Sporin hræða.

 

"Að sjálfsögðu er nýrri ríkisstjórn óskað velfarnaðar", eða einhvern veginn svona var það jákvæðasta sem leiðarhöfundur Morgunblaðsins gat sagt um hina nýju ríkisstjórn. 

Hvort sem skorturinn á lofi stafar af fyrri erjum leiðarhöfundar við Viðreisnarliðið eða hann hreinlega finnur ekkert fast í hendi til að skrifa einhverja lofgjörð um, þá eru þessi orð nokkuð lýsandi fyrir þá óvissu sem ríkir um hvað þessi nýja ríkisstjórn stendur fyrir.

Bæði eru átakalínur sem ganga þvert á flokka, sem og að orð og efndir hafa ekki svo oft fylgst að í íslenskum stjórnmálum undanfarin ár.

 

Sá ágæti penni Styrmir Gunnarsson skrifaði pistil síðasta þriðjudag, Hugleiðingar um stjórnarsáttmála þar sem hann get ekki leynt því að hann væri efins; "Kannski er það þó kaflinn um "framtíð bankakerfisins" sem veldur mestum áhyggjum", þar sem þetta orðalag, "mestum áhyggjum" afhjúpar að áhyggjurnar eru margar og miklar.  Það er greinilegt að Styrmi hugnast ekki frjálshyggja sumra meðlima ríkisstjórnarinnar, hefur það sem kalla má varann á henni.

Á aðra setningu rakst ég í bloggpistli góðs íhaldsbloggara hér á Moggablogginu þar sem hann var að verja hina fyrirhugaða stjórn fyrir okkar kommatittunum eins og hann orðar. "Þeir eru fjandinn hafi það að þessu til að reyna að vinna fyrir okkur öll en ekki að gera eitthvað fyrir sjálfa sig eingöngu".

Nei maður skyldi ætla að þeir væru ekki eingöngu að þessu fyrir sjálfan sig, en af hverju er svona sjálfsagður hlutur færður í orð nema vegna þess að fyrri reynsla hefur einmitt sýnt að stjórnmálamenn hafa eitthvert sérstakt lag á að koma kjötkötlunum í sína vasa, eða vasa vildarvina sinna.

Er til einhver þarna úti sem trúir því virkilega að Landsbankamenn hafi alveg óvart gleymt að athuga verðmæti Borgunar, og hin vanmetnu verðmæti hafi alveg óvart lent í vasa ættingja og vildarvina þáverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra??  Það væri gaman að vita svarið við þessari spurningu, finnst ennþá einhver svo bláeygður að hann trúi öllu því sem honum er sagt að trúa??

Allavega hræða sporin og innst inni vita sjálfstæðismenn að það er ekkert eðlilegt við að flokkurinn lúti stjórn fólks sem er beintengt fjármálabraski og vafasömum fjármálagjörningum.  Það eina sem þeir geta gert sér vonir um að við hin gleymumst ekki líka, að þeir ætli ekki bara að stjórna í eigin þágu.

 

Einnig tók ég eftir að það var ekkert sérstakt uppklapp eftir orð hina nýja forsætisráðherra í tíu fréttum sjónvarpsins eftir að ljóst var að ný ríkisstjórn var kominn á koppinn.

Ég veit ekki hvað það var sem Bjarni ætlaði ekki að byggja upp og bæta, innviðina hvort sem það var í heilbrigðiskerfi eða vegakerfinu, velferðarkerfinu, öllu því góða sem hægt var að lofa, var lofað, jafnvel Eva heitin Peron hljómaði eins og hún væri nísk á loforð miðað við það sem Bjarni sagði á þessu kvöldi sigurvímunnar.  Hann var bara eins og krakki sem átti von á einhverju góðu í skóinn.

Sem út af fyrir sig eru stórtíðindi, að formaður borgarlegs íhaldsflokks boði endurreisn velferðarkerfisins og uppbyggingu almanna þjónustu.  Án þess að nota forskeytið Einka- í öðru hverju orði.

Orðræða sem hingað til hefur verið kennd við eitthvað svakalega róttæka vinstriflokka.

 

Samhljómur við þjóðina, samhljómur yfir miðjuna í íslenskum stjórnmálum.

En það er bara eins og enginn trúi hinum nýja forsætisráðherra.

Eins og allir gruni hann um græsku.

 

Sjálfsagt hefur það eitthvað að gera með að mörg voru fögur fyrirheitin sem lagt var að stað með hjá síðustu ríkisstjórn, en samt var fyrsta verk hennar að stofna hagræðingarnefnd í anda Steingríms og Jóhönnu, og síðan var haldið áfram að hagræða og skera niður.

Líka þar sem ekki var hægt að hagræða og skera niður.

Og mörg loforð voru ekki efnd, eða það segja allavega aldraðir og öryrkjar og eitthvað hljóta þessir hópar að hafa fyrir sér í þeirri gagnrýninni allri.

 

En fyrst og síðast er eins og hinn nýi forsætisráðherra hafi gleymt því að sem fjármálaráðherra var hann nýbúinn að leggja fram fjárlagafrumvarp þar sem fáar stoðir styðja að ásetningur fylgi orðum.

Hvað þá að þær megi finna í fjármálaáætluninni sem lög var fram síðasta sumar.

Og það er þetta gap á milli orða og gjörða sem jafnvel hörðustu stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eiga erfitt að brúa, hafi þeir þá á annað borð viljann til þess. 

Því það má ekki gleyma því að margur vill minnka velferðina, minnka hið sameiginlega, og kýs einmitt flokkinn þess vegna.  Þeir umbera svona loforð því þeir telja að enginn vilji sé til að framkvæma þau, og treysta einmitt hinni nýju ríkisstjórn til þess að gera það ekki.  Loforðin séu svona fóður fyrir trúgjarna til að þeir kjósi flokkinn en ekki alvara sem á að reyna að efna.

Hins vegar má ekki gleym að ef engin loforð eru gefin, þá er ekkert hægt að herma uppá að sé efnt, og þegar öllu er lofað, þá hlýtur vilji vera til staðar að efna eitthvað.  Annað er nefnilega svo pínlegt, og óklókt til lengri tíma.

 

Sporin hræða er sagt hér að ofan en þar með er ekki sagt að spor hinnar nýju ríkisstjórnar þurfi að vera spor þess sem liðið er.

Það er hreinlega rangt að halda því fram að ekki sé til staðar vilji til góðra verka.

Það er meira svona hliðarverkanirnar sem þarf að óttast.

Sem og hugmyndafræði þeirra sem vilja brjóta niður til að byggja upp eitthvað nýtt í staðinn.

 

Einu sinni voru það kommúnistar sem vildu umbylta borgaralegum samfélögum, en síðustu nokkra áratugi hefur niðurbrotið komið frá stefnu frjálslyndis og frjálsra viðskipta. 

Þetta er frjálslynd ríkisstjórn segja margir af þeim sem hafa munstrað sig á skipsrúm hinnar nýju ríkisstjórnar.

Loksins er flokkurinn í ríkisstjórn þar sem hann fær sínu fram sagði utanríkisráðherra þegar hann var tilvonandi utanríkisráðherra.  Eitthvað er það sem hann hefur ekki fengið að gera í síðustu ríkisstjórnum sem hann sér tækifæri til að framkvæma núna.  Lét það hins vegar ósagt að segja hvað það var.

 

Hvað niðurbrotsviljinn er mikill á eftir að koma í ljós.

Það er athyglisvert að þegar borgarlegir íhaldsflokkar í hinum engilsaxneska heimi eru byrjaðir að endurskoða frjálslyndis stefnu sína, að þá ætlar hina nýja borgaralega ríkisstjórn Íslands að gefa í.

Eins og nóg sé ennþá til að skemma.

Það er allavega skiljanlegt að margur íhaldsmaðurinn hafi áhyggjur, og að aðrir séu ekki tilbúnir að fagna fyrirfram.

 

Við lifum örlagatíma, og það eru ekki bara okkar örlög sem þjóðar ráðist á næstu misserum.

Frjálshyggjan hefur komið heiminum á heljarþröm og sjálf framtíðin er í húfi.

Vissulega fara flestir í gegnum daginn með háttarlagi strútsins, og svo sem erfitt að sjá hvernig annað er hægt.

Heimurinn flýtur á ekki meðan hann sekkur.

Svo reddast þetta vonandi allt saman.

 

En svarti dauði reddaðist svo sem ekki fyrr en allir voru næstum því dauðir og ekkert bendir til að Svarta pestin fari öðruvísi að.

Þess vegna er ekki gáfulegt sem þjóð að hafa fulltrúa hennar í ríkisstjórn.

Eða að hugmyndafræði hennar hafi mengað alla stjórnarandstöðuna.

Það er ekki gáfulegt að sálarlaust fólk ráði öllu því sem það vill ráða hér á landi, og stjórnmálamenn eru aðeins leppar í vasa þess.

 

En heimurinn er ekki alltaf svo gáfulegur.

Ætli það haldist ekki í hendur við að við erum ekki heldur alltaf svo gáfuleg.

Veit ekki.

 

En ég held að Ísland vinni Túnis og síðan munu mínir menn taka Liverpool seinni partinn.

Það er eitthvað sem er fast í hendi.

 

Síðan munu sporin skýra sig sjálf.

Og þegar þar að kemur, verður um þau fjallað.

 

Eða það vona ég.

Kveðja að austan.

 


Fyrstur með fréttina.

 

Er oft fyrstur með skröksöguna eða það sem kalla má fantasíu.

 

Hins vegar vakti þessi frétt upp þau hugrenningatengsl hvort þetta hefði verið eitthvað sem við Íslendingar hefðum viljað?

Erum við í sömu athyglisþörfinni og við vorum haustið ´86?

Værum við tilbúin að setja allt á endann fyrir hugsanlega nokkrar neðanmálsgreinar um menn, þá aðallega blaðamenn, sem væru staddir í Reykjavík?

 

Og síðan má spyrja, eru sumir fundir ekki þess eðlis að seinna meir vill enginn vera tengdur þeim? 

Ég myndi allavega halda að Munchen gæfi mikið fyrir að ákveðinn fundur hefði aldrei verið haldinn þar.

 

Sem betur fer var þessi frétt furðufrétt.

Næstu daga og vikur mun hin nýja ríkisstjórn okkar afhjúpa eðli sitt og tilgang.

Framtíðasýn hennar mun vekja viðbrögð, og umræðu, og það verður hollt fyrir þjóðina að taka þá umræðu.

Og óþarfi að einhverjir kallar út í heimi yfirgnæfi það spjall.

 

Við lifum örlagatíma.

Okkar býður að móta örlög okkar sem þjóð.

Takist vel til þá höfum við eitthvað að segja, sem aðrir gætu viljað hlusta á.

Þangað til skulum við láta víkingaklappið vera okkar vörumerki.

 

Það böggar þó ekki heimsfriðnum.

Kveðja að austan.


mbl.is „Fréttin er fantasía“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. janúar 2017

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 1319881

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband