Réttlæti þó seint sé.

 

Er alltaf réttlæti.

Það er uppreisn æru, það er viðurkenning á rangindum.

Og rós í hnappagat þeirrar ríkisstjórnar sem hafði kjark til að veita þann rétt.

 

En hvað skyldi vera að frétta að Guðmundar og Geirfinnsmálinu??

Er verið að bíða eftir að öll fórnarlömb þessa réttarglæps séu farnir yfir móðuna miklu??

Er kjarkurinn aðeins í útlöndum??

 

Vonin liggur þó í að núverandi dómsmálaráðherra er röggsöm manneskja.

Það sýna viðbrögð hennar við skrifræðisrangindunum sem hjónin Ingvar Pét­ur Guðbjörns­son og Char­les Gitt­ins upplýstu alþjóð um.

Og hún hafði kjark til að fara gegn formanni sínum í ICEsave deilunni.

Svipaðan kjark þarf til að fara gegn snobbinu sem ver sitt fólk fram yfir gröf og dauða.

 

En fleinninn í þjóðarsálinni grefur um sig.

Við erum óhrein þjóð að láta dómsmorð viðgangast, og því lengra sem líður, því grárri verður ára þjóðarinnar.

Megi því manndómur rísa og kjarkleysi hníga, núna þegar kvenmaður gegnir loksins embætti dómsmálaráðherra.

Megi réttlætið verða þjóðargjöfin á þessu ári.

 

Biðjum um það.

Trúum á það.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Þúsundir samkynheigðra náðaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eina spurningin um Þorgerði.

 

Er hvort hún sé í vasa peningavaldsins.

Eða hvort sé sjálf með vasa.

 

Auðvitað gengur hún ekki gegn hagsmunum stórútgerðarinnar.

Í anda Margrétar Thatchers á að svelta sjómenn til hlýðni í eitt skipti fyrir allt.

Sama hver fórnarkostnaðurinn annars er fyrir samfélagið, fyrir heimili, fyrir vinnandi fólk.

Enda er síðasta hugtakið í munni elítunnar um margt svipað og orðið paysan í munni franskra aðalsmanna fyrir daga stjórnarbyltingarinnar.  Það ágæta orð notaði elítan um smábóndann, sem auðlegð þeirra byggðist á, en kom úr þeirra munni eins og eitthvað sem var skynlausara en skepnan.  Enda haft eftir aðalskonu einni nafngreindri þegar hún sá fjóra hesta slíta sundur einn slíkan fyrir einhver uppsteit, hvort þetta væri ekki slæm meðferð á vesalings hestunum.

 

Löngu er gleymd sú staðreynd að stórútgerðarmenn eru þjónar samfélagsins, þeim var treyst fyrir auðlindinni í sjónum.

Enda er ekki til no such thing as society sagði idealið Frú Thatcher eitt sinn.

Veið eigum, við megum, við ráðum.

 

Svona er Ísland í dag.

Enda kannski við öðru að búast þegar þjóðin kaus kosningabandalag Vinnuveitandasambands Íslands og Viðskiptaráðs Íslands inná þing til að standa fyrir umbótum á stjórnkerfinu.

Restin af andófinu gegn auðráninu fór síðan í flokkinn um netfrelsið, sem ber nafn sitt af þekktri niðurhalssíðu.

 

Vissulega er uppskeran í ætt við sáninguna.

Og alveg ljóst að enginn var blekktur fyrir kosningar, og ekki er hægt að saka neinn flokk um að hafa náð áhrifum með lýðskrumi eða popúilisma.

Þetta er fólkið sem þjóðin vill í raun, og í raun á að þakka að til sé á Alþingi manneskja sem lætur sig kjör venjulegs fólks varða.

 

Kannski sjáum við í Lilju framtíðarleiðtoga þjóðarinnar.  Við virðist alltaf viss skörungsskapur fylgja þingmönnum með þessu nafni.

Vonandi lætur hún ekki staðar numið.

Masminni mál hafa verið tilefni vantrausts.

 

Ekki að ríkisstjórnin skipti sér að kjaradeilum.

Heldur að ríkisstjórnin skuli láta handhafa gjafakvótans komast upp með hegðun sína.

 

Nú er lag.

Í auðninni, í tómarúminu, þarf ekki háa rödd til að heyrast.

 

Kannski er ný Lilja meðal vor.

Kveðja að austan.


mbl.is Fyrirhuga hvorki lög né aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver hefur áhyggjur af heimilum??

 

Alþingi, ríkisstjórnin, forsetinn??

 

Hver kemur fórnarlömbum þvermóðsku útgerðarinnar til bjargar??

Hver lætur sig hag náungans varða þegar hann á ekki heima í næsta húsi eða langt í burtu í Fjarskaistan, heldur út á landi, er landsbyggðarmaður??

 

Þarf þessi náungi okkar að klæða sig í evrubúning til að hósti heyrist á skrifstofu ASÍ, eða læra sýrlensku svo honum verði boðið á Bessastaði?

Eða þarf hann að kvarta yfir að hann hafi ekki lengur efni á ókeypis niðurhali (gerist oft þegar fólk lendir í fjárhagserfiðleikum og missir húsið sem netið er tengt við) til að Píratar rumski við sig, eða þarf hann að hafa samband við miðil svo einhver skilaboð komi frá Samfylkingunni?

 

Allavega er ljóst að ekkert mun heyrast frá ríkisstjórninni því stórútgerðin hefur gefið það út að núna eigi endanlega að berja sjómenn til hlýðni.

Henni finnst ekki nóg að geta rekið þá fyrir hin minnstu andmæli eða mögl og bundið þá hnúta að þeir fá hvergi vinnu hjá öðrum útgerðum, hún vil líka taka af þeim verkfallsréttinn.   Og þar sem hún getur ekki tekið Trump á það, þá er næst besta leiðin að svelta þá til hlýðni.

Og gegn þeim vilja fer ríkisstjórnin ekki, þetta fólk er jú allt í sama liðinu.

 

Svona er Ísland í dag.

Þjóðin er í vasa fjármálajöfra sem fáu eira.

Manna sem syngja núna hástöfum, "You ain´t see nothing yet".

 

Mogginn á hins vegar heiður skilinn fyrir þessa frétt sína, honum er ekki alls varnað, kannski í raun síðasti málsvari hins venjulega fólks.

Hér á Styrmir skjól, og stundum vaknar Penninn uppí Móum í því skapi að hann heldur að hann sé arftaki þeirra Bjarna og Óla, kristilegur íhaldsmaður sem vill land og þjóð vel.

Að allt eigi að blómstra, ekki bara aurinn, og ekki bara fjármenn.

 

Deila þessi er hins vegar auðleyst.

Útgerðin, og þá líka stórútgerðin, veiðir fiskinn í sjónum í umboði þjóðarinnar.

Axli hún ekki ábyrgð á eðlilegum samskiptum við vinnufólk sitt, þá á að svipta henni því umboði. 

Taka einn Trump á hana.

 

Ríkisstjórnin þarf bara að koma þeim skilaboðum áleiðis, og málið er dautt.

Það yrði samið á morgun,.

Í millitíðinni á ríkisstjórnin að setja bráðabirgðalög þar sem viðbótar auðlindagjald er sett á stórútgerðina, því hún ber ábyrgð á hinu meinta svelti, og því gjaldi á að ráðstafa til allra þeirra sem sárt eiga um að binda vegna þessa verkfalls.

 

Örfáir eiga ekki að komast upp með að valda fjöldanum skaða.

Svo einfalt er það.

 

Líklegt??

Ja, Bjarni og Benni frændi hafa sýnt ýmislegt síðustu sólarhringana að þeir séu sjálfstæðir menn.

Eru ekki skriðmenn.

 

Allavega það er mál að linni.

Og það þarf fólk til.

 

Það hlýtur að leynast einhvers staðar.

Og það hlýtur að stíga fram.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Áhyggjur af heimilunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eng­in for­dæmi í nú­tíma­sög­unni.

 

Segir sagnfræðingur um einræðistilburði Donalds Trump.

Er þá líklegast að vísa í sögu Bandaríkjanna því þar hefur aldrei áður lýðskrumari brotist til valda.

 

En sagan þekkir þessa atburðarás mæta vel.

Maðurinn sem ekki má nefna var fljótur að skipa út reyndum hershöfðingjum úr herráði sínu, setti í stað þess brúður sem sögðu Já.

Reyndar skipaði hann bókstaflega hægri hönd sína í herráðið, og þá þurfti sú vinstri að fylgja líka eðli málsins vegna.

 

Hvað um það, það er hvorki logið uppá Trump eða söguna.

Sagan endurtekur sig þegar hún á annað borð hefur hafið endurtekningarferli sín.

Trump endurtekur hegðunarferli sitt úr viðskiptalífinu.

Þar var hann einráður.

 

Bæði sagan og Trump eru orðin svo fyrirsjáanleg að gamla vísan, "hvað svo verður, veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá" er orðin úrelt þegar menn geta sér til um framtíðina.

Varðandi söguna þá má fletta uppá blaðsíðunni í mankynssögu AB sem segir frá atburðum ársins 1933 í ákveðnu landi Evrópu, og einhver hlýtur að hafa reiknað út tíðni brottrekstra Trumps, það er hvað liðu margar mínútur á milli þess sem hann rak fólk.

 

Svo þó fordæmin séu ekki til staðar í bandarískri stjórnmálasögu, þá er samt ekkert í atburðarrás síðustu daga sem kemur á óvart.

Eiginlega er það eina sem kemur á óvart er hvað allt er fyrirsjáanlegt.

Hvenær svo bálurinn og brandurinn skellur á, er erfitt að tímasetja.

Trump á jú eftir að standa af sér gagnsókn lýðræðisins.

 

Sagan segir að hann geri það.

En það er ekki allir sammála henni.

 

Þar af margir í USA.

Kveðja að austan.


mbl.is Hægri höndin eykur vald sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

USA corporation.

 

Eigandi nokkrir billjarðamæringar.

Starfsregla númer 1: Hlýddu, númer 2: Hlýddu. 

Starfsregla númer 3: Það eru ekki aðrar reglur.

 

Svona er nú komið fyrir lýðræðinu í Bandaríkjunum, það er í harðri sögulegri keppni við annað lýðræði, sem féll á nokkrum vikum í landi einu í Evrópu á fjórða tug síðustu aldar.

Að falla fyrr, að verða alræðinu að bráð.

 

Það fólk sem er sérstaklega áhugasamt um að slá af framtíð barna sinna, vegna þess að Trump gefur því sálardópið eina, að næra fordóma þess og ótta, það mun segja; aaha, Trump er að reka fólkið hans Obama, og það er helv. fínt hjá kallinum.

Afhjúpar þannig skilning sinn á lýðræði, að það sé ekkert annað en vald eins manns, ekki leikreglur og valdajafnvægi sem þarf að virða. 

Að það sé í raun alræði, og löngu tímabært að því sé beitt þannig.

 

Nema þetta fólk útbjó ekki stjórnskipan Bandaríkjanna.

Eða samdi stjórnarskrá þess.

Þar sem gert er ráð fyrir valddreifingu og valdajafnvægi, og grunnreglan er sú að stjórnarskrána beri að virða því hún er vörn fólksins gegn of miklum völdum einstaklingsins, gegn alræðinu.

 

Og samkvæmt bandarískri stjórnskipan ber dómsmálaráðherra landsins skylda til að standa vörð um að stjórnkerfið, þar á meðal forsetinn, fari að lögum.

Dómsmálaráðherra sór stjórnarskránni eið sinni, ekki forsetanum.

Og forsetinn rekur ekki dómsmálaráðherrann fyrirvaralaust, jafnvel þó hann sé skipaður af öðrum forseta, þegar ráðherrann efast um lögmæti tilskipana hans.

Það er að segja ekki ef stjórnskipan landsins virkar ennþá.

Ekki ef lýðræðið er virkt.

 

Er Bandaríkin einkafyrirtæki nokkurra milljarðamæringa eða er landið lýðræðisríki þar sem fólkið hefur úrslitavaldið?

Þar er efinn.

Sem úr verður skorið mjög fljótlega.

 

Hvort sagan endurtaki sig.

Eða hvort hún finni sér nýja lykkju.

 

Að lýðræðið sigri í þetta sinn.

Kveðja að austan.


mbl.is Rak dómsmálaráðherrann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er fleira sem slær við endurtekningu sögunnar.

 

En hin sláandi líkindi milli Trump og þess sem ekki má nefna.

Og það er réttlæting hinna meðvirku.

Það er næstum því sama handrit í gangi.

 

Íslenski utanríkisráðherrann bendir réttilega á að vestræn lýðræðisríki gerir kröfur til forysturíkis síns, en þá er spurt af hverju hann gerir ekki þær sömu kröfur til múslímskra miðaldaríkja.  Og líklega verður hann spurður af því daglega eftirleiðis hvort hann hafi ekki sent skrifleg mótmæli til Kim Il, þar er víst heldur ekkert ferðafrelsi.

Á sínum tíma þegar fréttir fórust að berast af ofsóknum í landi þess sem ekki má nefna, og siðað fólk benti á að slíkt ætti ekki að þekkjast á 20. öldinni hjá einu af hámenningarríki Evrópu þá voru mótrök hinna meðvirku, af hverju menn gagnrýndu ekki framferði bolsévika í Rússlandi.  Lögðu á jöfnu lýðræðisríki og alræðisríki.   Ekki til að fordæma alræðið heldur til að bera blak af þeim sem breyta lýðræðinu í alræði.

 

Önnur meðvirkni er sú röksemd að fólki komi framferði stjórnvalda í öðrum ríkjum ekkert við, þau séu innanríkismál, eins og til dæmis ofsóknir Erdogans Tyrklandsforseta, og víkja þar með af áratuga hefð vestrænna ríkja að reyna að styrkja mannréttindi í heiminum.

Þessi röksemd er næstum því orðrétt tekin úr sögubókum fjórða áratugar síðustu aldar, notuð af fólki sem seinna meir iðraðist mjög þegar hryllingur alræðisstjórnar þess sem ekki mátti nefna urðu umheiminum ljós.

 

Sú þriðja sem ég ætla að nefna er sá kuldi sem flóttafólki sem flýr ofríki og ofbeldi öfgamanna, er sýnt þegar það leitar skjóls í friðsamari löndum.

Þúsundum gyðinga var snúið aftur til Þýskalands þar sem þess beið beinn dauði.  Einn af hinum stórum smánarblettum Evrópu, innbyggðir fordómar eða eitthvað varð þess valdandi að fólk snéri sér í hina áttina.

Og hinir meðvirku stuðningsmenn nasismans spöruðu þessu flóttafólki ekki fúkyrðaflauminn.  Júðar, afætur, undirmálsfólk, flökkufólk, farandlýður.  Óværa sem átti ekkert gott skilið.

 

Kannast fólk ekki við líkindin í dag?

Hvaða orðbragð fólk notar um sárasaklaust fólk sem hefur neyðst að yfirgefa heimili sín vegna stríðsátaka sem ríkisstjórnar okkar bera mikla ábyrgð á.  Vígamennirnir sem herja á Sýrland eru erlendir, fjármagnið kemur frá Persaflóa, vopnin frá okkur, þó Persafólaríki séu hinir formlegu milliliðir og borga fyrir þau.

Þetta fólk hefur ekki gert okkur flugu mein, en við berum megin ábyrgðina á hörmungum þess.

Samt krefjast hinir meðvirku þess að við látum örlög þess okkur engu varða.

Og fagnar þegar lýðskrumari sparkar í það.

 

Er hægt að leggjast mikið lægra??

Varla.

Kveðja að austan.


mbl.is Tilskipunin veldur usla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í landi óttans er þagað.

 

Þögnin var mjög útbreidd í landi þess sem ekki má nefna fyrir 80 árum síðan.

Ekki vegna þess að fólk væri þögult að eðlisfari, heldur vegna þess að því var refsað ef það tjáði sig um eitthvað annað en dásemdir foringjans.

 

Það er strax farið að lýsa þessum ótta í Bandaríkjunum í dag.

Það er strax búið að ákæra blaðamenn fyrir að vera viðstadda mótmæli.

Og það er varla liðin vika.

 

En sem betur fer hefur margt breyst í heiminum á 80 árum.

Umheimurinn mótmælir.

Fólk með kjark mótmælir.

Fólk sem þekkir sið mótmælir.

 

Það er kraftur í bandarísku lýðræði.

Það tekur allavega á móti.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Tjá sig ekki um tilskipun Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgaralegir íhaldsmenn rísa upp.

 

Líkt og gamli maðurinn með vindilinn og whiský glasið sé ennþá meðal vor.

 

Þó byrjaði valdatíð Trump ekki vel, meðvirkir fjölmiðlamenn reyndu að finna heillega brú í vitglórunni eða féllu í þá gryfju að rífast um staðreyndir við handhafa blekkingarinnar.

Lágpunkturinn var svo skrið Theresu May til Washington þar sem hún lét sér gott heita að jánka litla kallinum í einu og öllu.  Gleymt var greinilega svipað skrið forvera hennar.  Eða sú viska að lýðræðissinnar umgangast ekki andlýðræðissinna eins og um jafningja sé að ræða.

 

Það var líkt og öll vitglóra hefði yfirgefið vitborið fólk. 

Maður lýðskrums sem markaðssetur ótta og fordóma, sem lýsti því yfir varðandi lofslagsógnina að jörðin væri flöt og skipaði síðan rannsóknarrétt í anda kaþólsku kirkju miðaldanna til að þagga niður í vísundunum, fékk alla athygli heimsins eins og fordómar hans og fáfræði væru eitthvert nýjabrum sem þyrfti að ræða, og eða taka afstöðu til. 

Það var eins og enginn vestrænn leiðtogi hefði kjark til að setja sig uppá móti forheimskunni og mannhatrinu.

 

Svo gerðist eitthvað.

Það er eins og raunveruleiki þess sem Trump stendur fyrir hafi vakið vestræna lýðræðissinna af dásvefni sínum.

Hver af fætur öðrum hafa þeir risið upp og mótmælt. 

Fremsta má telja þá Trudeau, forsætisráðherra Kanada og Hollande, forseta Frakklands.  Meira að segja Theresa May reis uppá hnén og sagist ekki alveg vera sammála.

 

En sem Íslendingur get ég ekki annað en verið stoltur af Guðlaugi utanríkisráðherra og Benna frænda, fjármálaráðherra.

Guðlaugur er kjarnyrtur í orðum sínum; "Það á að berjast gegn hryðjuverkum. Baráttan verður erfiðari og það gerir illt verra ef fólki er mismunað eftir trúarbrögðum eða kynþætti.".

Eitthvað sem þarf ekki mikinn sið til að átta sig á, hvað þá skynsemi, en þarf kjark til að segja á opinberum vettvangi, núna á tíma ótta og undirlægjuháttar.

 

En Benedikt Jóhannesson er með þetta;

Það er hræðilegt til þess að hugsa hvernig komið er fyrir Bandaríkjunum, þessari vöggu lýðræðis og frelsis í heiminum þegar fordómar ráða nú ríkjum; fáfræði og fljótræði stýra för og réttindi eru fótum troðin.

Nú reynir á innviði réttarríkisins, en við getum ekki horft þegjandi á þegar forystuþjóð vestrænna gilda er breytt í andhverfu sína. Íslendingar hljóta allir að styðja frelsið og lýsa vanþóknun á stefnu og aðgerðum Trumps.

 

Það þarf ekki að segja meir.

Við erum að ræða um forysturíki vestrænna lýðræðisríkja sem hefur svikið lýðræðið og er nú bein ógn við það.

Þá getur enginn þagað, þá á enginn að þegja.

 

Nú er spurning hvað penninn uppí Móum gerir.

Á stundum virkar hann eins og persóna í Batman sem Tommy Lee lék, það er dálítið ríkt að réttlæta ósómann sem rennur úr ranni bandarískra hægriöfgamanna.

En þegar á reynir, þá er tæpitungan beitt.

 

Allavega þá upplifum við núna þá stund, að maðurinn er reyndur.

Prófaður og dæmdur.

Í ljósi samsvarana sögunnar þá getur enginn notað þá útslitnu afsökun að hann viti ekki betur, eða ætli að láta reyna á.

Reyna á illfylgin sem hafa lagt undir sig Washington.

 

Við upplifum stund sannleikans.

Við upplifum þá stund að það er ennþá tími til að forða börnum okkar frá miklum hörmungum.

Við upplifum stundina þar sem við getum breytt rétt.

 

Látum á reyna.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Fáfræði og fljótræði stýra för“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sláandi endurtekning sögunnar.

 

Vekur upp áleitna spurningu um hvernig vegferð Trump endar.

En skoðum fyrst augljósar samsvaranir við valdatöku Trump og valdatöku frægasta lýðskrumara sögunnar, örlagaárið 1933.

 

Þeir réru báðir á mið óánægjunnar, í Þýskalandi mátti rekja hana til afleiðinga fyrra heimsstríðs sem og að kreppan mikla fór illa með þýskan efnahag.

Í Bandaríkjunum má rekja hana til afleiðinga Svörtu pestarinnar, sem hefur leikið framleiðsluiðnað þar grátt sökum útvistunar stórfyrirtækja á framleiðslu sinni sem og að óhófleg auðsöfnun örfárra á kostnað fjöldans veldur alltaf úlfúð og pirring sem leitar útrásar gegn valdastéttinni.  Mér er minnisstæð grein í Morgunblaðinu um miðjan 8. áratug síðustu aldar þar sem fjallað var um lífskjör verkafólks í Bandaríkjunum og þau borin saman við lífskjör verkafólks annarsstaðar.  Útgangspunkturinn að verkafólk þar hafði það svo gott að það var á engan hátt móttækilegt fyrir sósíalískum áróðri eða sósíalískum sjónarmiðum evrópskra jafnaðarmanna, hvað þá að það styddi stéttarbaráttu í anda kommúnískra flokka. 

Launin voru há, lífskjörin góð.

Síðan þá hafa þau staðið í stað, og í raun versnað sé tekið tillit til að þá var mjög algengt að atvinnurekandi borgaði sjúkratryggingar, en það er minningin ein hjá flestum sem þurfa að framfleyta sér á verkamannastörfum.  Á sama tíma hefur þjóðarframleiðslan margfaldast svo ljóst er að auðstéttin hefur hirt mismuninn. 

En þetta er minnihlutahópur og getur ekki breytt neinu í lýðræðislegum kosningum.  En á síðustu árum hafa æ fleiri hvítflibbastörf verið útvistuð, og heilu starfstéttirnar eru farnar að óttast alþjóðvæðinguna.

Spurningin vara bara hvernig hægt var að virkja þessa óánægju.

 

Litli kallinn í Þýskalandi hafði fundið svör við því;

".... fram þau markmið sem xxxxx telur að áróður eigi að þjóna og hvernig honum skuli beitt svo að sá árangur náist sem miðað er að. Hann segir meðal annars: Áróður má ekki leggja hlutlægt mat á sannleikann og, svo lengi sem það er hliðhollt mótaðilanum, setja hann fram samkvæmt hinum fræðilegu reglum réttlætisins; heldur skal hann einungis setja fram þá hlið sannleikans sem er málstað hans hliðholl.

Ein af uppáhalds áróðursaðferðum xxxx var þessi: Ef þú ætlar að ljúga einhverju á annað borð, taktu þá nógu stórt upp í þig og hikaðu ekki við að endurtaka það. Hugmyndin á bak við þessa aðferð var var sú að múgurinn léti fremur stjórnast af tilfinningum en vitsmunum.

...... “Blanda xxxx af kreddukenndum staðhæfingum, endurtekningum, stingandi háði og skírskotun til tilfinninga gerði yfirleitt útslagið. Í lok tveggja klukkutíma ræðu hans var múgurinn farinn að fagna oft og mikið.

…  Að því leyti voru ræður hans ætíð úthugsaðar og aldrei ósjálfráðar. En það mikilvægasta var hæfileiki hans til að sannfæra áheyrendurna um að honum væri dauðans alvara. Svo að þegar galdramaðurinn leysti þá undan seið sínum streymdu þeir heim á leið … fordómar þeirra staðfestir, von þeirra endurnýjuð af manni sem kenndi sig við ótta þeirra og þrár og lofaði að uppfylla óskir þeirra á meistaralegan hátt.”" (tekið af vef Huga.is)

 

Er bara ekki hægt að taka út nafnið sem má ekki nefna, og setja Trump í staðinn, og er þá ekki komin meint lýsing á kosningabaráttu hans.

Trump lofar að gera Bandaríkin sterk á ný (1000 ár ?).  Hann hefur þegar hafið hernaðaruppbyggingu í þá átt.

Hann hefur búið til óvin innanlands sem á að sparka í.  Nei reyndar ekki gyðinga, heldur innflytjendur. Þeim eru valdar hinar verstu svívirðingar, og þá á að brjóta á bak aftur.

Hann hefur þegar stofnað til ófriðs við nágranna sína með einhverju rugli um að reisa nýjan Berlínarmúr, 1933 var strax beint spjótum að til dæmis Tékkóslóvakíu en þar bjór stór þýskur minnihluti.

Hann boðar alheimskrossferð gegn óvini sem er ekki heimskommúnisminn eins og var í den heldur eitthvað sem er múslímskt, múslímskt þetta, múslímskt hitt.  Og dregur alla í dilka hinna útskúfuðu.  Konur og börn, friðsamar fjölskyldur, dyggir borgarar, fórnarlömb öfgamannanna, ef þau játa hina skelfilegu trú kennda við Múhameð spámann, þá eru þau hugsanlega sek, því öfgamennirnir kenna sig líka við þann sama spámann.  Sama lógík og segja; það býr Breivik í öllum Norðmönnum, eða öllum Skandínövum ef menn vilja hafa mengi óvinarins stærra.

Hann virkjar fordóma fólks gegn öllu sem er eitthvað öðruvísi en það er sjálft, og hann höfðar til ótta; "við erum umkringd, við þurfum að verja okkur".

Loks má nefna að viðhorf þess sem ekki ná nefna til vísinda voru töluvert menguð af bábiljum og/eða hugmyndafræði.  Til dæmis þurfti fólk að réttum uppruna, eða kannski réttara að segja fólk mátti ekki vera af röngum kynþætti, til að vísindarannsóknir þóttu marktækar.  Trump hefur þegar undirritað tilskipanir um að jörðin sé flöt, og endurvakið rannsóknarrétt miðalda.  Líklegast til að tryggja sér fylgi hægriöfgamanna sem og að gæta að rétti jarðeldsneytisiðnaðarins til að tortíma siðmenningunni. 

Aðrir tímar, aðrar áherslur en nákvæmlega sama hugsunin sem að baki býr.

 

Samsvaranir sögunnar gefa aðeins forspá um það sem koma skal.

Það sem er liðið er liðið og stærsta breyta morgundagsins er jú dagurinn í dag.

Í Þýskalandi voru stofnanir lýðræðisins veikburða, en Bandaríkin eru rótgróið lýðræðisríki þar sem til dæmis sjálfstæði dómsstóla er óumdeilanlegt.

Á móti kemur að verkefni alræðissinnans eru bara þá öðruvísi í dag en þau voru í öðrum landi fyrir 80 árum.  Þetta er eins og böðullinn í dag sem svissar inn öryggi og steikir fólk lifandi en notaði kvist og sprek til að brenna það fyrir nokkrum öldum síðan.  Starfið samt það sama, og enginn munur á mannvonskunni sem réði hann í vinnu.

 

Trump hefur þegar sýnt sinn innri mann, og hann er rotinn.  Og í mörgu smáu hefur hann þegar sýnt innræti sem ættað er úr brunni illskunnar. 

Hann situr uppi með lýðræðið en það er augljóst að hann telur reglur þess séu settar til þess eins að brjóta.  

Hvort hann ógni sjálfu lýðræðinu á eftir að koma í ljós. 

Það er aukaatriði málsins.

 

Aðalatriðið er að svona leiðtogi, svona málflutningur úr ranni lýðskrumi, málflutningur sem gerir út á fordóma fólks og ótta, og síðan stefna yfirgangssemi og ofbeldi í samskiptum þjóða, að þessi kokteill leiðir alltaf til ófriðar og ólgu.

Eitt leiðir að öðru eins og sagt er.

Og samsvörun fjórða áratugarins mun finna sér leið inní nútímasögu.

Og miðað við að grunnmarkmið lífsins er að geta af sér nýtt líf til að tryggja að það lifi af, þá er hreint óeðli að horfa í hina áttina, eða yppta öxlum og láta eins og ekkert hafi gerst.  Hvað þá að leika hirðfífl og spila með lýðskrumaranum.

 

Þetta snertir okkur öll.

Fyrr eða síðar.

Á banvænan hátt.

 

Feisum það.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Viðburðarík fyrsta vika hjá Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannvonskan holdi klædd.

 

Hreykir sér fyrir framan myndavélar, og það er til fólk sem myndar hana og lætur eins og illskan sé eðlileg.

Eins og það sé eðlilegt að koma svona fram við annað fólk.

 

Munum að Trump er bara lítill kall, en líkt og margir aðrir litli kallar sögunnar, þá kemst hann upp með fólsku sína því til er fólk sem hlýðir og óhæfuna fremur.

Ef fólki bæri gæfu til að segja Nei, til að hundsa.

Hundsa litla kallinn, þá myndi þetta vandamál í Washington leysast af sjálfu sér.

Bandaríkjamenn eru ekki svo sjálfhverfir að þeir finni ekki fyrirlitningu heimsins þegar hún skellur á þeim á fullum þunga.

 

Það er mikið í húfi að fólk breyti rétt.

Láti ekki bjóða sér hvað sem er.

Að það verji grunngildi mennskunnar.

 

Strax.

Ekki seinna þegar hún er óviðráðanleg.

Það er lærdómur þess sem gerðist fyrir um 80 árum síðan.

Og virðum þann lærdóm.

Kveðja að austan.


mbl.is Trump: „Gengur ljómandi vel“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2017
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband