Steingrímur baðst afsökunar.

 

Loksins, og við skulum alveg fyrirgefa honum að hans fyrsta afsökunarbeiðni hafi ekki verið að biðja þá tugþúsundir samlanda okkar sem hið endurreista fjármálakerfi, á hans ábyrgð, hrakti af heimilum sínum.

Við verðum öll að skilja að það græðir enginn 600 milljarða frá Hruni, ef það er hægt að græða 750-800 milljarða.

Skítt með mæður, skítt með börn, og sannarlega hleraði enginn samræður Steingríms og Jóhönnu þar sem þau hlógu af þessum fórnarlömbum sínum.  Og þar með urðu þessir samborgarar okkar ekki fórnarlömb eins eða neins í okkar augum.

"Óráðssíupakk, kunnu ekki fótum sínum forráð, einstæðar mæður eitthvað sem héldu að þær mættu eiga sitt eigið húsnæði, láglaunapakk", allt orð sem sá les sem hefur fylgst með hugarheimi stuðningsmanna Vinstrigrænna og Samfylkingarinnar og réttlætingu þeirra. 

 

Og ekki skulum við erfa við hann að biðjast ekki afsökunar á sjálftöku þingmanna, enda vita allir sanngjarnir menn, það er fólk sem styður sína menn á þingi í gegnum þykkt og þunnt, að það var Kjararáð sem ákvað þessa sjálftöku.

Skítt með að þingmenn settu í lög formúluna sem gaf þessa niðurstöðu.

Skítt með stöðugleika, skítt með frið á vinnumarkaði.

 

Og allra síst skulum við fara fram á við Steingrím að hann biðjist afsökunar á öllum þeim sviknu loforðum sem voru forsenda þess að margir kusu núverandi stjórnarflokka.

Trúgjarnir geta sjálfum sér um kennt.

Og eitt er að ljúga í kosningum, en fyrst fara menn að ljúga ef þeir halda fram að flokkar stjórnarandstöðunnar hefðu hagað sér á einhvern annan hátt.

Menn biðjast ekki afsökunar á því sem er alsiða.

 

Nei Steingrímur baðst afsökunar á hegðun og orðalagi annarra.

Og á hann heiður skilið fyrir vikið.

Það er stórmannlegt, og lýsir innri manni sem þekkir þó ákveðin mörk sem ekki má rjúfa.

 

Það má líka telja Steingrími til tekna að taka ekki undir aðför Viðreisnar og Samfylkingarinnar að lýðræðinu.

Hann krefst ekki afsagnar þingmanna fyrir fyllerísröfl þeirra, en fordæmir orðfæri þeirra og hnykkir á að þingmenn beri ábyrgð gagnvart Alþingi og þeir þurfi að gæta að virðingu þess, jafnt í einkalífi sem og á opinberum vettvangi.

Og það er ekki bara að hann boði rannsókn, heldur líka að Alþingi leiti sér ráða. 

Og þó það sé viðurkennt að einstakir þingmenn beri ábyrgð á gjörðum sínum og orðum, að þá sé trúverðugleiki Alþingis undir því komið að tekið sé á svona málum í fullu samræmi við alvarleik þess.

Skynsamleg nálgun og líkleg til heilla fyrir þing og þjóð.

 

Og hvað sem verður um þetta Klausturmál sagt, burt séð frá því að um prívat samræður var að ræða, þar sem þurfti skýr brot á lögum Alþingis um persónuvernd, sem bannar meðal annars hlerun og aðrar árásir í einkalíf fólks, við fullorðna fólkið þurfum bara að útskýra fyrir börnum okkar að það er bannað að taka myndir og myndbönd af jafnöldrum sínum og setja á netið án leyfis, að þá er þetta í fyrsta skiptið frá Hruni sem Alþingi biðst afsökunar á einhverju.

Og þessi afsökunarbeiðni gæti verið upphaf af fleirum slíkum beiðnum.

Það gæti jafnvel hugsast að það yrði beðist afsökunar á sviknum loforðum.

 

Að ekki sé minnst á að Alþingi bæðist afsökunar á öllum þeim lífum sem hafa fallið frá Hruni því hagsmunir erlendra vogunarsjóða gengu fram yfir hagsmunum þeirra sem höllum fæti stóðu í samfélaginu.

Þingmenn eru vissulega margir en ef við deilum fjölda hinna föllnu á heildarfjölda þingmanna, þá er ljóst að hver og einn ber ábyrgð á fleiri en einum, og fleiri en tveimur með aðgerðaleysi sínum varðandi fíkn og geðheilbrigðisvanda ungmenna okkar.  Að ekki sé minnst á alla þá sem buguðust undir illmennsku og illvilja þeirra sem fengu frítt spil til að ofsækja skuldara þessa lands.

Gleymum aldrei að ekki ein tillaga um hjálp eða aðstoð  handa skuldurum í nauð, fékk brautargengi hjá Alþingi.  Gleymum því ekki heldur að samt gat illmennskan náð hærri hæðum, úti í hinum stóra heimi er nokkur dæmi þar sem valdhafar hafa verið ákærðir fyrir tilraunir til þjóðarmorðs, eða hreinlega fyrir þjóðarmorð.  Það var jú Alþingi til happs að Hæstiréttur dæmdi gengislánin ólögleg, og bjargaði þar með tugþúsundum úr snörum hinna snaróðu fjárinnheimtumanna.

Og dæmin erum mörg um að þjóðþing eða ráðamenn hafa beðist afsökunar á óhæfuverkum fyrirrenna sinna, en reyndar engin um að þeir hafi beðist afsökunar á sinni eigin óhæfu.

Svo gefum Alþingi smá tíma, 50 ár eða svo, og þetta fordæmi um afsökun, gæti þá verið tilefni til annarrar afsökunar.

 

Ætlumst samt ekki til of mikils.

Eitt er að biðjast afsökunar fyrir hönd annarra, annað er að reyna að bæta úr misjörðum þeirra.

Eða bæta úr sínum eigin misgjörðum.

 

Á meðan ekki er bætt úr krónu á móti krónu skerðingunni þá er líklegast hver einn og einasti maður á þingi, nema kannski þessu úthrópuðu úr Flokki fólksins, lygari og ber ábyrgð á langtum meiri illmennsku en nokkurn tímann felst í að hæðast að fötluðu fólki. 

En höfum ekki áhyggjur af því, góða fólkið styður þessa lygara, og fjölmiðlafólk okkar þiggur pening fyrir annað en að hjálpa fátækum samborgurum okkar í nauð.

Þingmenn okkar munu því ekki finna sig knúna til að axla ábyrgð á sínum eigin gjörðum.

Það er bara svo, og mun seint breytast.

 

En samt, Steingrímur baðst afsökunar.

Persónulega hélt ég að ég myndi aldrei lifa þann dag.

 

Svo ég segi bara.

Megi fleiri samtöl vera hleruð.

Ef það er það eina sem getur sameinað þingheim um eitthvað ærlegt.

 

Biðjum bara til guðs að það sé ekki undantekningin sem sannar regluna.

En þó er ein undantekning betri en engin.

 

Þrátt fyrir allt.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Rannsakað sem siðabrotamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt er að harma.

 

Annað er að bregðast verr við en tilefnið gefur til.

Það er til dæmis ómerkilegt hjá meirihluta stjórnar Flokki fólksins að reka þingmenn úr flokknum fyrir það eitt að sitja hluta úr kvöldi með mönnum sem kunnu tungu sinni fá siðuð mörk.

Slíkt er einfaldlega bara fasismi.

Að krefjast síðan afsagnar þeirra af sama tilefni, er einfaldlega aðför að lýðræðinu.

 

Síðan er full ástæða til að spyrja hver borgaði núna Rúv til að falsa staðreyndir og ljúga uppá fólk??

Við vitum hverjir fjármögnuðu falsflutning stofnunarinnar í ICEsave málinu, en hver hefur hag af þeim lygum að spyrða alla sexmenningana saman undir einn hatt??

Sbr. fréttaflutninginn um að sexmenningarnir sögðu þetta og sögðu hitt. Þeir gerðu þetta og gerðu hitt.  Í hádegisfréttum var til dæmis eftir mjög yfirvegað og skynsamlegt viðtal við Lilju Alfreðsdóttir, fullyrt að sexmenningarnir hefðu talað um að hefna sína á henni, og spurt af hverju??

 

Þetta er fals, rógburður eða þaðan af verra.

Verra ef einhver hefur hag af að veikja stjórnarandstöðuna, og borgar fréttamönnum fyrir þann skollaleik.

 

Það er ekki endalaust hægt að afsaka svona vinnubrögð ríkisstofnunar með þeim orðum að þetta sé hvort sem er heimskt fólk sem fengi hvergi vinnu nema hjá ríkinu.

Í öðrum löndum, sérstaklega þeim sem eru brennd af spillingu auðstéttar, þá vita menn hvað skýrir svona vinnubrögð.

Og það er tími til kominn að áttum okkur á að land okkar er hluti af alheiminum, það gilda ekki önnur lögmál hér en annars staðar.

 

Eða er það ekki?

Kveðja að austan.


mbl.is „Við hörmum öll þessa uppákomu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bætiflákar

 

Eru misjafnir eins og þeir eru margir, stundum réttmætir, stundum minna réttmætir, og jafnvel stundum ekki til staðar.

Og þeir eru misjafnir eftir sjónarhorni þess sem setur þá fram og þess sem metur þá, eftir menningarheimum, eftir stétt og stöðu, eftir stað og stund, að ekki sé minnst á tímann, það sem kannski þótti viðeigandi áður fyrr, er kannski ekki svo vel liðið í dag.

 

Þekktur bætiflákur, sem nær bæði að tjá mismunandi gildi samfélaga og hvernig hlutir breytast í tímans rás, er dómar við hinum svokölluðum ástríðumorðum í Frakklandi í gegnum tíðina.  Kokkálaður eiginmaður, sem kom að konu sinni í ástarleik með friðli sínum, var ekki talinn ábyrgur gerða sinna vegna geðshræringar og yfirleitt sýknaður eða fékk einhvern málamyndardóm sem síðan var lítt framfylgt.  Og það er ekki mjög mörg ár síðan að slíkir dómar fóru að valda almennri hneykslan.  Konum í sömu sporum nutu minni samúðar, og ef þær brugðust við ítrekuðu heimilisofbeldi með því að flýta för eiginmannsins yfir móðuna miklu, þá þóttu þær flögð hin mestu og áttu sér engar málsbætur, bætifláki þeirra var ekki til staðar.

Þar til nýlega, eftir mikil mótmæli, þá var dómur mildaður yfir konu sem skaut eiginmann sinn, því hún upplifði þær aðstæður að það var annað hvort hún eða hann. 

Með öðrum orðum, gamall bætiflákur var að minnka, nýr að myndast. 

 

Úr íslenskri umræðu er mér brennt í minni þegar Ragnar Hall, þá settur saksóknari í Guðmundar og Geirfinnsmálinu, átti þá einu vörn eftir í sjónvarpsviðtali um þetta þekktasta dómsmorð síðari tíma, að hinir dæmdu hefðu ekki verið neinir kórdrengir fyrir, og Ragnar Aðalsteinsson kom með þann bætiflák að þó það væri rétt, þá réttlætti það ekki á nokkurn hátt að klína á þá morðum.

Því þetta var alsiða á árum áður, bæði hér og annars staðar, að ef ekki annað bauðst, eða sá sem var líklegast sekur kom úr efri lögum samfélagsins, að þá var sökudólgur fundinn úr einhverjum jaðarhóp sem átti undir högg að sækja.  Var ekki Lisbeth Salender lespískur djöfladýrkandi, og eru ekki víða í Bandaríkjunum allir svartir sekir ef ekki annað betra býðst??

 

Það er gott að hafa þetta í huga þegar nýjasti bætifláki umræðunnar er krufinn, að það er ekki mjög langt síðan að menn voru taldir fyndnir er þeir gerðu grín af fötluðu fólki, og slíkt grín gerði menn svo fræga að þeir gátu byggt stjórnmálaferil á þeirri frægð. Og orðið borgarstjórar.

Bætifláki þeirra er líklegast að minnihlutahópur getur ekki talið sig fullgildan í samfélaginu nema að hann þoli að það sé gert grín af honum.  Og síðan beri grínistinn ekki ábyrgð á þeim fordómum okkar að skellihlæja við það eitt að meint fyndni byggist á því einu að fetta sig og geifla eins og viðkomandi væri fjölfatlaður.  Og sjálfsagt gengið út frá því að fjölfatlaðir séu alltaf að djóka þegar þeir geifli sig svona.  Þess á milli rétti þeir úr sér og drekki te með okkur hinum.

Og annar bætifláki fyrir viðkomandi grínara og sjónvarpsstöðina sem sýndi sketsa hans á besta útsendingartíma, er að honum skorti bara hugmyndaflug að hafa ekki hermt eftir hreyfingum sels í atriðum sínum, það hefði verið drepfyndið, og jafnvel gert honum kleyft að bjóða sig fram til forseta.  Svo ég misskiljist ekki þá er bætiflákinn hans að hann var ekki nógu góður grínari í gríni sínu á fjölfötluðu fólki, og það útskýrir að í dag höfum við bara forseta sem brást svo reiður við þegar þjóðin hafnaði ólöglegum fjárkröfum breta og Hollendinga með 97,9% atkvæða, að hann skrifaði grein þar sem hann hélt því blákalt fram að faðir minn og tengdafaðir, menn sem höfðu aldrei mátt vamm sitt vita, og alltaf staðið við sínar skuldbindingar, að þeir væru ómerkingar að greiða ekki hinar ólöglegu fjárkröfur hinna erlendu höfðingja.

Hefði þá ekki verið betra að hafa forseta sem hefði haft það hugmyndaflug að herma eftir sel í ítrekuðum grínsketsum þar sem eina grínið var að hæðast að fjölfötluðu fólki??

Veit ekki, ég kaus ekki Gnarrinn í borgarstjórn og ég kaus ekki Guðna Té til forseta enda veit ég ekki til þess að hann hafi beðið allt það fólk sem hann kallaði ómerkinga afsökunar, ekki einu sinni eftir dóm EFTA dómsins.  Hins vegar veit ég að hann fjarlægði greinina úr greinasafni sínu sem er aðgengilegt á netinu.

 

En þó tíðarandi leyfi þá er sumt ekki réttlætanlegt, og hefur aldrei verið réttlætanlegt.

Og verði þér á slíkt, hvort sem þú kemst upp með það eður ei, því ekki eru allir svo lánsamir að vera hleraðir og vaða því áfram í skít sínum og skömm, að þá reynir þú ekki að afsaka þig með einhverjum bætiflákum.

Það er til dæmis engin afsökun fyrir Gnarrinn að hann hafi verið kosinn borgarstjóri út á óverjanlegt grín sitt á fjölfötluðu fólki, eða ríkissjónvarpinu að senda út grínþætti hans með þeim rökum að hann hafi verið svo vinsæll hjá góða fólkinu.

Það er enginn bætifláki í því dæmi.

Þú hringir ekki heldur í fórnarlamb orða þinna, þegar orð þín voru eins særandi og meiðandi og uppkomst á Klausturbarnum, og segir; "sko, þetta var sko ....,", því ef þú getir ekki sagt afsakið, þetta var á allan hátt óverjandi, mér þykir þetta ofboðslega leitt, þá er betur þagað.  

Sumt er ekki afsakað, en það er hins vegar hægt að segja afsakið.

Og helst meina það.

Vonandi mun Sigmundur skilja þetta einn daginn.

 

En fyrst maður er farinn að fjalla um bætifláka, og þá skortinn á þeim, þá megum við heldur ekki sem þjóð, og sem einstaklingur, að láta slæmt fólk komast upp með að upphefja sig á kostnað þeirra sem varð hið óverjanlega á, og nýta sér það í pólitískum hráskinsleik.

Því það er einmitt svona uppákomur sem afhjúpar fólk, hvað það er í raun.

Það eru eðlilega viðbrögð að blöskra, að fordæma það sem er gert, en ærleg manneskja gerir ekki bara það, hún lítur líka inná við og spyr sig hvar henni hefur orðið á, hvar hún getur gert betur.

Slík manneskja þekkist meðal annars á því að hún er ekki fremst í flokki þeirra sem grýta hina syndugu, hún velur ekki svo auðvelda leið fyrir sína eigin syndaaflausn.

 

Ærleg manneskja spyr sig líka hvort hún sé hluti af, eða beri ábyrgð á, einhverju slæmu, einhverri fólsku, einhverju sem er ekki hægt að réttlæta, en er réttlætt með bætiflákum eins og "ég get engu breytt", "þetta hefur alltaf verið svona" eða við verðum að passa uppá fjármagnið og hina ríku.

Hún spyr sig hvort hún hafi verið sofandi, hvort það hafi verið bjálki í augum hennar.  Og hvort hún geti bætt úr.  Ef hún er á þingi.

Því ef svona atburðir hreyfa ekki við þingmönnum, hvað hreyfir þá við þeim??

 

Það er nefnilega þannig að það er ljótt að gera grín af fötluðu fólki, og það sem sagt var og gert á Klausturbarnum er óendanlega særandi.

En það er líka ljótt að halda fötluðu fólki í fátækragildru, og jafnvel við hungurmörk ef aðrar tekjur koma ekki til.

Króna á móti krónu skerðingin er dæmi um fólsku sem ekkert réttlætir.  Það er ekki bætifláki að segja að það þurfi að passa uppá auðinn, að hann þurfi fyrst að fá að sjúga sinn skerf úr hagkerfinu áður en gæðin sem eftir eru koma til skiptanna.

Og það eru allir þingmenn sekir hvað þetta varðar, þeir hafa kyngt óhæfunni.

 

Það mun reyna á þessa þingmenn í dag.

Þeir geta mætt í þingsal og slegið sig til riddara með hrópum og köllum.

Eða þeir geta mætt í þingsal og lagt fram sína afsökunarbeiðni, sinn bætiflák fyrir öll sviknu loforðin, sinn bætiflák fyrir mannvonskuna sem þeir bera beina ábyrgð á.

Þeir geta stutt frumvarp Ólafs Ísleifssonar, hins úthrópaða, um afnám krónutölu skerðingarinnar.

 

Þeir geta sýnt sitt innræti.

Það er ekki til of mikils mælst.

Kveðja að austan.


mbl.is Selahljóðin „líklega stóll að hreyfast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. desember 2018

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 1529
  • Frá upphafi: 1321537

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1304
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband