líkt og mörg sjálfstæð ríki á dögum Rómverja þurftu að lúta, meint verndarríki Frakka á dögum Napóleons eða staða Austur Evrópu ríkja gagnvart Sovétríkjum á dögum Stalíns.

 

Það þarf kjark að mæla þessi orð og vera á sama tíma formaður Sjálfstæðisflokksins.

En það er líka ljótt að ljúga, sérstaklega að sjálfum sér eins og allur sá hópur í Sjálfstæðisflokknum sem segist berjast gegn aðild að Evrópusambandinu en er á sama tíma ákaflega fylgjandi EES samningnum.  Því EES samningurinn er í raun aðild án áhrifa, þó samlögun ágreiningsmála er látin ganga yfir hægt og hljótt, þar til jafnvel nákvæmasta rafeindasmásjá sér ekki muninn á löggjöf Íslands og löggjöf ESB.

 

Að lúta boðvaldi, að lúta úrslitavaldi, að sæta sektarákvörðunum.

Slíkt gerir aldrei sjálfstæð þjóð, en hjálendur, fylgdarríki sem eru sjálfstæð að nafninu til, gera slíkt.

Enda hafa þau verra af.

 

Þessi orð Bjarna staðfesta að það eru átakalínur í Sjálfstæðisflokknum, og það mun draga til tíðinda í flokknum, svona um það bil þegar Sigríður Andersen hrökklast úr embætti, og þá verður sótt að formanni flokksins.

Tími hefndarinnar, frá því að gengið var framhjá Guðlaugi við skipan innanríkisráðherra eftir afsögn Hönnu Birnu, mun renna upp.

 

Það er engin tilviljun að Guðlaugur sagðist i viðtali við Mbl.is að hann hygðist ekki á formannsframboð, hann væri ánægður með það sem hann hefði í dag.

Á mannamáli, það er þegar svona stjórnmálaorðavaðall er settur í þýðanda, þá segist hann vera að hugleiða framboð, aðeins eigi eftir að meta styrkinn.

Enda í næstu málsgrein réðist hann óbeint að Bjarna með því að kalla vandað stjórnarfrumvarp Ólafar Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, um dómstóla hafi verið meingallað hvað varðar skipan dómara.

Ólöf sat í skjóli Bjarna, og núna þegar hún er fallin frá þá situr hún undir þessu ámæli frá manninum sem ætlar ekki að hjóla í formanninn í bili, "Þeir sem skoða ferlið og lagaum­hverfið kom­ist að því að þar þurfi að gera breyt­ing­ar. „Þannig að við þurf­um ekki að vera að deila um það í hvert skipti,". Og síðan; "„Málið snýr að því hvernig við skip­um dóm­ara og það er stór­mál.“ Það varði lög­mæti dóm­stóls­ins sjálfs."

Með öðrum orðum þá er klúðrið það mikið að sjálft lögmæti dómstólsins er undir.

Og Bjarni kemur henni ekki til varnar.

 

En hann brýnir kutann.

Og ætlar greinilega að sækja að Guðlaugi í gegnum ágalla EES samningsins, sem hann lýsir réttilega sem nýlendusambandi.

Sigríður fellur, það er öruggt, ekki vegna meintra handabakavinnubragða Ólafar, því það eru öfugmæli, frumvarp hennar er skýrt og vel fram sett, og enginn vafi í ferlinu um hvernig dómnefnd átti að meta hæfni umsækjenda svo ákvæði stjórnsýslulaga um að hæfustu umsækjendur yrðu skipaðir dómarar við hið nýja dómstig, heldur vegna þess að núverandi ráðherra hélt að hún hefði styrk til að brjóta lögin og flokksskipa í sum dómarasætin.

Lögbrot kasta aldrei rýrð á lög, ekki nema að um óréttlát lög sé að ræða.

Og það er ekkert óréttlæti í því fólgið að hæfni sé látin ráða skipan í stöður dómara, en ekki flokks og vinartengsl við þann einstakling sem gegnir stöðu dómsmálaráðherra í það og það skiptið.

 

Sigríður fellur og aðeins hörðustu Trumpsitar sem hafa gert það að lífsskoðun sinni að ala á staðleysum og afneita staðreyndum trúa Vörnum Valhallar um að Sigríður sé fórnarlamb sjálfskipaðar lögfræði- og dómaraklíku.

Bjarni er tilbúinn þeirri orrahríð sem mun fylgja falli hennar, þegar dvergarnir skríða úr skúmaskotum sínum.

Hann skerpir línurnar og býr sig undir átök.

 

En á meðan það má ekki viðurkenna það.

Þá halda menn áfram að skamma Albaníu.

Kveðja að austan.


mbl.is Vegið að grunnstoðum EES-samningsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálftaka, taka 2.

 

Það skýrist með hverjum deginum af hverju Samtryggingarflokkurinn lagði aðeins höfuðáherslu á eitt í síðustu stjórnarmyndunarviðræðum, sem var að halda Miðflokki Sigmund Davíðs fyrir utan öll hugsanleg stjórnarmynstur.

Og af hverju svona miklu hefur verið kostað til að rægja hann niður, að ekki sé minnst hve margir stukku á hann eftir að hann var veiddur í gildru í Wintris málinu.  Segir allt sem segja þarf að Sigmundur var veiddur, á meðan Bjarna Ben var leiddur framhjá gildrunum, og hvernig Bjarni launaði þann greiða.

Því hvað sem sagt verður um Sigmund, þá er það ljóst að hann hóf stjórnmálaferil sinn með því að lýsa yfir stríði við hrægamma, bæði innlenda og erlenda, og þó einhverjir á einhverjum tímapunkti tóku undir hluta málflutnings hans, að þá er Sigmundur sá eini sem hefur alltaf haldið sig við vopn sín.

Enda mest rægði stjórnmálamaður landsins í dag.

 

Allt frá því að Bjarni launaði greiðann með dyggri aðstoð Sigurðar Inga þá hefur Sigmundur ítrekað varað við sjálftökunni, varað við hvað myndi gerast ef hrægammar, innlendir sem erlendir, réðu Arion banka.

Það er kaldhæðnislegt að núna skuli vera í ríkisstjórn, flokkurinn sem afhenti hrægömmunum upphaflega nýju bankana, flokksbrotið sem lýtur stjórn þess sem sveik, og flokkurinn þar sem formaðurinn launaði greiðann.

Svona í ljósi allra tilrauna kjósenda til að kjósa sjálftökuliðið burt.

 

Og núna þegar Taka 2 er að hefjast, þá skýrist kannski betur hið þegjandi samþykki á geðþóttaskipan Sigríðar Andersen í Landsrétt.

Atburðasmiðir hins  skítuga fjármagns hugsa marga leiki fram í tímann, og full yfirráð yfir dómstólum er hluti af þeirri leikfléttu, að þó þjóðin rumski við sér og kjósi loks sjálftökuna burt, að þá verði hún að sætta sig við orðin hlut.

Þetta er lærdómurinn af dómi Hæstaréttar í gengislánunum. 

Rangt skipaður dómur getur verið dýr fyrir auðinn.

Og skýrir líka allan þann óhroða sem yfir Hæstarétt hefur gengið síðan, svo jafnvel hinir vammlausustu íhaldsmenn, sem er næstum því í blóð borið að standa með stofnunum hins borgaralegs þjóðfélags, tortryggja réttinn.

 

Það er þannig að þegar horft er yfir margar sprænur, sem spretta upp hér og þar, og virðast renna til margra átta, að erfitt er að átta sig á samhengi þeirra.

En þegar horft er yfir ósinn, og séð að þær renna allar þangað, þá þarf ekki lengur að velkjast í vafanum.

 

Við unnum aðeins stundarsigur.

En við erum að tapa stríðinu.

Fyrir liðinu sem trallar daginn út og daginn inn.

 

Rænum og ruplum.

Kveðja að austan.


mbl.is Greiðir tugi milljarða til hluthafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mogginn og viðtalið við nakta keisarinn.

 

Það er af sem áður var að dyggir lesendur Morgunblaðsins gátu treyst fréttaskýringum blaðsins um brennimál samtímans.  Þar sem staðreyndir voru reifaðar, farið yfir álitamál, sjónarmið kynnt og eftir lestur var lesandinn miklu nær um hvað málin snérust.  

Þessi frétt Mbl.is er líkt og blaðamaður hefði sest við leitarvél, og sett síðan niðurstöðu í blandara, þannig að það er varla ljóst hvað hann er að gefa í skyn, að hverju hann er að dylgja.

Mogganum virðist vera fyrirmunað að segja frá þeim lögum sem gilda um skipan dómara, og af hverju Sigríður var dæmd fyrir brot á þeim lögum.

Fréttamennska blaðsins er á því stigi að hún þjónar ekki lesendum blaðsins, heldur einhverjum hagsmunum sem pólitískir ritstjórar blaðsins setja á oddinn. 

Af sem áður var.

 

Flestir sem eru komnir til vits og ára, hafa annað hvort lesið, eða hlustað á ævintýri H.C.Andersen um Nýju föt keisarans.  En ævintýrið fjallar um tvo svikahrappa sem ná til að blekkja keisara einn um að ganga um alsnakinn og enginn þorir að segja keisaranum að hann sé ekki í fötum, fyrr en lítil stúlka segir í mannmergðinni, "Nei, hann er ekki í neinum fötum".

En það sem fáir kannski hugsa út í er að þetta ævintýri er ekki ádeila á þá sem láta blekkjast, heldur á þá tíma, samtíma H.C.Andersen, þar sem einvaldurinn hafði það vald að enginn þorði gegn honum.  Það þurfti litla stúlku til að segja sannleikann.  Sannleikann sem öllum var ljós, en fólk óttaðist kárínurnar ef það léti hann uppi.

Nema blaðamenn Morgunblaðsins, hefðu þeir verið á svæðinu.  Þeir hefðu trúað, því þeir gera ekki greinarmun á orðum, því sem er sagt, og raunveruleikanum, því sem er.

Þeir hefðu tekið viðtal við keisarann, og spurt, "eru fötin þín litrík og samkvæmt nýjustu tísku, við sjáum þau ekki alveg, þú þarft að segja okkur frá þeim".  Og þeir hefðu ekkert skilið í orðum stúlkunnar, og ef keisarinn hefði ítrekað fyrri skoðun sína um að hann væri í fötum, þá myndi fréttaskýring þeirra ekki fjalla um afhjúpun stúlkunnar, heldur ítrekað að keisarinn væri í fötum, og þau væru svona og svona samkvæmt lýsingum hans.

 

Það hefði líka verið auðvelt að vera dómsmálaráðherra sem hefði skipað í víkingasveitina eftir tillögu ríkislögreglustjóra, en ríkislögreglustjóri hefði farið eftir niðurstöðu inntökuprófs þar sem bæði líkamlegt og andlegt atgervi umsækjenda hefði verið kannað, ásamt þekking á þeirri sérkunnáttu sem gerð væri til sveitarmanna.

Og dómsmálaráðherra hefði farið eftir tillögu lögreglustjóra um skipan í hinar 15 stöður, nema hann hefði tekið út 4 og sett aðra 4 í staðinn, sem vissulega náðu inntökuprófinu, en fengu lægri einkunnir en þeir sem ríkislögreglustjóri mælti með.

Rök ráðherra þau að hann hefði viljað að gamalt skilyrði um lágmarkshæð lögreglumanna hefði verið haft til hliðsjónar, því hefði hannún miðað við lágmarks hæð 185cm.

Reyndar smá tæknilegur vandi við það vel rökstudda sjónarmið ráðherra, að aðeins 1 af 4 sem hún lét víkja var undir 185 cm, og aðeins 2 af 4 sem hún skipaði yfir þeirri hæð, en engu að síður vel rökstutt.

 

Þá hefði Morgunblaðið verið haukur í horni, allavega ef viðkomandi ráðherra hefði verið í Sjálfstæðisflokknum, og bent á að þó ráðherra hefði fengið dóm fyrir brot á stjórnsýslulögum að tilnefna ekki hæfustu einstaklingana, þá hefði hún rökstutt ákvörðun sína með því að vísa í lágmarkshæð 185 cm.  Og samkvæmt lögum mætti hún tilnefna aðra en þá sem ríkislögreglustjóri legði til. 

Og síðan hefði blaðið eytt orku sinni í að finna eitthvað misjafnt á ríkislögreglustjóra, hann gæti verið grunsamlegur, til dæmis hefði hann spilað badminton við föður eins af þeim sem hann mælti með.  Svo þetta líka með þá sem sömdu inntökuprófið, voru þeir ekki hlutdrægir?  Það er til dæmis skjalfest að þeir lögðu til við ríkislögreglustjóra að enginn ætti að komast í víkingasveitina nema hafa til þess fjölþætta hæfni.  Vildu þeir bara ekki ráða þessu með því að leggja til inntökupróf, sem þeir sjálfir síðan sömdu???

Ha!!, er þetta allt ekki tortryggilegt?  Eru lögin um inntökuprófið ekki bara meingölluð?? Ha!!  Ráðherra rökstuddi val sitt ítarlega, hún sagist vilja taka til hæð umsækjenda, og lagði til 185 cm í því tilviki??

Hvert er málið??

 

Já, það er af sem áður var þegar Morgunblaðið dró skil á milli pólitískrar stefnu blaðsins og almenns fréttaflutnings.

Og hægt var að treysta fréttaskýringum blaðsins.

Það er eins og blaðið telji sig ekki lengur þurfa á fjölbreytum hópi lesenda að halda, heldur skuli það vera þröngt flokksblað líkt og Þjóðviljinn forðum.

Og líkt og Þjóðviljinn forðum sem var sannarlega fjármagnaður af Kremlarvaldinu, átti það til að veitast að stofnunum lýðveldisins, þegar slíkt var talið í þágu Bóndans í Kreml, þá ræðst Morgunblaðið að hætti enskra götublaða á dómstóla og dómarastéttina.

Gerir þeim upp annarleg sjónarmið fyrir það eitt að dæma eftir lögum sem Alþingi setur og að gera kröfu til um að fagleg sjónarmið ráði skipan  dómara, ekki pólitískur geðþótti.

 

Mogganum er í lófa lagið að útskýra dóm Hæstaréttar, hvað lög hann vitnar í, og hvert eðlis brot ráðherra er.

Eins ætti það að vera ákaflega auðvelt, að þótt Sigríður hafi verið dæmd fyrir að vinna ekki heimavinnuna sína, að nýta rök hennar til að sýna framá af hverju þeir 4 sem voru látnir víkja, viku, og þeir 4 sem komu inn, voru teknir fram yfir, í fyrsta lagi þá 4 á lista dómnefndar sem var hafnað, sem og hina 18 umsækjendur sem eftir voru á lista hæfnisnefndar.

Það liggur í orðinu "rökstuðningur ráðherra" að það sé hægt að reikna út.

 

Og af hverju er það ekki gert??

Er það kannski ekki vegna þess að það er ekki hægt??

Og því betra að dylgja um þá sem ráðherra skipaði í dómnefndina, sem og aðra sem á einhvern hátt tengjast hinu opinbera nefndarkerfi, eða hafa orðið það á að tengjast Hæstarétti.

 

Ég hef lesið Morgunblaðið frá 10 ára aldri.

Ég man ekki öðrum eins ósóma í fréttaflutningi blaðsins.

 

Það er eins og DV sé ennþá meðal vor.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Mælti gegn valdi ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. febrúar 2018

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 532
  • Sl. viku: 715
  • Frá upphafi: 1320562

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 625
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband