Píslarvætti Steinunnar.

 

Áður en lengra er haldið þá er það persónuleg skoðun pistlaritara að skammir við opinberar persónur eiga að vera á opinberum vettvangi, sem og að einkalíf þeirra, að því gefnu að það hefur ekki áhrif á störf þeirra eða getu til að sinna störfum sínum, sé einkalíf þeirra og sé fyrir utan hinn opinbera vettvang.

Þar að leiðir þá finnst mér ekki rétt að mótmæla við heimili fólks, hvort sem það er heimili bankastjóra, alþingismanna, eða annarra sem fólk taldi bera ábyrgð á hörmungum þjóðarinnar eftir fjármálahrunið haustið 2008.

Og maður lemur heldur ekki bíla seðlabankastjóra þó maður vilji að þeir segi af sér.

 

Varðandi þá forheimsku að hópur karla hafi allt í einu ákveðið að ofsækja Steinunni Valdísi, vegna þess að hún var kona, þá er ljóst að það mótmæltu fleiri en karlar mánuðina og árin eftir Hrunið.  Var reyndar ekki á staðnum en á ljósmyndum sem og hreyfimyndum af mótmælum má sjá kvenfólk.  Og ég trúi því ekki að það allt hafi verið transkarlar.

Og það var líka mótmælt fyrir utan heimili karlkynsstjórnmálamanna, þó Guðlaugur Þór sé kannski dálítið kvenlegur í málrómi, þá er Bjarni ímynd karlmennskunnar, og gæti alveg unnið fyrir sér sem fyrirsæta hjá Dressmann.

Það er örugglega rétt að Steinunn Valdís varð verst úti í þessum mótmælum, og ekkert af því er til fyrirmyndar.  En var það vegna þess að hún er kona??

Styrkjadrottning vissulega, en hver miðaði byssunni???

 

Machiavelli var aldrei í vafa að það ætti að skoða hver græddi á tilteknum óþverraskap eða stjórnmálarefjum, og í dag er það orðað þannig að skoðaðu fjárstreymið, og skoðaðu hagsmuni.

Fólk ætti að spyrja sig, hverjir komu EKKI Steinunni Valdisi til hjálpar??, og við hverja var hún að keppa í stjórnmálum, innanflokks.  Og var hún ekki dyggust í stuðningi sínum við fyrrum formann flokksins, Ingibjörgu Sólrúnu, sem varð persona non grata eftir að Jóhanna og hennar lið náði völdum í flokknum. 

Og að trúa krókódílatárum í dag, er meira en algjör forheimska, það er hrein og klár heimska, jafnvel fyrir neðan virðingu vitgranna blaðamanna og stjórnmálaskríbenta.

Horfið á þá stórgóðu mynd Braveheart með Mel Gibson og sjáið hvernig alvöru atburðarsmiður kom Bruce syni sínu hásæti Skota, eða lesa bara Shakespeare, hann var allavega ekki fæddur i gær þegar hann skrifaði leikrit sín, þó hann hafi verið uppi á 17. öldinni.

 

Það varð fjármálahrun og fólk varð hryllilega reitt.  Hafði ekkert með persónu eða kyn Steinunnar Valdísar að gera.  Hún er vissulega kona, og örugglega góð manneskja eins og dóttir hennar benti á.

En tugþúsundir misstu hluta af eða jafnvel allt sparifé sitt, og tugþúsundir áttu á hættu að missa heimili sín, og þegar upp var staðið höfðu yfir 10.000 fjölskyldur misst þau.

Hvað skyldu hafa verið mörg börn í þeim hópi??  Sem upplifðu grimmilegar ofsóknir fjárúlfa, ómenna sem höfðu enga sál, sýndu enga miskunn, og hröktu þau út á gaddinn.

Það er hægt að skaða barnssálina á fleiri hátt en að hópur fólk standi með skilti fyrir utan heimili þess.

En þetta er hinn nafnlausi fjöldi sem auðmiðlum er alveg sama um.  Þeirra tár, þeirra örvænting ratar ekki í fyrirsagnir eða dramaviðtöl.

 

Það er rétt að útrásarvíkingar okkar voru megingerendur Hrunsins, en stjórnmálamenn okkar settu reglurnar, þeir báru ábyrgðina á EES samningnum.

Og þegar öllum átti að vera orðið ljóst í hvað stefndi, og fólk hefði hugsanlega geta gert einhverjar ráðstafanir, að þá voru það þeir sem blekktu og lugu, líklegast vegna þess að þeir óttuðust að sannleikurinn myndi tafarlaust fella svikamylluna, en hvað gaf þeim rétt til þess??  Og hafa þeir beðið fórnarlömb lygavef síns afsökunar??

Fólk hafði nefnilega fulla ástæðu til að vera bálreitt, öskuillt.  Og þegar það bættist við að upp komst um að nokkrir stjórnmálamenn höfðu þegið milljónir í styrki frá útrásarvíkingunum og fyrirtækjum þeirra, styrki sem á mannamáli kallast mútur, að þá varð fólk brjálaðu um allt þjóðfélag, ekki bara þeir sem voru svo reiðir að þeir lögðu það á sig að mæta og mótmæla.

Fyrirtæki styrkja ekki stjórnmálamenn af góðmennsku sinni, það er ekki út af klárheitum og almennum mannkostum sem æðstu embættismenn Evrópusambandsins eiga vísa setu í stjórnum stórfyrirtækja eftir að þeir láta af störfum hjá ESB. Hvað höfum við oft heyrt, þegar stórfyrirtæki eins og Starbuck réttlæta skattleysi sitt, að þau hafi ekki gert neitt ólöglegt.

Regluverkið sé bara svona.

Og jafnvel félagarnir i Dumb og Dumber, eru ekki svo grænir að þeir sjá ekki hið augljósa samhengi.

 

Ein rök forheimskunnar sem reynir að klína mótmælunum gegn Steinunni Valdísi á hóp karla sem hafi ákveðið að ofsækja konu, er að fleiri en Steinunn Valdís hafi þegið styrki, og það sem meira er, að án styrkja var ekki hægt að gera sér vonir um árangur í prófkjörum.

Því er að svara, að þó fleiri hafi þegið meintar mútur en Steinunn Valdís, að þá er hennar sök ekki minni fyrir vikið. Og það er engin afsökun að benda á hin opnu prófkjör, að svona hafi þetta bara verið. 

Gjörspillt stjórnmálamenning er ekki afsökun fyrir þá sem tóku þátt í leiknum, ekki frekar en það er afsökun fyrir Harvey Weinstein að benda á að það sé yfir aldargamall siður í Hollywood að krefja leikkonur um kynlífsþjónustu gegn hlutverki.

Spilling er spilling, rangt er rangt, þó viðtekið sé.

Og varðandi karlanna sem fóru ekki eins illa út úr því, kannski áttu þeir sér ekki eins hatramma innanflokks andstæðinga.  Eða kóuðu betur með hina nýja valdi.

 

Það á enginn að þurfa að ganga í gegnum það sem fjölskylda Steinunnar Valdísar, og hún sjálf gekk í gegnum.

Höfum það aftur á hreinu.

Vonandi lærum við eitthvað af þessu sem þjóð.

En það er á engan hátt hægt að réttlæta þá sögufölsun sem auðmiðlar matreiða ofaní þjóðina.  Þegar þeir snúa hlutum á hvolf.

Eins og ekkert hafi gerst sem útskýrt gæti þá atburði sem um er rætt.

Hvað þá hina algjöru forheimsku að kynvæða allar þessar hörmungar, og viðbrögð fólks við þeim.

 

Síðan mætti Steinunn Valdís íhuga hvort hún hafi ekki verið heppinn að þeir sem miðuðu, hafi ákveðið að gera hana að blóraböggli.  Þó erfitt hafi verið á meðan því stóð.

Hún var fyrir vikið ekki hluti af þeirri mannvonsku sem gekk erinda erlendra hrægamma og reyndi að selja þjóð sína í ævarandi skuldaþrældóm.

Og þó mótmæli þjóðarinnar hafi komið í veg fyrir mestu misgjörðirnar, bæði komið í veg fyrir ICEsave þrældóminn (ICEsave var aðeins hluti af þeim pakka, hin meinta aðstoð hinna svokölluðu norrænna bræðraþjóða og AGS voru lán sem átti að nota til að greiða út aflandskrónur) sem og að gengislánin gerðu annan hvern mann eignarlausan, að þá var hrægömmum afhent hundruð milljarða úr vasa almennings.

Og er ég þá að vísa í lánin sem voru að mestu afskrifuð en nýju bankarnir fengu að innheimta af fullum þunga.

Mannvonska af svona svipuðu tagi og hjá enskum landeigendum sem seldu ógrynni matvæla úr landi á dögum Írsku hungursneyðarinnar (a.m.k. ein og hálf milljón hungurmorða) um miðja nítjándu öld, eða þegar alþjóðleg lyfjafyrirtæki senda útrunnin lyf til Afríku, eða lyf sem hafa verið tekin af markaði vegna hættulegra aukaverkana.

Það vigtar allavega fyrir æðri dómi.

 

Steinunn á þakkir skilið fyrir að segja frá.

En hún hefur ekki unnið sér inn fyrir píslarvætti.

 

Í raun á hún og aðrir þeir sem ábyrgðina bera, að þakka að viðbrögð þjóðarinnar voru ekki harkalegri.

Og ef hún vill blóraböggul, þá á hún að leita hans þar sem þá er að finna.

 

Og þeir voru ekki allir karlkyns.

Kveðja að austan.


mbl.is Fékk martraðir vegna „reiðu karlanna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíu á eld.

 

Er aldrei skvett að ástæðulausu.

Það vita allir þeir sem upplifðu þá tíma að börn og unglingar fengu að safna í brennu, og kveikja svo í henni.

 

Eins er það með þessa skvettu Trump.

Hún er ekki hugsuð til að gleðja vitleysinga*, þó þeir gleðjist í öryggi fjarlægðarinnar, teljandi sig og skyldfólk sitt öruggt fyrir víti ófriðarins.

Hún er ekki hugsuð út frá kaldri rökhyggju að viðurkenna það sem er, að gyðingaríkið er komið til að vera, eða þar til arabar sameinast um að eyða því.

Hún er yfirhöfuð ekkert hugsuð, það er engin dýpri pæling á bak við gróðafíkn hinna sígráðugu ekki frekar en hjá ormum sem iða í úldnu hræi.

 

Það er einfaldlega bissness í ófriði.

Mikill bissness.

Þess vegna var Hitler til dæmis fjármagnaður til valda, Lenín þar á undan, og frjálshyggjan varð ekki til úr neinu, það sem þjónar hagsmunum auðs og valda er aldrei sjálfsprottið, ekki einu sinni í ævintýrum.

 

Ófriðarbál eru eins og skógareldarnir, þau kvikna uppúr engu, og algengi þeirra fer eftir ytri aðstæðum líkt og er með skógareldana.

Og þó ljótt sé frá því að segja, og það tók langan tíma hjá okkur mannfólkinu að bregðast við, að þá eru skógareldar af mannavöldum ákaflega algengir, og ekki bara vegna brennufíknar, það er gróði í skógareldum.

Og það er ákaflega mikill gróði í ófriðarbálum.

 

Í raun ætti fólk að þakka fyrir skvettu Trumps.

Það er nefnilega búið að vera friðsælt á gömlu biblíuslóðunum um nokkurn tíma og slíkt hefur alltaf endað á einn veg. 

Óskiljanleg hryðjuverk, harkalegar gagnárásir, óendanlegar þjáningar hinna saklausu.

Þjáningar fólks sem er alveg eins og við, og vill ekkert annað en að fá að ala upp börnin sín friði fyrir ofbeldisfólki.

Og í þetta sinn var saklaust fólk ekki drepið til að kynda undir.

 

Ófriður tryggir líka völd.

Það eru margir sem eiga mikið undir honum, bæði meðal Palestínumanna og Ísraela.

Það var ekki að ástæðulausu að Rabin var drepin, og ef eitthvað hefði þá getað dregið öfgamenn úr báðum fylkingum að sameiginlegur borði, þá var það til að ráðgera morðið á honum.

 

En undirliggjandi eru hagsmunir þeirra sem selja vopn og vígatól.

Þar er Trump í góðra vina hópi.

Og ekki einn um það.

Skinhelgir stjórnmálamenn Vesturlanda ættu að líta sér nær.

 

Hvert fer gróðinn?

Hvert fer gróðinn?

Kveðja að austan.

 

*. Svona ef einhver skyldi móðgast, sem er alls ekki tilgangurinn, að þá vil ég taka það skýrt fram að það er hluti af mannlegri vitneskju, og vitund, að vita að á einhverjum tímapunkti, við einhverjar aðstæður, þá erum við öll vitleysingar. 

Á einhvern hátt.

Jafnvel heimskinginn gerir sér grein fyrir að það er hluti af mennskunni, því að vera maður.


mbl.is „Koss dauðans“ fyrir frið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. desember 2017

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 45
  • Sl. sólarhring: 434
  • Sl. viku: 750
  • Frá upphafi: 1320597

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 652
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband