Bútasaumskonan.

 

Það er vert að óska Katrínu Jakobsdóttur til hamingju með embætti sitt, án alls efa er hún glæsilegur fulltrúi þjóðarinnar, og tími hennar í stól forsætisráðherra er og verður gæfutími, hversu langur sem hann annars verður.

Um styrk Katrínar þarf ekki að efast.

Það er ekki öllum gefið að svíkja sín helgustu vé, að vera lykilpersóna í endurreisn hins gjörspillta auðránskerfi fyrirhrunáranna, og fá síðan það hlutverk að bæta úr skaðanum, að sauma það marga búta í götin að kerfið haldi.

Um sinn.

 

Katrín hefur vandað vel til verka.

Hún hefur endurskapað Bjarna Benediktsson sem stjórnmálamann.  Að hlusta á Bjarna í gær, var eins og að hlusta á gömlu stjórnmálamennina, sem vildu landi og þjóð vel, á þeim tímum þegar aðeins næmt eyra gat heyrt muninn á kratisma borgarlegra stjórnmálamanna og kratisma sósíalistanna.

Hún hefur passað sig á að skapa fyrirfram eigin stjórnarandstöðu í flokki sínum, svo svigrúm annarra flokka til slíks sprells er ekkert.  Án efa hugsar Sigríður Andersen henni þegjandi þörfina, Bjarni þarf að halda henni múlbundinni og hann mun gera það.

Innanflokks egó verður ekki látið eyðileggja pólitíska endurnýjun hans.

 

Katrín hefur slegið öll spil úr hendi andmælenda sinna á vinstri vængnum með því að skipa vammlausan mann umhverfisráðherra.

Mann sem þarf vissulega að gera málamiðlanir, því embætti hans er í raunheimi en ekki í ímyndunarheimi, en heilindi hans í embætti munu aldrei verða dregin í efa.  Og þeir sem það gera, afhjúpa sig fyrst og fremst sem skinhelga niðurrifsmenn sem nýttu umhverfismál sér til framdráttar, en ekki vegna þess að þeir höfðu nokkurn áhuga á eða skilning á þeim.

 

Eftir stendur gagnrýni frjálshyggjunnar sem hefur grafið víða um sig vinstra megin við miðju sem og hjá þeim sem sjá köllun sína að vera alltaf á móti.

Niðurrif stjórnarskráarinnar, aflífun sjávarbyggða með hinu svokallaða kvótauppboði, aðför heildsala að landbúnaðinum, hátekjuskattur og ennþá hærri skattur, á allt og alla nema þá sjálfa, flóttamannaiðnaðurinn; -allt verður nýtt til að skapa úlfúð og deilur.

Og við því er nákvæmlega ekkert að gera, nema eitt, að standa við loforð sín.

Heilindi og ærlegheit.

Og stjórnin mun standa af sér orrahríðina.

 

Og það er þannig, að þegar svik og óheilindi eru ekki val, jafnvel barón Munchausen sagði satt þegar líf hans var í húfi, að þá gera menn það eina sem í boði er.

Þess vegna lifum við óvenjulega tíma, jafnvel einstaka tíma.

Tíma þar sem ríkisstjórnin og ráðherrar hennar þurfa að standa við orð sín.

Og þurfa að standa saman, ef þeir ætla að eiga sér einhverja pólitíska framtíð.

 

Þetta er önnur að meginástæða þeirrar fullyrðingar minnar að tími þessarar ríkisstjórnar er gæfutími.

Hina rakti ég í pistli mínum um Varðstöðufriðinn, þjóðin fengi allavega tímabundinn frið frá niðurrifi frjálshyggjunnar. 

Það eitt og sér ætti að sjá til þess að allt velviljað fólk ætti að láta þessa ríkisstjórn í friði þar til verk hennar dæma hana.

Ekki fortíð, ekki fyrri orð, ekki illur grunur.

 

Velviljað fólk á ekki að láta rakka auðsins, þessa þarna sem börðust fyrir breta í ICEsave fjárkúgun þeirra, æsa sig upp.

Því að baki býr illvilji gagnvart landi og þjóð.

Hversu sem orðin eru fögur, hversu sem glatt sem fyrirheitin glóa, þá kemur ekkert nema illt út úr illvilja.  Það er bara eitt af lögmálum heimsins líkt og þyngdarlögmál Newtons eða auðn elur aldrei af sér fæðu.

Vilji það breytingar þá verður það sjálft að koma sér saman um breytingarnar, og það eftir lögmálum lífsins, það er ekkert annað í boði þegar að því er sótt að öflum sjálftöku og sígræðgi.

En niðurrif á því sem ærlegt er, þó í litlu mæli sé, er ekki verklag þeirra sem vel vilja.

 

Hinsvegar er það einföld viska, svipuð þeirri að vita að eldur brennur og grjót kastað í glugga hefur oft í för með sér glerbrot, að vita að bútasaumur dugar aðeins, þegar það sem sauma á, er heilt að öðru leyti, nema þar sem rifan eða götin eru.

Og það er meinið, bútasaumur Katrínar mun ekki duga því kerfið sjálft er rotið og feyskið.  Hugmyndafræði þess er ónothæf, og það míglekur fjármunum almennings í vasa Örfárra.  Kerfið er hannað til að láta ræna sig.

Ekkert mun breytast fyrr en Íslendingar segja upp EES samningnum, afnema verðtrygginguna og setja skýrar reglur um hegðun manna í viðskiptum.

Afþjófavæða kerfið.

Og taka upp sið í stað ómennsku.

 

En það er önnur saga.

Allt önnur saga.

 

Og á meðan hún er ekki sögð, verður að láta það duga sem sagt er.

Sem reynt er.

 

Á meðan það er til góðs.

Kveðja að austan.


mbl.is „Furðulegt að ég sé önnur konan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. desember 2017

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 360
  • Sl. sólarhring: 415
  • Sl. viku: 1563
  • Frá upphafi: 1321446

Annað

  • Innlit í dag: 306
  • Innlit sl. viku: 1332
  • Gestir í dag: 279
  • IP-tölur í dag: 275

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband