Hýenan er víða.

 

Í Afríku er sagt að ef hýenan þrífst ekki á landinu, þá þrífist ekkert rándýr þar.

Hýenan er dugleg, hún lifir jöfnum höndum á hræjum eða lifandi bráð, og hún er mikill tækifærisinni, öskuhaugar nútímans hafa reynst kjörlendi hennar.

Samt er hýenan það rándýr sem mest er hatað eða fyrirlitið, og ef fólki mislíkar við einhvern sem notar sér bágindi annarra eða veika stöðu, þá er hann oft kenndur við hýenu.

 

Hýenur eru sem sagt víða, og á einhverjum tímapunkti þarf þjóðina að takast á við þær.

Það er þá sem sýna hegðun sem kennd hefur verið við þessi duglegu rándýr.

 

Hlutabréfabraskarar ráða sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, með örfáum undantekningum þar sem eigendur eiga ennþá rætur í greininni sjálfri.

Hugsanlega eru til elstu menn sem muna eftir tilviki þar sem sjávarútvegsfyrirtæki sótti sér fjármuni með hlutabréfaútgáfu, en það er langt síðan og slíkt var alltaf mjög fátítt.

Hlutabréfabraskararnir eru því afætur, þeir hafa aldrei styrkt greinina á nokkurn hátt. 

Hins vegar eru fjöldamörg dæmi þar sem sjávarútvegsfyrirtæki eru skuldsett uppí rjáfur til að standa undir hlutabréfakaupum eiganda sinna, hvort sem þeir yfirtóku fyrirtækin, eða þurftu að kaupa aðra eigendur út.

Með öðrum orðum, braskið eða baráttan um eignarhaldið sýgur fjármuni út úr greininni, veikir fyrirtækin og kemur í veg fyrir eðlilega endurnýjun tækja og tóla.

 

Síðan eru það arðgreiðslurnar sem þykja svo sjálfsagðar að enginn hefur orð á þeim lengur.

Rökin eru að hlutabréfabraskararnir eigi að fá arð af fjárfestingu sinni, þeir gætu til dæmis átt peninga sína inná bók og fengið af þeim vexti.

Það seinna er rétt, en hver bað þessa menn um að fjárfesta í sjávarútveginum til þess eins að græða á.  Þeir þurftu þess ekki, þeir þurfa ekki að mjólka þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar.

Það er ekkert sem segir það nema bábiljan ein, sama eðlis og þegar prestar Azteka byggðu völd sín og auð á þeirri bábilju að mannsfórn væri forsenda sólarupprásar.

Mammonsdýrkun krefst reyndar ekki blóðs, en vílar sér ekki að fórna lífsafkomu fólks ef gróðinn er í húfi, eða sem er enn siðlausara, svo hægt sé að mjólka meira, sjúga meiri fjármuni úr heilbrigðum fyrirtækjum.

 

Grandi er nýbúinn að greiða út háan arð til hluthafa sinna.

Núna rekur hann fólk, sviptir það lífsafkomu sinni.

Rífur einn öxul úr hjóli atvinnulífs Akranes, rótgróins sjávarþorps til áratuga.

 

Grandi hefur fyrirgert rétt sínum til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar á meðan núverandi eigendur ráða fyrirtækinu.

Það á að svipta Granda veiðiheimildum sínum og dæma stjórnendur þess til skóggangs.

 

Sólin hélt áfram að koma upp þó blóðfórnir illmenna voru stöðvaðar.

Sjávarútvegur á Íslandi mun lifa áfram góðu lífi þó braskarar hafi hann ekki að féþúfu.

 

Það er mál að linni.

Kveðja að austan.


mbl.is 86 sagt upp störfum á Akranesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við sviptum fólk voninni.

 

Við leyfum glæpamönnum að ráðskast með samfélög þeirra, hvort sem það eru löglegir hvítflibbagangster eða ennþá ólöglegir fíknsalar.

Afleiðingarnar gerum við refsiverðar.

Og nú á að ofsækja þá sem verða fíkninni að bráð.

Við skulum ekki halda að það komi ekki fleiri sálarleysingjar á eftir þeim fyrsta.

 

En það er eins og við, góða fólkið sem hefur allt okkar á þurru, að við vitum ekki að þeir sem verða undir, geta snúist til varnar.

Ef kerfið útskúfar fólki, hvað tilgang hefur það þá að virða reglur þess samfélags sem útskúfaði því?

 

Þessi litla frétt er aðeins birtingarmynd þess innanmeins sem er að éta upp vestræn samfélög.

Við höfum leyft sálarlausu fólki að yfirtaka öll völd í samfélögum okkar, líklegast vegna þess að það sagðist geta útvega okkur ódýrari jeppa, meiri lúxus.

Og sálarleysi fylgir sviðin jörð, og fólk á flótta svo ég grípi til líkindamáls.

 

Og við sem höfum ennþá allt okkar á þurru, lítum undan.

Við spáum ekkert í til dæmis hvað varð um fólkið sem flutti frá verðlausum heimilum í kjölfar kvótakerfisins, það eina sem hvarflaði ekki að okkur var að það hlyti einhverjar bætur fyrir það tjón sem kerfi hagræðingarinnar olli þeim.  Við vildum ávinninginn, þau máttu eiga tjónið.

Hvað varð um hinar 10.000 fjölskyldur sem misstu heimilin sín í kjölfar Hrunsins sem þetta fólk bara enga ábyrgð á, sökin er okkar sem leyfðu hina evrópsku reglugerð um frjálst flæði fjármagns? 

Er það þarna ekki einhvers staðar??  Örugglega flest hafa komið undir sig fótunum á ný. 

En það gerðu líka flestir sem komu að heimilum sínum í rúst eftir morðæði seinni heimsstyrjaldar en það réttlætir ekki morðæðið.  Og það er ekkert sem réttlætir að 10.000 fjölskyldur séu hraktar af heimilum sínum svo hrægammapúkinn fari feitur úr landi. 

Ekkert nema sálarleysið.

 

Við heyrum líka fréttir að það sé verið að skera niður krónur hér og þar, til dæmis til Hugarafls eða námsmöguleika fatlaðra einstaklinga, krónur sem margfaldast ef í Exelinn er líka skráð bati, bót meina sinna, tækifæri til lífs, til betra mannlífs, gleði, fegurð.

En sálarleysið telur slíkt óþarfa útgjöld, og kemst upp með niðurrif sinn.

Við heyrum líka fréttir að gamalmenni fái ekki að borða ætan mat, nema stundum. því fullt fæði kostar of mikið, og við heyrum fréttir af öryrkjum sem dæmdir eru til viðvarandi fátæktar, þeir geta ekkert, því þeir hafa ekkert milli handanna eins og sagt var hér áður fyrr.

 

Á sama tíma heyrum við fréttir af því hvað við höfum það gott, að kaupmáttur snaraukist milli ára, hagsæld sé í hæstu hæðum, að við höfum aldrei haft það betra.

En þá er samt eins og það hvarfli ekki að neinum að það sé þá birtingarmynd einhvers óeðlis að heyra hinar fréttirnar, af fjárskortinum, af fjársveltinu, af þjáningum þeirra sem ættu ekki að þurfa þjást.

Við getum ekki kennt hinum sálarlausu um, þeir eru í okkar umboði, þeir eru okkar menn eða þannig.

Og það dugar ekki að horfa út um gluggann, og segja, "Djöfull hef ég það gott".

 

Það dugar ekki því það er í eðli fólks að snúast til varnar.

Sérstaklega þegar það hefur misst vonina, misst trúna á samfélagið, misst trúna á kerfið.

Og það dugar ekki heldur að fara háðulegum orðum um andóf þeirra hver svo sem birtingarmynd þess er.

 

Fólk kaus ekki Trump vegna þess að það var lítt menntað eða eitthvað undirmálfólk sem kunni ekki að fóta sig á gósenlendum hins frjálsa flæðis, hinna frjálsu viðskipta.  Og hrakfarir þess væri því að kenna.

Fólk kaus Trump vegna þess að það vissi að hann myndi ráðast gegn kerfinu, kerfinu sem hafði afmennskað það sem einhvern kostnað  í Exel. 

Ekki vegna þess að það batt einhverjar vonir við hann, vonin er löngu flúin til fjalla, þetta fólk er að bíta frá sér.

Og það er rétt að byrja.

 

Einhverjir varnarsigrar elítunnar fá þar engu breytt.

Og ef hinir svo kölluðu popúlistar sigra ekki, þá verður það næst maðurinn með járnhnefann sem ræðst til atlögu.

Því sá sem er útskúfaður, sá sem hefur engu að tapa, hann finnur sér sinn farveg, hann finnur sína rödd.

Og það verður ekki rödd sáttar og samlyndis.

 

Umrót og upplausn verða ekki umflúin.

Það hafa of margir verið dæmdir úr leik.

 

Þess vegna ættum við að íhuga svona fréttir.

Hvort sem þær eru frá Ástralíu eða Breiðholtinu.

Spyrja hvað fór úrskeiðis.

 

Við höfum það vissulega gott, að meðaltali, það er faktur.

Annars hefði hinni fyrstu atlögu popúlistanna ekki verið hrundið.

Annars væri kerfi hinna sálarlausu ekki við völd.

 

En það er eitthvað að, eitthvað mikið.

Það er ekki efnahagslegt, ekki pólitískt, heldur siðferðislegt.

 

Og það snýr að okkur, sem höfum alltaf snúið okkur undan.

Annars lytum við ekki stjórn manna sem telja kærleik vera villu í bókhaldinu.

 

Villu sem þarf að leiðrétta.

Svo hagnaður þeirra aukist.

 

Við höfum tíma.

En hann er að renna út.

 

Og kemur aldrei aftur.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Atvinnulausir sendir í lyfjapróf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. maí 2017

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 1318297

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband