Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá.

 

Eitthvað svona hljómaði gömul auglýsing með Silla og Valda, sem voru kaupmenn sem áttu nokkrar búðir í bænum um og uppúr miðja síðustu öld.

Svona hljómur úr minni barnæskunnar.

 

Ég las bloggpistil eftir Jón Magnússon lögmann þar sem hann spurði hvað hefði Ólafur Thors gert og vísar þá í þekkta sögu af Ólafi.  Frábær pistill, og ég ætla að leyfa mér að gerast ritþjófur og vísa í hann;

 

"Einhvernveginn virðist nú sem tímar fyrirgefningar og umburðarlyndis séu liðnir í íslensku samfélagi og hver og einn reynir að slá pólitískar keilur vegna vanhugsaðra óhæfuorða tveggja þingmanna á Klausturbar og krefjast þess að allir sem viðstaddir voru orðræðu þeirra segi af sér þingmennsku. Mér er sem ég sjái Ólaf Thors upplifa þessa orðræðu. Af framangreindri sögu mætti e.t.v. ráða að honum hefði brugðið við að sjá hvers konar fólk situr á Alþingi í dag og hvernig þjóðfélagið hefur þróast.".

 

Á þessum tíma þekktust menn ekki bara af ávöxtunum frá Silla og Valda.

Menn þekktust líka af gjörðum sínum.

 

Og stundum náðust gjörðir manna á ljósmynd.

Það er þekkt mynd frá fjórða áratug síðustu aldar þar sem fasismi múgæsingarnar hafði grafið um sig, og já hann var ekki femínískur en fasismi engu að síður, að einstaklingur lyfti ekki upp hendinni í eins og fjöldinn sem samsinnti foringja sínum.  Myndin var hlerun þessa tíma og viðkomandi fékk kárínur fyrir, man samt ekki hvort það kostaði hann lífið.

En umburðarlyndi múgsins og fasismans var ekkert.

Samt held ég að flestir myndu segja í dag að viðkomandi hafi verið siðferðislega sterkari en fjöldinn sem sagði Heil.  En það er í ljósi sögunnar, ekki víst hvað velunnarar múgæsingarinnar hefðu sagt ef þeir hefðu ekki þekkt endinn, aðeins augnablikið þar sem maðurinn neitaði að spila með. 

Munum að þarna taldi fjöldinn sig hafa rétt fyrir sér.

 

Og það er ekki þannig að fjöldinn hafi alltaf rangt fyrri sér, þó hann í múgæsingarfasa sé.

Það er hægt að deila um réttmæti hlerunar, en sori kjörinna fulltrúa almennings á samt erindi út fyrir upptökutækið.  Sumt er bara það eðlis að það er ekki hægt að þegja yfir því.

 

En það vekur aftur spurningu um sekt eða sakleysi, og þá er einnig gott að hafa í huga að af ávöxtunum skulið þér þekkja þá.

Ég er nýbúinn að fletta gömlum Mogga á Tímarit.is frá því um 1975 til 1980, og satt að segja var margt ekki félegt í fréttum þeirra tíma.  Líklegast sú ömurlegasta af mörgum ömurlegum, var frásögn manns sem lék sig dauðan og náði þannig að lifa af fjöldaaftöku Rauða Khemra í Kambódíu.  Hann var fyrrum hermaður, og þegar það uppgötvaðist, þá var ekki bara hann fluttur út í skóg, heldur kona hans og börn.  Þeim var sko ekki treystandi, sekt eins leiddi til meintar sektar annarra sem aðeins ofstækisfyllsti hugur sá tengsl í.

Í þessu dæmi sjá margir aðeins viðbjóðinn, en aðrir sjá miklu dýpri illsku, þá að allir sem tengjast hinum meinta seka, séu jafnsekir.

Svipað ofstæki og vænisýki sem er ennþá í fullu gildi í Norður Kóreu, þar ekki er bara fjölskylda meintra glæpamanna, sem til dæmis hafa efast um guðlega leiðsögn Kim Il sung, eða hvað sem viðbjóðurinn heitir, send í fangabúðir, refsingin nær líka til næstu kynslóðar, börn sem fæðast í fangabúðunum er líka jafn sek.

 

Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá, og það væri skömm að bera slíkt uppá þá múgæsingu sem hið hleraða fyllerísröfl á Klausturbarnum ól af sér. 

Hún krefst reyndar samsektar þeirra sem hlýddu á, en allavega ennþá hafa fjölskyldur viðkomandi ekki lent í fordæmingu múgsins.  Og þar með reynir ekki á útskúfun næstu kynslóðar.

 

Svo þessar hugleiðingar séu dregnar saman, þá gæti ofstæki dagsins í dag verið verra, en það voru líka tímar þar sem fordæming múgæsingarinnar var litin hornauga. 

Og beiðni um fyrirgefningu ásamt loforði um betrun var einhvers metin.

Samt ekki í öllum samfélögum, fasisminn krafðist til dæmis algjörrar undirgefni, og hann fyrirgaf ekki.

 

Þá þekktust ávextirnir á þeim sem þorðu að andæfa.  Sem voru ekki hluti af hinni heilalausu hjörð.

Og þegar fasisminn var gerður upp, þá var þetta sjálfstæði, að vilja ekki tilheyra hinum öskrandi múg, upphaf af sjálfsmynd brotinnar þjóðar.

Það voru ekki allir sem tóku þátt.

Það voru ekki allir samdauna.

 

Við sem þjóð upplifum fordæmingu hópsálarinnar.

Eitthvað var það sem hreyfði við okkur, og mikið mættum við vera firrt ef orðræðan á Klausturbarnum hefði ekki ofboðið og hneykslað okkur.

En það afsakar samt ekki múgæsinguna og þá fordæmingu sem fylgdi í kjölfarið. 

Og hún var knúin áfram af annarlegum hagsmunum pólitískra andstæðinga sem og skinhelgi fólks sem kann ekki annan sið en að benda á aðra, og fordæma.

Það var ekkert fallegt við orðræðu Klausturbarsins, en hún var ekki opinber, og það var mjög misjafnt hvað lagt var til hennar.

 

En ef allt er sett undir sama hatt, þá vitum við aldrei hvenær við endum útí skógi, ef fordæmingin fær að bíta í litla fingur, þá er öruggt að hún reynir í kjölfarið að éta allt og alla.  Spyrjið bara söguna, spyrjið bara fallöxina sem að lokum fékk þá sem í upphafi töldu sig svo skinheilaga að þeir gátu sent aðra í hana.

Það er nefnilega aðeins eitt ráð við fasisma.

Sem er að kæfa hann strax í upphafi.

Því hann er eins og svarti dauði, ef hann fær að festa rætur, þá fær hann ekkert stöðvað.

 

Að ávöxtunum skulið þið þekkjast.

Sem er vísan í að gjörðir okkar en ekki orð, lýsa okkar innri manni.

 

Sóðaorðræða beiskra fullra manna, var bara sóðaorðræða beiskra fullra manna.

Kannski vísbending, en segir í raun ekkert um manninn.

Hinsvegar eru það athafnir, hvort sem þær eru í kjölfar orða eða annað, sem segja allt.

 

Svo ég vitni aftur í söguna, þá boðaði nasisminn heift og hatur, og heift og hatur fylgdi í kjölfarið.

Kommúnisminn boðaði frelsi, jafnrétti og bræðralag, samt skaut hann konur og börn fyrir þær einu sakir að eiginmaðurinn, faðirinn hafði verið hermaður lögmætra stjórnvalda.  Að ekki sé minnst á öll hin voðaverkin.

 

Við sem þjóð fengum prófraun.

Og við féllum ekki einu sinni með fjóra komma fimm.

 

Sem þjóð höfum við misst okkur.

Og sem þjóð eigum við að skammast okkar.

 

Það er sama hvað við reynum að réttlæta hegðun okkar.

Hún einfaldlega afhjúpaði okkur.

 

Því af ávöxtunum skulið þér þekkjast.

Kveðja að austan.


mbl.is Klaustursmálið: Atburðarásin frá upphafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að baki sóknarfjárlaga er ofbeldi og lygar.

 

Lygarnar snúa að loforðum sem sannarlega voru sett fram fyrir síðustu kosningar, og þar síðustu kosningar, eða þar, þar síðustu kosningar.  Eða hvað er langt síðan Bjarni sendi út sitt fræga bréf um leiðréttingu á skerðingu á kjörum aldraða, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir taldi sér skylt að gera samkvæmt samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn??

Og hvað sagði Katrín um svona fjárlög þegar hún var í stjórnarandstöðu???

Sóknarfjárlög???

Var hún alltaf að hrósa Bjarna??

 

Nei, en ef hún segir satt í dag, þá hefur hún logið assskoti miklu þegar þar síðustu fjárlög voru samþykkt, og reyndar öll fjárlög frá því að snati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lagði fram sín síðustu fjárlög í desember 2012.

Og ef einhver reynir að afsaka lygarnar, þá má benda á að það eina sem hægt er að deila um, er hvort hagnaður bankastofnana frá Hruni hafi verið 750 milljarðar, eða 800 milljarðar.  Deilan snýst um hvað á að skilgreina sem bankastofnun, eða eitthvað annað.

Fjármagnið er sannarlega til, en það hefur ekki farið í innviði þjóðarinnar eða til að tryggja mannsæmandi kjör bótaþega.  Þau mannsæmandi að eiga þak yfir höfuð og mat á diskinn.

 

Ofbeldið er síðan sú fátækragildra sem fötluðum, öryrkjum og öðrum bótaþegum er haldið í.

Að eiga ekki mat í þjóðfélagi alsnægtanna þegar líða tekur á mánuðinn, eða þurfa að neita börnum sínum um næstum allt sem félagar þeirra fá, er ofbeldi.

Við erum jú þriðja ríkasta þjóð í heimi.

 

En illviljinn, að halda fólki í spennutreyju allsleysis með krónu á móti krónu skerðingunni, er ekki þessa heims.  Eða réttara sagt þess heims sem liðinn er, þar sem stjórnmálamenn, óháð flokkum, gerðu sitt besta til að efla þjóðarhag, og á sinn hátt að dreifa gæðum landsins á sanngjarnan hátt. 

Þá var ekki meira til skiptanna, en það var unnið að því hörðum höndum að auka auðlegð þjóðarinnar.  Að byggja upp, að bæta úr, að efla innviði, og dreifa gæðum líka til þeirra sem höllum fæti stóðu.

Og það eru allir flokkar á þingi samdauna, miðað við málflutninginn, þó vissulega hafi menntaði hagfræðingur Flokks fólksins ógnað innihaldsleysi upphrópana þar sem engin rök fylgdu, og öllum var ljóst að það eina sem myndi breyttast með nýjum valdhöfum væri nafnið á skiltinu sem hengt er fyrir utan skrifstofu ráðherra, svo fólki muni nafn hans þegar það knýr dyra.

En hann var víst tekinn af lífi í vikunni.

 

Og gleymum því ekki að það eina sem gerist ef mennskan skoraði illmennskuna á hólm, yrði að auk þess að gleðivísitala þjóðarinnar ykist marktækt, er að fjármunir myndu flæða um hagkerfið, og skila sér margfalt til baka.

Samanber ef þú sáir meiru, þá uppskerðu meira.

 

En þegjandi þögnin minnist ekki orði á þennan svarta blett íslenska ofgnægtaþjóðfélagsins.

Og góða fólkið út í þjóðfélaginu skynjar ekki ofbeldi á fötluðu fólki, nema ef drukknir menn hermi eftir sel.

Þá hneykslast það, ekki að það gefi ekki dauðann og djöfulinn í sína minni bræður, en hneykslan sem getur aukið völd, sem getur komið höggi á pólitíska andstæðinga, það er hneykslan sem drífur orðræðu þess áfram.

Það er ekki einu sinni skinheilagt, eða hræsnisfullt, aðeins valdagráðugt.

 

Það er dansað í Hruna, það er dansað í Valhöll.

Ábyrg fjárlög voru afgreidd.

Og á sinn hátt er það rétt að í þeim er margt gott.

Þjóðin fær ennþá brauðmola.

 

Elítan telur sig örugga.

Hún stjórnar umræðunni með því að fóðra múgæsinguna.

Brauð og leikar þar sem hið tilbúna hneyksli er skylmingarþræll nútímans.

 

Hún hefur rétt fyrir sér í dag.

Og það er ekkert sem bendir til þess að það breytist á morgun.

 

En það mun breytast einn daginn.

Það eru nefnilega fleiri sem hristu hausinn en gjömmuðu á netinu.

 

Fólk er nefnilega ekki fífl.

Kveðja að austan.


mbl.is Ábyrg sóknarfjárlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Liðkað fyrir spákaupmennsku.

 

Fyllerísröfl tveggja þingmanna á bar í Reykjavík heltekur íslenska þjóðmálaumræðu og hefur þegar haft víðtækar afleiðingar.

Kjarabarátta láglaunafólks er horfin úr umræðunni, réttmætar kröfur öryrkja og aldraða um afnám frjálshyggjunnar kennda við krónu á móti krónu skerðingu hvarf eins og döggin á hlýjum sólardegi, trúverðugleiki þjóðarinnar í jafnréttismálum hefur beðið hnekki á þingi alþjóðasambands verkalýðsfélaga, reyndar að sögn formanns ASÍ sem fagnar því örugglega að hafa ekki þurft að svara spurningum um hvernig hún sem meint rótæk manneskja getur stutt þrælakerfi í þágu fjármagns sem íslenska verðtryggingin er  og ....

Eini maðurinn í stjórnarandstöðunni sem hefur menntun og þekkingu til að berjast við auðstjórnina, hrakinn úr fjármálanefnd.

 

Og svo dúkka upp svona frumvarp eins og sagt er frá í þessari frétt.

Hið tilbúna fall krónunnar (langt um fram efnahagslegar forsendur) hefur ekki barið róttæka hluta verkalýðshreyfingarinnar nógu mikið til hlýðni, svo nú á að veikja hana ennþá meir með því að hleypa restinni af aflandskrónum út úr landi, með tilheyrandi veikingu krónunnar.

Öfugmælin eru síðan að það séu efnahagslegar forsendur fyrir því núna, einmitt þegar krónan er í frjálsu falli og enginn veit hvernig fer með Wow air.  En þegar klámtal stjórnar umræðu heillar þjóðar, þá er hægt að segja hvað sem er.

Það þarf aðeins að fóðra bullukollana.

 

En þetta er samt ekki hið grafalvarlega í þessu frumvarpi.

Í fréttinni segir; "Telja stjórn­völd þetta fyr­ir­komu­lag meðal ann­ars hafa gert ann­ars áhuga­söm­um fjár­fest­um erfitt fyr­ir að fjár­festa hér á landi, þar sem ein­hverj­um fjár­fest­um er óheim­ilt að fjár­festa ef ekki er hægt að losa fjár­fest­ing­una hvenær sem er.".

Með öðrum orðum það er verið að opna fyrir spákaupmennsku með íslensku krónuna.

Í sama frumvarpi og það er verið að vinna úr díki þeirrar síðustu.

2007 gjörið svo vel.

 

Já, það er ekki flókið að spila með eina þjóð.

Kveðja að austan.


mbl.is Frekari liðkun á fjármagnshöftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kona, fötluð, samkynhneigð.

 

Vantar aðeins að hún sé svart tökubarn sem hefði verið lögð í einelti í æsku og glímt við áfallastreituröskun.

Þá hefði myndin af uppljóstraranum tikkaði við alla þekkta minnihlutahópa sem enginn þorir að vera vondur við. 

Sá sem plantar lætur uppljóstra sinn allavega ekki vera hvítan miðaldra gagnkynhneigðan karlmann.  Það sleppur ekki heldur að hafa hann ungan miðaldra gagnkynhneigðan karlmann, því þeir verða alltaf miðaldra, fyrr eða síðar.

Því það mega nefnilega allir vera vondir við svoleiðis hyski.

 

Mig langar að rifja upp sögu utan úr hinum stóra heimi.

Þegar John Kerry, sannarlega stríðshetja frá Víetnam, keppti við Georg Bush yngri, sannarlega ekki stríðshetju frá Víetnam, þá þótti það ekki gott vegna þess að markhópur þess yngri var fólk sem var líklegra til að kjósa stríðshetju frekar en náunga sem var það ekki.

Þess vegna dúkkuðu alltí einu upp auglýsingar af fötluðum mönnum, einfættir við tréhækjur, eða með hvorugan fótinn keyrandi um í hjólastól, og þeir sögðu að John Kerry hefði ekki verið stríðshetja, hann hefði bara verið þarna í Víetnam, og til vara, ef hann tók þátt í bardögum, þá var hann lélegur foringi, og til vara vara, þá var hann huglaus og forðaðist bardaga.  Þeir sögðust reyndar sumir hafa verið undir stjórn hans og vissu þetta frá fyrstu hendi, "he was a coward" sögðu þeir í myndavélina, en því var reyndar breytt þegar menn sem sannarlega höfðu verið með Kerry í Víetnam, sögðust ekkert kannast við þessa náunga, þó þeir hefðu örugglega barist í sama stríði.

Samtök uppgjafahermanna voru sögð standa fyrir þessum auglýsingum, samtök sem voru svo fjárvana að þau gátu ekki splæst kaffi á fundi. 

Þessar auglýsingar virkuðu.  Hver trúir ekki bækluðum stríðshetjum?  Gallinn var bara sá að þær voru tilbúningur, afurð almannatenglafyrirtækis sem plantaði þeim inní umræðuna.

Og mér er ennþá minnistætt þegar ég horfði á þátt í 60 mínútum á Stöð 2, reyndar fyrir daga falsfjölmiðla, þegar staðreyndir málsins voru raktar, og bornar undir formann þessara samtaka uppgjafahermanna, þá yppti hann aðeins öxlum og sagði, hermennirnir voru ekki feik, og við erum fjárvana samtök.  Reyndar eftir minni, en meiningin komst til skila, það þurfa allir að bjarga sér.

 

Ég er einn af þeim sem efaðist ekki í eina sekúndu um tilurð hlerunarinnar og trúverðugleika Stundarinnar.

En í dag þá glotti ég bara þegar fötluð samkynhneigð kona dúkkar upp og segist hafa heyrt menn tala um að ríða einhverjum skrokkum.

Þetta getur alveg verið satt.

En það þarf ekki að vera það í eina mínútu.

 

Þegar sök er klínt á vammlaust fólk.

Þegar pólitískir loddarar nýta sér alvarleika ummæla tveggja einstaklinga í prívatsamkvæmi til að vega að þingræðinu og öll atburðarrásin ber þess merki að hún sé stýrð, þá er full ástæða til að staldra við.

Og efast.

 

Og þeim fer fjölgandi sem það gera.

Því þó þeir sem spila með okkur líti á okkur sem fífl, og það erum við sjálfsagt öll á einhverjum tímapunkti.

Þá erum við það ekki öll, alltaf.

 

Og í þessari múgæsingu fer þeim ört fækkandi.

Kveðja að austan.


mbl.is „Ég er þessi Marvin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fræðin og almannarómur.

 

Á tímum þegar kjarni mála týnist i upphrópunum múgæsaranna, þá er gott að geta hlustað á raddir fræðanna sem vega og meta atburði og setja þá í samhengi, draga upp heildarmynd og ekki hvað síst, fjarlægja leiktjöld lýðskrums og hagsmuna þeirra sem nýta sér svona atburði sjálfum sér til framdráttar.

Ólafs vegna vona ég að Mogginn hafi afskræmt orð hans, að blaðið vilji ekki vera "minni menn" en hinir fjölmiðlarnir á tímum þar sem skilin milli slúðurs og frétta eru óljós í besta falli, þar sem skilin á milli fjölmiðla og samfélagsmiðla eru hverfandi.

Ólafur er jú ekki Egill Helgason.

 

En hvaða lítilsvirðing gagnvart Lilju er að tala um högg, og að hún hafi verið að höggva mann og annan??

Ristir lærdómurinn af Klausturs umræðunni ekki dýpra en þetta??

 

Í öðru lagi er ótrúlegt að sjá að stjórnmálafræðingur skuli ekki geta bent á að tilraunir pólitískra lukkuriddara til að eigna sér sviðsljósið með allskonar upphrópunum, dragi úr áhrifum svona magnaðra viðtala, sem viðtalið við Lilju Alfreðsdóttur sannarlega var. 

Þegar fjölmiðlarnir gera ekki greinarmun á falsi og ekta, hvernig er þá með fólkið sem hlustar??

Hvað hafa margir spyrt þetta viðtal við upphrópanir femínískra fasista sem héldu málþing á sama tíma til að eigna sér umræðuna, eða falsið sem vall af munni heilbrigðisráðherra sem að sögn lifir núna í stöðugum ótta um að Ólafur Ísleifsson eða Anna Kolbrún Árnadóttir eigi eftir að ráðast á sig þegar hún gengur um dimma ganga þinghússins.

Þolir kjarninn svona hismi??

 

Loks á að stjórnmálafræðingur sem vill standa undir nafni, að benda á að staða Miðflokksins sé ekki bara komin undir " hvort til sé nægj­an­lega stór hóp­ur sem finnst í lagi að þeir haldi áfram í stjórn­mál­um" eins og hann kýs að orða það, heldur einnig hve mörgum í samfélaginu sé farið að ofbjóða galdrafárið í kringum þetta sorglega mál og tjái andstöðu sína með því að segjast ætla að kjósa Miðflokkinn.

Það er nefnilega þannig að þó margir hafi fyllt torgin í galdrafárinu hinu fyrsta, og hrópað, "Burn her, burn her", að þá héldu margir sig til hlés, og eftir því að sem ofstækið kom fleirum á bálið, þá jókst hin þögla andstaða.

Það á nefnilega ekki að vanmeta vitiborið fólk.

 

En við skulum bara reikna með að Ólafur hafi sagt þetta á einhvern hátt, að hann sé enginn samfélagsgúrú, heldur fræðimaður.

Orð hans hafi hins vegar ekki hentað stefnu Morgunblaðsins í þessu máli.

Því afskræmd í trausti þess að enginn hafi hlerað samtalið.

 

Maður veit ekki.

Og jú, auðvita er ég að djóka.

Það er að Mogginn endurskrifi viðtöl.

 

Hvort ég gefi upp í Viðhorfskönnunum Gallups að ég sé hættur að kjósa kommana í Alþýðufylkingunni, hina einu sönnu rebella íslenskra stjórnmála er önnur saga.

Það þarf jú alltaf að gæta að þeim sem eru í útrýmingarhættu.

 

En ég er ekki fjöldinn, og ég er ekki viss um að allur fjöldinn haldi tryggð við gjammandi tækifærisinna sem hafa engan sens fyrir hvenær nóg er sagt, hvenær nóg er að gert.

Ekki þegar moldviðrið sjatnar.

 

Við erum nefnilega ekki öll fífl.

Kveðja að austan.


mbl.is Viðtalið við Lilju „öflugt högg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. desember 2018

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 1318297

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband