Veika kynið.

 

Spurning hvort konur ættu yfir höfuð að taka þátt í stjórnmálum miðað við þessi orð þingflokksformanns Flokk fólksins. 

"„Þetta er mjög leiðin­legt mál. Þeir virðast ætla að koma með offorsi inn á þingið aft­ur og þeim kon­um sem lent hafa á milli tann­anna á þeim líður ekki vel yfir því hvernig þeir haga sér,“".

Ef þetta er ekki kynfyrirlitning, ef þetta kallast ekki að tala niður konur, þá veit ég illa hvernig það er gert.

Minnir einna helst á róman sem fjallar um yfirstéttarkonur á 18. öld eða byrjun þeirra nítjándu.  Þar sem sterki karlinn greip yfirspennta kvenpersónuna þegar hún féll í yfirlið, og kallaði, við verðum að forða henni frá öllu áreiti.

 

En auðvitað veit þingflokksformaður Flokk fólksins betur.

Þetta er aðeins ómerkileg aðför að lýðræðinu.

Sjálfsagt veikburða tilraun til að endurheimta þingstyrk flokksins.

 

En það breytir því ekki að forseti Alþingis þarf að uppfræða nýgræðinga um leikreglur lýðræðisins og brýna fyrir formönnum þingflokka að þeir hagi sér eins og siðað fólk.

Sýni hvorki dónaskap eða leggi aðra þingmenn í einelti.

 

Hvað þeir segja síðan utan þings er ekki á hans ábyrgð.

Slíkt kallast stjórnmál og hefur sinn gang.

 

En vonandi eigum við ekki eftir að upplifa fleiri sögur af veikara kyninu.

Þetta er jú 21. öldin.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Funduðu um endurkomu þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skamma fyllibyttur er í góðu lagi.

 

Ég hef sjálfur þurft stundum ærlega á slíku að halda.

Og hef oft skammast mín i þynnku minni.

 

Það er heldur ekki gott að vinna með fólki sem virti fá mörk í baknagi á samstarfsfólki sínu.

En þegar vinnustaðurinn er Alþingi þjóðarinnar þá þarf fólk að læra að lifa með því, bæði þeir sem voru gripnir í bólinu, sem og þeir sem fengu að heyra það sem þeim var ekki ætlað að heyra.

 

Og ekki hvað síst þurfa þeir sem eru kannski sárir að vera ekki það stórt númer að lenda ekki í nagkvörninni, að sætta sig við að þeir búi í lýðræðisþjóðfélagi, þar sem þingmenn sitja í umboði kjósenda sinna.

Hlerað fyllerísröfl útí bæ réttlætir ekki dónaskap þeirra, eða það sem virðist vera aðför að lýðræðinu það er að beita andlegu ofbeldi til að hrekja samþingmenn sína af þingi.

 

Dónaskapurinn er lágkúra, og þú afsakar ekki þá lágkúru með því að vísa í að "þeir byrjuðu".

Þvert á móti, þá er fyllri ástæða til að sýna af sér siðaða hegðun.

Og aumur má þingforseti vera ef hann lætur slíkt viðgangast átölulaust.

 

En hins vegar á þingforseti að slíta þingfundi ef hann verður vitni að því í þingsal, að vegið sé að öðrum þingmönnum á þann hátt sem lýst er í þessari frétt.

Slíta þingfundi og boða formenn þingflokka á sinn fund.

Alla formenn, ekki bara hjá þeim þingflokkum þar sem eineltispúkar og dónar hafa hreiðrað um sig.

 

Og á þeim fundi á þingforseti að útskýra afdráttarlaust hvaða reglur gilda um samskipti þingmanna í þingsal.

Afdráttarlaust.

 

Einelti og dónaskapur er nefnilega ekki val einstakra þingmanna.

Og virði þeir ekki ábendingar þar um, þá á að víta þá og vísa þeim af þingfundi.

Það er nefnilega skrílræði að láta skrílshátt viðgangast.

 

Þetta er svo einfalt að það er ótrúlegt að það þurfi að benda á þetta.

Ótrúlegra en það að til skuli vera fólk sem áttar sig ekki á muninum á hegðun utan þingsals, og innan.

 

Og þó einstakir þingmenn átti sig ekki á þessu.

Þá á forseti þingsins að fatta þetta.

 

Annars er hann ekki hæfur.

Kveðja að austan.


mbl.is Hnýtt í Bergþór og Gunnar Braga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rógurinn um Ragnar.

 

Þann góðlátlega hægfara íhaldsmann, sem örugglega hefði fundið sér farveg í verkalýðsarmi Sjálfstæðisflokksins ef hann hefði verið uppi fyrir þó nokkuð árum síðan, innan um menn eins og Magnús Sveinsson eða Pétur sjómann, er bæði Mogganum og Samtökum atvinnurekenda til vansa.

Hvað halda menn að þeir fái í staðinn??

Eru menn virkilega svo vitlausir að halda að vandinn sem Ragnar bendir svo kurteislega á, hverfi ef þeim bara tekst að grafa skurð undan honum??

 

Mogginn, sem virðist vera fastur í kviksyndi slúðurs og rógburðar, spilandi sig svo skinheilagan að hver meðal yfirstéttarfrú á Viktoríutímanum hefði tekið andköf af aðdáun, ýtandi undir múgsefjun og galdrafár, ætti í svona eina mínútu að íhuga, hvað peningamennirnir sem borga þar flest laun, fengju í staðinn.

Hver tekur að sér að finna óánægju samfélagsins farveg, ef þeir hógværu og skynsömu eru vegnir??

Hægri populisti??, vinstri öfgamaður??

Allavega ekkert gott.

 

Eða er þetta draumurinn um Trump??

Að skapa jarðveg fyrir hinn íslenska Trump?

 

Hvern skyldu menn sjá fyrir sér í því hlutverki??

Einhvern mann á besta aldri með reynslu??

 

Nei, það eru vandamál þarna úti sem þarf að leysa.

Skammist ykkar til að taka þátt í því.

 

Á meðan þið hafið einhver ítök.

Á meðan einhver hlustar á ykkur.

Kveðja að austan.


mbl.is Enginn fjöldaflótti úr VR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðareglur eru fínar.

 

En öfgar eru verri.

Og ef Alþingi Íslendinga ætlar að setja sér þær siðareglur, að þingmenn megi ekki fá sér bjór eða vín á meðan þingfundi stendur, þá er það svo sem ágætis regla, fyrir púrítana.

Því líklegast hefði breska þingið um miðja sautjándu öld getað haldið þá reglu, enda réðu þá Púrítanar þinghaldi, og þeir voru lítt hrifnir að brosi, dansi, hlátri og víni.

Enda fer hrollur um Breta ennþá dag í dag þegar þeir minnast þessa skelfilegu ára trúarofstækisins.

En engin önnur þjóðþing, hvorki fyrr eða síðar, myndu setja þessa siðareglur, og ef hún væri sett í dag, þá væri hægt að loka þeim öllum.

 

Þess vegna má spyrja sig, og ég hef ítrekað spurt mig þessarar spurningar undanfarna daga og vikur, eða frá því að Klausturmálið komu upp, hvað fólk vinnur eiginlega á Morgunblaðinu í dag.

Eru þetta tímaferðalangar, eða finnst ennþá svona forpokað fólk??

Sem spyr svona spurningar um hinn meinta glæp sem öldrykkja er; "Þannig að ef aðrir gera eitt­hvað sem er rangt rétt­læt­ir það þá að þú ger­ir það?"

Hvaða miðaldamyrkur og ofstæki hefur lagst yfir blaðið.

 

Er það þetta sem fylgir framsókn femínismans??

Slúður, ofstæki, galdrafár??

 

Ég hélt ekki.

Einhvern tímann hélt ég að heimurinn yrði betri staður til að lifa á ef konur fengu áhrif til jafns við karla, og jafnvel taldi ég að heimurinn hefði gott af því að þær fengju meiri áhrif.

En ég efast í dag.

 

Stórlega.

Kveðja að austan.


mbl.is „Ekkert nýtt“ að fá sér bjór á vinnutíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðað samfélag ræðir ekki þessar kröfur.

 

Því um þær er ekki hægt að gera ágreining.

Og þá er ég að vitna í þessi orð Vilhjálms; "„Auðvitað mun skipta miklu máli hver aðkoma stjórn­valda að samn­ing­un­um verður því meg­in­stef okk­ar er að lag­færa kjör þeirra sem höllust­um fæti standa í ís­lensku sam­fé­lagi þannig að við get­um aukið ráðstöf­un­ar­tekj­ur þess­ara hópa með þeim hætti að þeir geti haldið mann­legri reisn og fram­fleytt sér frá mánuði til mánaðar,“"

Og þeir sem það gera ættu að fá frían tíma hjá sálfræðing til láta meta sig hvort þeir þjáist af ólæknandi siðblindu.

 

Við erum að tala um eitt af ríkustu hagkerfum heims, þar sem auðlegðin vellur uppúr vösum fjármagnseiganda, þar sem æðstu embættismenn eru með þeim betur borguðu í heiminum, þar sem millahverfin slaga hátt uppí millahverfi Beverly Hills, þar sem töluverður stór hluti þjóðarinnar er oftar að leika sér í útlöndum en á landinu, þar sem allt ber merki um ofgnótt og flottræfilshátt hjá mjög fjölmennum hátekjuhópum, að þá líðum við ekki að;

ÞAÐ ÞURFI AÐ GERA KRÖFUR Í KJARAVIÐRÆÐUM AÐ HLUTI ÞJÓÐARINNAR GETI HALDIÐ MANNLEGRI REISN OG FRAMFLEYTT SÉR FRÁ MÁNUÐI TIL MÁNAÐAR.

Því slíkt er aðeins til siðs í þrælaþjóðfélögum.

 

Við þurfum ekki að rífast um af hverju þetta varð svona.

En við skulum gera okkur grein fyrir því að það er siðblinda í bland við ómennsku að líða þetta.

Og ég trúi því ekki að ómenni stjórni atvinnulífinu eða ríkisstjórn landsins.

 

En það er auðvitað þeirra að skera úr um.

Kveðja að austan.


mbl.is „Verður ekki gefinn mikill tími“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Regnhlífasamtök virka ekki.

 

En hafa virkað í VR vegna þess að það má deila um hvort VR hafi í mörg ár rekið einhverja verkalýðspólitík.

Og í samfelldum uppgangi eru raunverulega allir ánægðir.

Sérstaklega vegna þess að það er tiltölulega auðvelt að koma sér uppúr láglaunastörfum í betur borguð störf.

VR hefur því verið svona kjaftaklúbbur um samskiptareglur á vinnustað, og jú gætt réttinda félagsmanna.

Annað ekki.

 

Núna er bara kreppa.

Djúp kreppa.

 

Hjá stórum hluta launafólks duga ekki laun fyrir brýnustu lífsnauðsynjum sem er fæði, klæði og húsaskjól.

Þar sem kostnaður við húsnæði er að sliga mjög marga.

 

Þá springa svona regnhlífasamtök.

Annað hvort fer láglaunafólkið, því eitthvað verða menn að gera ef þeir geta ekki lifað mannsæmandi lífi.

Eða hálaunafólkið, því ef það er eitthvað sem það getur ekki hugsað sér, þá er það að vera í félagi sem rekur verkalýðspóltík. 

Enda lýtur það ekki á sig sem verkalýð, heldur menntalýð.

 

VR er í dag stjórnað af fólki sem er í verkalýðsbaráttu.

Viðskiptafræðingarnir fara.

Ofsalega er VR heppið.

 

Laus við dragbítana.

Laus við hugmyndafræði frjálshyggjunnar.

 

Farið hefur fé betra.

VR er komið til að vera.

Kveðja að austan.


mbl.is Hætta í VR og ganga í KVH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær var verkalýðshreyfingin lögð niður??

 

Hlýtur maður að spyrja þegar maður hlustar á hið unga róttæka fólk sem leiðir hana í dag.

Öflugra en það að hægt sé að tala um endurfæðingu, miklu frekar endurreisn.

 

Og til að hægt sé að endurreisa, þá þarf fyrst að leggja niður.

Því spyr ég aftur, hvenær var verkalýðshreyfingin lögð niður hérna á árum áður??

Hvenær varð hún að skúffu hjá einhverjum kontórista í vinnu hjá Samtökum Atvinnulífsins??

 

Ég veit allavega að hún stóð ekki með þjóðinni eftir Hrunið.

Hvort sem það var að verjast fjárkúgun breta eða Hollendinga, vernda heimilin fyrir hrægömmum, eða berjast gegn hinum stökkbreyttu lánum.

Ef hún slapp úr skúffunni, þá heyrðist aðeins ámátlegt mjálm til stuðnings verðtryggingunni, eða að þjóðin ætti að ganga sömu svipugöng og grískum eða írskum almenningi var boðið uppá.

En til þess þurfti fyrst að ganga í Evrópusambandið, svo öruggt væri að þrælapískarar fjármagnsins gætu blóðmjólkað þjóðina, kreist hverja krónu úr vinnandi fólki.

 

Svo hún var bara best geymt í skúffunni.

 

Samt man ég að þetta var ekki alltaf svona.

En ég man ekki bara hvenær þetta breyttist.

Hvenær hún lagði sjálfa sig niður.

 

En í dag sér maður alvöru tilraunir stjórnvalda og atvinnurekenda til að koma til móts við sanngjarnar kröfur samtaka verkafólks.

Slík eru umskiptin á aðeins örfáum mánuðum.

 

Og ef það heldur áfram sem horfir, þá gæti hugsanlega orðið smá sátt í landinu.

Að fólk virkilega tryði því að vilji væri til breytinga, að færa auð frá fjármagni til fólks.

 

Vissulega er langt í land.

Verðtryggingin þarf að fara, og það þarf að takast á við braskið sem þrýstir kostnaði uppúr öllu valdi á byggingamarkaðnum.

Þar dugar sjálfsagt fátt annað en að skipta fólki út í Reykjavík, hagsmunatengsl við braskara, og fylgispekt við hugmyndafræði þeirra gegnsýrir núverandi meirihluta, og hefur gert í fjölda fjölda ára.

Eða muniði ekki eftir frjálshyggjumanninum sem hóf lóðauppboðið, illu heili fyrir almenning, en Friedman brosti víst hringinn í gröfinni.  Eða var hann kannski ekki fallin þá frá kallinn??

 

Það er nefnilega þannig að um sumt er ekki hægt að semja.

Sumt snýr að fólki sjálfu, að falla ekki fyrir fagurgala og froðu, þeirra sem segja eitt, en framkvæma annað.

Að fólk beri ábyrgð á atkvæði sínu.

 

Ef fólk vill lifa áfram sem þjóð í þessu landi, þá þarf þjóðin að endurnýja sig.

Ungt fólk á vergangi eða í skuldkreppu leigumarkaðar eða ofurgreiðslubyrði verðtryggingar, það mun að lokum greiða atkvæði með fótunum.

Þess vegna kjósum við ekki braskara, þess vegna kjósum við ekki fólk sem styður arðrán verðtryggingarinnar.

Svo einfalt er það.

 

En að breytast úr mús í mann er ekki sjálfgefið, sérstaklega þegar öll áróðurstæki auðs og fjármagns reyna að sannfæra fólk um að það sé náttúrulegt ástand að lifa í skuldaörbirgð lungað af ævi sinni.

Að heilsa auðs og fjármagns sé heilsa þjóðarinnar.

 

En það er ótrúlegt hvað góð hvatning getur gert.

Sérstaklega þegar eldmóður hennar á rætur í ríkri réttlætiskennd.

 

Þess vegna ber að fagna endurreisn verkalýðshreyfingarinnar.

Það er allavega eitthvað að gerast sem hefur ekki gerst í mannaminnum.

 

Megi skúffan hvíla í friði.

Kveðja að austan.


mbl.is „Samræmist okkar kröfum mjög vel“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slúður samfélagsmiðla er ekki frétt.

 

Og við þurfum að fara að fatta það meðan einhver steinn stendur uppi á þeim samskiptareglum sem halda siðmenningunni saman.

Burt séð frá því að það er hægt að falsa allt og feika með nýjustu tækni, að þá þurfum við að þekkja mörk siðaðs fólks.

 

Við gægjumst ekki inní einkasamtöl fólks, hvort sem það eru drukknir þingmenn eða aðrir sem eiga í hlut.

OKKUR KEMUR ÞAÐ EKKERT VIÐ.

 

Við brennum ekki fólk á báli fordæmingarinnar út af einhverju sem gerðist fyrir áratugum síðan hvort sem það er út af kvensemi, þuklunaráráttu eða lauslæti undir áhrifum áfengis, eða eitthvað annað sem gekk þá en gengur ekki í dag.

EF OKKUR LÍKAR EKKI HEGÐUNIN ÞÁ BREYTUM VIÐ HENNI ÞAR SEM VIÐ GETUM BREYTT HENNI, HJÁ SJÁLFUM OKKUR, Í NÚINU, OG Í FRAMTÍÐINNI.

 

Við látum ekki púrítana fordæmingarinnar stjórna samfélagsumræðunni.

Við látum ekki múgæsingu þróast út í fár.

VIÐ EIGUM AÐ LÆRA AF MISTÖKUM FORTÍÐAR, EKKI ENDURTAKA ÞAU.

 

Og ekki hvað síst, við eigum að gera greinarmun á slúðurmiðlum, áróðursmiðlum, sem grassera á netinu, og ábyrgum fréttamiðlum.

Í því felst að VIÐ GERUM KRÖFUM UM AÐ MEINTIR ÁBYRGIR FRÉTTAMIÐLAR ÞEKKI LÍKA ÞENNAN MUN.

Á því er töluverður misbrestur eins og þessi múgæsingarfrétt er sorglegt dæmi um.

 

Ég geri þessa kröfu til þess eina miðils sem ég les að staðaldri, Moggann minn og Mbl.is.

Og það rennur mér til rifja að sjá hvernig minnsti þrýstingur samfélagsmiðlanna breytir annars ágætum miðli í ómerkilegan slúðurmiðil.

Fréttaflutningurinn af Klausturmálinu er öllum sem ábyrgðina bera til vansa.

Smjattið um Jón Baldvin er ómerkilegt, fyrir utan þann grundvallarfeil að birta slúður með alvarlegum ásökunum á vammlaust fólk, sem hefur það eitt sér til saka unnið að vinna vinnuna sína, eins og um staðreyndir séu að ræða.

Fólk er ekki ærumeitt og dregið niður skítinn án þess að blaðið hafi áþreifanlegar sannanir undir höndum.

 

Það er eins og lítil menningarbylting eigi sér stað á blaðinu.

Að vitiborið fólk þori hvorki að æmta eða skræmta að ótta að næst verði það látið standa á torgum með skilti um hálsinn og játa uppá sig allskonar sakir.

Brennimerkt af hinum æpandi múg.

 

Það er mál að linni.

Það er kannski tímabært að ritstjóri blaðsins stígi niður af fílabeinsturni hrokans og taki til í sínum eigin ranni í stað þess að senda spjótin á aðra miðla, jafnt nær sem fjær.

Því sá sem hefur ekki stjórn á sínu eigin liði, er ekki beint fær um að setja út á aðra.

 

Slúður er slúður, ásökun er ásökun.

Hefur ekkert með frétt eða staðreyndir að gera.

 

Ásökun getur vissulega verið sönn.

En þá þarf að sanna hana, að sína framá á einhvern hátt að hún eigi við rök að styðjast.

Orð eru ekki slík sönnun, því orðum er hægt að stjórna.

 

Eða er einhver svo vitlaus að halda að allir sem voru ásakaðir fyrir galdra, hafi verið sekir?

Eða að allir þeir sem voru niðurlægðir, píndir, drepnir eða settir í fangelsi í fárinu sem kennt var við Menningarbyltingu Maós hafi verið sekir??

Eða að allt hafi verið satt sem stóð í skjalasafni Stasi??

 

Það má vera að einhver sé svo vitlaus, og kannski fleiri en einn eða fleiri en tveir.

En í guðanna bænum látum ekki þessa vitleysinga stjóra okkur.

 

Það er nóg að tékka á hvort helvíti sé til eftir dauðann.

Við þurfum ekki að lifa það.

 

Stöldrum við.

Kveðja að austan.


mbl.is Ekki er allt sem sýnist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meginkostur heimskunnar er sá.

 

Að lokum gefst hún upp fyrir raunveruleikanum.

Getur tekið langan tíma eins og umræðan um staðsetningu hins nýja Landspítala er, en ruglið lætur samt alltaf undan síga.

 

Áar okkar voru ekki vitlausir, þeir byggðu ekki nýjan spítala í Kvosinni, sem þá var þegar þéttbyggð, heldur var hann byggður í útjaðri þáverandi byggðar, þar sem vítt var til allra átta, nóg pláss fyrir viðbyggingar og umferð.

Svo leið bara tíminn, og fólki fjölgaði í Reykjavík.

Einn daginn var Landsspítalinn umsetinn byggð, og ekkert pláss var fyrir nýbyggingar eða þá umferð sem fylgir nútímaþjóðfélagi.

 

Svo augljóst að finna nýja staðsetningu, að það hálfa var nóg.

En það augljósa varð undir og enginn skyldi afhverju.

 

Eða þar til meirihluti vinstrimanna sagði fyrir nokkrum árum að skortur á bílastæðum væri ekkert mál, starfsfólk gæti hjólað í vinnuna eða notað strætó.

Í þeirri speki var sjálfsagt fólgin sú forsenda að sjúklingar kæmu með sjúkrabíl, og þeir væru það illa haldnir að aðstandendur þeirra sæju ekki ástæðu til að hitta þá á spítalanum, þeir myndu hins vegar nota bílastæði kirkjugarðanna.

 

Píratar, Besti flokkurinn, Samfylking og VinstriGrænir!!!???, svona margir í einni sæng.

Fólk sem sjálft hefur aldrei notað almenningssamgöngur, hvað þá það hjóli í vinnuna frá hinum dreifðu byggðum.

Og flest gæti lagt fram vottorð um að greind þess dygði allavega til að reima skó.

Svo meðfædd heimska er ekki skýring hinnar algjörar heimsku að byggja nýtt þar sem þegar er fullbyggt.

 

Skýringanna er frekar að leita til það sem kalla má Áunna heimsku.

Sem Feitir tékkar skýra.

 

Feitir tékkar eru hið mikla sameiningarafl þess fólks sem hefur myndað meirihlutann í Reykjavík í mörg undan farin ár.

Þeir skýra ljótleika hótelbygginga sem og risakassa í grónum hverfum.

Þeir skýra allt sem miður hefur farið í endurnýjun Reykjavíkur undan farin ár og allt að áratugi.

 

Skýra grotnandi byggingar, niðurníðslu þar til góða fólkið mætti skælbrosandi á fundi, og sagði, það er ekki hægt að varðveita eða virða hið liðna, það þarf að byggja stórt, og megahagkvæmt.

Og þó til væri það trúgjarna fífl í kjósendahópi þess, þá var samt augljóst að skælbrosandi bros var afleiðing hinna Feitu tékka.

Því Feitir tékkar eru eins og súrefnið, þeir eru ekki lókal heldur glóbal, fyrirfinnast allsstaðar þar sem spilling stjórnar öllu. 

Ekkert íslenskt við þá frekar en súrefnið.

 

Feitir tékkar vilja byggja á Landspítalareitnum, alltof dýrt, alltof óhagkvæmt.

Og þeir vita eins og er að eftir nokkur ár mun raunveruleikinn sigra heimskuna, og allt verður byggt uppá nýtt.

Annars staðar.

 

En þó Feitir tékkar sameina það fólk sem stjórnar Reykjavík í dag, þá stjórna þeir samt ekki öllu.

Þessi frétt staðfestir það.

 

En það breytir engu.

Heilbrigðisráðherrann er jú VinstriGrænn.

Og Feitir tékkar lögðu þann flokk undir sig vorið 2009.

 

Er eins og er.

Og fátt fær því breytt.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Meirihluti lækna vill Landspítalann á nýjan stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helsjúkur heimur.

 

Afneitar loftslagsbreytingum.

Afneitar misskiptingu.

Afneitar fátækt og örbirgð.

 

Vegna þess að þetta er mannanna verk, og á ábyrgð Örfárra.

Og þessir Örfáu, sem eiga allt, þeir eiga líka fjölmiðlanna, og ekki hvað síst áróðurstæki sem blekkja hrekklausa út í hið óendanlega.

Og hin fjármagnaða afneitun er aðeins liður í að tryggja óheft flæði auðæfa jarðarbúa í vasa þeirra og hirslur.

 

Og þetta endar aðeins á einn veg.

Að feigðarósi.

Kveðja að austan.


mbl.is Mæla með 1% auðlegðarskatti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2019
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 1538
  • Frá upphafi: 1321546

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1311
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband