Dagurinn í gær.

 

Er dagurinn sem sagan man á meðan einhver les sögu.

En það er ekki svo að hann eigi sér ekki bræður.

 

Á sólríkum degi fyrir um það bil 2.400 árum síðan fékk frægasti lýðskrumari fornaldar Aþeninga til að leggja uppí dauðadæmda herför til Sikileyjar sem endaði með þeim ósköpum að borgin missti flota sinn og flestir hennar bestu sona enduðu líf sitt í grjótnámum Syrakúsu (öflugasta gríska borgríkið á Sikiley).  Skynsamir menn vöruðu við þeirri feigðarför en lýðskrumarinn Alcibaeides hafði betur gegn Homo Sapiens með því að virkja tvíburana Homo Stupido og Homo Greedy, fyrirheitið um stórgróðann af ráni og rupli vó þyngra en sú heilbrigða skynsemi að yfirgefa ekki borg sína í miðju stríði við öflugasta herveldi hins gríska heims, Spörtu sem var með her sinn í túnfætinum.

Á þessum sólríka degi dó lýðræðið í Aþenu, þessari háborg hins fyrsta lýðræðis hins vestræna heims.  Því forsendur þess, hið vitræna og hið skynsama laut í lægra haldi fyrir forheimskunni og græðginni. 

Talandi hinna lægstu hvata yfirvann þá skynsemi sem menn eiga að hafa til að vernda sig og sína.

 

Þó lýðræðið hafi dáið í Bandaríkjunum í gær þá er samt einn reginmunur á þessum bræðradögum, að þá vissu menn ekki, en í dag vita menn.

Í Aþenu voru hlutirnir að gerast í fyrsta skiptið, það var við enga sögu að styðjast, en í dag vita menn betur.

Lýðræði er skilgreint, lýðskrum er skilgreint, og ennþá veit sagan ekki eitt dæmi að lýðræði hafi lifað af valdatöku manns eins sá ágæti maður Donald Trump er.

Því ef lýðræðið er einu sinni búið að sætta sig við umræðu ranginda og bábilju, þar sem fordómar og ótti er virkjaður til að búa til einhvern meintan óvin sem þurfi að berja á, þar sem það er sagt sem fólk vill heyra, algjörlega óháð raunverulegum skoðunum eða stefnu þess sem sækist eftir völdum, að þá er lýðræðið dottið ofaní hyldýpispytt þar sem sá næsti og þar næsti, og allir hinir sem eftir koma, munu beita sömu aðferðum til að ná völdum.

Eina spurningin er hvenær lýðskrumari stígur það skref sem þarf að stíga til að afnema lýðræðið til að tryggja sér völd um aldur og ævi.  Eins og til dæmis meintur tvíburi Trumps, Mussólíni gerði á sínum tíma.

 

Þar sem eru spurningar, þar er efinn sagði skáldið forðum í þýðingu Helga Hálfdanar.

Og því miður á Ögurstundu mannsins skipta þessar spurningar máli.

 

Mússólíni til dæmis vissi að þó hann þyrfti sigurfrægð handa múgnum, að þá þurfti hann að velja sér andstæðing sem ítalski herinn réði við.  Og fann þann andstæðing í svörtustu Afríku, spjótin dugðu skammt gegn stálinu.

Þegar Trump fetar fótspor hans þá er ekki víst að hann sér sitt Grenada til að ráðast á, hann gæti verið það vitlaus að ögra andstæðing sem gæti stigmagnað átök.

Ekki það að Trump sé eitthvað vitlaus, það þarf vissar gáfur til að virkja Homo Stupidos, en hann er greinilega hvatvís siðblindingi, og þeir eru eins og þeir eru.  Sítraðkandi á allt og öllu í kringum sig.

 

Koma tímar og koma ráð er sagt þegar menn vita ekki í augnablikinu hvernig þeir eiga að bregðast við vandamáli.

Í tilviki þess að lýðræðið dó í gær í háborg hins nútíma vestræna lýðræðis, þá er alveg öruggt að það koma tímar, en ekki eins víst með ráðin.

Á sínum tíma vildu margir eftirá hafa stoppað þá félaga Mussólíni og Hitler í fæðingu, en ekki daginn eftir að þeir komu heimsbyggðinni allri í eitt allsherjar stríð.

Þá var aðeins gæfan að gjöreyðingin var ennþá í fósturkviði en svo er ekki í dag.

Þá slapp allt fyrir horn þó einhver af þessum 80 til 100 milljónum sem dóu í þeim hildarleik myndu sagt hafa að fyrir hann hefði það verið fulldýru verði keypt.

 

En siðmenningin lifði af, og lifir enn.

En að andvaraleysi hennar gefi henni annað tækifæri, það þarf góðan skammt af bjartsýni til að treysta á slíkt lán.

Fólki þarf hreinlega að vera illa við börnin sín, barnabörn og í raun allt líf til að gefa slíkri bjartsýni séns.

 

En það er ekkert sem ógnar.

Það er ógnar þeim helöflum sem sjá gróðann í auðn og tortímingu.

Flokkur lífsins er ekki einu sinni fósturvísir.

Það er ekkert sem sameinar fólk að verja mennskuna.

Ekki einu sinni lífið sem við ólum.

 

Það er nú það.

Og fátt um það að segja.

 

Sumt er eins og það er.

Kveðja að austan.


Bloggfærslur 21. janúar 2017

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 1524
  • Frá upphafi: 1321532

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1299
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband