Blóðpeningar.

 

Hætta ekki að vera blóðpeningar, þó ríkið sé stór eignaraðili í Landsbankanum.

Og hirði arðgreiðslur.

 

Ríkisbanki átti að hafa forgöngu um siðlega hegðun eftir Hrun, að skila til þrautpíndra viðskiptavina sinna þeim afslætti sem hinn nýi banki fékk frá þrotabúum hins gamla.

Setja þannig fordæmi, sem hefði neytt hina banka til svipaðra aðgerða, eða þeir hefðu hlotið hinn þyngsta dóm þjóðarinnar, skógargöngu eða útlegð úr mannlegu samfélagi.

 

Ógæfufólkið sem á því bar ábyrgð, steinþegir í dag þegar annað siðleysi er í uppsiglingu, því sök bítur sekan.  

Og fyrir vikið eru torgin laus við pottaglamur.

 

Samsektin er tryggasti þjónn auðsins.

Hún tryggir þögnina, hún tryggir áframhaldandi siðleysi og rupl.

 

En við sem þekktum sið þá, og þekkjum sið í dag, megum aldrei gleyma uppruna þessarar arðgreiðslu, úr hvaða vösum hún var dregin.

Við þögðum ekki þá, og við megum ekki þegja núna.

 

Því þögnin er bandamaður auðsins.

Í skjóli hennar fær hann friðinn.

 

Við erum kannski ekki mörg, núna eftir að samsektin lagði undir sig hinn almenna sjálfstæðismann, gleymd er hans barátta gegn hrægömmum og öðrum fjárníðingum.

Og við erum kannski ekki raddsterk því mótmæli voru ekki okkar iðja hér á árum áður, líkt og hjá hinum samseku fyrrum félögum okkar til vinstri sem sviku þjóðina um leið og leiðtogar þeirra komust í ríkisstjórn.

 

Við erum bara við.

Fólk með samvisku, og fólk með siðferðiskennd.

 

Eins ólík og við erum, þá eigum við eitt sameiginlegt.

Lífið sem þarf að vernda.

 

Við erum rík þjóð.

Höfum samt aldrei verið svona fátæk.

 

Börnin okkar gista vergang leigu og vaxtaokursins.

Innviðir samfélags okkar grotna niður.

 

Það er verið að ræna börnin okkar framtíðinni.

Og aðeins við fáum því breytt.

 

Með því að taka afstöðu.

Með því að láta í okkur heyra.

 

Í dag.

Og á morgun.

 

Þannig verjum við lífið.

Þannig verjum við okkur sjálf.

 

Því það er ekkert val.

Það er ekkert val.

 

Og innst inni vitum við það öll.

Kveðja að austan.


mbl.is Greiðir 24,8 milljarða í arð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrægammar.

 

Sem hafa það eina markmið að rústa og eyðileggja, og hirða allt sem hægt er að hirða frá bjargalausum þjóðum, eiga ekki að eiga banka í nokkru landi.

Og það er leitun á bananalýðveldi þar sem slíkt er leyft.

 

Hinir síljúgandi stjórnmálamenn, sem fylla sali Alþingis, gera annað af tvennu, þeir fagna þessum fjárglæpamönnum, því þó þeir hafi keypt löggjöf sem leyfir gjörðir þeirra, þá eru þeir samkvæmt öllum siðlögmálum hins vestræna kristna heims, glæpamenn sem engu eyra, eða menn spyrja, hvert er andlitið á bak við grímuna.

Eins og það sé eitthvað mottó að láta þjófinn sýna ásýnd sína.

 

Hinsvegar krefst enginn hinnar sjálfsögðu löggjafar, að fjárglæpamenn eigi ekki í bönkum þjóðarinnar.

Að þeir séu óæskilegir eigendur og þeim beri tafarlaust að selja eignarhlut sinn.

Eitthvað sem er sjálfsagt hjá siðuðum þjóðum.

 

Segir allt um stöðu Alþingis.

Segir allt um hverjum þingmenn lúta.

 

Og því miður segir það allt um hina sírændu þjóð.

Því það er ekki svo að hrægammar fari með atkvæði hennar.

 

Hún átti valið.

Og hún kaus.

 

Þetta.

Kveðja að austan.


mbl.is Upplýsa um eignarhald á föstudaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróðafléttan.

 

Leikfléttan reyndist þá snúast um nokkra dollara eftir allt saman.

Málamyndakaup sem snérust um að losa um fjármuni, núna þegar litla ljóta klíkan er búin að losa um öll höft á fjárflutningum úr landi.

Og spurningin er, datt einhverjum eitthvað annað í hug??

 

Sem og önnur spurning, mun grafalvarlegri.

Hvað er að því fólki??, sem dásamaði þetta innstreymi af fjármagni til landsins, að hér væru komnir alvöru aðilar sem hygðust fjárfesta í íslensku fjármálakerfi svo ég vitni í djúpvitringinn, forsætisráðherra vorn.

Ozzy Osbourne hefði getað fagnað svona komu Bjarnabófanna til að gæta gullkistu þjóðarinnar, en hann er líka með viðurkenningarskjal um að hafa haldið lífi í þessum 5 heilasellum sem dópið náði ekki að granda á hans viltu árum, sem voru reyndar allt hans líf.

 

En hver annar talar um vogunarsjóði sem alvöru langtímafjárfesta og aðkoma þeirra sé traustyfirlýsing á íslenskt fjármálakerfi. 

Sjóðir sem ekki bara eru þekktir fyrir stöðutöku sína gegn fyrirtækjum eða heilum þjóðfélögum, heldur ekki hvað síst fyrir ræna náinn. Það er ef þeir eru ekki maðurinn með ljáinn, þá eru þeir líkræninginn sem vílar sér ekki fyrir að veita særðum banasár, til að hirða verðmætin af líki hans.

Það þætti allavega galinn læknir sem benti á náfölan sjúkling sinn, og segði, að hann væri á batavegi, annars væri þessi hettuklæddi þarna ekki mættur með ljáinn sinn,.

Nei Ozzy greyjið léti þetta ekki einu sinni út úr sér.

 

En það gerir gróðasálin, hvort sem hún er í stjórnarráðinu eða hjá viðskiptaráði, eða hvar sem hún hefur plantað sér niður.

Og hún er ekkert vitlaus.

Ekki frekar en þeir ágætu stjórnmálamenn Mið Ameríku sem kannast ekkert við eiturlyf og eiturlyfjahringi, en eiga óvart nokkrar krónur í fjárgeymslum í Sviss.

 

Enda skyldi engan undra að einn sjóðurinn er nýbúinn að greiða sekt vegna mútugreiðslna í Afríku, nema að það undri að hann skuli hafa verið nappaður.

Líklegast er það hinu þróaða réttarkerfi Afríku að þakka.

 

Hér verða þeir ekki nappaðir.

Onei, onei.

 

Hér er fagnað.

Hér er gleði.

 

Við höfum sko fengið alvöru langtímafjárfesta.

Eða þannig.

Kveðja að austan.


mbl.is Salan losar milljarðatugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. mars 2017

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 17
  • Sl. sólarhring: 533
  • Sl. viku: 722
  • Frá upphafi: 1320569

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 631
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband