Draumurinn eini. Draumur okkar allra.

 

Pabbi, viltu sjá afabörn þín????

 

Þegar 5 ára drengurinn finnst pabbi sinn vera ósanngjarn fram úr hófi, og ekki skilja gjörðir og tilfinningar lítils drengs, þá spyr hann mig þessarar spurningar, "pabbi viltu ekki sjá afabörn þín" og hótar mér því að flytja af heiman og þar með ég muni ekki sjá þau börn sem framtíðin mun ala. Þau hafi ekkert að gera við að hitta svona vondan afa sem skammar börnin sín.

Í þessari stóru spurningu lítils barns felst kjarni þess sem gefur lífi okkar tilgang. Við viljum ala af okkur líf, og sjá það líf ala af sér líf. Og við viljum að það líf alist upp við þau skilyrði að þá fá að blómstra og dafna án stöðugs ótta við manngerðar hörmungar, hvort sem það eru stríð og ófriður, eða arðrán og kúgun, eða siðleysi og grimmd.

 

Í dag eru ýmsar blikur á lofti að þessi hótun sonar míns gangi eftir. Ekki vegna þess að ég óttast ekki að ná sátt við son minn, heldur vegna þess að ég óttast það átakaferli sem heimurinn er í og ég óttast uppgjör kúgaðra við skipulegt arðrán og siðlausa kúgun hins alþjóðlegs auðvalds, sem skipulega vinnur að því að gera hina ofurríku, ofurofurríka, og okkur hin miklu fátækari, jafnvel allslaus.

Fyrir um tveimur árum las ég grein þar sem einhver mætur maður benti á að lognmolla upphafsára þessarar aldar væri um margt keimlík og var í aðdraganda fyrra stríðs. Almenningur lifði í þokkalegri velmegun (miðað við aldirnar á undan) og framfarir blöstu við hvar sem litið var. En á skákborði stjórnmálanna ríkti spenna, og þar sem maðurinn þekkti bara eina leið til að leysa þá spennu, þá fór allt í bál og brand. Ég í sjálfu sér gaf ekki þessari samsvörun gaum, hafði um annað að hugsa. En síðan kom Hrunið, nýfrjálshyggjan hikstaði, og tók þjóðarauð margra landa með sér í fallinu.

 

Aðvörun, lærdómur??? Eða verður hún endurreist aftur, ennþá illskeyttari en fyrr????

 

En samt var þetta ekki mér efst í huga, heldur þær hörmungar sem yfir okkur gengu, og þær gerðu mig áhyggjufullan. En ég var það barnalegur að halda að þjóðin myndi læra af Hruninu jafnframt því hún einsetti sér að skipta byrðum Hrunsins á allar herðar, og þeir sem urðu fyrir áföllum (atvinnuleysi, skuldakreppa) fengju þá hjálp sem allir fá á hörmungatímum. Ég trúði því að enginn yrði skilinn eftir í þeim skít sem frjálshyggjan skóp þjóðinni.

Ég hafði svo innilega rangt fyrir mér. Ábyrgðarmenn Hrunsins, þeir voru fljótir að ná vopnum sínum, og með nýjum leikendum þá hófu þeir markvissa endurreisn hins gamla kerfis, aðeins verra og siðspilltara en áður hafði þekkst. Því aðeins gjörspillt fólk, sem aðhyllist algjörlega siðblint þjóðfélag, skilur ungt fólk eftir á vergangi vegna afleiðinga mannlegra hörmunga, hörmunga sem unga fólkið bar enga ábyrgð á.

 

Upp í huga mér kom stefið "bræður munu berjast og af bönum verðast", og það stef hefur ekki vikið þar út síðan.

 

Fyrst ég upplifði tíma goðsagnanna á Íslandi, hvað þá um þær goðsagnir sem alltí einu virtust spretta upp úr gráma forneskunnar og voru að öðlast sjálfstætt líf. Er tími Ragnarrakanna upp runninn???? Hvernig getur líf okkar alið af sér líf, ef við látum höfðingjanna endalaust leysa mál sín á okkar kostnað, og ef við leyfum þeim að grípa til vopna til að vernda stöðu sína og hagsmuni. Hvað þá ef kúgaður lýður rís upp og hrekur þetta lið af höndum sér.

Gömul saga og ný, en í fyrsta sinn í sögu mannkyns, hefur það getu til að há sitt lokastríð, og mannkyn sem kann ekki aðra lausn á átökum, en að drepa náungann, það hlýtur að há þetta lokastríð. Og um þau endalok fjalla hinu fornu goðsagnir. Goðsagnir, raunveruleiki, skilin eru orðin óljós. Og öll fljót falla að Heljarósi.

 

Ekki svo sem nýtt, nema vegna þess að ég spurður spurningar sem allt mitt sjálf, öll mín mennska vill svara játandi. Já, sonur minn, ég vill sjá afabörn mín.

Þess vegna settist ég hikandi við tölvuna, og fór að blogga. Að hluta til gegn siðleysi þess að neita ungu fólki um aðstoð, um siðleysi þess að gera það að listíðarskuldaþrælum, að hluta til gegn þeim ógnaröflum sem hafa ráðist á þjóð okkar og ætla að knésetja hana í þrælkun og örbirgð, en að hluta til vegna þess að ég taldi og tel, að það þarf að orða nýja hugsun, nýjar lausnir.

 

Það þarf að orða gildi mannúðar og mennsku, og orða þá heilbrigðu skynsemi sem mun koma okkur út úr þrengingum okkar án þess að við fórnum því þjóðfélagi sem tók áa okkar áratugi að byggja upp með þrotlausri vinnu og erfiði. Þjóðfélag velferðar og mennsku.

Það þarf að horfast í augun á þeirri miklu ógn sem upplausnaröfl Tregðunnar skapa mannkyninu á komandi árum.

Það þarf að skapa mótvægi gegn þeirri upplausn, skapa jákvæða ferla sem vinna gegn þeim öflum sem eru okkur svo skeinuhætt. Öflum sundurlyndis, siðblindrar græðgi og ómennsku.

 

Þess vegna hef ég mótað hugsanir mínar um Byltingu lífsins, og um þær hugsanir má víða lesa, bæði á mínu bloggi og annarra sem vilja það sama og ég. Að líf afkomenda þeirra sé tryggt. Bylting lífsins snýst um að við finnum aðrar lausnir á deilum, en átök, þróun tækni mannsins hefur útilokað þá deilulausn.

Við þurfum að viðurkenna rétt allra til mannsæmandi lífs, og við eigum að nota heilbrigða skynsemi og mannvit til að byggja upp samfélag þar sem allir njóta slíkra réttinda. Og fyrir þá sem sjá ekki heiminn án stríða og átaka, þá eigum við að skera upp herör gegn fátækt og örbirgð, gegn spillingu og glæpum, gegn umhverfisógn og loftlagsbreytingum. Þegar þau stríð eru búin, þá má alltaf finna önnur, án þess að þau feli í sér endalok mannkyns.

 

Um allan heim er fólk að orða svipaðar hugsanir. Páfinn kom inn á kjarna málsins þegar hann sagði í páskaávarpi sínu að við stefndum að feigðarósi, nema við sjálf gerðum eitthvað í málinu, að við horfðumst inn á við og tækjum okkur sjálf taki. Að viðurkenndum að forsenda framtíðar er hin siðaða manneskja, ekki hið taumlausa villidýr græðginnar sem gerir allt sem það kemst upp með.

Biskup Íslands lagði einnig margt þarft til málanna í páskaguðþjónustu sinni. Hann bar saman þjóðfélag villidýra og þjóðfélag mennskunnar, þjóðfélag hins siðaða manns.

 

Allt hefur þetta verið sagt áður. En eini munurinn er sá að ef við hlustum ekki núna, þá verða þessar ræður aldrei fluttar aftur, svona af gefnu tilefni þess að það verður hvorki nokkur til að flytja þær, eða nokkur til að hlusta á.

Það vill svo til að það varð okkar hlutskipti að hlusta, það var okkar að gera það upp við okkur hvort við vildum sjá barna eða barnabörn okkar. Við báðum ekki um það hlutskipti en tíminn lét það verða okkar.

Það er ekkert val, það er engin leið B út úr vandanum. Augljóst mál, því annars sæti ekki feiminn, fælinn maður eins og ég, með öll sín vandamál, fyrir framan tölvuna, og eyddi tíma mínum í að gera mig að fífli með því að tala um mannúð og mennsku, að tala um að núna verðum við sjálf að gera eitthvað í málinu.

Hrunið mikla 2008 sýndi fram á í eitt skipti fyrir öll, að höfðingjunum er ekki treystandi fyrir framtíð mannkyns.

 

En hvað get ég gert hugsar lesandi þessa pistils, hvað get ég gert?? Jafnvel þó ég samþykki forsendur hans, og vilji það sama og pistlahöfundur, þá náum við varla tylftinni, allavega ekki stórtylft, og fleiri þarf til að brjóta Tregðuna á bak aftur.

En í þessari afstöðu liggur einmitt von Tregðunnar, Tregðu upplausnar og óreiðu, um hinn endalega sigur.

Að fólk fatti ekki að þessi Bylting byltinganna er eins og að drekka vatn. Auðveld í framkvæmd og sigurinn er vís, eins og í öðrum þeim stríðum þar sem réttlæti og mennska er með í för.

 

Vegna þess að þessi Bylting, að þessi sigur, þarf aðeins eina forsendu, og hún er eins auðveld og nokkur forsenda getur verið.

Það eina sem þarf er að hver og einn horfi í sinn eigin barm, og spyrji sig spurningar um hvað það er sem skiptir hann máli í lífinu.

Og ég hygg að svarið sé í anda þess sem fyrirsögn þessa pistils tjáir. Það eins sem skiptir hvern og einn máli, er líf og velferð afkomenda sinna. Það er ekki jeppi, eða fallegt hús, þægilegt líf eða öryggi þess að vera með hausinn í kafi í sandi á meðan villidýr ómennskunnar æða um organdi um grundir, allt þetta er í raun hégómi miðað við hinn raunverulega tilgang okkar.

Það erum aðeins við sem getum svarað þessari spurningu. Bæði þess að spyrja hennar og svara henni, það er mál hvers og eins.

Þegar hver og einn hefur spurt hennar og svarað, þá leitar hann þá upp sem eins er háttað.

 

Þannig myndast afl sem Tregðan ræður ekki við.

Afl hins siðaða manns sem gefur skít í hið viðtekna að svona er þetta og hefur alltaf verið, og við því sé ekkert að gera.

Afl hins siðaða mann sem tekur illsku og spillingu í bóndabeygju, og segir henni að hafa sig hægan.

Vegna þess að núna þarf að sinna mikilvægari málum og það mun verða gert. Vegna þess að það þarf að gera það sem þarf að gera.

 

Eina forsendan er að hver og einn taki afstöðu með framtíðinni.

Það er ekki undir neinum öðrum komið, það er ekki til minni heil tala en einn, og fjöldinn er myndaður úr mörgum einum.

Við eru ekki tvö eða milljón, við erum við.

Upphaf og endir Byltingarinnar er því undir okkur sjálfum komið. Engum öðrum.

 

En af hverju ég, af hverju þar ég að svara þessari spurningu, núna, spyr íslenskur lesandi þessa pistils. Við erum svo agnarsmá í heimsins hafi, hvernig getum við orðið það korn sem kemur skriðu byltingar mannsandans af stað???

 

Svarið er líka mjög einfalt, vegna þess að harmur okkar er brot af heimsins harmi. Og vinnumenn Tregðunnar, siðblint auðvald er að rústa framtíð barna okkar.

Vörn okkar, byggð á mennsku og mannúð hins siðaða manns, byggð á viti og þekkingu hins skynsama manns mun tryggja okkur sigur.

Sá sigur mun gefa öðrum manneskjum, sem líka glíma við þursa Tregðunnar, þá von og þá hvöt sem þarf til að líta í sinn eigin barm, og segja Nei við þeirri lygi, að við hinn venjulegi maður séum aðeins leiksoppar höfðingja og auðmanna, og Já við þeirri staðreynd að við erum upphaf og endir alls.

Að vilji okkar til lífs og framtíðar sé það afl sem siðmenningin hefur til að viðhalda sér. Að það séu við sem munum sigra Tregðuna, og skapa börnum okkar framtíð.

 

Framtíð í mannsæmandi samfélagi þar sem fólk lifir við frið og öryggi. Vissulega getur okkar kynslóð ekki tryggt það um aldur og ævi mannsins. Hún getur tryggt að á einhverjum tímapunkti framtíðarinnar, þá þurfi önnur kynslóð að spyrja sig sömu spurningar.

Hvernig hún svarar, veit enginn, en okkar lausn er þá allavega þekkt. Lausnin snýst um hina miklu gjöf sem okkur var gefin og Steinn orðaði svo vel:

 

Það stendur af sér allra veðra gný

í annarlegri þrjósku, veilt og hálft,

með ólán sitt og afglöp forn og ný,

hinn einskisverði maður;

Lífið sjálft.

 

Þegar við áttum okkur á þessari grunnstaðreynd, þá er eftirleikurinn leikur einn.

Það eina sem þarf er vilji okkar sjálfra til að breyta hlutunum, að við áttum okkur á að við séum ekki fórnarlömb illskuafla, við eru gerendur framtíðarinnar.

Já, ég vil sjá barnabörn mín.

Kveðja að austan.

 

 

PS. Svona orðaði ég þetta fyrir tæpum 2 árum síðan.  Fækkaði aðein Og-unum og breytti Byltingu byltinganna í Byltingu lífsins.  Annars útskýrir þetta ágætlega þá sérvisku mína að vera skrýtinn á þessari öld tómhyggjunnar.  En þetta er endir þess bloggs sem hér hefur verið haldið úti núna í um 3 ár. Vakni það til lífsins þá verður það hluti af Hóp sem samanstendur af fleiri 1 en 1.

Hvort það verður er ekki gott að spá, en engan vegið komið undir mér.  Það þarf fleiri en einn til að verða fleiri en einn.  

Takk fyrir mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Sæll Ómar !

Vonum bara að sem flestir lesi þetta og ekki bara það, heldur skilji það líka, ekki öðru við að bæta hér, þannig er það bara.

"Lognmollan" sem þú nefnir, er eins og "Tsúnamían" á leið sinni yfir stórhöfin, bara svona smábunga á yfirborðinu, það er þegar hún skellur á ströndum manneskjanna að kraftur eyðileggingarinnar fyrst kemur í ljós.

Gangi þér sem best félagi, baráttan heldur áfram bæði hér og þar.

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 24.4.2012 kl. 16:51

2 identicon

Takk Ómar fyrir þennan frábæra pistil og reyndar alla þína pistla aðra,

sem hafa verið einstaklega "innspírerandi" til allrar andans grósku og það til allra átta.  

Ég tel mig lánsaman mann, að hafa fyrir vel rúmum tveimur árum ratað inn á bloggsíðu þína.

Og eftir það sá ég fljótt að við værum skyldir í andanum, þó talsverður blæbrigðamunur væri á orðanotkun okkar.

En þó þú takir þér eitthvert hlé frá bloggskrifum þínum, þá hefurðu sáð vel til byltingar lífsins.

Með haustinu vænti ég að uppskeran komi í ljós.

Heyrumst þó vonandi fyrr og tökum stöðuna með jöfnu millibili í gegnum telefóninn:-)

Með mínum bestu kveðjum til þín og þinnar fjölskyldu Ómar.

Pétur Örn 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.4.2012 kl. 18:27

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Einlægur,ég er líklega að lesa hann aftur þótt muni ekki nákvæmlega orðin frá því fyrir 2 árum. Fótboltamenn skrifa stundum á innri bol sinn í kappleikjum,þegar þeir hafa skorað,mikilvægt mark;" Why always me" hvað innihald lítillar setningar getur merkt mikið,þannig eru þínir pistlar. ( Þótt ég taki dæmið úr ensku,) Mb.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 24.4.2012 kl. 21:50

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ómar, trú mín er sú að þu getir ekki staðið við að hætta alveg skrifum þínum,það bara má ekki ske en þessu ræður þú auðvitað sjalfur,en ef svo er saknna ég þinna pisla mikið/Kveðja að sunnan!!!!

Haraldur Haraldsson, 25.4.2012 kl. 00:11

5 identicon

"Þegar 5 ára drengurinn finnst pabbi sinn vera ósanngjarn fram úr hófi, og ekki skilja gjörðir og tilfinningar lítils drengs, þá spyr hann mig þessarar spurningar, "pabbi viltu ekki sjá afabörn þín" og hótar mér því að flytja af heiman og þar með ég muni ekki sjá þau börn sem framtíðin mun ala. Þau hafi ekkert að gera við að hitta svona vondan afa sem skammar börnin sín."

Refur lýgur, refur lýgur...

Jóhann (IP-tala skráð) 25.4.2012 kl. 00:29

6 identicon

Út úr myrkrinu skaust einhver Jóhann sem mér sýndist vera refs og haukslegur og vinna í stjórnarráði "Ríkisins".

The Deep Throat (IP-tala skráð) 25.4.2012 kl. 02:18

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Kristján.

Núna þarf ég eins og aðrir að finna baráttunni farveg.  Á þann hátt að aðvörunarkerfin hafi verið virkjuð áður en flóðbylgja aflandskrónanna kæfir þjóð okkar.  

Í Víkinni minni fögru rennur á úr Ímadalnum sem er beint fyrir ofan Ímastaði.  Úr vatni í dalnum rennur lítill lækur sem sameinast ánni í hlíðinni fyrir neðan klettabrúnina.  

Síðan rennur þriðji smálækurinn niður þar við hlið og saman mynda þeir fallega sjón eftir stórrigningar.  Þessi smálækur er mín sköpun, ég tók hann úr læknum vel fyrir ofan dalsbrúnina og útbjó honum farveg þannig að hann rennur niður í sundlaug sem ég gróf út fyrir ofan bæinn og vantaði vatn í .

En eins og hann er falleg sjón í leysingum þá var hann einu sinni aðeins eitt skófar sem ég markaði í jarðveginn til að kanna vatnshallann.

Ég held að það sé eins með þennan farveg sem ég er að gera mér vonir um, að út litlu verði eitthvað mikið ef vilji er til.

Farvegur sem talar um framtíð og þau mál svo verði framtíð, um mál sem sameina fólk, og um það sem þarf að gera til að vernda samfélög okkar fyrir þeim öflum sem vilja þeim illt með gjörðum sínum eða hugmyndafræði.

Ekki farvegur sem talar um fortíðina og slæst við fortíðina, talar um mál sem sundra í herðar niður og hefur enga rænu að verjast þeim sem að okkur sækja í dag.  Því menn manna ekki skotgrafir nútíðar þegar þeir eru fastir í skotfgröfum fortíðar.

Ef maður tekur mark á því sem ég skrifa hér að ofan, þá reynir maður gera eitthvað slíkt.

Maður veit aldrei hvað verður úr einu skófari.

Kveðja til ykkur út i Norge Kristján.

Með kveðju að austan.

Ómar Geirsson, 25.4.2012 kl. 08:20

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Núna geri ég mér vonir um Samstöðuna sem Liljur vallarins ná að skapa þegar þær renna í eitt, framtíð okkar allra til heilla.

Við heyrumst.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.4.2012 kl. 08:22

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Helga.

Og eins og maðurinn sagði, "why always we".

Ákall lífsins er til okkar, ekki munu höfðingjarnir vernda framtíð barna og barnabarna okkar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.4.2012 kl. 08:26

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Haraldur.

Takk fyrir hlý orð. 

En óþarfi að gráta Björn bónda, ég er að loka átakabloggi mínu, það þjónar engum tilgangi lengur og annað hvort tek ég sjálfan mig á orðinu og hef mig uppá annað level, að vera þátttakandi í hóp eða hætti þessu skömmum út í allt og alla.

Ég hef ekki það þrek sem þarf til að starfa bloggi lífsins á eigin spýtur en það þýðir ekki að maður leggist í kör og grætur mátt sinn og meginn.  Víkin mín fagra er með óendanlegan kraft ef tengingarnar eru réttar og þangað er meiningin að fara og troða niður nokkrum plöntum eftir mjööööggg langt hlé.  Þökk sé Ólafi kraftaverkalækni á Egilsstöðum.  

Einnig ætla ég að leggjast við fótskör Björns Bjarnasonar, þó í anda en ekki námd, og læra af visku hans um Qi Gong en það eru fræði sem hugsanlega gætu losað um hryggjarfestuna sem hefur mig lifandi ætlað að drepa í svo mörg ár.  

Gangi allt eftir væntingum og vonum þá verður það Birni að þakka að ég starta bloggi lífsins og í þakklætisskyni mun ég ekki segja eitt styggðaryrði um góða gegna Sjálfstæðismenn þó einhver skot kunni að fara til þeirra sem hafa látið auðræningjafræðin kennda við Nýfrjálshyggju yfirtaka heilbrigða skynsemi sína.

Þannig að rísi ég upp Haraldur þá munt þú örugglega finna meiri samhljóm en pirring með skrifum mínum.

Því í kjarnanum erum við að tala sama tungumálið þó við orðum hugsanir okkar á mismunandi hátt.

Ég hef sagt það áður og segi það enn, Ísland á enga von nema það takist að skapa Breiðfylkingu hins venjulega manns um eitt markmið, að þjóð okkar eigi framtíð í landi sem lifandi er í fyrir venjulegt fólk.

Vonandi næst Samstaða um það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.4.2012 kl. 08:43

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Þú segir það Jóhann. 

Vissulega er það rétt að strákurinn hefur ekki ennþá flutt að heiman þó hann sé að verða 8 ára en ég tók því alltaf þannig að hann meinti orð sín og ég yrði því að taka mark á þeim og draga úr skömmum mínum og jafnvel segja fyrirgefðu við hann endrum og eins.  

Og hann  misnotaði ekki þessar hótanir sínar, aðeins þegar honum fannst ástæða til og líklegast átti ég þær alltaf skilið.

Enda vil ég verða afi og tók því mark á drengnum.

En mér datt aldrei í hug að hann væri rebbi og væri að plata mig, en hef það samt á baki við eyrað næst og spyr hann hreint út.

En það er langt síðan ég fékk síðast að heyra þetta svo óvíst hvort tækifæri gefist í bráð.  En takk samt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.4.2012 kl. 08:49

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður þú þarna Upplýsandi úr dýpstu valdakimum.

Ég held að haukarnir úr stjórnarráðinu séu ekki að eltast við okkur smáfuglana.  Söngur okkar nær aðeins eyrun annarra smárra fugla og er til lítils annars en að styrkja stefið um bætta tíð og grósku í haga.

Sem betur fer geta menn heitið Jóhann án þess að vera haukar AGS.

Það eru ekki svo margir sem vinna fyrir þau Óbermi.

Sem betur fer.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.4.2012 kl. 08:53

13 identicon

Nú veit ég ekki hvaðan þú hefur fengið þá flugu í höfuðið að ég sé Jóhann Hauksson.  Ég er annar.

Og refurinn er ekki sonur þinn.

Þú ert refurinn og lýgur því að fimm ára sonur þinn hafi beitt þig viðlíka trakteringum. 

Jóhann (IP-tala skráð) 25.4.2012 kl. 23:11

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jóhann.

Ég hef oft spáð í  með ykkur stuðningsmenn helfarar þjóðar ykkar hvort þið séuðu skýring þess að karlmannsskór með frönskum rennilás seljast svona mikið, velti því svona fyrir mér að hvort menn sem eru ekki læsir á einfaldan texta kunni að reima skó.  Það hlýtur að vera einhver skýring, önnur en innræti að menn leggjast svona lágt.

En það verður að taka þessu eins og hverju öðru þreytandi bitmýi, þó morgunsárið sé til margs annars skemmtilegra en að svara suðinu í ykkur.

Ef þú ert læs, þá vonandi hefur það einhver áhrif að svara þér, og þá ættir þú að lesa lið 11 aftur, því þar stendur blessaður Jóhann, ekki blessaður Jóhann Hauksson, enda hvarflar ekki að mér að þú sért sá heiðursmaður.  Hef ekki orðið var við hann hér á Moggablogginu og reikna hreinlega ekki með að hann sé svo ómerkilegur að hann að kannist ekki við nafn sitt þegar hann eys drullunni.

Ef þú hefur hlerað svar mitt við Deep Throat þá benti ég honum kurteislega á að heimildir hans fyrir samsæriskenningum hans væru rangar.

Víkjum þá að svari mínu til hér að ofan.  Auðvita skildi ég glósuna og kaus að hæða þig út í eitt á móti.  Reiknaði með að þú hefðir vit á að þegja en átti ekki von á að þú legðist ennþá lægra en þú gerðir.  

Það þarf merkilega manntegund til að mæta inn í athugasemdarkerfi pistils sem er ótengdur allri umræðu og leita að höggstað á höfundi en ekki innihaldi skrifa hans.  Það er ekki þannig að fólki sé skylt að koma hér inn og lesa, hvað þá að tjá sig.  

En kosturinn við svona manntegund er að aulaskap fylgir aulaháttur.  Þú hefðir átt að lesa Péessið þar sem það kom fram að pistillinn er tæplega 2  ára gamall, nánar til tekið frá því 5.5 2010.  Og það sem meira er að honum er hent inn sem innslagi við umræðu seint að kveldi við pistil sem fjallaði um allt annað og var saminn 5 dögum áður.  Tilefni þess innslags var spurning sem ég fékk deginum áður frá spjallfélaga mínum um byltinguna, Arinbirni Kúld, þar sem hann sagðist hlakka til að lesa pistla frá mér um byltinguna.  Og ég spurði Arinbjörn hvort hann væri að tala um svona pistla???

Þegar þarna var komið þá var enginn lestur á þræðinum og bloggið sofandi svo eina hreyfingin á blogginu var þetta spjall okkar Arinbjörns.  Og mikill refur mætti ég vera, ekki það að ég kannist ekki við rebba, ef ég hefði hent inn svona innslagi með lygi sem útgangspunkt svo ég hugsanlega gæti notað hana til að ergja nafnlausan Jóhann seinna meir.  

Allt á sér sína forsögu og ég hafði gantast með þetta með spurninguna um hvort ég vildi verða afi víðar í spjalli mínu við fólk í athugasemdarkerfinu.  Og ég er ekki meiri ritsnillingur en það að ég nota oft stef eða hugsun til að koma pistlum mínum af stað og læt svo efnistök ráð hvernig þeir þróast, stundum er útkoman ágæt, stundum ekki.

En þeir eiga allir það sammerkt að ég skrifa fyrir hugsandi fólk, ekki aula.  Hugsandi fólk er ekki alltaf sammála og tekur við mig brýnur, en aular koma inn með aulahúmor og telja sig gildandi í umræðunni fyrir vikið.

En auli er alltaf auli og er meðhöndlaður sem slíkur.  Stundum að vorkunn en stundum að hörku þegar tilgangur aulaskaparins er að skemma fyrir skrifum mínum.  

En svona klámhögg hef ég aldrei fengi áður Jóhann og hef þó upplifað margt hér í bloggheimi og þá oftast af gefnu tilefni skrifa minna sem eru óvægin og ætluð til að ergja stuðningsmenn þeirrar óhæfu sem ég berst gegn.

En núna þegar ég er á friðarstól þá er ég hissa yfir lágkúrunni.  Við hvað ertu hræddur???  Að einhver glepjist til að taka mark á svona skrifum og rísa upp og vernda framtíð barna sinna??

Þér til huggunar get ég sagt að svo er ekki, þetta er óvenjulegt stef en það fer bara inn og út skilar litlu nema smá samkennd hjá örfáum einstaklingum.  

Þú hefði getað sparað þér ómakið og sætir þá ekki upp með tilfinninguna að þú værir asni, því ég veit að þú getur ekki stillt þig um að lesa andsvar mitt.

Andsvar sem þú átt ekkert svar við annað en að festa þig ennþá meir í aulahúmor þínum og þar með staðfesta þá fullyrðingu mína að þú sért auli.

En ég læt það ógert að spyrja þig hvort þú kunnir að reima skóna þína, þar set ég mörkin.  Þú ergðir mig ekki það mikið.

Kveðja að austan.

Hér er linkur á frumpistilinn.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1036791/

Ómar Geirsson, 26.4.2012 kl. 08:41

15 Smámynd: Elle_

´Draga úr vígaferlum´, kæri Ómar?  ´Lokaorð skæruliðabloggs´?? :)

En Ómar hefur nógu oft sagt söguna af syni sínum 5 ára + sem ´hótar´ honum með akkúrat þessum orðum.  Ómar hefur sagt það í opinberu bloggi og póstum hvað sem ofanverðum Jóhanni finnst vera logið eða ekki. 

Hvaðan kom þetta lága skot frá honum?  Úr bolaflokki ríkisins??

Elle_, 26.4.2012 kl. 23:39

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, Elle draumurinn eini kallar á blogg um byltingu lífsins, það er meira svona út úr kú við það sem er að gerast, enda er ekkert að gerast nema tuð, og þeir sem vilja breyta, þeir tuða jafnmikið og þeir sem verja hið ríkjandi. 

Og þið fáið Þóru á Bessastaði og Ísland í ESB.

Því menn takast ekki á við hugmyndfræðina og öflin þar að baki.

En ég hef ekki það þrek sem þarf til að starta svona vitleysu, svo á ég miklu auðveldara að mótiva mig á skammir, það er ég þarf aðeins að reiðast og þá flýgur þetta út úr puttunum.  En hugsun kostar meiri orku og á miklu verr við stríðsmanninn.

En ég er ekki dauður, ekki ennþá allavega.  Ég sló saman 5 pistlum í gær sem fókusa fallbyssumiði á þá hugsun að það sé endalaust hægt að svína á landsbyggðinni og hinum smærri byggðarkjörnum.  Þar er átakaflötur sem nærir vel skæruliðann.  Þú getur lesið fyrstu 2 á feisbókarsíðu Áhugahóps um Norðfjarðargöng.  Við skulum segja að nýr tónn hafi verið sleginn í vörn byggðarinnar.  Menn komast ekki lengur upp með að segja eitt og gera annað.  

Þeir vita það ekki ennþá, en þeir eiga eftir að komast að því.

Ég er rétt að byrja, ég er ekki hættur.

En landsmálaröflinu er ég hættur, ég nenni þessu ekki lengur.  Tek ekki lengur þátt í taktíklausri baráttu, ef ég sé flöt á samstöðu um ný vinnubrögð og nýja hugsun, þá einhendi ég mér út í það starf.  Með því mottói að maður stendur á meðan maður ekki fellur.  Og þegar maður fellur, þá gildir það sem var sagt um hermenn Custer, hann féll með boots on.

Það skiptir máli að fólk vakni til lífsins og berjist fyrir Drauminn eina, en stríð stríðsins vegna, fyrirfram tapað vegna skorts á markmiðum og algjörum skilningsskorti á þeirri einu taktík sem gerir okkur kleyft að leggja þursa valdsins að velli, það er ekki stríð sem ég hái. 

Því sigur skiptir mig máli Elle.

Einn daginn munt þú sjá hlutina með sömu augum og ég.  Að það er ekki okkar egó sem skiptir máli, eða við fáum útrás fyrir þessa gremju eða hina, og þá er ég að meina gremju sem sannarlega á rétt á sér vegna gjörða valdsins, heldur skiptir aðeins eitt máli.

Tilvist afkvæma okkar.

Þess vegna hef ég hafið baráttu lífsins hér í minni heimabyggð. Ég hef þrek í það og vonandi hef ég þrek einn daginn að gera meir.

Og þá verður þú var við mig.  Þú gengur bara á hávaðann.  Einhversstaðar þar muntu sjá grilla í gamla skæruliðann.  Og þá vonandi í eigin líkama, ekki í rafeindum netheima.  Mig grunar að við eigum eftir að hittast í baráttunni Elle.  

Því þar sem er orrustugnýr, þar eru valkyrjur réttlætisins.

Bið heilsa þér Elle og takk fyrir ánægjulega samfylgd í stríðinu mikla gegn ICEsave og AGS.

Ég ætla ekki að segja að við heyrumst, við hittumst.

Kveðja að austan.

Ómar.

Ómar Geirsson, 27.4.2012 kl. 08:11

17 identicon

Það vantar ekki gífuryrðin!

Ágæti þeirra er í öfugu hlutfalli við fjöldann. 

Þegar ritsnillingar hefja mál sitt á lygum, þá nenni ég ekki að lesa  pé-essið.

Skeluru?

Jóhann (IP-tala skráð) 27.4.2012 kl. 10:33

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Jóhann, það er eitt að vera asni, og er ég að hrósa þér því það er óþarfi að segja sem er að þú sért auli, en annað að hrópa á torgum, að maður sé asni.

Það er eitthvað sem þú skilur þegar þú lærir að stafa nafn þitt.  Þér til huggunar þá kunna bæði drengir mínir að skrifa nafn sitt sem og hitt að skrifa auli.  Þó þeir séu alveg að verða átta, þá þýðir það ekki að þú eigir ekki þína von.

Því galdur lífsins lætur ekki að sér hæða.

Alveg satt Jóhann, alveg satt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.4.2012 kl. 11:27

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Svo má kannski bæta við ef þú hefur það að metnaði að leika fífl Jóhann að þá er það góð regla að vitna ekki í setningu eða annað sem er í miðjum pistli þess sem þú kannast ekki við að hafa lesið. 

Það er eitthvað svo aumt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.4.2012 kl. 12:00

20 identicon

Þú skilur augljóslega ekki athugasemd mína, þrátt fyrir yfirburðagáfur.

Það má einu gilda hverjar hugsjónir þinar og mennska er, þegar þú byrjar pistilinn á lygum.

Og það er lygi að snáðinn þinn fimm ára hafi beitt þig slíkum afarkostum.

Jóhann (IP-tala skráð) 27.4.2012 kl. 20:57

21 Smámynd: Ómar Geirsson

Æ, ósköp áttu bágt Jóhann.  Ég ætla ekki að rekja fyrir þér hvernig þetta hófst á milli okkar feðga en drengurinn var ráðsnjall að nota þessa hótun til að þagga niður í mér eftir að það dugði ekki að hóta mér að hann myndi flytja til afa og ömmu. 

En afarkostir voru þetta ekki, heldur einfalt ráð til að stöðva ósanngjarnar skammir.  Á sama tíma þróaði hann svipinn sem fékk mig til að skipta um skoðun og segja Já ef hann bað um eitthvað og þetta gekk hjá honum því hann notaði þetta í góðu hófi og þar með virti ég rétt hans til að ráða sínum málum að vissu marki.  Hin ójafna valdastaða foreldris og barns er ekki sjálfsögð og það er ekkert af því að börn þrói aðra tækni en grenj og öskur til að fá sínu fram eða til að mótmæla þegar ekki er á þau hlustað.

En það sem þú fattar ekki greyjið mitt er að það þjónaði engum tilgangi að byrja pistilinn á tilbúni sögu þegar milljón leiðir eru til að koma því á framfæri að framtíð barna okkar er í húfi.  Án þess að ég muni nokkuð eftir því þegar ég samdi þetta innslag til Arinbjörns á sínum tíma og hafði ekki græna glóru þegar ég byrjaði að slá inn þemað hvernig það myndi þróast, þá reikna ég með að ég hafi verið nýbúinn að segja afa stráksins frá hvernig hann þaggaði niður í mér, en pabbi gamli veit að það er ekki auðvelt verk.  Svona sögur fær hann að heyra reglulega því ég er stoltur af drengjunum og hve vel þeir hafa þroskað hugsun sína og málfar.

Ég á milljón svona innslög sem sum hver geta staðið ein og sér sem pistlar, en ef þú virkilega heldur að ég semji þau með því hugarfari plata lesendur mínar einhverjum árum seinna þá ofmetur þú mig stórlega.  Í 99% tilvika eru þetta hugdettur sem fá að þróast um leið og þær eru hamraðar og ekkert meir um það að segja. 

Jú, þetta kallast frjálst flæði hugans og er mun merkilegra en frjálst flæði fjármagns.

Ekki öllum gefið að skilja.

En það þarf sérstakan skilning að ætla að tækla pistilinn á þeim forsendum sem þú gerir.  En gróðinn er minn, þú gafst mér hugmynd um hvernig ég svara stráknum næst, bendi honum á að þetta séu afarkostir.  En ég held að hann taki ekki mark á því, myndi þá sjálfsagt nota þetta oftar.  

Og við því er aðeins eitt svar, að fækka reiðiköstunum ósanngjörnu.

En Jóhann, þú ættir að stunda eitthvað annað hér í Netheimum en að reyna að verja Helreiðina.  Ekki að þú sért góður liðsmaður hennar, þetta er bara svo lásý hugsjón sem þú leggur lag þitt við.  

Ef þú vilt vera fúll á móti eða út úr kú við samfélag þitt, farðu þá inná síðu Manjú manna og segðu að City verði meistarar,  eitthvað sem gæti alveg verið rétt, en samt alveg hægt að réttlæta stuðninginn við arabagullið því einu sinni var jú City lið, síðast 74 að mig minnir.

Út úr kú, útí fjósi en samt ekki með bliksvarta samvisku.  

Veistu, þér myndi líða betur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.4.2012 kl. 22:11

22 identicon

"En Jóhann, þú ættir að stunda eitthvað annað hér í Netheimum en að reyna að verja Helreiðina."

Hvað af orðum mínum gefur þér efni til að álykta þetta, gáfnatröll? 

Þetta er einn allsherjar vælukjóapistill, sem hefur það eitt sér til ágætis að þú gottar þér uppá afarkosti fimm ára snáða til þess að teikna sjálfan þig upp sem fórnarlamb.

Þar með er sonur þinn orðinn skiptimynt um hlut þinn...

Bjáni

Jóhann (IP-tala skráð) 27.4.2012 kl. 23:23

23 Smámynd: Elle_

Maður verður að vera ansi djúpt sokkinn ofan í eigin ranghugsanir til að skilja orð pistilsins eða Ómars eins og Jóhann túlkar þau.  Hinsvegar er löngu orðið ljóst og ekki bara úr þessari síðu hvaða helflokk og helstefnu Jóhann ver. 

Elle_, 28.4.2012 kl. 00:50

24 Smámynd: Ómar Geirsson

Vegna þess Jóhann að ég er svo gáfaður að ég þekki handbragðið og frumlegt getur það seint talist.

Hvernig er þetta aftur í Bandaríkjunum???  "Allir eiga rétt á heilsugæslu og alríkisstjórnin þarf að grípa til rótttæka aðgerða",  Já, heyrðu reyktir þú ekki gras í menntó???  Eða "við þurfum að nálgast ófriðinn fyrir botni Miðjarðarhafs með nýrri hugsun.... ", Já, heyrðu svafst þú ekki hjá Monicu????

Vinnubrögð þeirra sem óttast umræðu og telja hana ógna húsbændum sínum er alls staðar keimlík, og tekin úr smiðju Göbbels og þróuð af skítseiðum hagsmunavaldsins um allan heim.

Það er ekkert að því að upplifa svona skrif sem væl en fæstir leggja það á sig að mæta á bloggsíður annarra og segja eins og Jón Viðar, "ja þetta er nú meira vælið, klént þykir mér".   Fyrst og fremst að Jón Viðar var á kaupi við að segja þessa hluti en það þarf sérstakt hugarfar og banka upp hjá fólki og segja því að það sé skítugt heima hjá því.  

Eins er ekkert að því að velta því fyrir sér hvort drengurinn hafi gripið til þessar varnar gegn óréttlæti heimsins og þá hefði ég útskýrt málið og bent fólki um leið á að þetta væri hugmyndin sem startaði flæðinu í pistlinum og héldi honum saman.  

En þegar menn mæta inn með hina fullkomna lágkúru og setja hana fram eins og þú gerðir Jóhann þá gera menn það aðeins í einum tilgangi og það er að eyðileggja.  Og tæknin er fagmannsins á þessu sviði.  

Þú varst bara svo óheppinn að pistillinn var endurvinnsla og fyrst birtur í spjalli við bloggvin þegar engin hreyfing var á IP tölum bloggsins.  Þar með féll kenning þín því pistillinn var ekki skrifaður til birtingar heldur var ég að athuga hvort ég gæti lamið saman pistil um þemað sem við Arinbjörn vorum að ræða, byltingu á forsendum hugsjóna um betra mannlíf.  Ég hafði engar ástæðu til að ætla að hann yrði nokkurn tíma lesinn enda aðeins hugsaður sem sketch.  Ég hefði alveg eins getað haft hann fullan af Munchausen en það tekur tíma að búa til eina slíka, það er miklu einfaldara að grípa það sem nærtækara er, það sem maður hefur upplifað, lesið eða heyrt.

Þetta var þín óheppni því þar með gat ég rökstutt að þú værir auli, þeir sem á annað borð hafa sens fyrir taktík þinni og framsetningu hennar, þeir skilja líka þann rökstuðning sem ég hef dundað mér að setja fram um tilgang þinn og af hvaða rótum hún er runnin.  Ekki margir að vísu, því bloggið er sofnað en ég þarf ekki marga til að lesa þetta, mér dugar að þú gerir það.  Þú getur ekki slitið þig frá textanum því þú ert alltaf að leita að næstu pílu.  Og titrar meir og meir að reiði eftir því sem þú lætur meir yfir þig ganga.  

Og það er hin endanlega staðfesting þess a þú ert bjáni, þú lætur spila með þig út í eitt.  

Flestir með aðeins minni hégóma hefðu haft vit á að þegja og ausa drullunni sinni á öðrum stað í þágu húsbónda síns.  Því það er ekki alls staðar tekið á móti svona drullukasti eins og það á að taka á því, með því að taka viðkomandi drullukastara á hné sér og flengja hann.

Já, og það má vel vera að ég hafi gefið lágkúru þinni óþarflega mikla réttlætingu með því að tengja þig við hagsmunaöfl Helreiðarinnar, að þú sért bara svona aumt tilvik að manni, að þú ráðir ekki við aðra umræðutækni en þessa "Refur lýgur, refur lýgur... ", ég útilika það svo sem ekki en ég trúið á hið góða í einstaklingnum og ætla því að silfurdalir stýri penna þínum.

Silfurdalir eru hin algenga skýring þess að menn selja andskotanum sálu sína, fæstir gera það út af samhygð með andskotanum.  En eru til, vissulega eru þeir til.

Þú mátt því alveg enda þetta spjall okkar á að reynda sannfæra mig um það Jóhann að þú sért ekki þiggjandi silfurpeninga, það væri fróðlegt að lesa þann aulaskap þinn.

En gæti verið lærdómur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.4.2012 kl. 08:57

25 identicon

Silfurpeningar?!  

Vonandi er vælubíllinn á leiðinni.

http://www.amazon.com/People-Lie-Hope-Healing-Human/dp/0684848597

Jóhann (IP-tala skráð) 28.4.2012 kl. 19:16

26 Smámynd: Ómar Geirsson

Voru það ekki silfurdalir sem þú fékkst í pyngju þína???

En þú ert nú allur að koma til Jóhann, kannt að linka og allt, með þessu áframhaldi fattar þú að svara án þess að láta mig pirra þig.  

Og þegar þú nærð þeim áfanga, þá mætti útskrifa þig, og það án þess að það kosti þig nokkurn silfurdal því svona er það þegar menn komast í tæri við aðferðarfræði lífsins, þeir fatta jafnvel að lokum að það er hægt að gera eitthvað án þess að hagsmunir pyngju ráða för.

Og enda jafnvel á að gera eitthvað ærlegt.

Þú átt von Jóhann, það mætti jafnvel halda að þér hafi verið stýrt inná síðuna.  

Það endar kannski að heyra fallega frásögn um mátt verndarengla.

Hver veit, hver veit.  

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.4.2012 kl. 20:02

27 identicon

Ég er verndarengill þinn.

Og hef aðeins bent þér á eitt:

Ekki ljúga.

Jóhann (IP-tala skráð) 28.4.2012 kl. 21:13

28 Smámynd: Ómar Geirsson

Allur að koma til en ennþá hermikráka, reyndu eitthvað frumlegt áður en þú færð útskrift.

Kveðja að austan.

Ps. Veit að þú lest þau aldrei en ég skal vera einlægur, þú gætir dottið niður á eitthvað ærlegt, óvart ef þú lærir auðmýkt líka, það er gagnvart verndarenglum, að hæða þá er ekki gott fyrir karmað.

Kveðja aftur.

Ómar Geirsson, 28.4.2012 kl. 22:07

29 Smámynd: Elle_

Jóhann ætti ekki að ljúga.  Hann er enginn verndarengill.  Og er ekki að fara að útskrifast frá almættinu neitt á næstunni.  Væri hann verndarengill, væri Ómar guð í himnum og ekki skæruliði í vigahug.  Og hann er ekki guð þó hann elski syni sína heitt og segi ALLTAF SATT.

Elle_, 28.4.2012 kl. 23:17

30 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle. 

Nei ekki er það svo gott að maður sé eitthvað með í almættis ráðum en hins vegar veit ég um stað sem er beintengdur upp þó mótökuskilyrðin til baka séu ennþá ekki að virka.  Í Víkinni minni fögru, á dalsbrúninni beint fyrir ofan bæ feðra minna, þar er beinlínu tenging og á eftir efast enginn um tilvist almættisins.  Allavega hefur Enginn ekki sagt mér neitt annað.

En ég ætlaði aðeins að útskrifa Jóhann úr námskeiðinu, "hættu að vera auli" og allt í þeirri frómu von að einhvern tímann dytti honum í hug að nýta guðsgjafir sínar í eitt, þó það væri ekki nema eitt ærlegt verk.

Annað var það nú ekki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.4.2012 kl. 10:08

31 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir frábæran pistil Ómar

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.5.2012 kl. 22:02

32 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk sömuleiðis Jakobína.  Þú átt stef í honum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.5.2012 kl. 22:18

33 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Blessaður Ómar minn

Langt síðan ég hef tjáð mig á blogginu, legg þó hér og það þegar mér sýnist það óhætt. Mér er eins innanbrjóst og þér, okkar æðsta skylda er að tryggja framtíð afkomenda okkar, það höfum við oft rætt eins og fram hefur komið. Nú þegar blogg þitt sofnar þá er komin tími til að þú mætir á fésbókina - þar er oft fjör og mennskan grasserar :-)

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 1.5.2012 kl. 22:31

34 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir að kíkja við Arinbjörn.  Já, það er óhætt að segja að ýmislegt kom út úr spjalli okkar, meðal annars þessi pistill sem er ágætur lokapunktur í bili. 

Ég er virkur á feisinu, ekki á eigin bók heldur Áhugahópi um Norðfjarðargöng.  Með öðrum orðum þá hef ég hafist handa um byltingu lífins.  Verð að sætta mig við að byltingin verður að notast við það sem býðst, það er krafta hins venjulega manns.  

Það ætlar enginn annar að gera þetta fyrir mann.  

Og þar með þýðir ekki að grenja yfir að maður er ekki betri en maður er.

En tími umræðunnar er liðinn, 1.000 milljarðarnir eru að falla, og það þarf að hindra að þeir falli á hinn venjulega mann.  Fjármagnið má ekki drepa okkar ágæta þjóðfélag, sem er eins og lífið sjálf, mætti vera betra en samt það eina sem maður á.

Núna eru það aðgerðirnar Arinbjörn, hættur að messa.  Og ég mun standa í lappirnar á meðan ég hef lappir til að standa á og ætla að falla eins og Custer, með boots on.

Kallið er komið, því þarf að svara.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.5.2012 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 1318297

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband