Boðar tíma aðgerða.

 

Svona kynnir hópur milljarðamæringa, sem sölsað hafa undir sig bandaríska lýðræðið, sig fyrir umheiminum.

Þeir eru hættir að tala, þeir ætla að framkvæma.

 

Og margir stuðningsmenn þeirra bíða með öndina í hálsinum, ætla þeir að gera eitthvað fyrir mig, eða hina sem þeir lofuðu einhverju allt öðru, því jafnvel sá hrekklausasti áttar sig á því að þegar er lofað í hring, þá er ekki hægt að uppfylla öll loforð því þau ganga gegn hvort öðru.

Eins og við Íslendingar vitum með Bjarna Benediktsson sem lofar alltaf fyrir hverjar kosningar að efla heilbrigðiskerfið og styrkja innviði, en þar sem hann lofaði um leið fjármagninu fjármálastöðugleika og hárri arðsemi, og fjármagnið fjármagnar hann, þá gengur það loforð fyrir.  Sem aftur hefur þann kost að fyrir næstu kosningar mun Bjarni aftur getað lofað eflingu heilbrigðiskerfisins og eflingu innviða í stað þess að þurfa að finna uppá nýjum kosningaloforðum.  Og kjósendur hans þurfa ekki einu sinni að hlusta á hann eða lesa greinar hans, þeir kunna hvort sem er rökstuðning hans utanbókar.  

 

Og einhvern veginn þannig mun þetta ganga fyrir sig í Bandaríkjunum, vissulega var fátækum almenningi lofað ýmsu, en hans framlag var bara að kjósa, en fjármagninu sem fjármagnaði var líka lofað ýmsu, og þau loforð munu ganga fyrir.

Eins er það þannig að mörg loforð eru óefnanleg fyrir þessa milljarðamæringa því þó þeir hafi forsetann, þá hafa þeir ekki þing og dómskerfið. 

Því lýðskrum er ekki alræði þó það láti svo.

 

Það verða vissulega stefnubreytingar í Bandaríkjunum, flestar úr ranni öfga og forheimskunnar. 

En viðskiptasamningum er ekki hægt að rifta, eða setja ný lög nema slíkt fari í gegnum lýðræðislegt ferli.

Og lög þarf að virða, eftirlit með því er mjög sterkt í Bandaríkjunum, dómsstólar eru þar sjálfstæðir og stjórnarskráin er ekki sniðgengin.

Þó Trump tali eins og Mússólíni, þá hefur hann ekki bakland hans. 

 

Síðan má ekki gleyma að þó Trump virki vígreifur, að þá kemst forseti Bandaríkjanna ekki upp með eitt eða neitt ef herinn er því ekki samþykkur.

Trump er ekki Erdogan, hann getur skipað nokkrum hermönnum að keyra skriðdreka um götur Washington, kallað það stjórnarbyltingu og notað slíkt sem átyllu til að útrýma allri andstöðu gegn sér.

Síðan má heldur ekki gleyma því að bandaríski heraflinn er algjörlega háður hinum fátækari hluta þjóðarinnar um nýliða, þeir eru trúir ríkinu en ekki einhverjum hópi milljarðamæringa.  Í dag allavega eru Bandaríkin ekkert Rómarveldi þar sem hægt var að opna gullkistur til að kaupa sér tryggð hermanna. 

 

Allt þetta vita milljarðamæringarnir mætavel. 

Þeir sem fjármagna lýðskrum eru sjaldan svo vitlausir að trúa orði af því sem þar er sagt.

Þeirra markmið er gróði, og ennþá meiri gróði.

 

Og það er eitt sem forseti Bandaríkjanna getur gert strax með tilskipun sínum.

Það er að opna Pandóru öskju jarðeldsneytisiðnaðarins.

Hann mun fá frítt spil til að menga og sóða sem aldrei fyrr.

 

Og það sem verra er, rannsóknarréttinum verður sigað á loftslagsvísindin.

Það er hin raunveruleg ógn sem stafar af Trump og hans mönnum.

Það þjónar hagsmunum þeirra að halda fram að jörðin sé flöt.

Galileó okkar tíma mun ofsóttur verða.

 

Hvað um það mun margur spyrja?

Jörðin er hnöttótt og bálið gat ekki stöðvað framþróun vísindanna.

Eins munu kaffærðar strendur opna augu fólks, fellibylurinn Katrín á sér margar systur, og þær munu sigra fávísa hægriöfgamenn frjálshyggjunnar.

 

Og það er rétt.

Raunveruleikinn en ennþá ósigraður, og orðvaðall heimskunnar hefur aldrei haggað honum hið minnsta.

Málið er að æ fleiri vísindamenn eru farnir að átta sig á spárnar um hægt vaxandi hlýnun eru rangar, það er allt sem bendir til stigmögnunar.

Þeir sem horfðu á heimildarmyndina um jöklana sem sýnd var síðasta sunnudag á Ruv ættu að vita allt um ástandið á Grænlandsjökli, það virðist vera að hann sé bókstaflega að fljóta út í sjó.

 

Siðmenningin mun ekki lifa þau flóð af.

Það er ekki þannig að milljarðar bjargarlausa mun deyja drottni sínum án þess að bögga okkur hin sem teljum okkur örugg í skjóli velmegunar okkar.

Og það er fátt til varnar því það fyrsta sem hinir frjálslyndu í þágu auðsóknar auðmanna lögðu niður var hið ríkisrekna öryggiskerfi svo aurinn flæddi í hið einkarekna.

Síðan er vandséð, þó velmegunin hafi gert fólk það sjúkt í sinni að því sé nákvæmlega sama um örlög náungans, hvernig hægt sé að skjóta milljónir sem leita yfir landamæri í leit af björg.

Svo gætu hinir bjarglausu líka vopnast.

 

Heimskra manna ráð ná ekki einu sinni að útskýra þá blindu okkar að halda áfram eins og ekkert sé framundan annað en ótæmandi neysla og velmegun þegar ógnin við líf barna okkar eru orðin svona áþreifanleg.

Afkristnun hins vestræna heims ekki heldur.

Þó frjálshyggjan hafi afsiðað okkur, að við þekkjum ekki lengur muninn á réttu og röngu, hvað þá að við teljum örlög náungans koma okkur eitthvað við í heimi þar sem sérhyggjan og síngirni eru æðstar dyggða, að þá erum við þrátt fyrir allt aðeins eitt form af lífi, við erum lífverur.

Og markmið alls lífs er að líf þess lifi af.

Það er lögmál náttúrunnar sem nú virðist hafa brostið.

 

Hvað veldur veit ég ekki.

Efa að skaparinn sjálfur viti hvað hefur brugðist.

Heimurinn byggist jú á náttúrulögmálum.

 

En hvað er til ráða veit ég.

Og það vita margir.

Það þarf að vernda líf sem við ólum.

 

Flóknara er það ekki.

Og innst inni vitum við það öll.

Kveðja að austan.

 

 

 


Bloggfærslur 22. janúar 2017

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1318296

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband