Rændu þjóð!!

 

Og þér er launað með fjárfestingarleið.

Færð verðlaun þegar þú kemur með ránsfeng þinn til baka.

Til að kaupa upp hrakið, tjónið sem þú ollir.

 

Svo eru menn hissa að leitun af heiðvirðu fólki í viðskiptalífi þjóðarinnar er eins og leitin að gullskipinu á Skeiðarársandi, er hugsanlega þarna, en sást síðast fyrir langa löngu.

Því heiðarlegt fólk verður undir með rekstur sinn í svona ræningjakapítalisma.

Það kann ekki að braska, kann ekki að fela fé á Tortilla.

Kann aðeins að reka, að standa við sínar skyldur við guð og menn.

Jafnvel geirfuglinn er nærtækari, síðasta eintakið af honum var þó stoppað upp og er núna geymt á þjóðminjasafninu.

En hvenær síðasti borgaralegi íhaldsmaðurinn dó, má guð vita.

 

Við erum svo langt leidd sem þjóð, að fjölskylda sem gat farið á hausinn með 40 milljarða króna skuld á rekstri örfárra bensínsjoppa, á núna og rekur ríkisstjórn landsins.

Engey ehf.

 

Fjölskylda sem hefur aldrei leynt fjármálabraski sínu, og er stolt af öllum fjárfærslum sínum til útlanda, eða gróða sínum þegar ættarlaukurinn gaf erlendum hrægömmum um 500 milljarða í síðustu ríkisstjórn.

Hefur alltaf komið hreint fram, aldrei dregið fjöður yfir hlutverk stjórnmálaarm flokksins.

Sem er að skapa skilyrði fyrir gróða, og ennþá meiri gróða.

Ofsagróða.

 

Hún ræður, hún stjórnar.

En hún bjó ekki til ræningjaleiðina, það var fólkið sem var á móti.

Fólkið sem er svo mikið til vinstri.

 

Því samsektin knýr íslensk stjórnmál áfram.

Viðheldur spillingunni.

Viðheldur vildarvinarsérkjörunum.

 

Svo fáum við þann dóm að við séum þrælahaldarar.

Að lífskjör okkar og meintur efnahagsstöðugleiki byggist á þrælkun erlends vinnuafls, jafnvel mannsali.

 

Og við ypptum öxlum.

So what?

 

Rænd þjóð.

Stolt þjóð.

Ísland í dag.

 

Eins og við viljum hafa það.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is 794 innlendir fjárfestar fóru fjárfestingarleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

 Bitur sannleikur, Ómar. Allar vonir um breytt og betra Ísland hafa brugðist.

Þórir Kjartansson, 28.6.2017 kl. 19:42

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Tek undir með þér Ómar.

Sorglegt en satt.

Sigurður Kristján Hjaltested, 28.6.2017 kl. 21:57

3 identicon

Var einmitt að tala við þekktan norskan fyrirtækjalögfræðing um daginn og hann sagði að eitt stærsta bavíanalýðveldi hann vissi um væri Ísland. Ég tel það vera hið almenna álit sem umheimurinn hefur á okkur og að yfir 90% þeirra sem fóru fjárfestingarleiðina hafi verið íslendingar er við tökum alla þessa "erlendu" aðila með í dæmið sem eru fyrirtækin í Tortóla.

Palli Gardarsson (IP-tala skráð) 28.6.2017 kl. 22:06

4 identicon

Held að allt siðað fólk í þessu samfélagi okkar sé í eðlilegu sorgarferli,

en stjórnsýslan ekki, enda stærilátari en löngum fyrr og þarf líkast til að fara aftur til þess tíma þegar prestar og sýslumenn riðu um héruð og nauðguðu hverri ungri snót sem á vegi þeirra varð, til að finna jafnslæmt eða viðlíka. 

Það er eitthvað meira en lítið að í þessu ættarsamfélagi ógeðsins.

Rændu náunga þinn, bróður og systur og börn þín og foreldra og afa þinn og ömmu ... þá telstu gjaldgengur til frægðar og frama

í ættarsamfélagi ógeðsins, sem tilbiður skurðgoð og mammon meira en allt annað.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.6.2017 kl. 22:19

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þórir.

Ekki veit ég hvenær vonin um nýtt og betra Ísland dó drottni sínum, sjálfsagt einhvern tímann á stjórnarárum Jóhönnu, þegar ljóst var að fólkið sem sagðist vera betra, var ekki betra.

Og einhvern veginn varð aldrei neitt úr andstöðunni.

En þessi svik, og þessi þjónkun við fjármagnið, var ekki einleikin, eiginlega óskýranleg, miðað við fólkið sem átti í hlut, fortíð þess og þær hugsjónir sem það átti um betra mannlíf.

Það sama má segja um ruglandann, samstöðuleysið, alla örflokkanna sem voru gerðir út til að glepja, til að skapa villuljós svo ekki sæist leiðin til lands í gegnum brimgarðinn.

Þetta er allt eitthvað svo óskiljanlegt, hvernig allir lögðust á eitt við að bregðast framtíð barna okkar.  Grafa hana lifandi á ruslahaugum fjármagnsins.

Svo óskiljanlegt að það er eins og allt hafi átt að stefna að feigðarósi, eins og feigðin hafi verið skrifuð í skýin, og enginn mannlegur máttur haft þar áhrif á.

Kannski var aldrei von, kannski var hún alltaf tálsýn.

Ekki reyna að afsaka neinn, en ég er reyndar ekki svo lengur viss um að öðrum hefði tekist betur til.  Að það hafi vantað grunnforsenduna, að það félli með lífinu.

Og það vanti einhvern siðgrunn í samfélagið til að svo verði.

Mér finnst þessi frétt benda til þess.

Og það verður ekki svo glatt bætt úr því.

En takk fyrir innlitið Þórir.  Ég hef annað slagið rekist á skrif þín, finnst þau réttsýn og heiðarleg, það er það sem ég hef lesið.

Við þurfum meira af svoleiðis, að það sé talað um grunngildin, um hvað má, um hvað okkur ber skylda að gera.

Það er af sem áður var þegar við tókumst á, hér og þar.

Vildi bara segja þér það, en eins og venjulega, lengi að koma mér að efninu.

Hafðu það sem best.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.6.2017 kl. 22:44

6 identicon

Og þingmenn allra flokka á þingi þegja þunnu hljóði, samsekir og samtryggðir með 45% launahækkunina, skammtaða af kjararáði, sem er handvalið og skipað í af þeim sjálfum.

Nei, hér hefur ekkert breyst frá því fyrir hrun, nema þá til hins verra, forherðing sjálftökuliðs kerfisins er núna algjör og komast upp með það og eru verðlaunaðir fyrir ... nei, verðlauna reyndar sjálfa sig, skammta sjálfum sér af skattfé almennings.


Hér eru engir sjálfstæðismenn lengur, engir viðreisnarmenn, engir framsóknarmenn, engir vinstri grænir, engir píratar, engir samfylkingarmenn og engir sem trúa á bjarta framtíð ...
nei, hér er kerfið allt hluti af samseku og samtryggðu sjálftökuliði kerfisins, ræningjakerfis ættarsamfélags ógeðs og hórdóms.  

Það er ógæfulegt.  Það er öllu siðuðu fólki ógeð.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.6.2017 kl. 22:45

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Palli.

Þetta gerist alla vega ekki í lýðveldi þar sem lýðræðið byggist á borgaralegum gildum.

En hvort við séum bananalýðveldi, held ég ekki.  Sú skilgreining vísar í erlend yfirráð, eða ítök.

Hins vegar er það okkar fólk sem hefur rænt og ruplað, sem slíkt er ekki hægt að skamma þá erlendu aðila sem gripu gæsina, fyrst hún flaug inn um gluggann hjá þeim.

Ég tala um ræningjakapítalisma, hvort hægt sé að draga að því orðið ræningjalýðveldi yfir þetta auðræði hinna Örfáu sem við búum við, veit ég ekki.

Þetta er allavega ekki boðlegt frjálsri þjóð.

Siðaðri þjóð.

Ekkert af þessu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.6.2017 kl. 22:50

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Já Sigurður, þetta er sorglegt.

Kveðja að ausan.

Ómar Geirsson, 28.6.2017 kl. 22:50

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, þetta er ógæfulegt Pétur.

Sem þjóð höfum við aldrei veri fátækari.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.6.2017 kl. 22:52

10 identicon

Það er einmitt það sem veldur hinni djúpu sorg

hinni miklu depurð

að við höfum aldrei verið eins andlega fátæk.

Grunngildi lífsins eru fótum troðin og saurguð

og trú fólks fer þverrandi á að aftur veeði snúið.

En ég  trúi því samt og þú trúir því einnig

því annars þegðum við og gæfumst upp kæri fóstbróðir. 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.6.2017 kl. 23:49

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei Pétur minn, þér er ekki vel gefið að þegja.

".. en þar sem tíminn er afstæður verðum við að fara alla leið út í 5. víddina þar sem ímyndunarafl okkar hvers og eins sækir sér visku sína og vitjast okkur í draumum okkar og draumkenndum sýnum og vonum.  Einungis með því að fara út fyrir öll hnitakerfi  og öll staðsetningarkerfin og út fyrir píramída og öll valdakerfi manna og í gegnum afstæði tímans komumst við alla leiðina út í 5. víddina sem sumir hafa kallað vídd andans og vegna hennar getum við um frjálst höfuð strokið og vitrast til innsæis okkar og séð að hver og ein kona er sérstök í blöndu sinni og það er hver og einn karl einnig og þannig hefur það alltaf verið.

(þar sjáum við reyndar einnig hvað jörðin er hlálega smá að sjá og valdabröltarar og kerfisliðið enn hlálegra að sjá og eiginlega algjörlega aumkunarvert svona afhjúpað og gjörstrípað að sjá)

Og einungis með því að fara út fyrir afstæði tímans getum við skilið raungildi lýsingarorðanna og þeirra andlegu siðferðisgilda sem endurspeglast okkur þaðan og okkar er að efla í endurspeglun.  Vegur okkar til andans og dyggðarinnar liggur þangað og þau gildi skína okkur alltaf sem ljós dyggðarinnar í gegnum afstæði tímans og fá hjörtu okkar til að slá og örvast til þrárinnar til hins sanna, hins góða, hins fagra, sem sálir okkar vængjast til." (Af kynjum og víddum úr ljóðabókinni Af kynjum og víddum  og loftbólum andans)

Einhver var skýring þess að ég hafði sett bréfsnifsi fyrir nokkru á þetta erindi Pétur.  Og ég held að fólk verði að fara sætta sig við að lausnir á vanda okkar er ekki efnahagsleg að stjórnmáleg, heldur siðleg, og trúarleg.

Ef við skiljum 5. víddina, og höfum einhverja glóru um þá 6. þar sem englarnir svífa um, þá skiljum við hvað er rangt við það sem ég er að lýsa hér að ofan, og við tilefnið, það er þá frétt sem var tilefni þessa skrifa minna.

Það er ekki þessi raunveruleiki sem slíkur sem er rangur, í merkingunni rangindi, heldur sú beiska staðreynd að þetta er raunveruleikinn, ekki martröð sem heldur fyrir manni vöku að nóttu til.

Þetta er ekki land feðra okkar, þetta er ekki landið sem við tókum við og áttum að fóstra til gæfu handa börnum okkar.

Þetta er eitthvað sem átti aldrei að verða, en varð.

Og við verðum að fara spyrja okkur sjálf, af hverju?, hætta að benda á aðra, og spyrja okkur sjálf; af hverju?

Hvað er mikilvægara í lífi okkar en að vakna upp af þessari martröð, og segja, við viljum þetta ekki, við bara viljum þetta ekki?

Við viljum ekki þetta samfélag, við viljum ekki að framtíð barna okkar sé máluð þessum eintóna gráma auðhyggjunnar.

Þegar við gerum það Pétur, þegar við höldum inná lendur 5. víddarinnar, þá verður boðað til stofnfundar hjá Hreyfingu lífsins.

Síðan verður það gert sem þarf að gera.

En hvenær??

Veit ekki, er hvorki skyggn eða spámaður.

Kannski þegar loftbólur andans springa út.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.6.2017 kl. 09:34

12 identicon

Bíðið nú við, og hægið á ykkur drengir ... hvað er að vera "heiðarlegur"? Sama og að vera "fatlafól"?

Er lífið svona?

Ljón gengur upp að lambi og spyr "má ég drepa þig og éta?".  Heiðarlega lambið svarar "Já, gjörðu svol".  Óheiðarlega lambið svarar "Heirðu, hún frænka mín er þarna hinum megin við grindverkið og er bækluð og getur ekki hreift sig.  Þarft ekkert að hafa fyrir því".

Nei, Ljónið "spyr" ekki að því hvort það megi éta þig.  Bakterían spyr ekki að því, hvort hún megi smita þig. Vírusinn spyr ekki að því, hvort hann megi kvelja þig ...

Að halda að tilveran sé eins og "Dýrin í Hálsaskógi" ... er að vera "einfeldningur".

Þeir eru ríkir, sem ræna og komast upp með það ... því þeir eru sterkari en hinir.

Þeir eru fátækir, sem voru rændir og geti komið sér saman um að verja sig.

Þeir eru fangelsaðir, sem ræna og komast ekki upp með það ... svo liðið fyrir ofan, geti fundid einhvern "sóma" í ímyndaða hefnd, fyrir ófarir þeirra.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 29.6.2017 kl. 09:36

13 identicon

sæll ómar

það var talað um "Nýja" Ísland hérna með miklu yfirlæti upp úr 2009, en ég held að eftir að hafa lesið bloggið

hér að það eru bara orðin tóm. Það hefur ekkert breyst, ekki nokkur skapaður hlutur, sjálftakan er þarna enn

græðgin sterkari enn nokkru sinni fyrr og siðleysið breiðir úr sér eins og illgresið. Mér finnst Ísland milli

1980 og 1990 miklu skárra en Ísland 2017, það var meiri jöfnuður og menn jarðbundnari 

Bjarni (IP-tala skráð) 29.6.2017 kl. 09:59

14 identicon

Já Ómar, þegar loftbólur andans springa út 

þá og aðeins þá munu þær holdgervast til mennsku

hins sanna, fagra og góða.  Nú ríkir hégóminn.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 29.6.2017 kl. 09:59

15 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Góðan daginn, þetta er sannleikurinn sár en um leið ekki það land sem ég vil búa! Hvernig væri að við myndum einu sinni standa saman gegn þessum græðisöflum?

Sigurður Haraldsson, 29.6.2017 kl. 10:34

16 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Eitt enn um Geirfuglinn hann fær stað í nýjustu lundabúðinni á musterishæð Davíðs Oddssonar Perlunni sem færð var til vildarvinanna eins og allt annað úr ágætum rekstri dugmikla aðila.

Sigurður Haraldsson, 29.6.2017 kl. 10:40

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarne.

Það að vera einfeldningur er að horfa framan í ljónið og halda að það eina sem sé hægt að gera er að biðja ljónið um að opna ginið svo hægt sé að stinga höfðinu inní.

Það að vera einfeldningur er að halda að það sé ekkert hægt að gera þegar hópur manna ræðst reglulega inní þorpið og rænir og ruplar, því þú sért einn en þeir eru margir.

Það er einfeldningurinn sem flýtur sofandi að feigðarósnum, án þess að andæfa, án þess að reyna finna lænu sem leiðir annað.  Eða brynja sig þeim styrk að hann rói gegn straumnum þar til aftur er komið í lygnu lífsins.

Snorri lýsir í Heimskringlu hvernig Noregur var friðaður, böndum komið á óbótamenn sem beittu aðra ofríki, og samskipti fólks fór í gegnum lög og reglu.  Og síðan þá hefur margt þróast til betri vegar í Noregi.

Samfélög fólks á öllum tímum, um allan heim, hafa sýnt og sannað að það er alveg hægt að búa saman í sátt og samlyndi.  Það þarf sið, það þarf reglu, það þarf lög sem banna ofríki og ofbeldi hins sterka gagnvart náunganum, gagnvart samfélagi sínu.

Síðan hefur samfélögum fólks gengið misvel að halda friðinn gagnvart hvort öðru, og jafnvel þegar vel hefur gengið, þá hefur einhver ofríkismaðurinn skorið upp herör gegn friðnum, komið rænandi og ruplandi, drepið fólk, rænt eigum þess, eyðilagt tilverugrundvöll þess.

Spjótin beinast alltaf af ofríkismanninum, ofbeldismanninum, þessum sem virðir engan sið, heldur er alltaf sírænandi og ruplandi.

Hans tími er einfaldlega liðinn í dag Bjarne, við eigum ekkert val. Ekki nema að við séum orðin svo svört í sinni að við teljum endalok siðmenningarinnar, endalok lífsins í þeirri mynd sem við þekkum, vera valkost.

Ef svo er ekki, þá þurfum við átta okkur á hvaða tæki og tól við þurfum að virkja eða nota í baráttu lífsins.

Þau heita heilbrigð skynsemi, siður, og trú.

Sterkasta vopnið sem ofríkismaðurinn óttast, er trúin á hið góða.

Ef þú hefðir þá trú Bjarne, þá létir þú ekkert af því út úr þér sem þú skrifaðir hér að ofan.

Og þá lýtur þú ekki lengur stjórn hinna Örfáu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.6.2017 kl. 10:55

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Vísa í athugasemd nr. 5 þar sem ég svara Þóri, við þurfum einfaldlega að kyngja því að Gamla Ísland var endurreist, nema miklu grimmara og harðskeyttara en áður. 

Núna leyfir auðstéttin sér eiginlega allt, hún óttast ekki um völd sín því hún er alltaf tilbúin með nýtt framboð til að taka við óánægjunni. 

Vissulega dreifir hún molunum af alsnægtaborðinu, og margir eru mjög ánægðir með þá fyllingu. 

En gnægðin stafar af ytri aðstæðum, auk fjárfestinga fortíðarinnar í menntun og tækni, auka annarra innviða samfélagsins. 

Við erum ekki að byggja neitt í dag, heldur grafa undan stoðum samfélagsins.

Síðan þegar ytri aðstæður versna, sem þær gera alltaf, þá eru ekki molarnir til skiptanna, og auðlegð þjóðarinnar enn einu sinni komin úr landi.

Eina spurningin er hvað mikið verður búið að eyðileggja, hvað mikið búið að selja frá þjóðinni.

Ísland er gott land, hér er gott að búa.

Vandi okkar er að mestu heimatilbúinn, þeir sem sækja að samfélagi okkar eru innlendir, þó sést hafi til ræningjaskipa Hundtyrkjans sem hefur fyllt skip sín gulli úr fjárhirslum þjóðarinnar.

Við byggjum ekki neitt nýtt eða betra með því að umbylta því sem var gott, með því að tala niður landið sem fóstraði okkur, og gaf börnum okkar tækifæri til mennta, til að njóta góðrar heilbrigðisþjónustu, til að búa við samfélagslegt öryggi.

Það var gallað, eins og allt sem raunveruleikann hýsir, hið fullkomna er aðeins til í hugarheimi.

En galla er hægt að bæta ef húsið var byggt á bjargi.  Ég tel að svo hafi verið, vandinn felst í því að við varðveittum ekki þetta hús okkar, létum trjátítlur auðsins naga stoðir þess, og opnuðu svo dyrnar fyrir afætupakkinu sem kennir sig við fjármagn og fjárfestingu.

Sníkill gefur ekki eftir hýsil sinn baráttulaust, og eitt af hans sterkustu vopnum er að skapa sundrungu niðurrifsins, því menn geta sameinast um það sem þeir eiga, og sameinast um að breyta og bæta, jafnvel gera upp ef þess þarf, en menn sameinast aldrei um niðurrif.  Bæði sjá margir ekki tilganginn, óttast hrákasmíð þess sem er lofað, sem og menn deila um hvernig á að rífa niður, og hvað eigi að byggja í staðinn.

Og sídeilandi fólk snýst ekki til varnar að verja það sem það á.

Ég er sammála þér Bjarni, ég er stoltur af arfleið minni, stoltur af fólkinu sem vann hörðum höndum við koma þjóðinni úr fátækt í velmegun. 

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.6.2017 kl. 11:14

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Góð spurning Sigurður.

Takk fyrir innlitið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.6.2017 kl. 11:14

20 identicon

"En hvenær síðasti borgaralegi íhaldsmaðurinn dó, má guð vita."

Hann skiptir sér örugglega ekkert af því Ómar minn :-)

En við vitum að þeir síðustu seldu sig fyrir trúgirni sína um samstarfið við Viðreisn og Bjarta framtíð.

Þeir vissu alveg hvað þeir voru að gera og þeir vissu að það var rangt, enda í andstöðu við grunneðli þeirra.

Þeir vildu trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn væri upphaf og endir alls, það var trúgjarn feill þeirra.

Og að þeir seldu sig þeirri trúgirni má kalla dauðans dóm.  

En kannski þeir rísi upp á efsta degi, eða aðeins fyrr, ef guð lofar :-)

Dr. Símon J. Jónsson (IP-tala skráð) 29.6.2017 kl. 13:13

21 Smámynd: Ómar Geirsson

Jú, dr. Símon, hann skiptir sér af því.

Og þeir munu rísa upp á ný, endurfæddir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.6.2017 kl. 13:27

22 Smámynd: hilmar  jónsson

Eitthvað það besta sem birst hefur á moggablogginu í langan tíma.

hilmar jónsson, 29.6.2017 kl. 13:47

23 identicon

Ef guð lofar, er það öruggt.

Þess má nú þegar sjá teikn.

Þeim líður illa með Bjarna.

Dr. Símon J. Jónsson (IP-tala skráð) 29.6.2017 kl. 13:53

24 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið hilmar.

Það tók allavega ekki 2 kaffibolla að glíma við þetta örinnlegg þitt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.6.2017 kl. 15:34

25 identicon

"Þegar komið er að endalokum leiðtoga ríkis má sjá þess merki

í því hversu örlátur hann er á að skammta sjálfum sér

og vildarvinum sínum úr ríkissjóði, þ.e.a.s. af almannafé."

(þannig hljóðar umorðuð forn-speki gula keisarans sem uppi var fyrir nær 5.000 árum, hún á enn við)

Dr. Símon J. Jónsson (IP-tala skráð) 29.6.2017 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 1529
  • Frá upphafi: 1321537

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1304
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband