Prinsessan og karlsson.

 

Í íslenskum þjóðsögum er sérstakur kafli helgaður ævintýrum ýmiskonar þar sem algegnt stef eru sagnir af karlssyni, sem fór út í heim, bjargaði konungsríkjum úr ógnum og þrautum, og fékk fyrir prinsessuna og hálft konungsríkið að launum.  Og svo endaði sagan á óskhyggju alþýðunnar, "lifðu þau hamingjusöm upp frá því".

Því miður var raunveruleikinn annar fyrir Karlssyni, yfirstéttin var snobbuð, og ef þeir voru ekki þeim mun duglegri að höggva hausa þá voru þeir hafðir að háði og spéi, og jafnvel hraktir frá völdum.

Við Íslendingar höfum upplifað nútímaútgáfu þessa ævintýris, karlssonur einn nældi sér í ríka prinsessu í útlöndum, fékk reyndar ekki hálft ríkið að sögn þar sem gerður var kaupmáli, og hann flutti hana með sér í kotið á Bessastöðum.  Og ævintýrið fékk ekki góðan endi.

Íslenskur almenningur eða réttara sagt hluti hans, vill ekki að rík prinsessa búi í kotinu.  Og því ekkert um annað að ræða fyrir karlsson, að skila prinsessunni aftur til útlanda, eða gefa eftir kotið og fara með prinsessunni í útlegð.  Svona líkt og Játvarður, prins af Wales gerði á sínum tíma, þegar hann tók ást fram yfir upphefð.

 

 

Áður en lengra er haldið þá vil ég taka það fram að það er gilt sjónarmið sem kemur fram í ágætum bloggpistli Jóns Magnússonar lögmanns hér á Moggablogginu i gær;

Mér finnst eðlilegt að sett séu þau siðrænu mörk fyrir kjörna fulltrúa sem starfa í nafni íslensku þjóðarinnar og með umboði hennar, að hvorki þeir né makar þeirra eigi peninga í skattaskjólum. Þetta gildir óháð því hver í hlut á eða hvort manni líki vel við viðkomandi eða jafnvel styðji viðkomandi að öðru leyti. Þannig þarf forseti lýðveldisins, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra að gefa þjóðinni fullnægjandi skýringar á eignum sínum og þess vegna maka í skattaskjólum, í hvaða tilgangi peningarnir hafi verið fluttir þangað og sýna fullnægjandi gögn um eðlilega meðferð leynireikninganna hvað varðar samskipti við íslensk yfirvöld.

Gangi það ekki eftir að ofangreindir kjörnir fulltrúar þjóðarinnar geri ekki fullnægjandi grein fyrir þessum hlutum þá verða þeir hinir sömu að víkja.

 

Við getum gert þessa kröfu, og hún er fyllilega réttmæt. 

En þá þurfum við að gera hana til allra, ekki bara þeirra sem okkur er pólitískt illa við.

 

Og í kjölfarið á þjóðin heimtingu á að fá að vita fyrir hvaða aflandseigendur Seðlabanki Íslands er að þvo fé með fyrirhuguðu gjaldeyrisútboði sínu. 

Þeir sem láta staðar numið við að ráðast á hjónaband Ólafs Ragnars, eru þá að því í annarlegum pólitískum tilgangi, að öllum líkindum að verja þá gjörð að illa fengið fé aflandseiganda sé hvítþvegið af seðlabanka þjóðarinnar, og erum þá hreint út drulludelar og skítseyði.  Enda flestir ICEsave þjófar að upplagi.

Og að sjálfsögðu vil ég taka það skýrt fram að ég er að tala um gerendur málsins, ekki almenning sem þarf að bregðast við öllum hinum misvísandi upplýsingum í þeim hávaða og látum sem vinnumenn auðsins framleiða á færibandi þar til allur aur er þveginn, og þar til Gjöfin eina er að fullu komin í  vasa húsbænda þeirra.  Það er eðlilegt að almenningur sé reiður, og það er líka eðlilegt að menn taki stöðu með sínum mönnum.

Það frýjar bara ekki þá sem stýra hjörðinni.

 

Það er líka hægt að fyrirgefa forsetanum að hafa í einsemd ekilsins  fallið fyrir fallegri konu, sem deildi með honum einmanaleikanum, og líkaði við hann eins og var.

Sönn ást spyr ekki um auð, það vitum við jú sem höfum séð Juliu Roberts í Pretty Women.

Þjóðin allavega meðtók þetta hjónaband, og hún vissi allan tímann að Dorit var auðug, og tilheyrði auðugri fjölskyldu.  Og eftir þetta hjónaband hefur Ólafur ítrekað hlotið kosningu.

Hvað hefur breyst??  Dorit er auðug, og hún mun erfa auð.  Og útí hinum stóra heimi er auðnum komið fyrir á þann hátt sem íslenskir fjölmiðlar hafa velt sér uppúr NÚNA, og fjölskylda Doritar er engin undantekning þar á.

Spurningin er bara, erum við það skítleg í eðli okkar, og þá getum við ekki bent á leiðtoga hjarðarinnar okkur til afsökunar, að við getum ekki umborið þessa ástarsögu.  Er það bara í bíómyndum sem við meðtökum þær?

 

Hvað hefur Dorit Moussaieff gert íslensku þjóðinni annað en það að vera vel við hana, tala vel um hana í fjölmiðlum sem og sínum vinahóp, greitt götu samlanda okkar í London, og bent okkur á að íslenska vatnið er allra drykkja bestur?

Jú, og fallið fyrir íslenskum sveitapilt.  Sem vill svo til að er forseti landsins.

Fjármál hennar hafa ekki á nokkurn hátt tengst Íslandi og íslenskum hagsmunum.  Hún er ekki einn af gerendum hrunsins eða í hópi hinna innlendra hrægamma sem halda þjóðamálaumræðunni allri í heljargreipum sínum.

Hún býr í London vegna þess að bretar haf markvisst laðað að sér auðuga einstaklinga, reyndar svo til vandræða horfir því það er ekki fyrir hvítt fólk að kaupa sér íbúð í miðborg Lundúnar, og þeir hafa gert það á þann hátt að skattalegt umhverfi þessa fólks er hagstætt, og engin hnýsni í persónuleg fjármál.

Dorit er ekki skattsvikari samkvæmt breskum lögum, heldur er hún velkominn milljarðamæringur, sem bretar sjá sér hag í að búi í landinu.

 

Alþjóðlegir milljarðamæringar eru hins vegar alþjóðlegt vandmál, stjórnmálamenn í þeirra vasa, a la frjálshyggjumenn, hafa skapað þeim þannig skattaumhverfi, að ef þeir vilja, þá greiða þeir lægri gjöld en bílstjórar þeirra.  Þó þeir örugglega nýti sér það ekki nema að hluta.

Aflandsumræðan tengist þessu vandamáli, og reiði almennings víða um heim vegna þeirra upplýsinga sem koma fram í Panamaskjölunum, bendir til að hann sé búin að fá nóg af þeirri fjárhagslegu og stjórnmálalegu siðblindu sem að baki býr.

En hvað kemur það Dorit við, hún er hluti af kerfinu sem við segjumst vilja fella, en kerfið fellur ekki þó við fellum hana.

Það sem meira er, kerfið býður hana fram á höggstokkin sem friðþægingu svo við látum það að öðru leiti í friði. 

Munum að það eru aðeins nokkrar vikur að stóra peningaþvættinu, það eru ekki margir dagar þar til íslensku aflandseigendurnir hafa hirt alla Gjöfina einu sem íslenskir stjórnmálamenn færðu þeim undir nafninu; Stöðugleikaframlag.

 

Svo við segjum það hreint út, að þeir sem þiggja þessa friðþægingargjöf hins vanheilaga bandalags aflands og ICEsave þjófa, eru ekki bara það skítlegir að ráðast á ævintýrið, þeir eru líka heimskir.

Eða hvað myndi fólk segja um nágranna sinn sem kom að þekktum hópi innbrotsþjófa bera út allt innbú hans, en hann myndi ekkert gera því almannatengill innbrotsþjófanna myndi taka hann afsíðis og segja honum krassandi kjaftasögu um alla hina nágrannanna.

Rændur öllu myndi hann síðan koma glaðhlakkalegur í næsta kaffitíma, og segja; "heyrðu, veistu hvað ég heyrði ...".

Þeir sem vita uppá sig skömmina og skilja ekki inntak dæmisögu Espós um asnann og gulrótina, því hún er um asna  en ekki menn, þeir segja að þessi meinti nágranni þeirra sé ekki heimskur, hann sé ekki til.

Sem er alveg rétt, hann er ekki til, en ef hann væri til, þá væri hann heimskur.

 

En við sem þjóð erum í sporum þessa nágranna.

Og hvað erum við þá?

 

Ég vil ítreka að þetta er gilt sjónarmið sem kemur fram hjá Jóni Magnússyni.

Við getum sent skýr skilaboð út í samfélagið, og til heimsbyggðarinnar allra, að við Íslendingar viljum ekki lengur þetta aflandskerfi.  Og við treystum ekki fólki sem tengist því til að gegna æðstu embættum  þjóðarinnar.

En ef við látum þar staðar numið, þá erum við feig þjóð.

Rænd og rupluð.

 

Því auðurinn er tilbúinn með meinleysingja sem ekkert segja, sem ekkert geta, í öll þessi embætti.

Fyrir hann er þetta eins og að ráða bílstjóra í vinnu.

Að losna við hættulegan andstæðing úr Bessastöðum fyrir þetta prinsipp, finnst honum lítið gjald.

Smáaurar í hinu stærra samhengi.

 

Og þetta er líklegasta niðurstaðan úr því að sem komið er.

Múgæsingin lætur ekki að sér hæða.

Og hið æðsta lögmál íslenskrar stjórnmálaumræðu, "bentu á hina", mun tryggja sundurlyndið og óeininguna sem gerir auðnum kleyft að deila og drottna.

ICEsave þjófarnir ríða röftum í þágu þeirra og hið aumkunarverða Andóf dansar með.

 

Fórnarlömbin eru börn okkar og framtíð þeirra.

Það er ekki gott að alast upp í rændu og rupluðu samfélagi þar sem reiði og heift kraumar undir vegna ógróinna sára úr fortíð.

Það er velmegun í dag, en þá velmegun má að mestu rekja til happdrættisvinnings sem kallast mikil fjölgun ferðamanna, hvikull vinningur sem getur gufað upp á einu sumri. 

Aðeins þykk glansandi málning utan um fúafley sem er gegnum rotið að innan.

 

Hverjir eiga Ísland?

Ég hefði viljað að svarið sé börnin okkar, að við séum orðin það þroskuð á 21. öldinni að láta ekki fámenna yfirauðstétt ráðskast með samfélag okkar þannig að það sé aðeins matarborð fyrir hana þar sem hún má hirða allar kræsingarnar en molarnir séu aðeins fyrir okkur hin.

Vissulega eru molarnir nærandi þessa stundina, en það er aðeins á velmegunartímum. 

Við upplifðum annað eftir Hrunið 2008, og við munum upplifa það sama eftir næsta Hrun.  Því hrun er óhjákvæmilegt í auðsamfélagi þar sem örfáir sjúga til sín án þess að skila til baka.

 

Það er mikil ábyrgð að láta þá komast upp með það.

Ábyrgð sem við verðum að horfast í augun við að er okkar, ekki annarra.

Það er ekki endalaust hægt að kenna náunganum um allt sem miður fer.

 

Ævintýrið um prinsessuna og karlsson er því prófsteinn á styrk okkar innri manns.

Það er ekkert einhlítt svar við því.

En mörg sem eru röng.

 

En valið er okkar.

Ekki annarra.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Hagnaður upp á tugi milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 482
  • Sl. sólarhring: 587
  • Sl. viku: 647
  • Frá upphafi: 1320490

Annað

  • Innlit í dag: 422
  • Innlit sl. viku: 564
  • Gestir í dag: 395
  • IP-tölur í dag: 392

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband