Er eitthvað val í ICEsave deilunni???

Nei það er ekkert val.

Íslenska ríkið hefur aldrei gengist undir þær skuldbindingar sem það er krafið um.  Allar kröfur á hendur íslenska ríkinu eru því ólöglegar.

"Okkur finnst að þið eigið að borga" eru ekki lagaleg rök.  Og allir samningar sem gerðir eru undir þvingunum eru ólöglegir.

En þetta eru skuldbindingar þjóðarinnar fullyrða flestir ráðamenn þjóðarinnar, margir lögfræðingar, prófessor í hagfræði, ýmsir hópar sem láta sig málið varða eins og Indefence hópurinn, forystumenn aðila vinnumarkaðarins og fleiri og fleiri.

En skuldbinding verður ekki skuldbinding þó margir málsmetandi menn fullyrði slíkt.  Skuldbinding myndast aðeins við undirskrifaða samninga þar til lögbærra aðila.  Og hvað þjóðríki varðar, þá þarf bæði að koma til samþykki þjóðþinga viðkomandi landa og það samþykki þarf að standast stjórnarskrá viðkomandi lands.

Ekkert af þessum forsendum er til staðar í þessari deilu.  Krafa breta og Hollendinga á hendur íslensku þjóðinni er með öllu ólögleg.  

Og það er rangt að halda því fram að EES samningurinn kveði á um þessa meintu skuldbindingu.  Enginn beinn lagatexti er lagður fram sem heimilar hina ótakmörkuðu ríkisábyrgð sem íslenska ríkið er krafið um.  En lagatextar EES um hið lögmæta ferli sem allur ágreiningur á að fara í, eru skýrir. 

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) á að meta framkvæmd einstakra aðildarríkja EFTA á tilskipunum ESB og kæra þau til EFTA dómsstólsins ef um misbrest er að ræða að mati stofnunar.  Engin krafa á hendur íslenska ríkinu og íslenskri þjóð vegna ákvæða EES samningsins, öðlast lagagildi nema þessu lögformlegu ferli hefur verið fylgt.  Skiptir engu þó Holland og Bretland séu ESB ríki.  Það er ekki verið að setja út á þeirra framkvæmd á tilskipunum ESB.  Krafan snýr að íslenska ríkinu.

En fyrst að ICEsave Nauðungin liggur fyrir, má þá ekki semja um tilslakanir á henni.  Setja inn fyrirvara sem gagnast íslenskri þjóð???  

Svarið er mjög einfalt; Nei.

Ólöglegur samningur verður ekki löglegur þó hann sé settur í manneskjulegri búning.  Upprunalega krafan er ólögleg.  Og mun alltaf verða það samkvæmt lögum og reglum EES þar til búið er að setja málið í lögbundinn farveg.

Og samkvæmt íslenskri stjórnarskrá er samningurinn ólöglegur.  Það var ólöglega stofnað til hans, og ákvæði hans stefna efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða.  Svo er um bein fullveldisafsöl að ræða þegar einhliða er ákveðið að dómstólar lögbrjótanna kveða á um allan ágreining og þegar eigur íslenska ríkisins eru lagðar að veði.

Það er ekki hægt að semja sig frá stjórnarskránni.  Vilji þingmenn samþykkja Nauðungina, þá verða þeir fyrst að afla samþykkis þjóðarinnar um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni.  Það er sama hversu skynsamur núverandi samningur er, eða þá hve fyrirvarar samningsins eru sterkir, stjórnarskrá Íslands meinar alþingismönnum að samþykkja þennan samning.

Og ef Alþingi virðir ekki íslensku stjórnarskrána, þá eru forsendur Íslands, sem réttarríkis, brostnar.  Þar með er öll lögleysa í landinu löghelguð, ef rökin "nauðsyn brýtur lög", eru talin æðri stjórnarskránni.  Vandséð er hvernig einstaklingar og fyrirtæki geti valdið meira tjóni en Alþingi ætlar að valda íslenskri þjóð með samþykki þessa samnings.

 

En Nauðungin krefst þess að við samþykkjum þessa afarkosti segja þingmenn.  

Hvaða Nauðung erum að ræða???   Ef byssum hernámsliðs beint að höfði þingmanna.  Vissulega ef svo væri þá ættu þeir ekki aðra valkosti.  En það er ekki um slíkt að ræða.  Heldur er talað um hótanir um einangrun og jafnvel viðskiptaþvinganir af hálfu þess sem er kallað "alþjóðasamfélagið".

En þetta eru orð.  Taki þingmenn mark á þeim, þá mega þeir vissulega leggja fram stjórnarskrábreytingu og biðja þjóðina um að samþykkja Nauðungina í ljósi þeirrar kúgunar sem þeir upplifa.  

En fyrr mega þeir ekki samþykkja samninginn.  Og jafnvel þá er Nauðungin ólögleg samkvæmt ákvæðum EES samningsins.  Og brot á öllum alþjóðalögum um fullveldi þjóða.

Málið er nefnilega ákaflega einfalt.  Það er ekkert val í ICEsave deilunni.  Alþingismenn eins og aðrir þegnar þessa lands þurfa að fara eftir ákvæðum stjórnarskráar Íslands.  Hún leyfði aldrei þessa ótakmörkuðu ríkisábyrgð sem Ísland er krafið um.  Og stjórnarskrá Íslands leyfir ekki ábyrgðarsamning sem stefnir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða.   Samningur upp á 650-700 milljarða, auk vaxta, er dæmi um slíkt.  Það eru engin rök í málinu að eignir komi á móti.  Séu þær ekki taldar fram í samningnum og settar á þær verðmiði, þá koma þær samningnum ekki við.  Það eru ekki rök að halda því fram að hið ólíklega muni ekki gerast.  Öllum ætti að vera það ljóst eftir bankahrunið að hið ólíklega er einmitt mjög líklegt að gerast.

Og alþjóðlega samninga á að virða, þar á meðal Samninginn um EES, Mannréttindaskrá Evrópu og Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Þessir alþjóðasamningar meina Alþingi Íslendinga að samþykkja ICEsave Nauðungina því þeir tryggja mannréttindi íslensku þjóðarinnar.  Hið alþjóðlega fjármálakerfi getur ekki krafist þrældóms hennar.  

Lög þarf að virða og íslenska stjórnarskráin og alþjóðlegir samningar íslenska ríkisins banna ICEsave Nauðungina.  Þó alþingismenn telji það skynsemi að samþykkja hana, þá hafa þeir ekkert vald til þess.

Þess vegna er ekkert val í ICEsave deilunni.  Öllum nauðungarsamningum ber að hafna.

Kveðja að austan. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 1525
  • Frá upphafi: 1321533

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1300
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband