Draumurinn eini. Draumur okkar allra.

 

Pabbi, viltu sjá afabörn þín????

 

Þegar 5 ára drengurinn finnst pabbi sinn vera ósanngjarn fram úr hófi, og ekki skilja gjörðir og tilfinningar lítils drengs, þá spyr hann mig þessarar spurningar, "pabbi viltu ekki sjá afabörn þín" og hótar mér því að flytja af heiman og þar með ég muni ekki sjá þau börn sem framtíðin mun ala. Þau hafi ekkert að gera við að hitta svona vondan afa sem skammar börnin sín.

Í þessari stóru spurningu lítils barns felst kjarni þess sem gefur lífi okkar tilgang. Við viljum ala af okkur líf, og sjá það líf ala af sér líf. Og við viljum að það líf alist upp við þau skilyrði að þá fá að blómstra og dafna án stöðugs ótta við manngerðar hörmungar, hvort sem það eru stríð og ófriður, eða arðrán og kúgun, eða siðleysi og grimmd.

 

Í dag eru ýmsar blikur á lofti að þessi hótun sonar míns gangi eftir. Ekki vegna þess að ég óttast ekki að ná sátt við son minn, heldur vegna þess að ég óttast það átakaferli sem heimurinn er í og ég óttast uppgjör kúgaðra við skipulegt arðrán og siðlausa kúgun hins alþjóðlegs auðvalds, sem skipulega vinnur að því að gera hina ofurríku, ofurofurríka, og okkur hin miklu fátækari, jafnvel allslaus.

Fyrir um tveimur árum las ég grein þar sem einhver mætur maður benti á að lognmolla upphafsára þessarar aldar væri um margt keimlík og var í aðdraganda fyrra stríðs. Almenningur lifði í þokkalegri velmegun (miðað við aldirnar á undan) og framfarir blöstu við hvar sem litið var. En á skákborði stjórnmálanna ríkti spenna, og þar sem maðurinn þekkti bara eina leið til að leysa þá spennu, þá fór allt í bál og brand. Ég í sjálfu sér gaf ekki þessari samsvörun gaum, hafði um annað að hugsa. En síðan kom Hrunið, nýfrjálshyggjan hikstaði, og tók þjóðarauð margra landa með sér í fallinu.

 

Aðvörun, lærdómur??? Eða verður hún endurreist aftur, ennþá illskeyttari en fyrr????

 

En samt var þetta ekki mér efst í huga, heldur þær hörmungar sem yfir okkur gengu, og þær gerðu mig áhyggjufullan. En ég var það barnalegur að halda að þjóðin myndi læra af Hruninu jafnframt því hún einsetti sér að skipta byrðum Hrunsins á allar herðar, og þeir sem urðu fyrir áföllum (atvinnuleysi, skuldakreppa) fengju þá hjálp sem allir fá á hörmungatímum.Ég trúði því að enginn yrði skilinn eftir í þeim skít sem frjálshyggjan skóp þjóðinni.

Ég hafði svo innilega rangt fyrir mér. Ábyrgðarmenn Hrunsins, þeir voru fljótir að ná vopnum sínum, og með nýjum leikendum þá hófu þeir markvissa endurreisn hins gamla kerfis, aðeins verra og siðspilltara en áður hafði þekkst. Því aðeins gjörspillt fólk, sem aðhyllist algjörlega siðblint þjóðfélag, skilur ungt fólk eftir á vergangi vegna afleiðinga mannlegra hörmunga, hörmunga sem unga fólkið bar enga ábyrgð á.

 

Upp í huga mér kom stefið "bræður munu berjast og af bönum verðast", og það stef hefur ekki vikið þar út síðan.

 

Fyrst ég upplifði tíma goðsagnanna á Íslandi, hvað þá um þær goðsagnir sem alltí einu virtust spretta upp úr gráma forneskunnar og voru að öðlast sjálfstætt líf. Er tími Ragnarrakanna upp runninn???? Hvernig getur líf okkar alið af sér líf, ef við látum höfðingjanna endalaust leysa mál sín á okkar kostnað, og ef við leyfum þeim að grípa til vopna til að vernda stöðu sína og hagsmuni. Hvað þá ef kúgaður lýður rís upp og hrekur þetta lið af höndum sér.

Gömul saga og ný, en í fyrsta sinn í sögu mannkyns, hefur það getu til að há sitt lokastríð, og mannkyn sem kann ekki aðra lausn á átökum, en að drepa náungann, það hlýtur að há þetta lokastríð. Og um þau endalok fjalla hinu fornu goðsagnir. Goðsagnir, raunveruleiki, skilin eru orðin óljós. Og öll fljót falla að Heljarósi.

 

Ekki svo sem nýtt, nema vegna þess að ég spurður spurningar sem allt mitt sjálf, öll mín mennska vill svara játandi. Já, sonur minn, ég vill sjá afabörn mín.

Þess vegna settist ég hikandi við tölvuna, og fór að blogga. Að hluta til gegn siðleysi þess að neita ungu fólki um aðstoð, um siðleysi þess að gera það að listíðarskuldaþrælum, að hluta til gegn þeim ógnaröflum sem hafa ráðist á þjóð okkar og ætla að knésetja hana í þrælkun og örbirgð, en að hluta til vegna þess að ég taldi og tel, að það þarf að orða nýja hugsun, nýjar lausnir.

 

Það þarf að orða gildi mannúðar og mennsku, og orða þá heilbrigðu skynsemi sem mun koma okkur út úr þrengingum okkar án þess að við fórnum því þjóðfélagi sem tók áa okkar áratugi að byggja upp með þrotlausri vinnu og erfiði.Þjóðfélag velferðar og mennsku.

Það þarf að horfast í augun á þeirri miklu ógn sem upplausnaröfl Tregðunnar skapa mannkyninu á komandi árum.

Það þarf að skapa mótvægi gegn þeirri upplausn, skapa jákvæða ferla sem vinna gegn þeim öflum sem eru okkur svo skeinuhætt. Öflum sundurlyndis, siðblindrar græðgi og ómennsku.

 

Þess vegna hef ég mótað hugsanir mínar um Byltingu lífsins, og um þær hugsanir má víða lesa, bæði á mínu bloggi og annarra sem vilja það sama og ég. Að líf afkomenda þeirra sé tryggt. Bylting lífsins snýst um að við finnum aðrar lausnir á deilum, en átök, þróun tækni mannsins hefur útilokað þá deilulausn.

Við þurfum að viðurkenna rétt allra til mannsæmandi lífs, og við eigum að nota heilbrigða skynsemi og mannvit til að byggja upp samfélag þar sem allir njóta slíkra réttinda. Og fyrir þá sem sjá ekki heiminn án stríða og átaka, þá eigum við að skera upp herör gegn fátækt og örbirgð, gegn spillingu og glæpum, gegn umhverfisógn og loftlagsbreytingum. Þegar þau stríð eru búin, þá má alltaf finna önnur, án þess að þau feli í sér endalok mannkyns.

 

Um allan heim er fólk að orða svipaðar hugsanir. Páfinn kom inn á kjarna málsins þegar hann sagði í páskaávarpi sínu að við stefndum að feigðarósi, nema við sjálf gerðum eitthvað í málinu, að við horfðumst inn á við og tækjum okkur sjálf taki. Að viðurkenndum að forsenda framtíðar er hin siðaða manneskja, ekki hið taumlausa villidýr græðginnar sem gerir allt sem það kemst upp með.

Biskup Íslands lagði einnig margt þarft til málanna í páskaguðþjónustu sinni. Hann bar saman þjóðfélag villidýra og þjóðfélag mennskunnar, þjóðfélag hins siðaða manns.

 

Allt hefur þetta verið sagt áður. En eini munurinn er sá að ef við hlustum ekki núna, þá verða þessar ræður aldrei fluttar aftur, svona af gefnu tilefni þess að það verður hvorki nokkur til að flytja þær, eða nokkur til að hlusta á.

Það vill svo til að það varð okkar hlutskipti að hlusta, það var okkar að gera það upp við okkur hvort við vildum sjá barna eða barnabörn okkar. Við báðum ekki um það hlutskipti en tíminn lét það verða okkar.

Það er ekkert val, það er engin leið B út úr vandanum. Augljóst mál, því annars sæti ekki feiminn, fælinn maður eins og ég, með öll sín vandamál, fyrir framan tölvuna, og eyddi tíma mínum í að gera mig að fífli með því að tala um mannúð og mennsku, að tala um að núna verðum við sjálf að gera eitthvað í málinu.

Hrunið mikla 2008 sýndi fram á í eitt skipti fyrir öll, að höfðingjunum er ekki treystandi fyrir framtíð mannkyns.

 

En hvað get ég gert hugsar lesandi þessa pistils, hvað get ég gert?? Jafnvel þó ég samþykki forsendur hans, og vilji það sama og pistlahöfundur, þá náum við varla tylftinni, allavega ekki stórtylft, og fleiri þarf til að brjóta Tregðuna á bak aftur.

En í þessari afstöðu liggur einmitt von Tregðunnar, Tregðu upplausnar og óreiðu, um hinn endalega sigur.

Að fólk fatti ekki að þessi Bylting byltinganna er eins og að drekka vatn. Auðveld í framkvæmd og sigurinn er vís, eins og í öðrum þeim stríðum þar sem réttlæti og mennska er með í för.

 

Vegna þess að þessi Bylting, að þessi sigur, þarf aðeins eina forsendu, og hún er eins auðveld og nokkur forsenda getur verið. Það eina sem þarf er að hver og einn horfi í sinn eigin barm, og spyrji sig spurningar um hvað það er sem skiptir hann máli í lífinu.

Og ég hygg að svarið sé í anda þess sem fyrirsögn þessa pistils tjáir. Það eins sem skiptir hvern og einn máli, er líf og velferð afkomenda sinna. Það er ekki jeppi, eða fallegt hús, þægilegt líf eða öryggi þess að vera með hausinn í kafi í sandi á meðan villidýr ómennskunnar æða um organdi um grundir, allt þetta er í raun hégómi miðað við hinn raunverulega tilgang okkar.

Það erum aðeins við sem getum svarað þessari spurningu. Bæði þess að spyrja hennar og svara henni, það er mál hvers og eins.

Þegar hver og einn hefur spurt hennar og svarað, þá leitar hann þá upp sem eins er háttað.

 

Þannig myndast afl sem Tregðan ræður ekki við.

Afl hins siðaða manns sem gefur skít í hið viðtekna að svona er þetta og hefur alltaf verið, og við því sé ekkert að gera.

Afl hins siðaða mann sem tekur illsku og spillingu í bóndabeygju, og segir henni að hafa sig hægan. Vegna þess að núna þarf að sinna mikilvægari málum og það mun verða gert.

Vegna þess að það þarf að gera það sem þarf að gera.

 

Eina forsendan er að hver og einn taki afstöðu með framtíðinni.

Það er ekki undir neinum öðrum komið, það er ekki til minni heil tala en einn, og fjöldinn er myndaður úr mörgum einum.

Við eru ekki tvö eða milljón, við erum við.

Upphaf og endir Byltingarinnar er því undir okkur sjálfum komið. Engum öðrum.

 

En af hverju ég, af hverju þar ég að svara þessari spurningu, núna, spyr íslenskur lesandi þessa pistils. Við erum svo agnarsmá í heimsins hafi, hvernig getum við orðið það korn sem kemur skriðu byltingar mannsandans af stað???

 

Svarið er líka mjög einfalt, vegna þess að harmur okkar er brot af heimsins harmi. Og vinnumenn Tregðunnar, siðblint auðvald er að rústa framtíð barna okkar.

Vörn okkar, byggð á mennsku og mannúð hins siðaða manns, byggð á viti og þekkingu hins skynsama manns mun tryggja okkur sigur.

Sá sigur mun gefa öðrum manneskjum, sem líka glíma við þursa Tregðunnar, þá von og þá hvöt sem þarf til að líta í sinn eigin barm, og segja Nei við þeirri lygi, að við hinn venjulegi maður séum aðeins leiksoppar höfðingja og auðmanna, og Já við þeirri staðreynd að við erum upphaf og endir alls.

Að vilji okkar til lífs og framtíðar sé það afl sem siðmenningin hefur til að viðhalda sér. Að það séu við sem munum sigra Tregðuna, og skapa börnum okkar framtíð.

 

Framtíð í mannsæmandi samfélagi þar sem fólk lifir við frið og öryggi. Vissulega getur okkar kynslóð ekki tryggt það um aldur og ævi mannsins. Hún getur tryggt að á einhverjum tímapunkti framtíðarinnar, þá þurfi önnur kynslóð að spyrja sig sömu spurningar.

Hvernig hún svarar, veit enginn, en okkar lausn er þá allavega þekkt. Lausnin snýst um hina miklu gjöf sem okkur var gefin og Steinn orðaði svo vel:

 

Það stendur af sér allra veðra gný

í annarlegri þrjósku, veilt og hálft,

með ólán sitt og afglöp forn og ný,

hinn einskisverði maður;

Lífið sjálft.

 

Þegar við áttum okkur á þessari grunnstaðreynd, þá er eftirleikurinn leikur einn.

 

Það eina sem þarf er vilji okkar sjálfra til að breyta hlutunum, að við áttum okkur á að við séum ekki fórnarlömb illskuafla, við eru gerendur framtíðarinnar.

Já, ég vil sjá barnabörn mín.

Kveðja að austan.

 

P.s.  Beinagrind þessa pistils er orðin 7 ára gömul, og eins og lesa má þá er hann skrifaður í eftirhreytum Hrunsins, líklegast snemma vors 2010.  En ég tel að hugsun hans eigi ennþá betur við í dag, en þá, og læt hann því standa óbreyttan, í stað þess að uppfæra hann í takt við tímann.  Það er í raun fátt sem skiptir okkur máli, og það er ekki hið ytra, eða sífellda löngun okkar til að þrasa og þrátta fram í rauðan dauðann. 

Nema að við erum ekki ein, við höfum öll getið af okkur líf, og það er í raun það eina sem skiptir máli.

Síðan er eftirleikurinn aðeins handavinna.

Þess vegna er þessi pistill ágætur punktur yfir i-ið.

Og aftur er það kveðjan;

Að austan.

 


Lærdómur sögunnar.

 

Er lúxus sem öllum kynslóðum er ekki gefið.

Í dag til dæmis vitum við hvað gerðist fyrir 80 árum síðan, við þekkjum einkennin, og við vitum niðurstöðu sögunnar,.

En sá lærdómur er háður því að hann sé þekktur, að vitneskjan um hann sé það almenn að í það minnsta endurtaki hörmungarnar sig ekki í bráð.

Og i raun var það sú arfleið sem olli því að kalda stríðið var alltaf bar kalt, en ekki sú dauðans alvara sem stríð með gjöreyðingarvopnum er. 

Það tók nefnilega tvær kynslóðir að gleyma þessum lærdómi sögunnar.

Að láta dægurmálin taka yfir alvöru lífsins.

 

Á meðan fólk man þá var útilokað að trítilóður maður hefði verið kosinn forseti Bandaríkjanna, og í kringum hann hefðu verið lykilmenn sem hefðu haft þriðja heimsstríð í flimtingum líkt og núna er gert varðandi fyrirhugaða styrjöld við Kína.

Þó Bandaríkjamenn hefðu ekki upplifað brenndar borgir, þá sögðu hermennirnir sem snéru aftur sögur af brenndum borgum Þýskalands og hörmungum hinna eftirlifandi.  Allur dauðinn, allar hörmungarnar vegna þeirrar áráttu miðaldra karlmanna að vilja marséra gæsagang með trítilóðum leiðtogum fram af brún heljargljúfursins.

Síðan vissu allir hvað gerðist í Nagasaki og Hiroshima.

Stríð var ekki valkostur, trítilóður forseti með alræðistilhneigingar var ekki valkostur.

Síðan dóu þeir sem vissu þetta, og friður ógnarjafnvægisins hafði alið af sér kynslóð kalkúna sem höfðu misst skynbragð á það sem gerir lífveru að lífveru, það er viljinn til að lifa, viljinn til að geta af sér líf, en ekki hvötin að éta og lifa fyrir líðandi stund.

Og eins og fyrirmyndin þá eru þeir veisluföng hinnar siðblindu sígræðgi sem telur að núna sé meiri bissness í ófriði en friði, og hefur því fjármagnað massíft gjöreyðingarferli siðmenningarinnar.

 

En það er ekki bara hinn forheimski miðaldra hvíti karlmaður sem upplifir sína sögulega endurtekningu, hinn vinstrisinnaði afneitari sem á í endalausu stríði við borgarastéttina, og getur ekki lyft höfði sínu uppúr þeim skotgröfum þegar sú sama borgarastétt elur af sér illfylgi sem eiga sér enga skírskotun í hið "venjulega" atferli ráðandi stétta í gegnum aldirnar.

Lengi framan af valdatíma þess sem ekki má nefna þá sönglaði þetta lið stefið um að hann væri aðeins framlenging af þýskri hernaðarhyggju, vissulega ýktari, en samt hluti af kúgun borgarastéttarinnar og þess stríðs sem hún háði við hinar vinnandi stéttir.  Ekkert nýtt þar á ferðinni og aðeins sigur sósíalismans (þar var ágreiningurinn, hvernig hann átti að útfærasta og hvort Sovétið væri draumríkið) yfir borgarastéttinni myndi skapa frið.

Þessi hópur, afneitarinn er líklegast skýring þess að sá sem má ekki nefna, náði eins langt og hann náði, því það náðist aldrei samstaða um stoppa illsku hans í fæðingu, borgarstéttin var klofin, hluti hennar sannarlega hafði mikla samúð með nasismanum vegna hörku hans og ákveðni gegn kommúnistahættunni svokölluðu, og því þurfti samstöðu vinstri fólks til að mynda nægilega sterka andstöðu gegn uppgangi nasismans.  Sú samstaða náðist ekki fyrr en Þjóðverjar réðust inní Sovétríkin.

Svo spyrja má hvor hópurinn eigi stærri hlut, hinir meðvirku sem studdu illskuna, eða þeir sem snérust ekki gegn henni í tíma.

Spurning sem afneitarar dagsins í dag gagnvart Trump þurfa virkilega að spyrja sig.  Það er ekki nóg að kalla manninn fasista en svo í öðru orðinu halda því fram að stefna hans sé aðeins framlenging á heimsvaldastefnu Bandaríkjanna.  Hún sé óvinurinn sem þarf að slást við.  Aflið sem kom Trump til valda er vissulega fjárhagslegt öflugt, en hefur ekki sterka skírskotun út í vestræn samfélög, það eru ekki margir í raun sem færu í kjörklefann og kysu flokk sem boðaði tortímingu siðmenningarinnar til að auka skammtímagróða hinna Örfáu.

Þess vegna vefur það ásýnd sína í blekkingarhulu lýðskrumsins, og elur á sundrungu í andstöðunni, elur hana á samsæriskenningum og allskonar rugli sem aðeins órar sjá samhengi í.  Síðan eru strútarnir, afneitarnir, upphafnir á veraldarvefnum, lærðar greinar þeirra um að Trump, þó ýktur sé, sé aðeins hluti af bandarískri hernaðarhyggju, eru ópíum andstöðunnar, slæva dómgreind hennar, og ýta undir andvaraleysi.

Þetta er jú fólk sem kann sitt fag.

 

Loks er það almenningur sem upplifir sitt Flashback, myndir af áhyggjulausu fólki á baðströndum Evrópu, sumarið 1939, þar sem  mæður léku við börnin sín og feður sötruðu bjór og þrösuðu um fótbolta síns tíma, eru sláandi miðað við hörmungar sem voru í vændum. Mikið af þessu fólki lifði ekki hörmungarnar af, eftirlifendur voru markaðir á sál og líkama um allan aldur.

Það hefði mikið viljað að hafa ekki hlustað á þær raddir sem sögðu að allt hefur sinn gang, og höfðingjanna deilur séu eitthvað sem það gat ekkert haft nein áhrif á. 

Þetta er lærdómur fjöldans, og í dag er öruggt að handan við hornið eru hörmungar af áður óþekktri stærðargráðu.

Og allir eru ligeglad, eða því sem næst.  Áhyggjurnar eru allavega ekki það miklar að fólk skipuleggi sig á sínum eigin forsendum heldur leitar það með áhyggjur sínar í farvegi sem eru undir fullum kontról valdsins sem ógnar tilveru þess.

Þegar Grænlandsjökull er að fljóta út í sjó, þá heldur fólk að það sér að berjast gegn hlýnun jarðar með því að flokka sorp.

 

Allavega þarf ekki kristalkúlu til að spá fyrir atburði morgundagsins, þeir eru þegar skráðir á spjöld sögunnar, og forspáin um atburði dagsins í dag er aldagömul, skráð á fornar bókrullur horfinna tíma.

Og þeir sem benda á illskuna sem eigi sér fá fordæmi, og gegn henni þarf mannkynið að sameinast gegn, þeir vita líka eins og er, að bara við það eitt að orða það, eru þeir búnir að mála sig út í horn í umræðunni.  Meira að segja mesti málsnillingur sinnar tíðar á enskri tungu, náði ekki að sleppa út úr því horni, þó var hann fyrrum innanríkisráðherra og þar á undan flotamálaráðherra, maður sem hafði haft völd og áhrif, og maður sem sannarlega kunni að beita penna sínum.  Og eftir dauða sinn þarf hann að upplifa það háð, að fylgismenn illskunnar, hvort sem þeir eru beinir gerendur eða meðvirkir kalkúnar, vitna óspart í skrif hans.  Og talið þeim til tekna.

Það er bara svo, það rífst enginn við endurtekningu sögunnar, jafnvel harðasti steinn er sem meyrt pappírsblað miðað við hörku hennar.

 

Þessir pistlar mínir um félaga Trump eru allir tengdir hinu sögulega samhengi, ásamt því að það er ekki hægt að horfa framhjá kólgubökkunum sem hrannast upp við sjóndeildarhringinn.  Það fórust margir í sjóróðrum sem lutu stjórn formanna sem virtu ekki slíka skýjabakka viðlits.

Það eina sem kemur á óvart er að yfir höfuð nokkur maður skuli lesa þá, svona nálgun er einfaldlega ekki efst í huga fólks í dag.  En Moggabloggið er sérviskuheimur og menn virðast dálítið fylgjast með hvorum öðrum þó ekki sé nema vegna gamals vana.

Núna verður hlé á vegna fjarverunnar einu, fríið sem manni er búinn að dreyma um í mörg ár, er orðið að veruleika.  Ferð á sólarstrendur með fjölskyldunni áður en strákarnir eru orðnir of stórir til að nenna að leika við pabba sinn.  Slapp fyrir horn vegna dugnaðar betri helmingsins.

Á meðan ætla ég að láta gamlan pistil um Drauminn eina standa sem lokafærslu þessarar umræðu.  Efni hans skýrir sig sjálft, og því miður forspá hans líka.

Dægurmálin eru því miður mikilvægari í huga fólks en viljinn til að vernda lífið sem það ól.

Þess vegna fer sem fer.

 

En maður þarf ekki að þegja fyrir því.

Það þarf þess enginn.

 

Því annað orð yfir þögn;

Er samþykki.

 

Og ég samþykki ekki.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is Frá ferðabanni til lögbanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. febrúar 2017

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 157
  • Sl. sólarhring: 267
  • Sl. viku: 322
  • Frá upphafi: 1320165

Annað

  • Innlit í dag: 146
  • Innlit sl. viku: 288
  • Gestir í dag: 145
  • IP-tölur í dag: 145

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband